Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Hvert stefnum við?

Hvert stefnum við?

   Íslensk spilling er óáþreifanlegt fyrirbæri en birtist okkur í sannfæringu hinna spilltu um að þeir séu einfaldlega alls ekki spilltir. Þessu er haldið að okkur þrátt fyrir reglulega opinberist spillingarmál tengd forystu hægri flokkanna. Frændhygli, fyrirgreiðslu- og leyndarhyggja. Borgunarmálið. Landsréttarmálið, lögbrot innanríkisráðherra. Þöggun og leyndarhyggju. Á tiltölulega skömmum tíma hefur þremur ráðherrum verið gert að hætta í stjórnmálum vegna spillingar. Og svo er hinn langi listi spillingarmála Bjarna Benediktssonar. Steininn í neikvæðri umfjöllun erlendra fjölmiðla um spillingu á Íslandi var þegar þjóðinni var gert að ganga til kosninga undir skertu málfrelsi og lögbanni á umfjöllum fjölmiðla.

    Fyrir rúmu einu og hálfu ári var opinberað að einstaklingar úr elítu landsins, þ.á.m. leiðtogar þáverandi ríkisstjórnar hefðu flutt miklar eignir í skattaskjól. Þar sniðgekk þessi hópur þá þjóðfélagslegu skyldu að skila lögbundnum gjöldum til samfélagsins á sama tíma og stjórnvaldið herti skattaeftirlit á hinum almenna launamanni. Á undanförnum árum hefur elítan flutt amk þrjú þúsund milljarða króna úr íslenska hagkerfinu og skóp sér þannig viðbótarávinning sem tilvist krónunnar gerir mögulega.

Elítan hefur reglulega stórgrætt á tilvist örgjaldmiðilsins á meðan að almenning er gert að taka afleiðingum gengisfalls með glötuðum kaupmætti og stökkbreytingum skulda heimilanna.   

    Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa undir merkjum nýfrjálshyggju beitt mikilli sveltistefnu í rekstri samfélagsins það sem af er þessari öld. Það hefur orðið til þess að uppsafnaður rekstarvandi samfélagslegrar þjónustu nemur í dag að lágmarki um einum milljarði króna. Hér má nefna núverandi stöðu heilbrigðis- og menntakerfisins, uppbyggingu og viðhald opinbera bygginga og samgöngukerfisins og félagslega húsnæðiskerfisins og hjúkrunarheimila.

    Til að fjármagna lækkun stóreignaskatts og auðlindagjalds hafa óbeinir skattar verið lagðir á barnafjölskyldur með afnámi vaxta- og barnabóta og gríðarlegum skerðingum á stöðu aldraðra. Þrátt yfir þessar staðreyndir nýta talsmenn hægri flokkanna hvert tækifæri til þess að þakka sér að hér hafi orðið einhver viðsnúningur í efnahagslífinu frá hruni. Þessi staðreynd staðfestist m.a. í því að á þessum tíma hefur staða Íslands meðal hinna Norðurlandanna fallið umtalsvert.

   Talsmenn hægri flokkanna sögðu í kosningabaráttunni að ekki stæði til að ráðast í miklar eða umdeildar kerfisbreytingar hvort sem um væri að ræða í stjórnarskrármálinu, í sjávarútvegi eða landbúnaðarmálum. Hér eigi að halda áfram á þeirri braut sem hafi verið fylgt undanfarin ár. Nokkrir af forystumönnum VG hafa stigið fram og lýst yfir stuðning við þá kyrrstöðu sem hægri flokkarnir boða.

   Er líklegt að VG nái fram einhverjum breytingum á þessari stefnu þó svo Katrín Jakobsdóttir verði forsætisráðherra og reyni að standa við sín kosningaloforð? Til þess að svara þessu skulum við skoða þá starfshætti sem ríkja hér á landi. Valdaflokkarnir hafa í skjóli gamallar og löngu úreltrar stjórnarskrár komið á sérstakri stjórnskipan hér á landi. Síðustu kjörtímabil hafa jafnvel heilu mánuðirnir liðið án þess að ríkisstjórnarfundir séu haldnir. Hlutum hefur verið komið þannig fyrir að það er jafnvel ekki borið undir ríkisstjórn hvað standi til.

   Þetta sáum við t.d. árin fyrir Hrun og þegar tekist var á við þann gríðarlega vanda. Íslenskir ráðherrar koma saman og tilkynna hvað þeir hafi gert og ætli sér að gera á næstu vikum. Stærsti gallinn á íslensku stjórnkerfi er ráðherraræðið og valdaleysi Alþingis. Hinir sérstöku stjórnarhættir sem hér tíðkast viðgangast í skjóli löngu úreltrar stjórnarskrár og það skýrir hvers vegna valdastéttin berst svo harkalega gegn nýju stjórnarskránni.

    Í þessu sambandi má einnig benda á harkaleg og neikvæð viðbrögð valdaflokkanna við tillögum Stjórnlagaráðs um beina aðkomu kjósenda að störfum stjórnvaldsins og skyldu stjórnsýslunnar um gagnsæja stjórnsýslu og upplýsingaskyldu til samfélagsins. Í þessu er að finna helstu ástæðu þess að talsmenn Framsóknar- og Sjálfstæðismanna telja sig geta viðhaldið sínum völdum þrátt fyrir að þeir samþykki Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra. Samkvæmt þeirra venjum sem hér hafa skapast þá hefur Katrín ekki verkstjórnarvald yfir samstarfsráðherrum sínum. Þess vegna er undirbúinn í stjórnarsáttmáli þar sem einungis er tekið á málum sem allir eru sammála um.

    Margir gengu til kosninga með það í huga að senda þann flokk sem hefur sýnt alvarlegan siðferðisbrest í fjölmörgum málum í langt frí og þjóðin þyrfti losa sig við spillingarmálin og gamaldags hagsmunapólitík. Framtíð Katrínar snýst um hvort henni takist og VG hafi í raun vilja til þess að fá haldbæra tryggingu fyrir því að Sjálfstæðismenn og Framsókn snúi af þeirri voðabraut sem þeir hafa farið með íslenskt samfélag. Hvort VG nái í gegn hækkun skatta í efstu þrepum og auðlindagjaldi. Það er grundvallaratriði þess að hægt sé að ganga til verka og nýtt uppbyggingartímabil hefjist.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni