Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Hálendið mesta auðlind Íslands

Frumstæð uppbygging og einfaldleikinn gera ferðir um hálendið að krefjandi ævintýri. Ferðalög um hálendið fela ekki aðeins í sér mikil hughrif heldur geta þau líka falið í sér mikla andlega og líkamlega áskorun. Guðmundur Gunnarsson fjallar um verndun þess.

Hálendið var öldum saman að mestu lokaður heimur landsmönnum og þangað lögðu fáir leið sína án þess að eiga þangað brýnt erindi. Við innflutning tækja hernámsins komu hingað öflugar bifreiðir og þjóðin eignaðist hálendiskappa. Ævintýraljóminn varð til þess að fleiri vildu kynnast hálendinu af eigin raun. Ferðaþjónustan skipulagði ferðir, sæluhús reist, ferðaleiðir mynduðust úr jeppaslóðunum og ímynd óspilltrar og ægifagrar náttúru hálendisins varð söluvara. Á svipuðum tíma vöknuðu hugmyndir um nýtingu hálendisins til orkuframleiðslu. Dapurlegasta tilraun til þess að réttlæta virkjanir í náttúru landsins eru fullyrðingar stjórnmálamanna um að það sé forsenda þess að hægt sé að bæta kjör íslenskra launamanna. Mat á náttúrugæðum og þeim ábata sem þau veita er þannig í hugum stjórnmálamanna einungis byggt á einum auðmældum þjónustuþætti. Ábata sem vatnsföllin veita mælt í megavöttum er augljós einföldun á samfélagslegu mikilvægi íslenskra vatnsfalla.

„Hálendi Íslands er mesta auðlind Íslands, hvernig sem á það er litið“, sagði Páll heitinn Skúlason, fyrrverandi háskólarektor, í náttúrupælingum sínum og hélt áfram: „Við höfum stundum farið offari í því að umskapa og breyta náttúrunni og við ættum að fara mun varlegar í umgengni við náttúruna, t.d. virkjanaframkvæmdir. Okkar mikilvægasta auðlegð eru víðernin en lítið þarf til að spilla þeim.“

Hér á landi eru sex votlendissvæði sem njóta alþjólegrar verndar samkvæmt hinum svokallaða Ramsarsáttmála þar sem 179 aðildarríki skuldbundu sig til þess að hlúa að og vernda þau votlendissvæði sem teljast mikilvæg á heimsmælikvarða. Þrjú slík svæði eru á hálendinu: Snæfells- og Eyjabakkasvæðið, Guðlaugstungur og svo Þjórsárver. Innan þessara svæða eru merkustu rústa- og sífrerasvæði landsins, en lífríki þeirra er einstakt á heimsvísu. Þar hittast rennandi lindir og grænar flesjar af lágvöxnum víðgróðri og fágætum mosaþekjum. Á hálendinu eru samankomin tíu mestu lindasvæði landsins og sex þeirra þau stærstu í heimi. Þau spanna stóran hluta af hálendinu og landsmenn hvers tíma ber ábyrgð á að þau séu varðveitt til allrar framtíðar. Í hreinu vatni er án nokkurs efa að finna ein mestu verðmæti hálendisins til framtíðar. Í skoðanakönnunum hefur komið fram vilji meirihluta þjóðarinnar að viðhalda hálendinu sem mest óbreyttu frá því sem nú er með heildstæðu skipulagi. Þann vilja ber stjórnmálamönnum að virða.

Von um þjóðgarðÁ hálendinu eru samankomin tíu mestu lindasvæði landsins og sex þeirra þau stærstu í heimi.

Umhverfishagfræði

Félagsvísindadeild Háskólans birti árið 2012 skýrsluna „Hálendið í hugum ferðalanga“ eftir Önnu Dóru Sæþórsdóttur. Þar kemur fram að yfir 90% ferðamanna á þeim 11 stöðum sem hún kannaði töldu að aðdráttarafl hálendisins felist fyrst og fremst í „ósnortnum“ víðernum ásamt sérstæðum eiginleikum íslenskrar náttúru. Ferðamenn koma flestir úr þéttbýli og sækjast eftir upplifun ósnortinnar náttúru og kyrrðar án mannvirkja í fjarlægð frá áreiti mannmergðar og þéttbýlis. Frumstæð uppbygging og einfaldleikinn gera ferðir um hálendið að krefjandi ævintýri. Ferðalög um hálendið fela ekki aðeins í sér mikil hughrif heldur geta þau líka falið í sér mikla andlega og líkamlega áskorun.

„Umhverfishagfræðingar gagnrýna þetta vinnulag og benda réttilega á að um leið og settur sé verðmiði á náttúruna, hversu hár sem hann sé, þá fái stóriðjusinnar viðmið.“

Aðferðir við mat náttúrunnar til efnahagslegra gæða eru upprunnar úr þjóðgörðum Bandaríkjanna. Efnahagsleg gildi þjóðgarðs má skipta í tvo þætti. Annars vegar í notagildi, þar sem metið er hversu mikið fólk er tilbúið að greiða fyrir að koma í veg fyrir breytingar á svæði sem notað er til útivistar, veiða, íþrótta eða myndatöku. Hins vegar hversu mikið fólk er tilbúið að greiða fyrir að svæði sé haldið óbreyttu til framtíðar og því skilað óbreyttu til komandi kynslóða. Umhverfishagfræðingar gagnrýna þetta vinnulag og benda réttilega á að um leið og settur sé verðmiði á náttúruna, hversu hár sem hann sé, þá fái stóriðjusinnar viðmið. Náttúran sé einfaldlega ómetanleg og hafi ólíka þýðingu fyrir ólíka einstaklinga. Útilokað sé að verðmeta náttúruna í heild með óbeinum hætti. Frekar eigi að meta þær breytingar sem verða á náttúrunni við framkvæmdir mannsins.

Stjórnmálamenn og orkufyrirtæki leggja ávallt efnahagslegt mat á náttúruna með óbeinum hætti. Í þessu sambandi má til dæmis vísa til nýlegra ummæla fjármálaráðherra um að náttúrverndarsinnar vilji að árnar renni til hafs án þess að skapa nokkur verðmæti. Verðmiði náttúrunnar jafngildi þannig afkomu vatnsaflsvirkjunar eða mannvirkja sem hafi efnahagsleg áhrif til skemmri tíma. Skammtíma innkoma í ríkissjóð er þá verðmiði náttúrunnar. Sannarlega mótsagnakennt hjá fjármálaráðherra, sem tók árið 2015 við 450 milljörðum króna frá ferðaþjónustunni, eða um þriðjung af gjaldeyrisöflun landsins. Á sama tíma voru gjaldeyristekjurnar af sjávarútvegi rúmir 240 milljarðar og heildartekjur allrar stóriðju 230 milljarðar. Ferðaþjónustan skilaði meiru en öll stóriðjan. Arður eigenda álvera fer að mestu beint úr landi. Arður sjávarútvegsfyrirtækjanna skilar sér að hluta til landsins. Arður af náttúrunni skilar sér hins vegar allur inn í íslenska hagkerfið og dreifist um allt samfélagið.

Í könnunum hefur komið fram að 80% ferðamanna koma hingað vegna náttúru landsins og fjórðungur þeirra fer upp á hálendið. Ferðaþjónustan hefur skapað miklar fjárfestingar víða um land og mun fleiri ný störf en orkufrek fyrirtæki hafa gert, eða 7.000 ný störf víða um land. Við ferðaþjónustuna starfa beint um 14% vinnuafls Íslands, á meðan álverin taka til sín einungis tæpt 1% vinnuafls landsmanna. Jafnvel þótt öllum virkjanlegum náttúruverðmætum Íslands væri fórnað fyrir álver eða aðra stóriðju færu ný atvinnutækifæri þar aldrei yfir 2% af vinnuaflinu. Talsmenn stóriðjunnar tala ávallt um svonefnd „afleidd“ störf og toga þannig töluna úr 1% upp í 4% og ná þannig framtíðartölunni 2% upp í 8%. Ferðaþjónustan gæti með sama hætti margfaldað sína tölu úr 14% upp í 56% starfa í landinu.

Hálendið skipulagsleg heild

Hratt vaxandi umferð um hálendið þrýstir á þjóðarsátt um miðhálendisþjóðgarð, þannig væri komið í veg fyrir hagsmunaárekstra. Markmiðum um verndun og nýtingu miðhálendisins verður einungis náð með því að gera það að einni skipulagslegri heild. Form nýtingar og verndar svæða innan þjóðgarðs er skilgreint í sjö verndarflokkum Alþjóða náttúruverndarsamtakanna. Þeir flokkar rúma þá nýtingu sem nú fer fram á hálendinu. Stjórnun kemur úr nærumhverfi og er í samhengi við sjálfbæra atvinnuþróun og nýtingu framtíðarverðmæta. Reynslan af Vatnajökulsþjóðgarði sýnir fram á að í þjóðgarði felast mikil tækifæri til uppbyggingar og atvinnuþróunar nærsveitarfélaga. Þjóðgarður á miðhálendinu skapar sterka ímynd fyrir náttúruvernd og setur ramma um sjálfbæra ferðaþjónustu og nýtingu bænda á Íslandi þar sem náttúruvernd væri í fyrirrúmi samhliða því að almannaréttur er tryggður. Í þessu sambandi má vísa til nágrannalanda okkar eins og til dæmis Finnlands og Skotlands. Þjóðgarðar Finnlands eru ríkisreknir og öllum opnir án aðgangsgjalds. Kannanir sýna að hver evra sem varið er til uppbyggingar þjóðgarða í Finnlandi skilar 10 evrum í þjóðarbúið. Sama er upp á teningnum í þjóðgörðum Skotlands sem fá mikinn fjölda gesta. Þeir hafa verið stækkaðir og skapa gríðarlegar tekjur af ferðamennsku allt árið.

Sé mannkynsagan skoðuð kemur fram að allt frá því að Rómverjar fóru um heimsbyggðina og yfirtóku svæði og þegar stórveldin lögðu undir sig þjóðir og gerðu að nýlendum sínum, voru það ætíð auðlindir sem réðu hvert ferðinni var heitið. Innbyggjar voru ekki spurðir ráða og enn er sama upp á teningnum eins og til dæmis við fiskveiðar undan ströndum Afríku, eða fyrirtæki sem eru að leggja undir sig vatnsréttindi í heiminum. Þar eru fyrrum fiskimenn verkefnalausir sakir þess að stórveldin í fiskveiðum hafa komið málum þannig fyrir að þau hafa eignast réttinn til veiða upp að ströndum landsins. Þessi staða var hér við land í byrjun síðustu aldar sem varð til þess að við tókum til við að færa út landhelgina. Þróun þessara mála hér á landi einkenndist á þessum tímum af því viðhorfi að eignarhald auðlinda landsins ætti að vera í höndum þjóðarinnar.

„Undanfarin misseri hefur ríkt hér á landi sams konar ástand í nýtingu náttúrunnar og orkuauðlinda og var gagnvart fiskiauðlindunum árið 1970“  

Stjórnmálamenn halda því sumir hverjir fram að það sé siðferðileg skylda Íslendinga að virkja hina hreinu íslensku náttúru og koma þeirri orku úr landi um sæstreng. Það sé framlag Íslands í baráttunni um losun kolefna. Í skýrslum um þessa framkvæmd kemur fram að hún gangi ekki fjárhagslega upp nema með umtalsverðum styrkjum frá Bretum og samkomulag náist um nægjanlega orkukosti á Íslandi, eða um 1.500 MW af nýju uppsettu afli sem samsvarar tveim Kárahnjúkavirkjunum. Það eru nánast allir hagkvæmir virkjanakostir á Íslandi. Undanfarin misseri hefur ríkt hér á landi sams konar ástand í nýtingu náttúrunnar og orkuauðlinda og var gagnvart fiskiauðlindunum árið 1970. Þá var ekki lengur undan því vikist að koma stýringu á sókn í auðlindirnar í hafinu sakir þess að fiskistofnar höfðu hrunið vegna ofveiði. Sams konar staða er nú gagnvart verndun náttúrunnar við auðlindanýtingu ferðaþjónustu og orkuframleiðenda.

Samrýmist nýting náttúruauðlinda þar sem arðurinn renni að verulegu leyti til erlendra aðila hugmyndum okkar um þjóðareign á náttúruauðlindum og nýtingarrétt þeirra? Í þeirri stöðu hefði auðlindin misst fjárhagslegt gildi sitt fyrir íslenskt samfélag um leið og öðrum nýtingarmöguleikum hennar hafi verið fórnað með umhverfisspjöllum. Auðlindin er þannig glötuð og orðin byrði á framtíðarþegnum landsins. Til hvers er þjóðareign þá?

SprengisandurHugmyndir eru uppi um að leggja veg þvert yfir hálendið. Guðmundur bendir á að hjálparsveitir hafi varað við hættuna sem fylgdi því.

Hálendisvegir

Oft er því haldið fram að helsti kostur virkjana sé lagning góðra vega með bundnu slitlagi sem opni aðgang að hálendinu. Í þessari fullyrðingu skortir hins vegar töluvert á heildarmyndina. Í kjölfar þess margfaldast umferð með auknum fjölda smábíla og örtröð á útsýnisstöðum þar sem lítil sem engin aðstaða er fyrir hendi. Góð hraðbraut um Sprengisandsleið myndi stytta verulega tengingu milli Suður- og Norðurlands. Vegagerðarmenn og hjálparsveitir hafa í þessu samhengi bent á þau vandræði sem endurtekið myndast á heiðunum til dæmis í nágrenni Reykjavíkur. Það eru einungis um 20 km milli Lækjarbotna og Kamba og báðum megin heiðarinnar eru tiltækar stórar sveitir aðstoðarmanna með fullkomnum búnaði. Þrátt fyrir það skapast þar mikil vandræði og jafnvel grafalvarleg staða ef einhver slys eiga sér stað. Hvernig á að bregðast við fyrirvaralítilli stórhríð á 300 km löngum hálendisvegi yfir Sprengisand þegar þar eru staddir tugir eða jafnvel hundruð vanbúnir bílar með miklum fjölda af illa búnu fólki?

Umferð um þjóðvegina í uppsveitum Suðurlands mun stóraukast, þar á meðal í gegnum Þingvelli sakir þess að fjölmargir munu velja styttinguna milli Norðaustur- og Suðvesturlands og líklega ekki síst þungaflutningabílarnir. Vegirnir í uppsveitum Árnessýslu eru þegar fullnýttir, ef lagðir verða greiðfærir hálendisvegir er ekki komist hjá því að endurbyggja vegarkerfi Suðurlands. Auk verður að vera tiltækur fjöldi aðstoðarmanna og gríðarlegur tækjabúnaður beggja vegna við hálendisvegina eigi að opna þá fyrir allri umferð. Það er ljóst að meginleiðir um hálendið á að lagfæra en heillavænlegra er að þeir séu slóðar sem fylgja landslagi. Það kostar ekki nema brot af uppbyggðum hraðbrautum.

Jarðstrengir og dreifikerfið

Það er orkuskortur á tilteknum svæðum hér á landi þrátt fyrir að í raforkukerfinu sé ónýtt umframorka. Byggðalínan sem reist var árið 1980 með ströndum landsins er fullnýtt og getur ekki flutt umframorku þangað sem hennar er þörf. Við höfum val um tvo kosti. Reisa nýja 220-400 kV háspennulínu frá Þjórsársvæðinu með suðurströndinni austur fyrir landið og frá spennuvirkjunum í Hvalfirði upp í gegnum sveitirnar í Borgarfirði yfir Arnarvatnsheiðina í Blönduvirkjun og þaðan í gegnum sveitirnar með norðurströndinni í Fljótsdal, svo kölluð hringlausn. Hinn kosturinn er að fara yfir Sprengisand frá Þjórsársvæðinu og tengja við nýja byggðalínu milli Blöndu- og Fljótsdalsvirkjananna, svo kölluð T-lausn. Landsnet hefur ávallt staðið fast á því að eina leiðin við styrkingu dreifikerfisins sé að reisa háspennulínur og drepið þannig alla umræðu um málið í áratugi. Orkufyrirtækin hafa mætt mikilli andstöðu sveitarstjórna sem sætta sig ekki við að sveitirnar séu þveraðar með umfangsmiklum háspennumöstrum. Afstaða Landsnets hefur orðið til þess að nauðsynlegar framkvæmdir í dreifikerfinu hafa dregist úr hömlu. Það er fyrst nú eftir margsnúin dómsmál að Landsnet er þvingað til þess að koma til móts við þessi sjónarmið.

Á Sprengisandi er mesta veðravíti á landinu sem kallar á umfangsmikil og traustbyggð loftlínumöstur vegna vindálags og ísingar, auk þess að þau standa mjög þétt og eru dýr í uppbyggingu og rekstri. Það er hægt að leggja riðstraumsjarðstreng en lengd hans getur við langbestu aðstæður einungis um 80 km langur. Jafnstraumsstrengur hentar mun betur sakir þess að þá eru ekki lengdartakmörk. Jafnstraumsstrengir eru mun ódýrari en riðsstraumsstrengir, en þeir kalla hins vegar á dýrar breytistöðvar við báða enda. Notkun jafnstraumsdreifikerfa hefur farið hratt vaxandi og verðlag lækkað mikið. Breytistöðvarnar leysa auk þess umfangsmikinn vanda sem Landsvirkjun á við að glíma í sambandi við jafnvægi í dreifikerfinu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Viðtal

Þöggunin tók á sig nýjar myndir eftir stjórnarslitin

Viðtal

„Ég treysti Íslendingum ekki lengur“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“