Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Carlsen gegn Caruana

Fyrir þremur áratugum voru fjórir íslenskir skákmenn í hópi hundrað bestu skákmanna heims. Svo kom eitthvað fyrir sem rústaði skákgetu Íslendinga. Ég held að tískugræðgi hafi  átt mikinn þátt í því, sjúklegur ótti Íslendinga við að vera lummó og gamaldags, samanber gamaldags-er-vont-orðræðan sem ég ræddi nýskeð á þessum vettvangi. Upp úr 1990 virðist margt tískmennið hafa fengið þá flugu í höfuðið að skák væri sveitó-rússneskt-lummuspil, alls ekki í anda hinna ginnhelgu og ofurkúlu Kana. En hvort sem eitthvað vit er í þessari kenningu eður ei þá hefur dregið mikið úr skákfréttaflutningi á Íslandi. Á blómaskeiði íslenskrar skáklistar var skákáhugi sama sem enginn í Noregi enda gátu Norðmenn ekkert í skák. Þá reis upp Jóhannes skírari taflsins, Simen Agdestein sem í lok níunda tugarins var meðal tuttugu bestu skákmanna heims. Þökk sé honum glæddist skákáhugi Norðmanna enda unnið skipulega að því á meðan skákáhugamenn á Fróni sváfu vært. Þá reis upp hinn norski skákfrelsari, Magnus Carlsen, skírður af Agdestein skírara. Hann var á tímabili  langbesti skákmaður heimsins, heimsmeistari í ofan á lag síðustu fimm árin. Þökk sé honum eru Norðmenn orðnir allsterkir í skák, miklu betri en Íslendingar. Nú etur Carlsen kappi við ógnarsterkan andstæðing, hinn ítalsk-ameríska Fabiano Caruana. Staðan í heimsmeistaraeinvígi þeirra er jöfn, allar tíu skákirnar hingað til hafa endað með jafntefli enda skákmennirnir nánast jafnir á stigum. Velflestar skákirnar hafa verið baráttuskákir en svo öflugir eru skákmennirnir að þeir gera varla mistök. Að öðru leyti eru þeir ólíkir hvað stíl og skaphöfn varðar. Carlsen treystir ekki um of á tölvur og útreikninga heldur teflir sumpart innsæisbundið. Caruana aftur á móti er mikill reiknimeistari. En báðir eru baráttuglaðir, ekki lausir við drápsfýsn. Caruana er maður rólegur og kurteis, Carlsen er strákslegri og ögn glettinn. Á bak við Caruana stendur auðmaðurinn Rex Singluefield, norska þjóðin stendur á bak við Carlsen. Nú eru tvær skákir eftir, mun Caruana velta Carlsen úr sessi? Eða mun Carlsen sýna og sanna að hann er verðugur heimsmeistari? Auðna ræður.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu