Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Markleysa frá ráðherrum spillir rekstri

Markleysa frá ráðherrum spillir rekstri

Rekstur stofnana og fyrirtækja getur verið snúinn í efnahagsumhverfi, þar sem forsendur allar eru óstöðugar og gengið valt. En rekstur undir stjórnvöldum sem ekkert er að marka, er ekki bara snúinn. Hann er vonlaus. 

Að starfrækja fjölmiðil undir stjórnvöldum sem þola hann ekki og vinna á laun eftir samþykktum um að leggja hann niður er líka vonlaust. Og vonleysið batnar ekki við ríkisstjórn sem þorir ekki að segja hug sinn, af því fólkið í landinu er ekki á sammála. 

Ríkisútvarpið ohf. er í vonlausu rekstrarumhverfi og hefur verið lengi. Því er gert að spila í eilífri vörn, taka á sig vonlausar skuldbindingar, uppfylla lagaskyldur án fjármagns. Ofan á allt saman þarf fjölmiðillinn að sitja undir skömmum stjórnvalda, fyrir að gera ekki betur. Stjórnvalda sem eru sjálf ábyrg fyrir fjárhagsrammanum og hlutverkinu sem almannaútvarpinu er ætlað.

Rekstraráætlun stjórnenda Ríkisútvarpsins var byggð á sandi, sem orðin er að tómri steypu, í fráleitum spuna meirihluta fjárlaganefndar og ráðherra.   Ráðherra sem segja eitt við stjórnendur RÚV og allt annað á þingi og í fjölmiðlum.   

Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, virðast hafa tröllatrú á hæfileikum sjálfs sín á sviði rekstrar og fjármála. En trúlega býr þó illur grunur um eigin getuleysi undir karlagrobbinu og sjálfbirgingshættinum.   Enda full ástæða til fyrir ráðherra sem nú hafa dregið heilan fjölmiðil á asnaeyrunum frá því þeir settust í ríkisstjórn.  

Þeir þóttust kannski góðir með ohf- form Ríkisútvarpsins, sem þeir sjálfir komu á, en segjast nú vera á móti. Því fundargerðir stjórna RÚV eru leyniplögg, samkvæmt lögum og reglum um viðskipti í Kauphöll. Kannski hafa ráherrarnir talið sér óhætt að lofa í plati, því stjórn RÚV gæti ekkert sagt þótt allt yrði svikið?

Svo einfalt varð málið þó ekki. Upp komast svik um síðir og nú hefur komið í ljós að ráðherrarnir lofuðu og að loforð þeirra voru steypa. Það er stórfurðulegt háttalag að boða frumvarp og hrósa andstæðingum þess við öll tækifæri. Og greiða atkvæði á Alþingi gegn máli sem er samhljóða eigin frumvarpi. Og menntamálaráðherrann er ekki eina pólitíska furðuverkið.   Forsætisráðherra og fjármálaráðherra eru ef eitthvað enn einkennilegri. Því þeir þekkja málið vel, fóru yfir það í sérstakri nefnd fyrr á árinu. Þá var talið að þeir skildu málið og hefðu gefið fyrirheit um óbreytt útvarpgjöld. 

Hvað svo sem fólki kann að finnast um Ríkisútvarpið, þá getur varla neinum fundist það góðir ráðherrar sem tala út og suður í mótsögn við sjálfa sig, beita brellum og sjónhverfingum, fela sig á bak við pantaðar skýrslur og pólitíska æsingamenn og láta heila stofnun lifa í fullkominni óvissu um hvar ruglið endar og hvernig það er til komið, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár. Hvað ef heilbrigðiskerfinu eða skólakerfinu væri stjórnað með svona aðferðum. Myndi einhver geta sætt sig við það?

Og verst af öllu er að við vitum það ekki. Kannski er mörgum opinberum fyrirtækjum og stofnunum stjórnað svona illa. Það litla sem við vitum úr leynistjórnunum nú, eða sáum í hruninu fyrir nokkrum árum, gefur tilefni til að treysta stjórnvöldum varlega.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu