Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Brellupólitík fjárlaganefndar

Brellupólitík fjárlaganefndar

Meirihluti fjárlaganefndar hefur lagt fram stórmerkilegt reikningsdæmi sem kallað er auka framlag til RUV. Af því má ráða að hagur Ríkisútvarpsins sé að batna sem nemur sextíu milljónum, en ekki er getið um lækkun á útvarpsgjaldi upp á hálfan milljarð, sem leiða mun til mesta niðurskurðar í sögu félagsins. Aukaframlagið upp á 60 milljónir sem fjárlaganefnd kýs að beina sjónum að, er svo ekki einu sinni neitt framlag, heldur leiðrétt spá um að innheimta útvarpsgjalda á næsta ári, verði hærri en áður var áætlað. 
Milljónirnar 60 sem meirihluti fjárlaganefndar velur að beina sjónum sínum að eru semsagt ekkert aukaframlag heldur leiðrétting á vanáætlun frá í fyrra. Leiðréttingunni er stillt upp sem gjöf fjárlaganefndar til Ríkisútvarpsins. Og í fréttatímum landsins hljómar fréttin eins og fjárlaganefnd hafi tekið þá ákvörðun að fjársvelta Landspítalann meðan aukamilljónum er ausið í ríkisfjölmiðilinn.

Þetta mun að sjálfsögðu torvelda samþykkt frumvarps menntamálaráðherra um að útvarpsgjaldið lækki ekki á næsta ári. „Aukaframlagið“ svokallaða er spuni og brellupólitík af ódýrustu gerð. Mínus verður plús, hjá sjálfri fjárlaganefnd. Svart er hvítt og Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, eru fjölskylduaðstoð ríkisfjölmiðilsins fyrir jólin. Sorglegt er fjárlaganefnd skuli hvergi víkja að staðreyndum máls.  

Spuninn á fullan aðgang að fréttastofum og er birtur gagnrýnislaust. Af því hann kemur frá Alþingi, meirihluta ríkisstjórnarflokkanna, sem ákveða líf eða dauða Ríkisútvarpsins. Fréttastofa RUV hefur veika stöðu til að gagnrýna örlagavald sinn. Öðrum fjölmiðlum þykir þetta líklega hið besta mál. Ekki af því að framsetningin sé rétt, heldur af því að þeir telja sér hana hagkvæma í „samkeppninni“.. 

En almenningur ætti að spyrja sig þeirrar spurningar hvort búandi sé við þá framsetningu á fjárlagafrumvarpi sem gerir mínus að plús, kallar niðurskurð aukaframlag, býr til meirihlutaálit úr rangri tekjuáætlun og matar fjölmiðla á brellum og hártogunum frekar en staðreyndum. 

Staðreyndin er að ef frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um óbreytt útvarpsgjald verður ekki samþykkt á Alþingi fyrir jól, þá vantar hálfan milljarð í rekstur Ríkisútvarpsins á næsta ári, miðað við áætlanir og áður fram komin loforð stjórnvalda. Sextíu milljónirnar koma því til frádráttar, ef þær innheimtast.  

Þegar skorið hefur verið niður í rekstri Ríkisútvarpsins um fimm prósent, ströngu aðhaldi beitt á öllum sviðum, stór hluti húsnæðisins verið leigður burt, skuldir hafa lækkaðar með sölu lóðar, finnst stjórnvöldum þá nú vera rétti tíminn til að slá fæturna endanlega undan fjölmiðlinum? Það er sérkennilegt í ljósi þess að enginn af þeim sem um málið fjallar kannast við að vera neinn sérstakur óvildarmaður Ríkisútvarpsins. En vinirnir með „aukaframlagið“ og strandaða útvarpsgjaldið, mega vita að ef ekki verður fallið frá lækkun útvarpsgjaldsins, getur Ríkisútvarpið ekki uppfyllt þær skyldur sem hingað til hefur verið kveðið á um í þjónustusamningi. Og þá verður líka að fleygja þeim þjónustusamningi sem unnið hefur verið að síðustu mánuðina í samræmi við loforð stjórnvalda.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu