Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Vilji þjóðarinnar lítilsvirtur

Vilji þjóðarinnar lítilsvirtur

Þegar ný stjórnarskrá var borinn upp á Alþingi 1944 var vitað að þar væri snaggaraleg þýðing á dönsku stjórnarskránni og skoðun þáverandi stjórnmálaforingja að þetta væri bráðabirgða aðgerð sem þyrfti endurskoðunar sem allra fyrst.

 

Hér bendi ég á ummæli þáverandi forystumanna :

Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis ... Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf."

 

Stefán Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki: „... er það skoðun allrar [stjórnarskrár]nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“.

 

Jakob Möller, Sjálfstæðisflokki: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“

 

Í nýársávarpi sínu árið 1949 kvartaði Sveinn Björnsson forseti undan seinagangi á endurskoðun og hvatti þingheim og aðra til dáða : „Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. …Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“

 

En svo fór að forysta þeirra stjórnmálaafla sem farið hafa með völdin í landinu frá lýðveldisstofnun áttuðu sig á þeim möguleikum sem danska konungsstjórnarskráin gaf þeim og viðhorf forystumanna stjórnaflokkanna breyttust. Þeir gátu ekki hugsað sér að glata ráðherraræðinu og þaðan af síður að missa völd til fólksins í landinu.

 

Þannig að þrátt fyrir ofangreindar staðreyndir er því purkunarlaust haldið að okkur í dag að ástæðulaust sé að umbylta lýðveldisstjórnarkránni því hún sé svo „listilega smíðuð“ eins og forseti vor hefur margsagt, eða ef vitnað er til annarra ummæla forystumanna stjórnarflokkanna um að núverandi stjórnarskrá sé „helgur gjörningur“. Já helgur gjörningur hvorki meir eða minna sem ekki megi breyta nema full sátt allra sé um hugsanlegar breytingar.

 

Afstaða fjórflokksins endurspeglast mjög vel í því að skipað hefur verið í hverja nefndina á fætur annarri þessi 70 ár sem liðin eru síðan núverandi stjórnarskrá. Valdakjarni fjórflokksins hefur á þessum langa tíma kæft allar tilraunir til alvöru endurskoðunar. Það hefur síðan leitt til bútasaumsvinnulags stjórnarskrárnefndanna og við okkur blasa mörg atriði í núverandi stjórnarskrá sem hrópa á endurskoðun, eins og rætt er um þessa dagana. Hér standa efst ákvæði um forsetakjör, um náttúruna og auðlindirnar, landsdóm auk atriða sem komu fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis t.d. um ráðherraræðið og veika stöðu þingmanna.

 

Fjórflokkurinn hefur markvisst staðið í vegi fyrir aðkomu almennings á óvinsælum málum og sama á við um að þjóðin geti komið málum á framfæri í dagskrá Alþingis. Hér má benda á það geðþóttavald sem núv. forseti hefur tekið sér hvað varðar málskotsréttinn. Það liggur fyrir eindregin vilji fólks um að það sé ekki forseti eða forsætisráðherra sem eigi að velja hvenær það ákvæði eigi gilda og hvenær ekki. Í nýjum tillögum er gólfið sem almenningur þarf að ná til þess að koma málum og vilja sínum á framfæri hækkað um helming frá samþykktum tillögum stjórnlagaráðs

 

Í mótmælunum eftir Hrunið var það áberandi að þjóðin vildi endurskoða Stjórnarskránna og  einbeittur vilji þjóðarinnar að uppganga samfélags okkar úr dalbotninum yrði nýtt til þess að skapa hér nýtt og heilbrigðara samfélag. 67% kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu samþykkti að nýta skyldi tillögur stjórnlagaráðs við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

 

En fjórflokkurinn henti þessari niðurstöðu í ruslafötuna. Vinnubrögð sem heita valdníðsla og sama hvernig á þau er litið er það vitaskuld fáheyrt í lýðræðisríki að þjóðaratkvæðagreiðsla sem snýst um sjálfa stjórnarskrá ríkisins skuli höfð að engu.

 

Nýleg könnun opinbera að traust Alþingis er 13%. Fjórflokkurinn hefur goldið afhroð í öllum nýlegum könnunum. 70% þjóðarinnar styður ekki þessa ríkisstjórn og vill hana burt sem fyrst. Þjóðin vill virkt lýðræði.

 

En nú ætlar ríkisstjórnin að reyna að bæta ráð sitt með því að leggja til örlitlar, oggupínulitlar breytingartillögur sem hefur tekið um tvö ár að búa til í lokuðu bakherbergi þar sem ráðamenn hafa einir aðgang.

 

Ég er sannfærður um að þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslu næsta vetur verður lítil og það verða örlítill hluti þjóðarinnar sem segir já. Mun færri en þeir sem samþykktu frumvarp stjórnlagaráðs.

 

Þá verða einungis 4-5 mánuðir til þingkosninga

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni