Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Er sósíalismann á vetur setjandi?

 Vofa gengur ljósum logum á ísa köldu landi, vofa sósíalismann. Á henni má greina ásjónu Gunnars Smára. Hann og félagar hans í sósíalistaflokknum telja rótttækan sósíalisma bestu lausn á vandamálum þjóðar og mannkynsins alls. Aðrir malda í móinn og segja að sósíalismann sé ekki á vetur setjandi, hann sé ekki framkvæmanlegur.

Í þessari færslu  hyggst ég athuga hvort hægt sé að koma draumsjónum sósíalista í framkvæmd. Ég mun hefja leikinn á því að ræða sósíalískan áætlunarbúskap og gagnrýni frjálshyggjumanna á hann. Svo sný ég mér að hugmyndum um Oskar Lange og markaðssósíalísmann, þá að þönkum sérvitringsins Josef Schumpeters.  Að lokum ræði ég Netsósíalismann nýja. Þá fylgir niðurstaða mín af þessum pælingum.  

 Áætlunarbúskapur og frjálshyggja

Karl Marx sagði beinum orðum að framleiðsla í sósíalísku samfélagi skyldi verða stjórnað í samræmi við sameiginlega  áætlun  (Marx 1871, III kafli). Væntanlega hefur Marx haft í huga að áætlunargerðin yrði  sameiginlegt verkefni verkamanna eftir að þeir hafi tekið völdin og komið á sósíalisma. Í slíku kerfi hyrfi  markaðurinn og einkaeign á framleiðslutækjum.

Getur slíkt áætlunarkerfi virkað? Nei, sögðu frjálshyggjumennirnir   Ludwig von Mises og Friedrich A. Hayek. Altækt áætlunarkerfi geti ekki virkað þegar til lengdar lætur. Mises hélt því fram að áætlunarkerfið gæti ekki haft neinn mælikvarða fyrir skynsamlegri tilhögun framleiðslu, ráðamenn yrðu að renna blint í sjóinn. Gagnstætt því virkaði verðkerfið sem upplýsingarmiðill í markaðskerfi, mikil verðlækkkun getur t.d. verið merki um offramboð á tiltekinni vöru. Áætlunarkerfið hefði ekki upp á bjóða neinn viðlíka upplýsingamiðil, ráðamenn þess lags kerfis yrðu að renna blint í sjóinn með efnahagslegar ákvarðanir (Mises 1922: 118-123).

Í markaðskerfi sé  verðmyndun eins og mælitækin sem skipstjóri notar til að stýra skipi sínu. Áætlunarkerfið er eins og skip án mælitækja, skip sem hlýtur að reka stjórnlaust.    Forsenda þess að áætlunarkerfið virki er að þeir sem gera áætlanirnar séu alvitrir, hafi fullkomna yfirsýn yfir alla þætti hagkerfisins. En enginn er alvitur,  þess vegna mun áætlanakerfið eiga við mikinn upplýsingavanda að stríða (t.d. Ólafur 1978).

Hayek og Harold Robbins bættu við boðskap Mises því  að áætlunargerðarmenn  yrðu að leysa milljónir af stærðfræðijöfnum til að geta gert áætlun sem virkar en það sé ekki mögulegt (þetta var skrifað fyrir daga tölvunnar). Þeir  töluðu um „reiknivanda“ (e. problem of calculation) áætlunarkerfisins. En atferli markaðsgerenda á frjálsum markaði komi  fyllilega í staðinn fyrir útreikningana (samkvæmt t.d. Hannesi 1988: 59-67 og Mason 2015: 226). Gagnstætt þessu mun áætlunarkerfið eiga mjög erfitt með að safna efnahagslegum upplýsingum. Frjálshyggjumenn bæta við að erfitt sé að sjá hvernig hið altæka áætlunarkerfi geti verið lýðræðislegt og boðið upp á valddreifingu.     Ekki sé hægt að framkvæma áætlunina nema öllu samfélaginu verði gert að fylgja henni út í ystu æsar, slíkt er ekki samrýmanlegt valddreifingu.

Í ofan á lag verði áætlunarráðið að geta gefið fyrirskipanir um hvað framleiða skyldi. Lýðræðisleg ákvarðanataka yrði mjög þunglamaleg í slíku kerfi, hugsanlega gæti hún leitt til algers öngþveitis. Spyrja má hvort lýðræðislegt áætlunarkerfi myndi geta virkað þegar til langs tíma er litið. Af tveimur slæmum kostum hæfi einræði áætlunarkerfinu skár en lýðræði, sögðu frjálshyggjumennirnir.

Skárra sé að hafa altækt áætlunarkerfi en blöndu af áætlunar- og markaðskerfi. Í nútíma samfélagi séu  allar gerðir efnahagsstarfssemi samofnar, þannig að áætlunargerð myndi varla virka ef áætlunarkerfið væri ekki altækt. Ekki nóg með það, lýðræðislegur meirihluti í kerfi án einkaeignaréttar gæti kúgað minnihlutann allhressilega (sjá t.d. Hayek 1976).  Eins og  Lev Trotskí sagði þá getur samfélag, þar sem ríkið er eini vinnuveitandinn, einfaldlega svelt stjórnarandstöðuna í hel  (Trotskí  1936).

Vandinn er sá að  þessi gagnrýni frjálshyggjumanna getur ekki skýrt hvers vegna Pólverjar gátu haldið frjálsar kosningar árið 1989 þótt ríkið ætti enn obbann af atvinnutækjunum. Ríkið átti enn um 80-90% efnahagskerfisins (um þessar kosningar, sjá Lipton og Sachs 1990: 293-341). Telja verður tjáningarfrelsi meðal frelsisréttinda. Umbótastjórn Alexanders Dubček í Tékkóslóvakíu kommúnismans ruddi  öllum hindrunum úr vegi fyrir tjáningarfrelsi og skapaði  opið samfélag þótt enginn væri markaðurinn og atvinnurekstur nánast algerlega í höndum hins opinbera (um  umbæturnar Dubčeks sjá t.d. Sik 1969: 23-30 og Leif  Reynison 2019: 65-79). Ekki reyndist Gorbasjov heldur erfitt að stórauka einstaklingsfrelsi í Sovét þótt ekki breyttist hagkerfið með róttækum hætti.

Auk heldur komu Bretar á eins konar  sósíalisma á dögum síðari heimsstyrjaldar án þess að frelsisréttindi yrðu skert að ráði, að því marki sem nauðsynlegt var vegna styrjaldarinnar. Bretlandi hélt áfram að vera réttarríki  (t.d. Wootton 1945: 35). Einkafyrirtæki voru sveigð undir vald ríkisins sem skammtaði nauðsynjavöru.

Bandaríkjamenn gengu ekki alveg eins langt í átt til sósíalisma á stríðsárunum en samt ríkti ríkið yfir hagkerfinu (t.d. Krugman 2007: 51-53). Þrátt fyrir það fóru fram frjálsar kosningar í landinu, það hefði tæpast átt að geta gerst samkvæmt formúlum frjálshyggjunnar. Þrautalending frjálshyggjumanna kann að vera sú að segja að áætlanakerfið og ríkiseinokun atvinnutækja hafi valdið alræðisþróun kommúnistaríkjanna. En það er engan veginn ljóst. Í  þessum ríkjum tók flokkurinn sér fyrst alræðisvald, þjóðnýtti svo fyrirtækin og kom að því loknu á áætlanakerfi. Sovéski kommúnistaflokkurinn  var orðinn alráða að kalla um 1920 en áætlunarbúskapur var ekki hafinn fyrr en árið 1928 (samkvæmt t.d. Deutscher 1966: 320).  Engin tilraun var gerð til að lýðræðisvæða hann, fremur hið gagnstæða.

Staðreyndin er sú að það hefur aldrei verið gerð alvarleg tilraun til að koma á lýðræðislegu áætlunarkerfi. Við getum því ekki verið viss um að  tilraunin sé dæmd til að misheppnast.  

Oskar Lange og vörn hans fyrir sósíalisma

Víkur nú sögunni til hins  ítursnjalla Oskars Langes (1904-1965). Hann  var pólskur hagfræðingur af Gyðingaættum. Hann var um skeið prófessor í hagfræði við Háskólann í Chicago en flutti aftur heim til Póllands eftir síðari heimsstyrjöldina. Enda var hann eins konar marxisti og vildi ljá kommúnistastjórninni pólsku lið. Á fjórða áratugnum tók Lange að þróa kenningar um markaðssósíalisma sem áttu sér mun eldri rætur.

Hann  svaraði milljónjöfnurökunum fullum hálsi   með kenningu sinni um  að áætlunarráð í áætlunarkerfi gæti notað verðmekanisma til að afla upplýsinga um hagkerfið. Áætlunaráðið lætur hækka verð ef skortur er á vöru, lækka það ef um offramboð er að ræða. Verðmekanismanum er þannig beitt með happa-og-glappa-aðferð, áætlunarráðið býr til líkan af markaði og lætur fara fram sýndarsamkeppni. Þessi aðferð sé  skilvirkara tæki til öflunar upplýsinga í markaðssósíalísku kerfi en í kerfi einkarekstrar. Ein af ástæðum þess sé sú að einkakapítalistar borgi oft ekki fullt verð fyrir efnahagsvirkni sína  en láti  ríkið og annað fólk um að borga reikninginn. Þetta gildi fyrst og  fremst um kostnaðinn af úthrifum (e. externalities), t.d. kostnað af umhverfisspjöllum. Þess vegna geti verðmyndun í kapítalísku samfélagi gefið skakkar upplýsingar.

Í  markaðssósíalismanum borgi fyrirtækin fullt verð fyrir sína efnahagsvirkni og því virkar verðmyndunin betur, gefur réttari upplýsingar. 

Önnur ástæðan sé sú að í markaðssósíalísku kerfi geta fyrirtæki  ekki lengur leynt þekkingu sinni fyrir keppinautum, því yrði upplýsingastreymið hraðara og betra í markaðssósíalismanum en í einkarekstrarkerfinu.

Í ofan á lag hafi áætlunarráðið góða yfirsýn yfir hagkerfið, m.a. þess að enginn hefur hag af að leyna upplýsingum, t.d. um tækninýjungar. Þessi góða yfirsýn gerir að verkum að hægt er að koma í veg fyrir efnahagskreppur, segir Lange. Í markaðssósíalísku kerfi yrði flestum fyrirtækjum stjórnað af verkamannaráðum. Og ekki skal  vera markaður  fyrir auðmagn, aðeins neysluvörur. Markaðsöflin eigi   að ráða launamyndun að miklu leyti og rúm á að vera fyrir smáfyrirtæki í einkaeign á sviðum þar sem góður möguleiki er á raunverulegri samkeppni, t.d. í landbúnaði og smáiðnaði. Stórfyrirtæki aftur á móti beri að þjóðnýta enda séu þau í reynd einokunarfyrirtæki. Lange segir að ekki megi útiloka þann möguleika að hið markaðssósíalíska kerfi muni hægt og bítandi hverfast í kommúnisma eins og Marx hugsaði sér hann: Kerfi án ríkisvalds þar sem menn stjórna efnahagslífinu í sameiningu, engin sérhæfing angrar menn. Þeir búi  við allsnægtir, fá eftir þörfum, en framlag fer  eftir getu.

Lange segir að það megi hugsa sér að í hinum skilvirka markaðssósíalisma verði æ fleiri gæðum úthlutað ókeypis rétt eins og í kommúnisma Marx. Nú þegar er ýmsum gæðum úthlutað þannig, t.d. götulýsingu og opinberum lystigörðum. Úthluta má gæðum ókeypis svo fremi eftirspurnin eftir þeim sé ekki þjál  (eftirspurn eftir jarðnæði er þjál, menn geta fundið hjá sér þörf til að eignast æ meira jarðnæði). En jafnvel þótt sápu yrði úthlutað ókeypis þýðir það vart að eftirspurnin muni aukast verulega mikið, það eru takmörk fyrir því hve mikið af sápu menn geta nota (Lange 1936: 53-71), (Lange 1937: 123-142), (Lange/Taylor 1974: 53-132).

Frjálshyggjumenn voru að sjálfsögðun ekki sammála Lange og sögðu að hann vanmæti jákvæð áhrif alvörusamkeppnir milli einkarekinna fyrirtækja. Gervisamkeppni í boði áætlunarráðs gæti aldrei orðið jafn skilvirk  og slík samkeppni (sjá t.d.  Farrant 1996: 1-4). Í seinni ritum sínum reyndi Lange að leysa reiknivandann með því að vísa til hæfni tölvunnar til að leysa urmul af stærðfræðijöfnum, nota mætti þær í áætlunargerð með góðum árangri (Lange 1969: 158-161).

Breski blaðamaðurinn  Paul Mason  segir að tölvur vorra tíma og aðgengi þeirra að ótrúlegu upplýsingamagni gæti leyst reiknivandann (Mason 2015: 226-227). Næstum öll viðskipti skilja eftir sig stafræn spor sem ofurtölvur geta fundið og notað í útreikningum sínum. Þær geta án nokkurra erfiðleika leyst milljónir af jöfnum á nóinu sem þýðir að milljónjöfnurök frjálshyggjunnar eiga ekki lengur við rök að styðjast. Við getum því ekki útilokað að ofurtölvur og Netið geti lagt grundvöll að velvirkandi áætlunarkerfi (við getum talað um „stafrænt áætlunarkerfi“).  

Hugsanlega má lýðræðisvæða áætlunarkerfið með fulltingi tölvanna og Netsins góða. Kjósendur geta með skjótvirkum hætt greitt atkvæði á Netinu um áætlunarkosti. Þeir munu geta aflað sér upplýsinga um þessa kosti með skjótvirkum hætti vegna þess urmuls upplýsinga sem finna má á Neti og í gagnabönkum. Hættan er sú að áætlunarráð í stafrænu kerfi gæti fengið of mikið vald yfir almenningu vegna þess að það hefur aðgengi að miklum upplýsingum um atferli manna. Þetta vald gæti trompað hið stafræna áætlunarlýðræði. En athugið að sama hætta er á ferðinni í einkakapítalisma nútímans, stórfyrirtæki í stafræna geiranum (Google, Facebook og kó) búa þegar yfir gífurlegu upplýsingamagni um einkalíf manna og efnahagslegt atferli þeirra. Þessi  fyrirtæki geta ógnað einstaklingsfrelsi og lýðræði, rétt eins og mögulegt stafrænt áætlunarráð.

Víkjum aftur að Lange og hans upprunalegu hugmyndum.  Benjamin E. Lippincott ver Lange og segir að til að koma í veg ofurveldi áætlunarráðsins mætti hugsa sér að það yrði gert ábyrgt gagnvart löggjafanum. Gera mætti tækniteymin sem starfa fyrir ráðið óháð stjórnmálamönnum og áætlunarráðinu með því að stjórnendur teymanna væru ráðnir til nokkuð langs tíma, t.d. 10-15 ár. Um leið mætti hafa svæðisbundin áætlunarráð sem tækju virkan þátt í ætlunargerð, aðalráðið hefði aðallega það hlutverk að samhæfa störf svæðisráðanna  (Lippincott 1974: 38-39).

Hættan er sú að ákvarðanakerfið Lippincotts yrði of flókið og þungt í vöfum. En tölvurnar gætu hugsanlega leyst þann vanda.Frjálshyggjumenn halda því fram að Lange hafi  vanmetið sköpunarmáttinn sem leysist úr læðingi við raunverulega samkeppni einkafyrirtækja. Markaðssósíalismi að hætti Langes  gæti orðið ansi þunglamalegur og gefi lítið svigrúm fyrir nýjungar og tilraunastarfsemi. Því myndi fylgja skrifstofubákn sem gæti orðið frelsinu skeinuhætt. Auk þess sé þetta ekkert annað en líkan sem svífi í lausu lofti og hafi fáa snertifleti við veruleikann, segja frjálshyggjumenn  (samkvæmt Ólafi 1978: 78-79, Hannesi 1988: 85-107og Hannesi 1997: 105-128).  Frjálshyggjmönnum  ferst reyndar að gagnrýna aðra fyrir trú á líkön sem svífa í lausu lofti, hugmyndir þeirra um hinn frjálsa einkamarkað einkennist af líkanatrú á vart framkvæmanlegar hugmynd, hugmyndina um frjálsa markaðsskipan. En það er út af fyrir sig rétt að það er mikill líkanafnykur af markaðssósíalisma.

Reynt var að framkvæma hann að einhverju leyti í Júgóslafíu heitinni og var fyrirtækjum stjórnað af verkamannaráðum. En   yfir samfélaginu drottnaði kommúnistflokkurinn og mun hafa skipt sér allmikið af starfsemi fyrirtækjanna.  Þess utan var markaður fyrir auðmagn þar syðra, gagnstætt hugmyndum Langes). Mjög er umdeilt hversu vel eða illa þessi tilraun hafi tekist  ( sjá t.d. Singh, Bartkiw,  og Suster 2007: 280-297).

Segja má að sýndarmarkaður ríki í norska háskólakerfinu en það kerfi þekki ég vel af eigin raun.

Háskóladeildir keppa um stúdenta og fá borgað frá ríkinu í samræmi við stúdentafjölda. En til þess að fylgjast með þessu og öðrum þáttum sýndarmarkaðarins hefur orðið að byggja upp Kafkakennt skrifstofubákn. Kannski yrði  sýndarmarkaður Langes  ekkert skárri.

Sérviska Schumpeters

Beinum nú sjónum okkar að öðrum meginhagfræðingi, hinum austurrísk-ameríska Josef Schumpeter. Hann var í ýmsum efnum frjálshyggjusinnaður. Samt var hann algerlega ósammála frjálshyggjumönnum  um möguleika sósíalismans:

”Can socialism work? Of course it can” (Schumpeter 1976: 167).

Sósíalisminn væri fær um að leysa ýmis efnahagsvandkvæði, losa menn við kreppufarganið, atvinnuleysið og tryggja hægar en öruggar efnahagsframfarir. Leiðin að þessu marki væri eins konar markaðssósíalismi, efnahagslífið yrði í höndum ríkisins en forstjórar fyrirtækja tækju ákvarðanir með hliðsjón af verðmyndun á sýndarmarkaði. En sósíalisminn myndi aldrei öðlast sköpunarmátt markaðskerfisins, mátt þess til skapandi eyðileggingar. Þessi sköpunarmáttur væri reyndar að þverra í kapítalískum samfélögum.

Tími athafnamannanna væri liðinn, á markaðnum ríktu stór og þunglamaleg fyrirtæki sem minntu helst á skrifræðisbákn. Engin leið væri fær aftur til frumkapítalismans heldur myndi samfélagið hægt og sígandi verða sósíalískt. Ekki bætti úr skák að menntamenn hömuðust gegn markaðskerfinu, þeir hyggju að rótum þess.

Þótt Schumpeter teldi  sósíalismann velframkvæmanlegan þá var honum illa við hann. Sósíalisminn væri ógnun við sérvisku sem hann mat mikils enda sérvitur sjálfur.  Gagnstætt því væri markaðskerfið  gott tæki til að rækta sérvisku, alltaf væri einhver sem hefði hag af að selja fólki með sérþarfir það sem það vanhagaði um.

Þrátt fyrir þetta taldi Schumpeter ekkert því til fyrirstöðu að hægt væri að koma á lýðræðislegum sósíalisma. Hann segir að þyki mönnum sú hugmynd fjarstæðukennd þá mættu þeir minnast þess að á miðöldum hefði þótt fjarstæða að ætla að miðstýrt ríkisvald gæti einokað ofbeldi og stundað skattheimtu. Á þeim tíma var skattheimta boðin út til ”verktaka”, t.d. voru hirðstjórarnir íslensku slíkir verktakar.

Í ljósi þessa væri rangt að útiloka möguleikann á lýðræðislegum sósíalisma einhvern tímann í framtíðinni. En slíkt kerfi myndi aldrei gefa einstaklingsfrelsinu eins mikið svigrúm og markaðskerfið. Sósíalisminn krefðist sjálfsaga af fólki, sérviska og sósíalismi séu ekki samrýmanleg. Þetta gerði að verkum að minni líkur væru á lýðræði í sósíalisma en kapítalisma, markaðskerfið væri eðlilegur bandamaður lýðræðis því einstaklingsfrelsi sé besta trygging lýðræðis. Slíkt frelsi yrði skorið við nögl í sósíalísku skipulagi.

Auk þess gæti sósíalískt lýðræði aldrei orðið umfangsmeira en borgaralegt lýðræði. Þar myndu flokkar og pólitíkusar keppa um hylli kjósendanna á markaðstorgi stjórnmálanna. Fulltrúalýðræði væri ”the only game in town”.

Efnahagskerfið myndi einfaldlega ekki virka ef allar ákvarðanir yrðu teknar lýðræðislega af verkamannaráðum í sérhverju fyrirtæki. Slík ákvörðunartaka yrði alltof seinvirk. Því yrði að taka ákvarðanir um sósíalíska áætlanagerð af kjörnum fulltrúum, til dæmis á þjóðþingum.

Þetta gæfi pólitíkusunum mun meira vald en þeir hafa í markaðssamfélögum sem aftur dragi úr líkum þess að sósíalísk lýðræðissamfélög yrðu langæ. Hinir kjörnu fulltrúar gætu freistast til að taka sér einræðisvald vegna hreðjataka sinna á efnahagslífinu (Schumpeter 1976: 232-296)

.Gagnrýni Schumpeters er öllu skynsamlegri en gagnrýni Hayeks og Mises. Alla vega er boðskapur Schumpeteres ekki skaddaður af vafasömum kenningum um nauðsynlegar forsendur hins og þessa.. En ég hyggst ekki fara nánar út í þá sálma, heldur ræða hugmyndina um sósíalískt ráðslýðræði. Samkvæmt henni á að stjórna samfélaginu, þar með talið efnahagslífinu, af ráðum sem ráða ráðum sínum með lýðræðislegum hætti. Síðan myndu ráðin samhæfa gerðir sínar á landsvísu, jafnvel heimsvísu. Hugsum okkur nú að ekki væri neinn markaður í slíku kerfi. Þá yrði hættan sú að kerfið yrði firnaþungt í vöfum, endalausar rökræður færu fram um smáatriði í fyrirtækjarekstri og feikierfitt yrði að samhæfa ákvarðanir ráðanna. Þess utan myndi samhæfingin krefjast umfangsmikils skrifræðis sem gengið gæti af ráðslýðræðinu dauðu. Einnig gæti lýðræðið hrunið undan eigin þunga, efnahagskerfið færi á hausinn og alger ringulreið skapaðist. Sú óreiða gæti orðið móðir einræðisins.

En jafnvel þótt ráðslýðræðið lenti ekki í slíkum hremmingum þá eru fallgryfjurnar margar. Verði ráðunum stjórnað á opnum fundum er hætta á valdatöku hinna virku. Væri fulltrúalýðræði í þessu skipulagi er hætta á að þeir fulltrúar sem samhæfa ættu starf ráðanna á landsvísu fengju of mikil völd í krafti þess að ríkja yfir öllu efnahagskerfinu, samanber það sem Schumpeter segir (svipaða gagnrýni á ráðssósíalismann má finna hjá Krevenhörster 1972: 203-210).

Sá möguleiki er fyrir hendi að reynt yrði að raungera ráðslýðræði í markaðssósíalísku skipulagi. Kerfið yrði þá líkt því sem var í Júgóslavíu sálugu á dögum kommúnista, ríkið ætti framleiðslutækin, fyrirtækjunum yrði stjórnað af starfsmannaráðum og markaðurinn samhæfði gjörðir fyrirtækjanna. En þessi kostur er heldur ekki nógu góður. Ekki er ósennilegt að fyrirtækin breyttust hægt og bítandi í hrein einkafyrirtæki þótt ríkið kannski ætti þau að nafninu til.

Þess utan efast ég um að svona kerfi yrði skilvirkt, lítið rúm yrði fyrir nýjungar og skapandi eyðileggingu. Reyndar gæti hugsast að hægt yrði að framkvæma lýðræðislegan sósíalisma en hann myndi leiða til versnandi lífskjara. Sú kjararýrnun gæti leitt til þess að menn yrðu fráhverfir kerfinu og ákvæðu með lýðræðislegum hætti að hverfa aftur til kapítalisma.

En það er auðvitað ekki öruggt, kannski myndi draga stórlega úr efnishyggju og menn sættu sig við lakari kjör. Kannski myndu menn telja það megingæði í sjálfu sér að búa við lýðræðislegan sósíalisma og væru tilbúnir til að fórna efnislegum gæðum fyrir það.  

Netsósíalisminn

Hverjir teljast netsósíalistar? Menn á borð við áðurnefndan Paul Mason og Jeremy Rifkin. Þeir segja kapítalismann  hallan úr heimi vegna þess að hann hafi getið af sér tækni sem muni ganga að honum dauðum. Innan tíðar verði  ekki hægt að græða svo neinu nemi á Netstarfsemi. Hún  muni taka yfir æ stærri hluta efnahagslífsins. Í staðinn fyrir markaðssamfélag komi einhvers konar samvinnustarfsemi, líkust þeirri sem á sér stað hjá Wikipediu. Hagkerfið yrði alfrjálst og netsósíalískt, jafnvel anarkískt,  kerfi eða kerfisleysa. Líkast hugmynd Marx um kommúnismann.

Mason staðhæfir að kapítalisminn sé að gera út af við sig sjálfan. Upplýsingatækni nútímans geri að verkum að hægt sé að skapa hluti ókeypis í stórum stíl. Hægt er að hala niður tónlist, kvikmyndir og bækur ókeypis. Hið sama gildi um framleiðslulíkön (e. blueprint) af ýmsum þjóðþrifatækjum, t.d. flugvélum og bílum.  Ekki er hægt að tala um markað nema hægt sé að verðleggja hluti og það er aðeins hægt verðleggja þá ef magn þeirra er takmarkað. En upplýsingartæknin geri framboðið á lykilfyrirbærum að heita ótakmarkað og því hljóti  markaðurinn fyrir þau að hverfa.

Nú þegar ryðji sér til rúms Netfyrirtæki sem ekki lúti lögmálum markaðarins. Wikipedia er ókeypis, unnin í samvinnu tugþúsunda manna, engin gróði af henni. Um leið hafi Wikipedian gert út af við lexíkona-„businessinn“ og „ræni“ auglýsingaiðnaðinn um þrjár milljarða dollara árlega. Sjórærningjaútgáfan af einum þætti Game of Thrones  hafi verið  höluð niður 1 ½ milljón sinnum á einum sólarhring. Löggjafinn og lögregluvaldið ein og  sér koma í veg fyrir að hver sem er geti orðið sér út um sérhvert lag sem iTunes fyrirtækið býður upp á, án þess að borga fimmeyring fyrir. Hið sama gildir um framleiðslulíkön á vélum og farartækjum.  Það er ekki heiglum hent að  tryggja einkaeignarétt á þessum fyrirbærum. Mason segir beinum orðum  að meginkenning sín sé að „…information technology has  robbed market forces of their ability to create dynamism“ (Mason (2015):  30).

Mason útilokar reyndar ekki að einhvers konar upplýsingakapítalismi sigri en róðurinn verði honum erfiður. Hann yrði að tryggja að verðið á upplýsingavarningi hætti að lækka en tækið til þess arna yrði harðsvíruð einokunarstarfsemi. Verðfall á slíkum varningi er einn þeirra þátta sem gerir póstkapítalismann mögulegan að sögn Mason. Ef það kostar sama sem ekkert að varðveita gífurlegt magn upplýsinga þá er erfitt að gera sér þær að féþúfu. Mason segir:

An economy based on information with its tendency to zero-cost products and weak property rights, cannot be a capitalist economy.“ (Mason (2015):  175).

Bandaríski hagfræðingurinn Jeremy Rifkin  virðist hafa komist að áþekktum niðurstöðum, óháður  Mason. Kapítalisminn sé hallur úr heimi vegna þess að hann hafi getið af sér tækni sem muni ganga að honum dauðum.

Innan tíðar verði  ekki hægt að græða svo neinu nemi á Netstarfsemi. Hún  muni taka yfir æ stærri hluta efnahagslífsins. Í staðinn fyrir markaðssamfélag komi einhvers konar samvinnustarfsemi, líkust þeirri sem á sér stað hjá Wikipediu. Rifkin telur reyndar að einhvers konar kapítalismi muni lifa við hlið samvinnukerfisins um all nokkurt skeið. Bók hans kom út ári fyrr en kver Masons, árið 2014. Hún  ber heitið The Zero Marginal Cost Society.  Þýða mætti heiti bókarinnar sem “Samfélag án jaðarkostnaðar”. Jaðarkostnaður (e. marginal cost) er heildarkostnaðurinn af að framleiða eina einingu í viðbót af tiltekinni vöru.

Rétt eins og Mason telur Rifkin að tölvutæknivæðingin muni leiða til þess að jaðarkostnaðurinn hverfi nánast. Það kostar talsvert að framleiða nýtt eintak af hljómdiski sem þýðir að það er talsverður jaðarkostnaður af henni. En það kostar sama sem ekkert að afrita tónlistina á Netinu. Hverfi jaðarkostnaðurinn þá hverfur möguleikinn á gróðabralli.

Um leið hverfur skortur á ýmsum varningi því það er næstum óendanlega mikið framboð á möguleikum á að afrita tónlist, bækur, líkön af flugvélum, tölvum o.s.frv. Þrívíddarprentun og annað slíkt muni skapa möguleika á því að framleiða varning í stofunni heima. Menn hætti að vera „consumers“ og verði „prosumers“, „framleiðslu-neytendur“. Þess utan geti þrívíddarprentun nýtt hráefni mun betur en nútíma verksmiðjur, með mun minni vistskaða.

Rifkin talar um „Net hlutanna“:

«The Internet of things will connect every thing with everybody in an integrated global network» (Rifkin (2014): 11).

Nú stefni allt í að tölvuvædd tæki „tali saman“, bíllinn getur sent bílskúrsdyrunum fyrirmæli um að opnast. Dyrnar geti svo aftur verið í talsambandi við vélar hinum megin á hnettinum og allt gúmmelaðið í talssambandi við menn. Tækin verði æ sjálfstýrðari, þau muni  framleiða vörur fyrir nánast ekki neitt. Framleiðslan verði meira eða minna sjálfvirk. Samtenging  tækjanna geri líka að verkum að hægt verði að nýta orku miklu betur en núna, orkan er út um allt og með næmum tækjum má fanga hana hér og hvar. Orkuna sem fer í að ganga um gólf má nýta, þökk sé slíkum apparötum. Menn munu ekki þurfa að vinna sérlega mikið, vélarnar taka yfir. Netið mun verða nýr almenningur, samvinnu-almenningur (e. Collaborative Commons).

Nú þegar sjái hann til þess að það dragi úr vægi einkaeignar, aðgengi (e. access) verði mikilvægari en einkaeign.  Menn séu hættir  að kaupa hljómdiska en láti sér nægja aðgengi að tónlist á Netinu, aðgengi sem þeir deili  með milljónum annarra. Nú þegar dragi úr vægi læknisþjónustu því menn geti sjúkdómsgreint sjálfa sig og fundið meðöl á Netinu væna. Menntun verði líka ódýrari vegna Netvæðingar, nú geti menn hvaðanæva á hnettinum fylgst með sömu fyrirlestrum og tekið sömu prófin. Taki hundrað þúsund manns saman námskeiðið þá ætti að vera hægt að stilla greiðslum fyrir þátttöku  í hóf. Vægi deilihagkerfis og allra handa samvinnufyrirtækja aukist, þau eru hlutar af  samvinnu-almenningnum.

Rifkin andæfir kröftulega  þeirri kenningu að almenningur leiði til harmleiks (e. the tragedy of the commons). Hann vitnar grimmt í rannsóknir nóbelhagfræðingsins Elinor Ostrom sem komst að þeirri niðurstöðu að almenningurinn geti virkað vel undir vissum kringumstæðum. Rifkin tekur sem dæmi lítið sveitasamfélag í Sviss þar sem almenningurinn hefur virkað æði vel í samræmi við reglur sem íbúarnir settu sér fyrir rúmum fimm öldum.

Þeir sem þekkja kenningar Karls Marx sjá að hér er kominn Netútgáfa af kenningum hans um kommúnismann. Mason er reyndar mun uppteknari af Marx en Rifkin, hann vitnar t.d. í rit Marx Grundrisse þar sem Marx ræðir möguleikann á einhvers konar sam-heila samfélagsins, eins konar Neti.

Rifkin er meiri umhverfisverndarsinni og telur að samvinnu-almenningurinn geti leyst ýmis af umhverfisvandamálum okkar. Hann er þó ekki bara bjartsýnn heldur varar við meiriháttar vistslysum vegna hnattrænnar upphitunar og annars slíks. Nú sé hafin meiriháttar útrýming lífvera í boði mannkynsins, það gæti tekið 10 milljónir ár að bæta þann skaða. Einnig óttast Rifkin tölvuþrjóta, sem geti skapað neyðarástand,  takist þeim að stöðva raforkuframleiðslu. Lausnin sé  hin dreifða raforkuframleiðsla sem Net hlutanna getur skapað.

Rifkin og Mason eru báðir af hinni margfrægu sextíuogáttakynslóð. Eins og margir vestur-evrópskir vinstrimenn af þeirri kynslóð er Mason upptekinn af Marx. Eins og margir bandarískir vinstrimenn á sama aldri er Rifkin umhverfisverndarsinni fremur en marxisti.

En kenningar þeirra eru ekki hafnar yfir gagnrýni. Í fyrsta lagi má velta því fyrir sér  hvort Netstarfsemi á borð við Wikipediu sé í raun og sannleik ókeypis. Eða hvers vegna er Wikipedia stöðugt að biðja fjárhagslegan stuðning? Wikipedia og annað slíkt verða sennilega ódýrari með tímanum en tæplega alveg ókeypis.

Í öðru lagi  má telja skrítið að þeir  skulu ekki nefna landbúnað og fiskveiðar. Er líklegt að matvörur falli svo í verði að markaðurinn fyrir þær hverfi?  Og hvað með hráefnið sem tölvurnar þurfa? Meðal þess sem notað er í tölvur eru ýmis snefilefni sem erfitt er að vinna. Auðvitað gætu tölvumenn fundið nýjar lausnir sem gerði snefilefnin óþörf. En það er erfitt að sjá hvernig matur og hráefni geta orðið hartnær ókeypis. Þangað til er líklega illskást að hafa einhvers konar markað fyrir þess lags varning, hvort sem póstkapítalisminn verði ofan á eður ei.

Í þriðja lagi er ekki hægt að útiloka að svo mjög  muni draga  úr nýsköpun í sæluríki þeirra Masons og Rifkins að það muni ógna undirstöðum hagkerfisns. Hefði nokkur hag af því að  finna upp nýja tækni eða endurbæta framleiðslumátann? Nema tölvur framtíðarinnar verði svo öflugar að þær geti stundað nýsköpun af krafti, án aðkomu mannskepnunnar.

Í fjórða lagi er engan veginn öruggt að Netvæðing samfélagsins leiði til Netsósíalisma. Shoshana Zuboof telur að netið stórauki vald auðmagnisins yfir almenningi, stórfyrirtækjum sé kleift að fylgjast með hverju fótmáli sem við tökum (Zuboff 2019). Sé þetta rétt þá stefnir þróunin vart í netsósíalíska átt.  Yuval Noah  Harari óttast að hið Net- og tölvuvædda samfélag  yrði samfélag mikils ójafnaðar þar sem hinir ríku og valdamiklu muni getað breytt sér í hálfgerða guði eða ofurmenni fyrir tilverknað tölvu- og erfðatækni. Þessi goðmenni mundu eiga alls kosti við venjulegt fólk sem jafnvel yrði meðhöndlað eins og skepnur. Eða jafnvel að tölvu-algrímin taki völdin  (Harari  2015: 356-408 og víðar).

En hver segir að goðmennin muni ekki nota sitt mikla hugarafl til að bæta kjör almennings og gefa honum hlutdeild í þeirri tækni sem skapað hefði þau?  Kannski verða alráða algrími lýðræðissinnuð og frelsisins megin í tilverunni.

Hvað sem þessu líður er Netsósíalisminn  lang slagferðugasta  hugmynd róttækra vinstrimanna sem fram hafa komið um langt skeið.  Kannski bjarga Mason og Rifkin  hugmyndinni um hinn frjálsa kommúnisma.

Lokaorð

Er sósíalismann á vetur setjandi?

Ég veit það ekki, til eru athyglisverð rök með og móti. Hugmyndir Langes og netsósíalista virðast ekki arfavitlausar en allur er varinn góður. Af gagnrýnendum sósíalismans finnst mér mest til Schumpeters koma, með fullri virðingu fyrir Mises og Hayek.

Kannski er best að taka það skásta úr ýmsum stefnum eins og Helgi Hrafn vill.

Alla vega  er  affarasælast að trúa sem fæstu þegar pólitík er annars vegar.

 Heimildir:

Deutscher, Isaac (1966) Stalin. A Political Biography. Harmondsworth: Penguin.

Farrant, Andrew (1996) “The Socialist Calculation Debate: Lange versus Mises and Hayek”, Economic Notes, No. 71, bls. 1-4.   

Hannes H. Gissurarson (1988): Markaðsöfl og miðstýring. Reykjavík: Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar.

Hannes H. Gissurarson (1997): Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Reykjavík: AB.

Harari, Yuval Noah (2015): Homo Deus. A Brief History of Tomorrow. London: Vintage.

Hayek, Friedrich August (1976) The Road to Serfdom. London: Routledge & Kegan Paul.

Krevenhörster, Paul (1972): “Rätesystem Organisationsmodell für moderne Industriegesellschaften?”, í R. Molitor (ritstjóri): Kontaktstudium Ökonomie und Gesellschaft. Frankfurt a.M. : Fischer Verlag, bls. 203-210.

Krugman, Paul  (2007) The Conscience of a Liberal. London og New York: W.W. Norton & Co. Lange, Oskar (1936) “On the Economic Theory of Socialism. Part One”, The Review of Economic Studies, Vol 4 (1), október, bls. 53-71 (finnanleg á Neti).

Lange, Oskar (1937) “On the Economic Theory of Socialism. Part Two”, The Review of Economic Studies, Vol 4 (2), febrúar, s. 123-142( finnanleg á Neti).

Lange, Oskar og  Taylor, Fred M.  (1974)  Om socialismens økonomiske teori (þýðandi  Poul Ipsen). Kaupmannahöfn: Finn Blytmanns forlag.

Lange, Oskar (1969) “The Computer and the Market”, í C.H. Feinstein (ritstjóri): Socialism, Capitalism, and  Economic Growth. Essays presented to Maurice Dobb. Cambridge: Cambridge U.P., bls. 158-161 (finnanleg á Neti).

Leifur Reynisson (2019): „Vorið í Prag“, Tímarit máls og menningar, 1 hefti, bls. 65-79.

Lippincott, Benjamin E. (1974) “Indledning”, O. Lange og F.W. Taylor: Om socialismens økonomiske teori (þýðandi Poul Ipsen. København: Finn Blytmanns forlag, bls. 11-40.

Lipton, David og Sachs, Jeffrey (1990) “Privatization in Eastern Europe: The Case of Poland”, Brookings Papers on Economic Activity, 2, s. 293-341, http://www.brookings.edu/about/projects/bpea/editions/~/media/Projects/BPEA/1990%202/1990b_bpea_lipton_sachs_summers.PDF. Síðast halað niður 1/10 2015.

Mason, Paul (2015):Post-Capitalism: A Guide to Our Future. New York: Farrar, Straus og Giroux.

Marx, Karl (1871)  Der Bürgerkrieg in Frankreich. Adresse  des Generalrats der Internationalen  Arbeiterassoziation (30 mai 1871) https://www.marxists.org/deutsch/archiv/marx-engels/1871/05/burfrndx.htm. Sótt 15/1 2020.

Mises, Ludwig von (1922):  Die Gemeinwirtschaft. Untersuchungen über den Sozialismus. Jena: Verlag von Gustav Fischer. www.mises.de. Síðast halað niður  8/10 2011.

Ólafur Björnsson (1978): Frjálshyggja og alræðishyggja. Reykjavík: AB.

Mason, Paul (2015):Post-Capitalism: A Guide to Our Future. New York: Farrar, Straus og Giroux.

Rifkin, Jeremy  (2014): Zero Marginal Cost Society. New York: Palgrave MacMillan.

Sik, Ota (1969) Plan og marked. Markedsmekanismen i en sosialistisk planøkonomi. (Þýðandi Per Nestor). Oslo: Aschehoug.

Singh, Parbudyal; Bartkiw, Timothy J; Suster, Zeljan (2007)  ”The Yugoslav Experience with Workers’ Council: A Reexamination”, Labor Studies Journal, 32: 280, s. 280-297.

Trotsky, Leon (1936) The Revolution Betrayed http://www.marxists.org/archive/trotsky/1936/revbet/ch11.htm. Síðast halað niður 9/10 2012.

Wootton, Barbara (1945)  Freedom under Planning. Chapel Hill: University of North Carolina Press.

Zuboff, Shoshana (2019): The Age of Surveillance Capitalism. New York: Hachette.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu