Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Stóru fjölmiðlarnir brugðust litlu flokkunum í kosningunum

Stóru fjölmiðlarnir brugðust litlu flokkunum í kosningunum

Stóru fjölmiðlarnir brugðust litlu flokkunum í kosningunum.

Var samsæri í gangi gagnvart litlu flokkunum, með hinni óréttlátu 5% reglu?

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson skrifar

Í því sem kallast lýðræði eru nokkrar grundvallarreglur, sem ríki sem vilja kalla sig lýðræðisríki ættu að fara eftir. Ein þeirra er til dæmis að öll sjónarmið frá öllum aðilum eigi rétt á því að heyrast. Í lögum um fjölmiðla frá árinu 2011 segir meðal annars í 26.grein, um lýðræðislegar grundvallarreglur: ,, Fjölmiðlaveita skal í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi.“

Á Íslandi er rekin blanda af einkafjölmiðlum og fjölmiðlum í almannaþágu, (ens: public service). Í lögum um Ríkisútvarpið frá 2013, fyrstu grein, segir meðal annars að...,,Markmið laga þessara er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi...Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar...Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu.“

Í lögunum segir einnig að Ríkisútvarpið eigi að ...,,Kynna framboð til almennra kosninga, helstu stefnumál framboða, frambjóðenda og fylkinga eftir atvikum og greina ítarlega frá niðurstöðum kosninga. Þá skal það veita öllum gildum framboðum til Alþingis og forsetakosninga, sem og fylkingum í þjóðaratkvæðagreiðslum, jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín á hefðbundnum dagskrártíma í sjónvarpi. Ríkisútvarpið skal birta reglur þar að lútandi. Í alþingiskosningum er heimilt að takmarka útsendingartíma þeirra framboða sem ekki bjóða fram í öllum kjördæmum þannig að þau fái hlutfall af heildarútsendingartíma til samræmis við það hlutfall kjördæma sem þau bjóða fram í.“ (Leturbreytingar GH)

5% reglan – hver bjó hana til?

Dögun, samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, hefur um 80 blaðsíðna stefnuskrá í nánast öllum málefnum sem snerta íslenskt samfélag. Flokkurinn bauð fram í öllum kjördæmum. En fékk flokkurinn heiðarlega eða sanngjarna meðferð í fjölmiðlum í aðdraganda kosninganna? Svarið er nei. Vegna þess að 365 miðlar tóku upp þá reglu að útiloka smáframboðin frá ákveðnum hlutum umræðunnar (en sem skipta kannski mestu máli, þ.e. sjónvarpi) á grundvelli þess að þau fengu ekki 5% eða meira í könnunum (sem sumar voru einungis 50% svarhlutfall, sem þótti ekki góður pappír, þegar undirritaður var að læra aðferðafræði hjá Þorláki Karlssyni og Ólafi Þ.Harðarsyni í HÍ á sínum tíma).

Á grundvelli þessarar reglu var frambjóðanda Dögunar, Sigurjóni Þórðarsyni, meinuð þátttaka í kosningaþætti Stöðvar tvö um Norðvestur-kjördæmi þann 11.október, eftir að hafa farið alla leið frá Sauðárkróki til Reykjavíkur. Hér er grein á Feykir.is  um þetta mál. Þetta verður að teljast dónaskapur og lítilsvirðandi framkoma, sem og ólýðræðisleg.

Þöggun og útilokun

Í aðdraganda kosninganna voru einnig ýmsir aðilar sem héldu stóra og mikla fundi, sem voru mjög mikið auglýstir, þar sem fjallað var um stefnu stjórnmálaflokkanna. Þar var ,,sjöflokknum“ einungis boðið (Sjálfstæðis, Framsókn, Viðreisn, VG, Píratar, Samfylkingu og Bjartri framtíð). Dögun var ekki boðið á einn einasta þessara funda sem voru hjá:

Háskóla Íslands - Samtökum atvinnulífsins - Samtökum í ferðaþjónustu  og ASÍ. Höfðu þessir aðilar engan áhuga á að heyra sjónarmið Dögunar? Hefur ASÍ t.d. engan áhuga á að heyra hugmyndir flokksins um samfélagsbanka, sem önnur framboð hafa smám saman verið að stela, gera að sínum, eins og t.d. Framsóknarflokkurinn, sem kallar þetta ,,samvinnubanka.“?

Þannig að þöggunin hélt áfram.

Um þverbak keyrði svo eiginlega á lokametrunum, þegar RÚV tók upp þessa aðferð, þ.e.a.s 5% regluna og notaði hana til þess að setja litlu flokkana í einhverskonar ,,tossabekk“ þegar lokaumræðurnar fóru fram. Hér vísa ég aftur til laganna um RÚV og samfélagslegt hlutverk þess.

Nauðsyn á ,,góðu sjónvarpi“ ?

Hefði t.d. ekki verið hægt að raða uppboðum með hlutkesti og eða haft einfaldlega alla við hringborð, þar sem öll sjónarmið hefðu fengið að heyrast á sama tíma? ,,Sjöflokkurinn“ var með þessum hætti tekin fram yfir litlu framboðin og fékk þar með mun hagfelldari meðferð hjá RÚV, en litlu flokkarnir. Eða þurfti að reyna að gera einhverskonar ,,gott sjónvarp“ úr þessu, þar sem flokkarnir með bestu mögulega valdastöðuna eftir kosningarnar fengu bara náð fyrir augum stjórnenda RÚV? Er virkilega til of mikils mælt að RÚV standi undir nafni sem almannafjölmiðill á fjögurra ára fresti?

RÚV fellur í pyttinn

Einnig var framkoma RÚV gagnvart formönnum litlu flokkanna í kosningasjónvarpinu til skammar, þegar ræða átti við formenn flokkanna um úrslit kosninganna. Þar var ,,sjöflokkurinn“ í heiðurssætinu. Formönnum litlu flokkanna (sem höfðu verið boðaðir í viðtöl) var hreinlega snúið frá, þegar upp í Efstaleiti var komið. En það gerðist þó ekki fyrr en þeir höfðu beðið í rúmlega klukkustund á staðnum. Þeir misstu því meira og minna af kosningavökum sínum. Og hvað með þeirra sjónarmið, skiptu þau engu máli í umræðunni?

Nú hugsa kannski sumir: Ja, þau þarna í Dögun eru bara fúl af því að þeim gekk svo illa. Og, já við erum kannski pínulítið fúl, en alveg sérstaklega vegna þess að okkur var ekki boðið að sama borði og ,,sjöflokknum“ – það var A-deild og B-deild! Það sátu ekki allir við sama borð og það ekki sömu reglur fyrir alla. Það er ólíðandi og ólýðræðislegt. Þannig að þetta brýtur gegn svokallaðri jafnræðisreglu.

Fimmta valdið?

Eftir Hrunið 2008 fengu fjölmiðlar og fjölmiðlakerfið á sig mjög alvarlega gagnrýni, fyrir það að hafa verið lausir við alla gagnrýni og að raddir þeirra sem vöruðu við hruninu hafi nánast verið að engu gerðar. Fjölmiðlar hafa verið kallaðir fjórða valdið í samfélaginu og það er kannski ekkert skrýtið, því þeir hafa mikla stjórn á umræðunni.

Í framhaldi af framansögðu er hinsvegar ekki er laust við að manni detti í hug  enn eitt valdið; það er að segja ,,fimmta valdið“, sem í þessu tilfelli eru þá skoðanakönnunarfyrirtækin og aðferðir þeirra. Verða áhrif þeirra meiri í næstu kosningum og verða búnar til nýjar ,,reglur“ til að spila eftir, reglur sem ekki fara eftir hinum klassísku lögmálum lýðræðisins og samstaða er um að reyna að fylgja? Er sú samstaða fokin út á hafsauga?

Til þess að takist að endurvekja traust almennings á stjórnmálakerfinu og stjórnmálunum verða fjölmiðlar að tryggja það að öll sjónarmið heyrist, en ekki bara sum – og það á kostnað annarra. Það er ekki lýðræði, það er eitthvað allt annað. Og öll hljótum við að vilja að Ísland flokkist sem alvöru lýðræðisríki og verði slíkt áfram.

Höfundur er stjórnmálafræðingur og gjaldkeri Dögunar, samtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Gunnar var einnig í 3ja sæti í Suðvesturkjördæmi (Kraganum) fyrir síðustu kosningar.

 Grein þessi birtist upphaflega á vef Kjarnans.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni