Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Sannleikurinn í Kauphöllinni

Sannleikurinn í Kauphöllinni

„Með því að hamra á ákveðinni möntru verður til nýr sannleikur“, sagði  Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknar, í umræðum um störf þingsins í gær.  Gamli fjölmiðlahaukurinn var bara kotroskinn yfir því að svona yrði sannleikurinn til, en því miður var hvert orð alltof satt. Enda hóf Karl mál sitt svona:

„Virðulegi forseti. Völd snúast ekki síst um að stjórna umræðunni í þjóðfélaginu. ......... Telja fólki trú um að hvítt sé svart.....

Núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa lengi unnið markvisst og með árangri, eftir þessari kenningu. Að kaupa og reka fjölmiðla er hluti sannleiksmótunar. En því miður taka valdamenn sér enn alvarlegra veiðileyfi á sannleikann. Leyfi sem sviptir fólk virðingu, sjálfstæði, samúð, vilja og stolti. Leyfi sem eyðileggur samfélagið.

Stundum er talað um siðblindu, þegar menn segja að hvítt sé svart og svart sé hvítt og snúa upp þeirri hlið sem hentar.  En stundum er gerð krafa um að allt samfélagið sé siðblint ef valdið er siðblint.  Því valdið ræður sannleikanum.

Það er kurteisi að hrósa, þegar valdið hefur talað, hvað sem það segir.  Líka þótt það segi:  Þú ert auli og falsari, -  eða þú ert rekinn.  Þá segjum við bara - takk fyrir traustið og ánægjulega samveru, - því það er til marks um jákvætt hugarfar að sjá tækifærin allsstaðar. 

Þannig verður sannleikur valdsins til. Þeir sem hafa aðra sýn, eiga ekki upp á pallborðið í vinnu eða félagslífi.  Gott að Karl Garðarsson, fyrrverandi fjölmiðlamaður, lagði þetta fram í ræðustól Alþingis, í ræðu um fjölmiðla, daginn eftir að stjórnarformaður fjölmiðilins Ríkisútvarps, rauk úr stjórninni, án þess að kveðja.

Það gerði Ingvi Hrafn Óskarsson, eftir þokkalegasta samstarf, þar sem stór og pólitískur hópur fólks gerði sitt besta til að finna sameiginlegar lausnir á erfiðum málum. Stjórnarformaðurinn átti ekkert sökótt við stjórn sína, eða útvarpsstjóra, á þeim tímapunkti sem hann fór.  Miðað við umræðuna á undan (og eftir líka) átti hann í útistöðum við samflokksmann sinn Eyþór Arnalds skýrsluhöfund, sem bar stjórnendur RÚV þungum sökum og við Illuga Gunnarsson, menntamálaráðherra, sem talaði samhengislaust út og suður, gat í hvorugan fótinn stigið og gaf aldrei upp hvort hann styddi stjórnarformann sinn eða skýrsluhöfund.

En þegar Ingvi Hrafn pakkaði í vörn, sendi hann Kauphöll Íslands bréf, þar sem hann þakkaði gott samstarf við allt og alla, aðra stjórnarmenn, starfsfólk, útvarpsstjóra sérstaklega og:

„Þá er ég einnig þakklátur fyrir þann eindregna stuðning mennta- og menningarmálaráðherra sem stjórn og stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa notið.“

Er manninum alvara? Er ræðan dulkóðuð og þýðir eitthvað allt annað en orðin segja. Er maðurinn vísvitandi að blekkja Kauphöllina? Nei,það er hann ekki. Því þakklæti Ingva Hrafns Óskarssonar, er dæmi vikunnar um árangursríka sannleiksmótun. Stjórnarformaður RÚV getur ekki sagt upphátt að sér misbjóði framferði ráðherrans, sem ber ábyrgð á Eyþórsskýrslunni og afleiðingum hennar. Fyrir okkur hin ber hann á borð þann sannleika að eftir hádegi á þriðjudag hafi hann orðið var við svo mikið vinnuálag á lögmannsstofu sinni að hann þurfti að fara úr stjórn, fyrirvaralaust og án þess að kveðja. Þessi annars kurteisi maður. 

Skýrsluhöfundurinn Eyþór, hefur boðað mikinn sannleika og vondan um Ríkisútvarpið. Og um stjórnendur Ríkisútvarpsins. Segir þá meðal annars hafa blekkt kauphöllina. Sannleikur Eyþórs er ekkert sérstaklega vel rökstuddur, þegar og ef reynt er að rökstyðja hann. Samt er hann sannleikur og mikilvægt innlegg í umræðuna um RÚV. Sannleikur Eyþórs fellur vel að umræðunni, sem ráðandi fjölmiðlar og ráðandi stjórnmálaöfl vilja að sé sannleikur.  Þegar sannleikur stjórnarformanns RÚV og útvarpsstjóra lenti upp á skjön við sannleik sterkra afla í ríkisstjórnarflokkunum varð til mikill sannleiksvandi í samfélaginu og á fjölmiðlum. Enda getur verið erfitt að velja sér lið og sannleika, þegar öflin sem venjulega úthluta sannleikanum eru ósammála um hver hann er.                                                                                 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni