Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Ræða, haldin á aðventuhátíð íslenska safnaðarins í Noregi 3/12.

 

Guðsótti.

Áður fyrr á árunum þótti sjálfsagt að óttast Guð sinn herra. Í dag þekkist nýr Guðsótti, ótti við ræða um Guð, hugsa um Guð. Þeir sem á annað borð nenna að ræða trúmál benda einatt á öll þau myrkraverk sem framin eru í nafni trúarbragða og spyrja „eru trúarbrögð ekki hreinlega af hinu illa?“ Því er til að svara að trúarbrögð eru svo stór þáttur í amstri manna að ekki er ráðlegt að afskrifa þau með því einu að benda á illvirki framin í þeirra nafni. Fullt eins mætti gera langan lista yfir góðverk sem gerð hafa verið af trúarlegum ástæðum. Þetta gildir jafnt um kristni sem íslam. ÍS og Al Kaída eiga engan einkarétt á íslam. Súfistarnir túlka íslam með friðsamlegum dulhyggjuhætti. Þeir gera ekki flugu mein en stunda íhugun og tilbeiðslu. Dansa Drottni til dýrðar.

Svipaða sögu má segja um eina af greinum shíaíslams, ísmaelítana, þeir eru sannir friðarpostular. Og þótt myrkraverk hafi verið framin í nafni kristninnar má ekki gleyma því að kristnir menn voru meðal þeirra fyrstu sem sögðu að allir menn væru jafnir þar eð allir hefðu sál. Páll postuli segir sællra minninga í Bréfinu til Galateumanna: „Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú“.

Tilvist Guðs

Hinn nýi Guðsótti birtist líka í sannfæringu margra um að engin ástæða sé til þess að ætla að Guð sé til og því fáránlegt að vera trúaður. Þeir sem þannig tala telja sig einatt nútímans og framfaranna meginn, trú er í þeirra huga eitthvað fornlegt og ókúlt. En þeir vita ekki að á síðustu áratugum hefur risið flokkur hugsuða sem rökstyður Guðstrú með frumlegum og áleitnum rökum. Einn þeirra er breski heimspekingurinn Richard Swinburne sem notar flókin líkindareikning til að sanna að líklegra sé að Guð sé til en að svo sé ekki. Ennfremur að miklar líkur séu á því að Jesús Kristur hafi verið guðssonur og dáið fyrir syndir mannanna. Íslenskur guðfræðingur, séra Gunnar Jóhannsson heggur í nokkurn veginn sama knérunn og Swinburne. Hann skrifar stórmerka pistla á eyjunni.is, Guðstrú og kristni til varnar. Hvað sem því líður getur trú aldrei orðið spurning um rökvísi eina. Að telja sig vita að Guð sé til er ekki það sama og að trúa á Guð. Guðstrú er tilfinningaatriði, ekki spurning um líkindareikning. Fremur spurning um traust en þekkingu.

Afi minn og amma mín

Víkur nú sögunni til föðurafa míns og ömmu. Þau voru bláfátæk alla sína ævi en áttu sitt haldreipi sem var einlæg, kannski barnaleg, kristin trú. Afi minn, Valdemar Valvesson Snævarr, var barnakennari og sálmaskáld. Amma, Stefanía Erlendsdóttir, var húsfreyja eins og langflestar konur af hennar kynslóð. Hún var munaðarleysingi og ólst upp hjá vandalausum. Eitt sinn var hún spurð hvort bernska hennar hefði ekki verið erfið og ömurleg. Amma svaraði á sinn hæga hátt „nei, því ég átti vin sem aldrei brást. Og það var Jesús.“ Ekki var heldur mulið undir Valdemar afa. Hann var sonur vinnukonu, svalt á harðindaárunum og fékk ekki að læra með börnunum á bæjunum vegna stéttarstöðu sinnar. En með góðra manna hjálp komst hann í Möðruvallaskóla og öðlaðist   kennsluréttindi. Afi og amma áttu talsverðan fjölda barna, tveir synir dóu ungir eins og títt var um börn á þeim dögum. Annar þeirra, Gísli, var þroskaheftur og unnu þau honum mjög. Því var mikill harmur að þeim kveðinn þegar Gísli dó, barnungur. Þá orti afi sálminn „Þú Kristur, ástvin alls sem lifir“. Orti sér til hugarhægðar. Svo hljómar upphaf fyrsta erindis:    

„Þú Kristur, ástvin alls sem lifir

ert enn á meðal vor.

Þú ræður mestum mætti yfir

og máir dauðans spor.“

Það dauðans spor sem hér er nefnt kann að hafa verið sporið sem dauðinn skildi eftir sig þegar sonurinn dó. Afi hefur örugglega trúað því að Kristur hafi tekið drenginn sinn til sín.

Mitt ljóðataut

Seint verð ég eins mikill trúmaður og afi minn og amma, er líkast til of efagjarn til þess arna. Veit ekki hvort ég er trúaður eða trúlaus. Og ekki hef ég ort sálma en samt bögglað saman trúarlegum kvæðum sem birst hafa á bók. Ég tek mér nú það bessaleyfi að birta hér drjúgan hluta af ljóðabálknum Risinn/lambið:

RISINN/LAMBIÐ

Ljóðabálkur

I

Komnir brestir í festinguna.

 

Stjörnuhrap.

 

Ég fell til jarðar

II

Risinn reisir mig við.

Risinn sem er lambið.

Ég

risinn

á ný.

III

Hann ber á breiðum herðum sér

allt mitt umstang.

 

Allt hvílir á lambinu.

IV

Risinn ber í brestina.

 

Lambið ber stjörnuna

á bakinu

upp himinstigann.

V

Þess er ljósið

ljós risans.

 

Kveikur

minn

bíður enn.

VI

Nær kviknar á kveik

nær verð ég ljós?

Risinn einn veit

lambið eitt veit.

 

Trúin hefur sína töfra, „hjálpa þú vantrú minni“.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu