Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ertu með hausinn upp í „****gatinu á þér“?

Ertu með hausinn upp í „****gatinu á þér“?

„Vona að þetta fólk geti rifið hausinn út úr rassgatinu á sér bara þennan eina dag."

Þessi huggulegu skilaboð eru frá borgarfulltrúanum Guðfinnu J. Guðmundsdóttur. Hún myndi aldrei tala svona niðrandi um flugvöllinn, enda sérlegur vinur flugavallarins. Ósátt fólk ... ekki svo mikill vinur þeirra.

Sumum þykir ósvífið að mótmæla á 17.júní. Eins og það sé óíslenskt. Ég er ekki viss um að Jón Sigurðsson myndi setja sig á móti því og ég skil ekki hvað það er sem gerir þennan dag svona heilagan frá því að fólk mótmæli þegar það telur sig undir oki valdníðslu og hræðilega vondra ákvarðanna.

Lýðræði er ekkert upp á punt til að draga upp á fjögurra ára fresti. Það er í gildi alla daga, alltaf. 

Í fyrra var tekinn upp sá (ó)siður að meina almenningi aðgengi að ræðuhöldum og fjallkonunni. Svæðið var girt af og eingöngu útvöldum boðið upp á að mæta. Núna þurfa fjölmiðlamenn að sækja um sérstakt leyfi til að komast á hátíðarsvæðið.

Er það hátíðleikinn sem ykkur er svo umhugað um að raska ekki?

Börnin, sem svo mörgum er umhugað um að geti hámað í sig candyfloss, ráfað á milli hoppukastala og grátið söltum tárum rándýrar blöðrur sem svífa til himins verður ekkert meint af. 

Það er meðal annars vegna þeirra sem foreldrar þeirra, afar og ömmur, frænkur og frændur vilja mótmæla. Þessi sem eru börn í dag verða nefnilega væntanlega einn daginn hjúkrunarfræðingar, dýralæknar, verksmiðjustarfsmenn og því miður munu einhver þeirra verða öryrkjar. 
Öll (flest) verðum við gömul og viljum síður lepja dauðann úr skel krumpuð og félagslega einangruð vegna ómegðar. 

Þessi borgarfulltrúi kemur svo sem ekkert á óvart með taktlausu tali sínu. Það er hennar aðalsmerki. 

En þið hin ... það er ekki verið að eyðileggja 17.júní með mótmælum. Það er verið að reyna að spyrna við þeim ömurlegu ákvörðunum sem hafa verið teknar og eru á teikniborðinu.

Sama hvað forsætisráðherra sperrir fram bringuna undir þrumandi ræðunni þar sem því er haldið fram að hér drjúpi smjör af hverju strái, þá er það ekki upplifun fjöldans. Rofið, þið vitið.

Upplifunin er eingöngu þeirra sem höfðu það frekar gott um og strax á eftir hrun og hafa það enn betra núna.

Þeirra er kaupmátturinn og dýrðin

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu