Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Bronsaldarhrunið og nútíminn

Bronsaldarhrunið og nútíminn

Spánsk-ameríski heimspekingurinn George Santayana sagði að ef menn lærðu ekki af fortíðinni væru þeir dæmdir til að endurtaka hana. Ýmsir sagnfræðingar segja að margt í nútímanum minni á síðbronsöld (1500-1150 fyrir vort tímatal). Hún hafi verið efnahagslegt blómaskeið en í lok hennar átti sér stað eitthvert mesta menningar- og samfélagshrun sem um getur.

Hnattvæðing á síðbronsöld

Nóta bene ekki alls staðar á jarðarkringlunni heldur í Miðausturlöndum en þar reis menning hvað hæst á þessum árum. Þar mátti líta mikil menningaríki eins og Egyptaland faraóana, Babýlóníu, Assýríu, Elam (fyrsta stórríkið í Íran), Mitanni, Hatti (ríki Hittíta), hin grísku Mýkenumenningarríkin og ríki mínóa á Krít. Síðastnefnda ríkið eða menningin varð reyndar Mýkenumönnum að bráð snemma á síðbronsöld. Skömmu síðar gerðu Assýríumenn og Hittítar út af við Mitanniríkið en það stóð í Sýrlandi og þar um kring. Að öðru leyti var síðbronsöldin fremur friðsöm, konungar gerðu ýmsa samninga hver við aðra, giftust hvers annars dætrum o.s.frv. Brögð voru að því að þeir færu í opinberar heimsóknir hver til annarra. Kannski voru rætur þessarar friðsemdar efnahagslegar, löndin áttu í töluvert miklum viðskiptum sín á milli. Riðið var mikið viðskiptanet sem náði austur til Afghanistan og vestur í vestanverða Evrópu. Því olli ekki síst eigindir bronsins, það er gert úr tini og kopar. Kopar fannst næstum bara á Kýpur, tin á Bretlandseyjum en þó aðallega í Afghanistan. Mín kenning er sú að þessi ríki höfðu hag af nokkurn veginn ótruflaðri heimsverslun, án hennar var hættan á að ekki væri hægt að gera brons. Án þess var vígbúnaður illmögulegur og ráðamenn áttu á hættu að missa völdin. Hvað sem því líður tala sagnfræðingar á borð við Eric Cline um síðbronsöld sem öld fyrstu hnattvæðingar og segja að hafi verið tímaskeið velsældar. Og bæta við að fyrstu áratugarnir eftir lok kalda stríðsins hafi einkennst einmitt af hnattvæðingu og margháttaðri samningagerð milli þjóða. Auðvitað var veröldin ekki alfriðsöm á þessum áratugum, nægir að nefna stríðið í Júgóslafíu heitinni, innrásina í Írak og árasina á Tvíburaturnana. Hið sama gilti um síðbronsöld, Eggyptar og Hittítar háðu nokkur fræg stríð, ég hef áður nefnt orrustuna við Kadesh. Eftirmálar hennar voru friðarsamningar ríkjanna, afsteypur af þeim getur að líta í höðfustöðvum S.Þ.

„Reika svipir bronsaldar“: Bronsaldarhrunið og nútíminn

En Adam er sjaldnast lengi í Paradís sinni, um 1200 fyrir vort tímatal verður breyting á. Sjóræningjar taka að herja á strendur Miðjarðarhafsins austanverða, konungurinn í Úgarít á austursströnd Sýrlands sendir öðrum kóngi örvæntingarfullt bréf þar sem hann talar um slíka árás. Skömmu síðar varð þessi forna verslunarborg brennd til grunna. Í egypskum annálaum er sagt frá árásum þjóða sem flestar séu ættaðar séu eyjum. Bandalag þeirra hafi vaðið yfir strendur Miðjarðarhafs og brennt borgir, svo réðist það í tvígang á Egyptaland og höfðu Egyptar sigur en hann var þeim dýrkeyptur. Nútímasagnfræðingar kalla þessar þjóðir „hafþjóðirnar“ og velta því fyrir sér hvaðan þær hafi komið. Ýmsilegt bendir til þess að einhverjar þeirra hafi komið frá Sardiníu og Sikley, aðrar verið grískættaðar. Þeim hefur verið kennt um hið hrikalega bronsdaldarhrun en Cline telur að fleira hafi komið til. Vissulega virðist höfuðborg Hittíta, Hattusas, og borgir Míkeníumanna hafa orðið eldi að bráð en það gæti hafa verið vegna jarðskjálfta. Sumir vísindamenn telja að keðjujarðskjálftar hafi riðið yfir þetta svæði í lok bronsaldar. Það gæti hafi ollið hruni Hittítaríkisins og Mikeníumeningarinnar. Hafþjóðirnar gætu hafa sætt lagi og hafið sjórán vegna þess að ríkin voru í rúst, uppflosnaðir Míkeníumenn gætu hafa slegist í för með þeim. Cline nefnir líka mikla þurrka á þessum svæðum,   sem ollu uppskerubresti, þeir hafi líklega stafað af loftslagsbreytingum. Einnig nefnir hann mögulega uppreisn kúgaðrar alþýðu sem aftur gæti hafa stafað af þurrkum. Hafþjóðirnar gætu samkvæmt því hafa að einhverju leyti verið uppreisnargjarnir alþýðumenn. Í ofan á lag var efnahagskerfi einstakra ríkja á þessum slóðum miðstýrt, konungshöllin eða musterin voru miðstöðvar efnahagslífisins, t.d. konungshöllin í hinni grísku Míkene og Karnakmusterið í Egyptalandi. Ef eitthvað fór úrskeiðis í þessum miðstöðvum gat allt efnahagskerfið hrunið. Og í kerfi þar sem lönd eru tengd margháttuðum viðskiptaböndum þarf ekki mikið til að allt kerfið riðlist og hrun verði. Ef eitthvað varð til þess að tin barst ekki frá Afganistan var illmögulegt að smíða vopn og þá áttu sjóræningar sjans. Athugið að hið sama gæti gerst í dag, lítil þúfa getur velt þungu, hnattvæddu hlassi. Og ekki má gleyma að einstök nútímaríki eru að mörgu leyti efnahagslega miðstýrð, rétt eins og bronsaldarríkin. Einnig mætti líkja þjóðrembupólitíkusum nútímans við hafþjóðirnar, þeir grafa undan hnattvæðingu og gætu vel mögulega efnt til stórstyrjalda sem gætu rústað menningu og efnahagskerfi heimsins. Og ekki skortir uppreisnagjarna alþýðumenn á okkar dögum, fólk sem telur sig hafa tapað á hnattvæðingu og orðið fórnarlömb hinna alríkustu. Hinar miklu loftslagsbreytingar, og meðfylgjandi þurrkar á þrettándu öld fyrir vort tímatal, gætu átt sér samsvörun í vistvá vorra tíma. Sú gæti vel mögulega banað siðmenningu okkar, jafnvel mannkyninu öllu. Í lok síðbronsaldar hefjast myrkar miðaldar við austanvert Miðjarðarhaf, það snardregur úr viðskiptum milli þjóðanna. Á Grikklandi verður mikil mannfækkun af hallærum og ritmálið gleymist, hin glæsta siðmenning Míkeníumanna verður að daufu bergmáli í kviðum Hómers. Hið volduga Hittítaríki hrynur, hið sama gildir um borgríki á Miðjarðarhafsströnd. Í ofan á lag minnka ríki Babýlóníu og Assýríu mjög. Egyptar komast skást frá hruninu en missa hjálendur sínar við austanvert Miðjarðarhaf. Ríki faraóana verður aldrei framar eins voldugt og það var á síðbronsöld. Ekki er ósennilegt að sú gullöld sem Platon og fleiri grískir spekingar ræða um hafi verið síðbronsöld.

Lokaorð

Spurt er: Munu spekingar framtíðarinnar lýsa okkar tímum sem gullöld en sjá hana óljóst sem í skuggsjá? Mun heyrast bergmál frá okkar menningu í sagnljóðum framtíðarinnar? Eða munum við læra af mistökum bronsaldarmanna og bjarga mannkyni og siðmenningu?

Helstu heimildir:

Charles Rivers Editors: The Sea Peoples Kindle útgáfa eingöngu.

Sjá einnig ýmsa þætti um hafþjóðirnar á Youtube.

Eric Cline (2015): 1177BC, The Year Civilization Collapsed. Princeton: Princeton University Press.

Einnig fyrirlestrar hans með sama heiti, auðfinnanlegir á Youtube.  

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni