Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

RÚV ohf - Afsakið hlé

RÚV ohf - Afsakið hlé

Einn áhrifamesti samnefnari fólksins í landinu, Ríkisútvarpið, sætir nú fordæmalausum árásum flokksins sem ræður stjórnarformann fjölmiðilsins. Það er snúin staða, enda fréttist ekki margt af líðan og fjárhag RÚV. Síðast spurðist til bágrar fjárheilsu RÚV ohf skömmu fyrir jól. Þá var ákveðið á Alþingi að standa við lækkun útvarpsgjalds, gegn yfirlýstum vilja Illuga Gunnarssonar, menntamálaráðherra og að því er næst verður komist, Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra líka. Þriðji ráðherrann sem sat í sérstakri nefnd um vanda RÚV,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði fátt um sinn hug til RÚV, en flokkssystkin hans, þeim mun meira.

Samþykkt útvarpsgjaldsins þýddi niðurskurð upp á hundruðir milljóna og svaraði óskum meirihluta þingmanna ríkisstjórnarflokkanna um að hemja gagnrýna umræðu. En sem kunnugt er hafa stjórnarþingmenn, einkum Framsóknar, kveinkað sér mjög undan umfjöllun Ríkisútvarpsins og þá sérstaklega fréttastofunnar. Frá ákvörðun um nefskatt og niðurskurð, hefur fátt gerst í rekstrinum með atbeina stjórnar. Enda snúast stjórnarfundir helst um skoðanir Framsóknar á einstökum stjórnarmönnum minnihlutans og hæfi þeirra, eða um einstaka dagskrárliði, sem ekki falla Framsóknarmönnum í geð, en ættu ekki að heyra undir stjórn. Rekstrarvandi framtíðar er hinsvegar óleystur.

Samkvæmt lögum gerir menntamálaráðherra þjónustusamning við Ríkisútvarpið til fjögurra ára í senn, og fjallar hann um þá fjölbreyttu þjónustu sem Ríkisútvarpinu ber að veita landsmönnum, (líka samkvæmt lögum.) Það hefur dregist mánuð eftir mánuð. Enda vandséð hvernig hægt er að gera marktækan samning til fjögurra ára, með rekstur sem er í uppnámi fyrir atbeina stjórnvalda sjálfra.

Samþykktum RÚV ohf var breytt í janúar og aðalfundi frestað, en áður bar að halda hann fyrir janúarlok ár hvert. Fyrir aðalfund kýs Alþingi nýja stjórn, sem hefur ekki verið gert. Sú furðulega staða er því uppi núna að Framsókn veitir stjórn RÚV því forystu, þótt allt bendi til þess að sá flokkur líti á fjölmiðilinn sem óvin. Sjálfstæðismenn ættu ekki að þurfa að hafa þetta svona, með RÚV sem undirstofnun menntamálaráðherra. Enda lagði Sjálfstæðisflokkurinn af stað með hlutverkið, þar sem stjórnarformaður þeirra hvarf skyndilega.

Breyting á reikningsári félagsins, er ástæða frestunar aðalfundar. En í raun verður allt Ríkisútvarpinu að frestun og vandræðum. Þjónustusamningur dregst úr hófi. Engin framtíðarsýn. Engin lausn vegna yfirskuldsetningar. Engin sátt milli ráðherra ríkisstjórnarinnar um hvort Ríkisútvarpið á að lifa eða deyja. Við þessar aðstæður starfar Ríkisútvarpið nú. Starfsmenn vinna þrekvirki á hverjum degi, við slæmar aðstæður. Við yfirvofandi niðurskurð, stefnuleysi, hótanir og ritskoðunartilburði.

Í nýjum pistli fjölmiðlafræðings Framsóknar Karls Garðarssonar segir: „Ríkisútvarpið hefur loksins fellt grímuna. Hún er ófögur ásjónan sem við blasir. Óvinur nr. 1 er fundinn í Framsóknarflokknum.“ Karl telur að Ríkisútvarpið standi fyrir herferð gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, með umfjöllun um fé í skattaskjólum. Þetta eru stór orð sem enginn Framsóknarráðherra hefur mótnælt og ekki heldur stjórnarformaður RÚV, Guðlaugur Sverrisson.

Í Grikklandi var ríkisfjölmiðlinum lokað af stjórnvöldum og til að byrja með var sparnaður og niðurskurður í grísku kreppunni gefinn upp sem ástæða. En þegar starfsmenn tóku til við að halda fjölmiðlinum í sjálfboðavinnu úti kom hið sanna í ljós. Og þáverandi stjórnvöld létu klippa á og eyðileggja útvarpssendana - og loka útsendingarstöðvum, til að lama fjölmiðilinn. Og Grikkland er ekki eina dæmið. Í Póllandi og fleiri Evrópulöndum hafa ríkisfjölmiðlar líka verið teknir stjórnvaldstökum síðustu ár. Hvað erum við að hugsa hér?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu