Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Flýjum ismana!

Sá mikli skelmir spekinnar, Friedrich Nietzsche,  boðaði ragnarök skurðgoðanna, þ.e.a.s. heimspeki- og hugmyndafræðikerfanna. Hann vildi nota hamar til að kanna hvort holur hljómur væri í skurðgoðunum og leyfa þeim að lafa sem væru lausar við holan  hljóm (Nietszche án ártals: loc. 91-108 (Vorwort).  

Ég hyggst gera slíkt hið sama við hugmyndafræðikerfin, athuga hvort í þeim sé holur hljómur. Spurt er: Ber mönnum að flýja ismana, losa sig við hugmyndafræðikerfi á borð við sósíalisma og frjálshyggju? Eins og lesandi mun sjá er svarið við þessari spurningu aðallega „já, en…“ Næsta spurning hljómar svo: Hvað er hugmyndafræði?    Ég nota hér „hugmyndafræði“ í merkingunni „heildstæð pólitísk hugmyndakerfi sem innihalda pólitísk markmið og hugmyndir um athafnir til að ná markmiðinu.”

 

Dauði hugmyndafræða?  

Dustum  rykið  af gamalli hugmynd um að hugmyndafræðikerfin væru best geymd á sorphaug sögunnar.  Þekktasta útgáfan af hugmyndinni um dauða hugmyndafræðanna hefur verið eignuð bandaríska félagsfræðingnum Daniel Bell (Bell 2000).

Stofnskyld hugmyndinni um endalok hugmyndafræða er kenning  Jean-François Lyotards um að skeið stórsögunnar væri á enda.  Meðal stórsagna taldi hann marxisma og framfaratrú af ýmsu tagi. Í þeirra stað kæmu nú (um 1980) minni sögur, meira eða minna afstæðar við stað og tíma (Lyotard 2008).

En skoski heimspekingurinn Alasdair MacIntyre benti  á með nokkrum rétti að  kenningin um endalok og haldleysi hugmyndafræðinnar væri í sjálfu sér hugmyndafræði (MacIntyre 1971: 1-11). Talsmenn hennar hefðu talið að sættir meðal vestrænna manna á fyrstu árunum eftir stríð mörkuðu endalok hugmyndafræðilegra deilna. Þessar sættir hafi  byggt á skynsamlegum rökum um ágæti velferðarkerfis og blandaðs hagkerfis.  Hinir sáttu Vesturlandabúar hafi einbeitt sér að lausn praktískra vandamála og hunsað  stórspurningar hugmyndafræðanna. En MacIntyre segir réttilega að þessar hugmyndir um samfélagið séu hugmyndafræðilegs eðlis. Hann gefur í skyn að þær séu tækni- og skrifræðislegar.  

Taka ber tillit til þessarar gagnrýni, það er m.a. hennar vegna sem ég  mæli gegn því að reynt verði að lóga öllum hugmyndafræðikerfum. Hugmyndafræðin á það til að læðast bakdyrameginn inn í hugsun okkar og skoðanir án þess að við vitum af því eins og dæmi MacIntyres sýnir.

Lágmörkun.

Ég læt mér nægja að mæla með lágmörkun hugmyndafræða og stefni ekki að því að stúta þeim.

Lítum nú á mögulegar meinsemdir hugmyndafræðikerfanna. Erfitt er að trúa á eitthvert slíkt kerfi nema að gefa sér að rökstyðja megi ágæti þess og sýna fram á það sé skárra en keppinautarnir. Vandinn er sá að ekki eru til  neinar órækar sannanir fyrir því tiltekin stjórnmálaskoðun sé betri en aðrar og ekki einu sinni víst að vit sé í að leita að bestu skoðun. Kannski er stjórnmálamat að miklu leyti huglægt og/eða hagsmunabundið, þrælbundið.  Sé svo er hvorki verra né betra að vera andkerfissinni en kerfistrúarmaður.

Í öðru lagi liggur  blóðslóð eftir mörg hugmyndafræðikerfi; hugsjónaofbeldi þeirra hefur bitnað á milljónum manna. Nasistar myrtu aragrúa fólks í nafni sinnar hugmyndafræði og kommúnistar engu  færri (deila má endalaust um það hvort Marx sé saklaus eða sekur af óhæfuverkum sem framin voru í nafni kommúnismans).  Og á nítjándu öldinni miðri komu breskir frjálshyggjumenn  í veg fyrir að sveltandi Írum yrði veitt opinber aðstoð á þeim forsendum að slíkt og þvílíkt myndi skekkja hinn ginnhelga markað. Milljónir manna féllu úr hor, þökk sé kreddutrú markaðsdýrkenda.

Í þriðja lagi er engan veginn öruggt að öll pólitísk hugsun hljóti að vera hugmyndafræðileg, gagnstætt því sem MacIntyre virðist halda. Staðhæfingin „öll pólitísk hugsun er hugmyndafræðileg” er ekki röklega sönn og erfitt að sjá hvernig hægt sé að sannreyna hana empirískt.

Sönnunarbyrðin hvílir alltént á þeim sem telur staðhæfinguna sanna. Þeir lenda í fleiri vandræðum: Ef  hugmyndafræði setur allri pólitískri  hugsun  skorður og engin leið er að  ákveða hvaða hugsun sé réttust þá gildir það sama um þessa staðhæfingu. Þá kippir sá sem staðhæfir þetta fótunum undan sjálfum sér, rök hans eru sjálfsskæð. Við getum  ekki sannað að öll pólitísk hugsun hljóti að vera hugmyndafræðileg.

En athugið að þessi gagnrýni mín á ismana hefur hugmyndafræðilegan þátt, þátt mannstefnu. Ég gef mér til bráðabirgða að einhvers konar mannstefna sé illskásti isma-kosturinn, þar til annað sannara reynist. Við getum tæpast losað okkur alveg við hugmyndafræðina en við getum alltént lágmarkað hana.

Nú skal sýnt fram á að  lágmörkun hugmyndafræða sé góður kostur, besta flóttaleiðin frá ismunum ógurlegu.

 Í fyrsta lagi getur lágmörkunin  eflt frelsi manna, lágmarkendur telja sig ekki þurfa að taka afstöðu til allra mögulegra mála, þeir eru frjálsir undan skoðanakvöð. Í öðru lagi getur hún eflt skynsemi manna, sé skynsemi fólgin í sjálfstæðri, gagnrýninni hugsun. Lágmarkendur geta treyst á eigið vit er þeir taka afstöðu til pólitískra mála, í stað þess að beita formúlum hugmyndakerfa umhugsunarlaust.

Dauði hugmyndafræðinnar verður þá fæðing skynseminnar.

En auðvitað gætu lágmarkendur farið hina leiðina og látið alla skynsemi lönd og leið við afstöðutöku. Þeir lágmarkendur sem fara leið skynseminnar geta reynt að efla afstöðutöku sína rökum, jafnt vísindalegum sem öðrum skynsamlegum rökum. Það þótt þeir ofreyni sig ekki á því að hafa skoðanir en taki  eingöngu skýra afstöðu til mála sem þeir þekkja vel eða eru þess eðlis að brýnt er að taka afstöðu strax. 

Um leið skilja þeir að í sumum tilvikum er skoðanaleysi réttlæting á skoðunum og framferði. Sá sem var skoðanalaus á framferði nasista í Þýskalandi á valdaárum þeirra réttlætti þær í reynd. Þeir síður skynsömu meðal lágmarkenda skilja þetta ekki og gætu orðið skoðanalaus, pólitísk fífl.

Í öðru  lagi geta lágmarkendur látið sér nægja að raða (e. rank) skoðunum eftir meintu ágæti þeirra í stað þess að trúa þeim. Hvað það varðar heimfæra lágmarkendur kenningu Roberts Nozicks um röðun  heimspekikenninga á pólitískar skoðanir.  Nozick benti á  að illa gangi að ráða gátur heimspekinnar, því gæti verið frjórra að raða kenningum eftir meintu ágæti heldur en að taka beina afstöðu til þeirra (Nozick 1981: 1-26).  Ekki hefur reynst auðveldara að ráða gátur stjórnmálanna en heimspekinnar, því gæti „röðun“ verið góður kostur.

Til dæmis trúi ég ekki endilega á  mannstefnu en raða henni  ögn hærra en öðrum stefnum, að lífsstefnu mögulega undanskilinni (lífstefna er sú hugmynd að allar lifandi verur séu jafnréttháar, mannskepnan hafi ekki einkarétt á siðferðilegu mikilvægi). Sú röðun kann að breytast.

Alla vega gæti lágmarkandinn raðað skoðunum eftir því hve miklar líkur séu á því að þær innihaldi  sannar  staðhæfingar og hversu siðferðilega góðar þær kunni að vera. Lágmarkandinn tekur  sem sagt ekki beina afstöðu til þeirra en er samt ekki skoðanalaus. En hann kemst  ekki hjá því að vega og meta mikilvægi sannleiks- og siðaþáttarins í þeim skoðunum sem raða á. Er sannleiksþátturinn mikilvægari en siðaþátturinn í skoðun S við aðstæður A? Eða er þessu öfugt farið?  Ljóst er að upplýst dómgreind og hrein huglægni, jafnvel smekkur, ráða miklu um þetta mat.  

Alltént gæti lágmarkandinn raðað hugmyndafræðikerfum eftir téðu ágæti eða látið sér nægja að raða þáttum úr þeim og hirða það sem honum hæfir. Er það ekki einmitt það sem Helgi Hrafn mælir með? Hann er góður ismaflóttamaður!

fagurvæða stjórnmál.

Í þriðja  lagi getur  lágmörkunin  gert stjórnmálin estetískari. Smekkur og upplýst dómgreind leika vissulega mikilvæg hlutverk í listadómum, rétt eins og í áðurnefndu skoðanamati.  Ástæðan er sú að erfitt, jafnvel ómögulegt, er að finna algildar reglur um listmat.

Við má bæta að sé ekki aðalatriði að trúa skoðunum, þá getur lágmarkandinn haft svipaða afstöðu til þeirra eins og skoðana í skáldsögum. Menn þurfa ekki, og eiga stundum  alls ekki, að trúa slíkum skoðunum vilji þeir  skilja skáldsögur. Það er hægt að skilja Sjálfsstætt fólk án þess að trúa á þá hugmyndafræði sem Laxness virtist boð í bókinni. Að velta henni fyrir sér kann að draga úr listnautn lestrarins.

Auk þess getur lágmarkandinn leikið sér að hugmyndum í stað þess að trúa á þær, rétt eins og listamaðurinn (og listnjótandinn) leikur sér einatt að hugmyndum. Leikurinn sá arna getur falist í því að reyna einn daginn að sjá stjórnmálaheiminn með augum hugmyndafræði HF1, annan daginn reyna að sjá hana með augum HF2. Svo kann hann að raða HF1 og HF2 í ljósi þessa leiks að hugmyndum.

En listreynsla er alls ekki bara leikur, Aristóteles  segir réttilega  harmleikur standi  ekki undir nafni nema áhorfendur finni til meðaumkunar með persónunum og verði slegnir  hræðslu (Aristóteles 2018: 24-28).  Svipað gildir um harmleiki stjórnmálanna. Lágmarkandinn má helst ekki  líta á stjórnmál  einvörðungu sem leik heldur vera tilbúinn  til að taka einarða afstöðu til einstakra mála, t.d. harmrænna viðburða á borð við helförina.

Honum ber að lifa sig inn í slíka viðburði  rétt eins og hann lifir sig inn í harmræna sögu eða máttugt tónverk.

Af hverju er það af hinu góða að stjórnmál verði estetískari? Svarið er að menn virðast almennt fá talsvert út úr því að upplifa fegurð og listaverk (hið sama gildir um það að skapa listaverk). Fegurðar- og listnautn geta firrt menn þjáningum, t.d. með þeim hætti að þeir lifi sig inn í listaverkin og gleymi eigin eymd. Eða með því að þeir hafi slíka gleði af að leika sér að listaverkinu að þjáningarnar linist.

Sé það rétt er fegurðarvæðing stjórnmála í samræmi við bráðabirgða-mannstefnuna. Athugið að lágmörkun hugmyndafræðanna gæti leitt til þess að bæði skynsemin og hið estetíska eflist. Kannski leiðir lágmörkunin til sameiningar skynseminnar og hins estetíska, hins sanna og hins fagra.

Lokaorð.

Ég hef talið  kost og löst á hugmyndinni um endalok hugmyndafræðinnar og reynt að efla hana eigin rökum.   Engu að síður held ég því fram að við getum  ekki alveg án hennar verið,  það er ekki alholur  hljómur í henni.

En rétt væri að lágmarka þátt hennar í stjórnmálastarfi og pólitískri rökræðu.  Sú lágmörkun getur eflt frelsi og skynsemi auk þess   að  gera stjórnmálin estetískari.

En vonandi hverfast hin estetísku stjórnmál ekki í nýja hugmyndafræði, pólitískan  „  estetisma”. Nóg er af andskotans ismunum.

PS: Færsla þessi er útdráttur og endursögn á grein minni «Að lágmarka hugmyndafræði» sem birtast mun í heimspekitímaritinu Hugur á þessu ári ef veiruskrattinn leyfir.

Heimildir:

Aristóteles. 2018. Um skáldskaparlistina (þýðandi Kristján Árnason). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Bell, Daniel.   2000. The End of Ideology. Cambridge, Mass: Harvard University Press.

Lyotard, Jean-François.  2008. Hið póstmóderníska ástand  (þýðandi  Guðrún Jóhannsdóttir). Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun H.Í.

MacIntyre, Alasdair.  1971. The end of ideology and the end of the end of ideology.  Against the Self-Image of the Age. Essays on Ideology and Philosophy. New York: Schocken Books,  1-11.  

Nietzsche, Friedrich.  án ártals.   Götzendämmerung oder wie Man mit dem Hammer philosophiert.Altenmünster: Jazzbee Verlag Jürgen Beck (Kindle-útgáfa).

Nozick, Robert. 1981. Philosophical Explanations. Cambridge, Mass.: Harvard University Press.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni