Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Í sumum nágrannalöndunum hafa sóttvarnir gengið betur en á Íslandi

            Undanfarið ár hefur kóvidfarsóttin lagst yfir heimsbyggðina. Það þarf ekki að koma neinum á óvart, sem þekkir til á Íslandi, að landsmenn hafa drjúgan hluta af þessum tíma talið sig skara fram úr öðrum þjóðum í sóttvörnum.

            En talnagögn styðja ekki þessa almennu skoðun landsmanna. Næstu nágrannaþjóðir okkar eru Færeyingar og Grænlendingar. Þessar þjóðir eru fámennar eyþjóðir eins og við. Það skiptir máli því að þjóðir sem búa einar og sér á eyjum hafa forskot. Slíkar þjóðir eiga auðveldara með að verjast farsóttum heldur en  þjóðir sem búa með öðrum þjóðum á stórum meginlöndum. Það er auðveldara fyrir eyþjóðir að verjast farsóttum þegar aðeins örfáir flugvellir og hafnir eru snertipunktar við önnur lönd, heldur en fyrir þjóðir á meginlöndum, með löngum landamærum og umferð milli landa á vegum sem liggja þar þvers og kruss. Ekki skiptir miklu máli í svona samanburði að Færeyjar og Grænland eru talsvert fámennari lönd en Ísland, en íbúatala er á bilinu 50 - 60 þúsund manns í hvoru landi fyrir sig. Í báðum löndum hefur náðst mikið betri árangur í sóttvörnum en hér á Íslandi. Í Færeyjum hafa 660 greinst smitaðir[1] og einn dáið,[2] en á Grænlandi hefur 31 einstaklingur greinst smitaður og enginn dáið. Ef litið er til smittalna hefur um hálft prómill Grænlendinga smitast, eða ríflega 1 af hverjum 2000 mönnum sem búa í landinu. Í Færeyjum hafa um 25 af hverjum 2000 íbúum greinst smitaðir og einn látist, eða með öðrum orðum, þar hefur á milli 0,1 og 0,2% þeirra sem greinst hafa smitaðir dáið úr sjúkdómnum. Á Íslandi eru tölurnar miklu verri, hér hafa um 34 af hverjum 2000 íbúum greinst smitaðir og um hálft prósent þeirra hefur látist af völdum farsóttarinnar.

            Ef svo er litið til Noregs og Finnlands, sem eru auðvitað miklu fjölmennari lönd, þá hafa einnig þar færri greinst smitaðir að tiltölu heldur en á Íslandi, eða tæplega 24 af hverjum 2000 íbúum í Finnlandi og tæplega 29 af hverjum 2000 íbúum í Noregi. Þó að hlutfallslega færri hafi greinst smitaðir í þessum löndum, ef marka má tölur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, hefur heldur hærra hlutfall þeirra dáið þar heldur en hér á landi.

            Á Íslandi hafa 6.072 manns greinst smitaðir eða um 34 af hverjum 2000 manns eins og áður sagði. Það er hlutfallslega betri árangur en í Svíþjóð, Danmörku og Póllandi, þar sem smittölur eru talsvert verri en í áðurnefndum löndum. Í Svíþjóð hafa um 137 af hverjum 2000 íbúum greinst smitaðir og tæplega 2% (um 1,9%) þeirra dáið. Í Danmörku hafa svo um 75 af hverjum 2000 íbúum greinst smitaðir og rúmlega 1% þeirra dáið. Í Póllandi hafa um 98 af hverjum 2000 greinst smitaðir og um 2,5% þeirra dáið af völdum farsóttarinnar.

            Það er því ekki alveg tilhæfulaust, að Íslendingar hafi staðið sig vel. Þeir hafa staðið sig betur en margar þjóðir, enda er hér gott heilbrigðiskerfi og landið eyríki. Sumar nágrannaþjóðir okkar hafa þrátt fyrir það staðið sig betur en Íslendingar. Íslendingum hefur tekist ágætlega vel að lækna kóvidsjúka. Í Færeyjum og á Grænlandi hefur þetta samt gengið miklu betur.

            Nú mætti kannski segja, að það sé saklaust þó að Íslendingar, sem búa einangraðir svo langt úti í miðju Atlantshafi og svo langt frá öðrum þjóðum, hreyki sér óþarflega mikið hér innanlands af árangri í sóttvörnum. En meinið er að hér vakna sífellt upp raddir fólks sem ekki hefur trú á vísindum og þykist vita betur en fólk sem hefur varið lífi sínu í að læra og hugsa um heilbrigðismál og hefur stundað agaðar vísindarannsóknir á því sviði. Í sumum tilvikum er um óskammfeilna einstaklinga að ræða sem vilja ota sínum tota. Í öðrum tilvikum er líklega fáfræði um að kenna. Hvað sem því líður, þá hafa margsinnis á liðnu ári risið upp háværar raddir í landinu, þegar vel hefur gengið í sóttvarnarmálunum. Þessar raddir hafa krafist þess að sóttvörnum yrði aflétt í landinu. Þessar kröfugerðir hafa oft verið studdar með lélegum hagfræðilegum rökum. Búast má við að sífelld umræða um að hér gangi allt einstaklega vel og Íslendingar skari fram úr öðrum þjóðum á sviði sóttvarna hafi því miður hvetjandi áhrif á þennan hóp.

            Hlustum ekki á slíkar raddir. Vonandi bera heilbrigðisyfirvöld gæfu til að viðhalda ströngum og góðum sóttvörnum í landinu. Vonandi þurfum við ekki að upplifa fjórðu bylgju farsóttarinnar.



[1] Athugasemd 14. mars. Kjartan Jónsson var svo vinsamlegur að benda mér á að hér talaði ég um "smit" í greininni, en betur fer á að tala um fólk sem greinst hefur smitað. Reikna má með að sumir sem smitast af svona farsóttum greinist ekki. Í framhaldi af þessari ábendingu gerði ég lítilsháttar orðalagsbreytingar á greininni til að bæta úr þessum galla.

[2] Allar smittölur eru fengnar af vef Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, who.int. Þær voru sóttar 13. mars 2021. Mannfjöldatölur fengnar að mestu af vef norræns samstarfs, nordic.org og sóttar sama dag.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni