Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Charles Taylor níræður

Einn merkasti hugsuður samtímans, Kanadamaðurinn Charles Taylor, verður níræður í dag. Hann var fæddur og uppalinn í Montréal, móðirin frönskumælandi, faðirinn enskumælandi. Taylor er því  tvítyngdur og hefur vegna uppruna síns haft mikinn áhuga á fjölmenningu.

Hann hefur lagt gjörva hönd á margt, ekki látið sér nægja fræðagrúsk heldur tekið virkan þátt í stjórnmálum og verið áhrifamikill álitsgjafi.

Hann   er ekki síst þekktur fyrir þá kenningu sína að maðurinn sé sjálfstúlkandi vera. Það hvernig við skiljum okkur sjálf hefur áhrif á það hver við erum. Líti tiltekinn maður á sig sem lítilsmegandi gæti hann orðið undirlægja (Taylor 1985: 45-76). Það að vera undirlægja verður snar þáttur í sjálfssemd (e. self identity)  hans.

Þessi hugmynd er liður í flókinni kenningu Taylors um sjálfið sem ekki skal rakin hér (Taylor 1989). Lítum heldur á framlag hans til stjórnspeki.

                                             Taylor um frelsi

Hann gagnrýnir hugmyndina um neikvætt frelsi, þá hugmynd að frelsi sé ekkert annað en fjarvera ytri tálmana. Í reynd séu til óendanlega margar ytri tálmanir, við verðum að greina á milli mikilvægra og lítilvægra hindrana.

Mikilvægi þeirra ráðist af verðmætamati okkar. Ef svo væri ekki gætum við fullt eins sagt að Albanía kommúnismans hafi verið frjálsara land en Bretland þótt trúarbrögð hafi verið bönnuð í balkneska alræðisríkinu.

Það voru nefnilega miklu færri götuljós þar syðra en í Stóra-Bretlandi og rautt ljós hindri örugglega fleiri athafnir en ófrelsi í trúmálum. En við teljum Bretland frjálsara land því trúarbrögð eru okkur mikilvægari en gönguferðir.

Gildismat ráði því miklu um hvað við teljum frelsi eða ófrelsi, einnig er gildismatið snar þáttur í sjálfi mannsins, samanber það sem segir um undirlægjuna. Hún varð undirlægja vegna þess hvernig hún mat sig sjálfa. 

Taylor segir að frelsi sé ekki bara ytra frelsi heldur líka innra frelsi. Óskynsamleg hræðsla geti til dæmis komið i veg fyrir að við förum inn á þá starfsbraut sem við helst vildum fara.

Reyndar séum við ekki endilega æðsta dómsvald um slíkar tilfinningar. Hræðsla sé  ekki bara kennd heldur líka ákveðinn máti að skynja veröldina, sá hræddi sér hluta af heiminum sem hættulegan.

Og honum kann að skjátlast, hann kann til dæmis að vera haldinn sjúklegri hræðslu við að fljúga þótt skynsemin ætti að sýna honum að hann sé  fullt eins öruggur í háloftunum og á jörðu niðri.

Ekki sé  víst að hann skilji þetta sjálfur, aðrir geta vitað betur og reynt að benda honum á villur síns vegar (Taylor 1996a: 211-229).

                                           Taylor um frjálslyndisstefnu

Taylor  segir að til séu tvær gerðir frjálslyndisstefnu. Aðra nefnir hann “frjálslynda alhyggju” en samkvæmt henni eiga allir að njóta sömu réttinda án tillits til kynferðis, hörundslitar, þjóðernis o.s.frv.

Samkvæmt hinni gerðinni (hans eigin) eru tilvik þar sem rangt er að draga alla upp á sömu seil réttinda. Það kynni að vera ósanngjarnt í garð sumra hópa því sérleiki samsemda þeirra verði ekki virtur með þeim hætti.

Vega verði almenn mannréttindi gegn réttindum hópa með sérstakar sjálfsemdir, stundum er í lagi að veita vissum hópum sérréttindi þótt það valdi smávægilegri frelsisskerðingu hjá öðrum.

Þannig telur Taylor að stjórn Québec hafi rétt til að banna skilti á ensku til að vernda franska tungu svo fremi hún banni ekki sölu á enskum blöðum og tímaritum (Taylor 1994: 25-74).

Taylor hefði þó mátt athuga þann möguleika að bann Québec-stjórnar yrði fyrsta skrefið á óheillabraut sem leiddi til banns á ensku lesefni.

Samt held ég að hann sé á réttri leið, ekki fæ ég séð að mikil frelsisskerðing hljótist af því að lögfesta íslensku sem ríkismál.

Eða lögfesta að atvinnurekendum sé skylt að sjá til þess að fastráðnir erlendir starfsmenn öðlist lágmarksleikni í íslensku þannig að Íslendingar þurfi ekki að tala ensku við afgreiðslufólk í verslunum og á veitingarstöðum.

Málið varðar réttindi hóps (þ.e. Íslendinga) með sérstaka sjálfssemd  þar sem tungumálið leikur lykilhlutverk. Enginn bannar innflytjendum að nota sitt móðurmál í sínum hópi.

En enskugjamm í æ fleiri geirum íslensks samfélag er alvarleg ógn við móðurmálið, rétt er að berjast gegn gjamminu.

                                       Taylor um lýðveldispatríótisma

Hvað um það, Taylor er líka á réttri leið er hann segir að frjálst samfélag fái vart staðist nema að flestir borgaranna samsami sig þeim hugsjónum sem samfélagið byggi á.

Auk þess verði þeir að finna til eins konar bræðralagskenndar hver með öðrum. Séu menn áhugalausir um hugsjónir hins frjálsa samfélags og hafi enga samstöðukennd þá sé hætt við að öfgamenn geti eyðilagt samfélagið.

Erfitt sé  að koma í veg fyrir valdarán nema yfirgnæfandi meirihluti borgara samsami sig hinu frjálsa samfélagi.

Það var einmitt slík samsömun sem olli því að Bandaríkjamenn hröktu Nixon frá völdum. Hefðu þeir verið bandarískir þegnar vegna þess eins að það þjónaði þröngum eiginhagsmunum þeirra þá hefðu þeir aldrei nennt að mótmæla óhæfu Nixons og hann setið áfram.

Sú staðreynd að bandarísk þjóðerniskennd er samofin hugmyndinni um BNA sem frjálst samfélag gerði að verkum að stór hluti þjóðarinnar krafðist afsagnar forsetans.

Þennan hugsunarhátt kallar Taylor “lýðveldispatríótisma” (e. republican patriotism). Sú samstöðukennd sem slíkur patríótismi krefst er á milli fjölskyldukenndar og almennrar samhygðar, segir kanadíski heimspekingurinn.

Samstöðukenndin er stofnskyld vináttu en gæði tengd vináttu eru samgæði. Það þarf tvo til að dansa tangó og eins er um vináttuna, hún sé félagsleg í eðli sínu enda fólgin í samleik manna.

Hún sé ekki bara summan af sérgæðum eins og t.d. samstarf um varnir gegn glæpum getur verið. Taki nágrannar sig saman um að vernda hverfið gegn glæpum þurfi samstarfið ekki að vera annað en summan af eiginhagsmunapoti þeirra.

Ástæðan sé sú að strangt tekið geti sérhver einstaklingur varið sjálfan sig ef hann er nógu sterkur.

Það fylgir sögunni að frjálshyggjumenn lýsa samfélaginu eins og samtryggingarfélagi sérgæðinga, eins konar stækkaðri mynd af hverfissamtökunum gegn glæpum.

Það er nokkuð til í þessu en frjálshyggjumenn sjái ekki að samfélagið verður líka að byggja á samgæðum skyldum vináttu (Taylor 1995: 181-203). Annars er voðinn vís, samfélagið gæti leystst upp í frumeindir sínar. 

                                             Lokaorð

Hér hefur verið stiklað á stóru, rétt nefndar þær kenningar Taylors sem máli skipta fyrir pólitíska og menningarlega umræðu. Ekki er annað eftir en að óska afmælisbarninu til hamingju með daginn.

Heimildir:

Stefán Snævarr 2011: Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Reykjavík: Heimskringla.

Taylor, Charles 1985: “Self-interpreting Animals”, Human Agency and Language. Philosophical Papers 1. Cambridge: Cambridge UP, bls. 45-76.

Taylor, Charles 1989: The Sources of the Self. The Making of Modern Identity. Cambridge: Cambridge University Press.

Taylor, Charles  1994: “The Politics of Recognition”, í Amy Gutman (ritstjóri): Multiculturalism. Princeton, NJ: Princeton University Press, bls. 25-74.

Taylor, Charles   1995: “Cross-purposes: The Liberal-Communitarian Debate”, í Philosophical Arguments. Harvard og London: Harvard University Press, bls. 181-203.

Charles Taylor 1996a: "What is Wrong With Negative Liberty?", Philosophical Papers 2. Cambridge: Cambridge University Press, Bls. 211-229.

Taylor, Charles   1996b: “Why Democracy needs Patriotism”, Cohen og Nussbaum (ritstjórar): For Love of Country. Boston: Beacon Press, bls 119-121.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni