Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Enn til varnar skattheimtu

Svo var sungið í mínu ungdæmi:

"Maðurinn með hattinn

stendur upp við staur

og borgar ekki skattinn

því  hann á engan aur“

Undirskilið er sennilega að ríki maðurinn með pípuhattinn stingi fé undan og þykist ekkert eiga og þurfi því ekki að borga skatt. Síðar tók  hattakarlinn að koma fé sínu undan til aflanda. Þetta atferli þykir skattahöturum frjálshyggjunnar í besta lagi, sköttun er að þeirra áliti ofbeldi. Ég hef áður svarað rökum þeirra og hyggst nú höggva aftur í hinn sama knérunn, auk þess að ræða almennt um skattheimtu. Það sem hér segir um heimspekinginn Robert Nozick og gagnrýnendur hans er að miklu leyti ættað úr bók minni Kredda í kreppu.

Nozick um skatta sem ofbeldi

Nozick var þeirrar skoðunar að skattheimta væri mestan part ofbeldi, þó ekki sköttun sem útvegaði ríkinu  fé til að standa straum af kostnaðnum við vernd eignaréttar, lífs og lima manna. Lítum á dæmi Nozicks í staðfærði mynd minni. Hugsum okkur að þúsundir manna borgi aðgangseyri að tónleikum Bjarkar. Málum er svo háttað að miðakaupendur leggja hluta aðgangseyrisins í sérstaka skrínu sem merkt er Björk. Þessi hluti  fjárins  fer beint í vasa Bjarkar og það vita miðakaupendur. Enginn er neyddur til að reiða fé af hendi, menn fara á tónleikana af fúsum og frjálsum vilja. Fyrir vikið efnast  Björk mjög og verður miklu ríkari en meðalmaðurinn. Þetta líkar sósíalistum illa enda er sú tekjudreifing sem hlýst af atferli miðakaupenda ekki í samræmi við draumsjónir  jafnaðarstefnunnar. Þeir krefjast þess að Björk verði skattlögð svo þeir verst stæðu megi lifa. En í raun réttri eru þeir að skikka Björk til að vinna þegnskylduvinnu til að jafna kjörin, segir Nozick. Það þýðir að hún er eingöngu notuð sem tæki til að ná vissu takmarki, því að bæta kjör annarra. Læra megi af Immanuel Kant að ekki megi nota menn einvörðungu sem tæki, ekki takmark (Nozick 1974: 32).  Sé rétt að skatta söngkonuna  ómögum til framdráttar þá megi fullt eins réttlæta að hún sé neydd til að láta af hendi líffæri við fólk sem myndi hrökkva upp af ella. Skipti ríkið sér af því hvernig menn ráðstafa fjármunum sínum banni það í raun "kapítalísk" samskipti lögráða manna. Ríkið beiti ofbeldi reyni það að breyta þeirri dreifingu sem hlaust af því að allir vildu hlusta á söngvaseið Bjarkar. Tekjudreifingin hafi  verið afleiðing af frjálsu vali manna og þetta val hafi ekki skert frelsi annarra (Nozick 1974: 160-164).

Gagnrýnendur Nozicks

Margir snjallir fræðimenn gagnrýndu Nozcik harkalega, hann dró reyndar talsvert í land síðar hvort sem það var gagnrýninni að þakka eður ei. Kanadíski heimspekingur Gerald A. Cohen bendir á  að margir þeirra sem borguðu sig inn á tónleikana hefðu kannski hugsað sig tvisvar um ef þeir hefðu vitað að miðakaup þeirra leiddu til ójafnrar tekjuskiptingar. Hann bætir við að margir einstaklingar sem ekki keyptu miða á tónleikana  gætu  tapað á tekjudreifingunni nýju. Auði fylgir vald og því gæti Björk öðlast vald yfir fólki sem ekki keypti miða á tónleikana (þetta fólk átti engan þátt í að skapa tekjudreifinguna nýju og er því saklaust fórnarlamb hennar). Í krafti auðs síns gætu erfingjar Bjarkar öðlast vald yfir örfum miðakaupenda og samtímamönnum þeirra. Hinir ófæddu hafi ekki átt hlut að máli og séu því beittir ofbeldi sem orsakist af miðakaupunum margnefndu (Cohen 1995:19-37). Breski stjórnspekingurinn Alan Haworth svarar Nozick fullum hálsi og  segir að talsverður munur sé á því að greiða skatta og þræla í Gúlaginu. Þar  var föngum misþyrmt, þeir voru lokaðir inni, þeir sultu í hel o.s.frv. Samlíking Nozicks er því í  langsóttara  lagi (Haworth 1994: 93). Annar breskur stjórnspekingur,  Jonathan Wolf, er sama sinnis og Haworth. Hann segir réttilega  að þó ekki sé djúp staðfest milli sköttunar og nauðungarvinnu þá sé ekki þar með sagt að sköttun sé verulega lík nauðungarvinnu. Það er ekki djúp staðfest milli manns og amöbu en engum dytti í hug að segja að maðurinn væri amaba eða alla vega verulega  líkur því kvikindi (Wolf 1992: 128-129). Haworth bendir á að samlíkingar Nozicks byggi á því að hann beini sjónum sínum að mjög sértækum þáttum fyrirbæra og finni þar sameiginleg einkenni. Hann sjái eitthvað sammerkt með tveimur fyrirbærum, X og Y, og heldur svo að sé staðhæfing S sönn um Y þá hljóti hún líka að vera sönn um X. Sem sagt ef X er hundur og Y líka og satt að X heiti Snati þá hlýtur Y að heita Snati líka. Nozick segir að sé rétt að veita öllum heilbrigðisþjónustu eftir þörfum þá hljóti slíkt hið sama að gilda um klippingu. En engum heilvita manni dytti í hug að skikka rakara til að klippa mann bara af því hár hans sé orðið helst til sítt. Því hljóti að vera rangt að neyða lækna til að veita læknisþjónustu. Læknisþjónusta og starf rakara eiga það sameiginlegt að vera virknishættir með innibyggðum markmiðum. þess vegna hljóti sömu lögmál að gilda um bæði (Nozick 1974: 233-234). En Haworth segir með réttu að hér sé komin enn ein hæpin samlíkingin. Nozick einblíni á háabstrakt þátt læknisþjónustu og rakaraiðnar sem segja má þann sama (sá þáttur er sú staðreynd að bæði hafa innibyggð markmið). Réttara væri að gaumgæfa þá staðreynd að læknisþjónusta er mönnum lífsnauðsyn og fremur knöpp gæði. Hið sama gildir ekki um þjónustu rakarans, ekki er hún lífsnauðsyn (Haworth 1994: 84-86). Bæta má við að sá síðhærði getur klippt sig sjálfan, sé hann ekki handarvana. Krabbameinssjúklingurinn læknar ekki sjálfan sig. Lítum á bannið við kapítalískum samskiptum lögráða manna. Bandaríski hugsðurinn Michael Walzer Hann spyr hvort ekki ætti bara að leyfa mönnum að múta stjórnmálamönnum. Er ekki bann við mútum einfaldlega bann við kapítalískum samskiptum lögráða fólks? (Walzer 1983: 100-1). Mér er ekki launung   í því að ég tel að þessir ágætu gagnrýnendur Nozick hafi á réttu að standa, tilraun hans til að sanna að sköttun sé ofbeldi misheppnaðist algerlega.

 Frjálshyggjan á hálum brautum

Danski frjálshyggjumaðurinn Mogens Glistrup taldi skattsvik mjög af hinu góða og sagði að danskir skattsvikarar væru eins og andspyrnuhreyfingin á stríðsárunum. Frjálshyggjumenn ganga fæstir svona langt, þora kannski ekki að gera það opinberlega. Þeir segja í staðinn að menn eigi að haga fjármálum sínum með þeim hætti að þeir forði sem mestu fé frá sköttun. En ætla má að stórt grátt svæði sé milli „skattaforðunar“ (e. tax avoidance) og skattsvika. Hugsum okkur frjálshyggjusinnaðan auðmann hvers fjárreiður eru svo flóknar að hann á auðvelt með að forða fé sínu frá skattheimtu. Hann freistast til að fara æ lengra inn á gráa svæðið og fyrr en varði er hann tekinn að svíkja undan skatti. Þá minnist hann kannski orða Glistrups og hugsar sem svo „er ég ekki bara andófsmaður sem berst gegn ofbeldi ríkisins?“ Þannig er frjálshyggjumaður sem telur sköttun ofbeldi, og rétt að stunda skattaforðun,  á braut hinna hálu raka. Rök hans gætu  smám saman hverfst í rök fyrir skattsvikum. Og skattsvik bitna á þeim sem samviskusamlega borga sína skatta, þeir þurfa borga meira vegna svikanna. Nú segja frjálshyggjumenn að mikil og stighækkandi skattheimta skaði efnahagslífið og bitni með því á þorra fólks. Það skýrir ekki hvers vegna háskattalöndum Norðurlanda gengur svona vel félagslega og efnahagslega.  Kenning frjálshyggjumanna  skýrir heldur ekki hvers vegna Bandaríkjunum gekk hvað best á fyrstu áratugunum eftir stríð þegar hæsta skattþrepið var um 90% (um líf- og hagsæld í BNA og á Norðurlöndum  er mikið skrifað í Kreddu í kreppu, þar má finna staðtölur þessum staðhæfingum til stuðnings).

En öllu má ofgera, auðvitað eru mörg dæmi um óréttláta og ofbeldiskennda skattlagningu, ekki síst í einræðisríkjum. Ekki mæli ég með því að ríkið taki mestallt af mönnum í skatta. Hið sama gildir um einkaeignarétt, ekki má heldur gera veg hans of mikinn. Í Bretlandi gekk dýrkunin á einkaeignarétti alltof langt. Frjálshyggjuvæðingu landsins á átjándu öld fylgdi  að dauðarefsingu var beitt fyrir æ fleiri afbrot,   sérstaklega fyrir meint brot gegn  einkaeignarétti. Í reynd þýddi þetta að hinir fátæku máttu dingla í snörunni á meðan markaðsgróðapungar  höfðu  það náðugt.

Lokaorð

Niðurstaðan mín er sú að skattlagning sé ekki endilega ofbeldi. Sé vel  á málum haldið þá er skattur einfaldlega það gjald sem menn þurfa að greiða fyrir það að búa í siðmenntuðu samfélagi.

Helstu heimildir:

G.A. Cohen (1995): Self-Ownership, Freedom and Equality. Cambridge: Cambridge University Press.

Alan Haworth (1994): Anti-Libertarianism. Markets, Philosophy and Myth, London: Routledge.

Robert Nozick (1974): Anarchy, State and Utopia. Oxford: Blackwell.

Stefán Snævarr (2011): Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Reykjavík: Heimskringla.

Michael Walzer (1983): Spheres of Justice, New York: Basic Books.

Jonathan Wolf (1992): Robert Nozick. En introduktion (þýðendur  Gustaf Gimdal og Rickard Gimdal). Gautaborg: Daidalos.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu