Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Blóðugt kosningaeftirlit

Blóðugt kosningaeftirlit

Samhliða forseta- og þingkosningar í Tyrklandi hófust klukkan átta í morgun og stjórnarandstaðan bjóst fastlega við kosningasvindli. Kona úr suðurhluta Istanbúl sem sinnir kosningaeftirliti bauð mér í gær að fylgjast með líka. Eftirlitið yrði ráðandi þáttur í úrslitunum í kvöld, sagði hún, en hún var ekki viss hvort ég mætti vera þar. Eftirá að hyggja var góð hugmynd að sofa yfir mig og sleppa því. Tíu erlendir ríkisborgarar hafa verið teknir í gæsluvarðhald í suðausturhluta landsins fyrir að “trufla” kosningarnar með því að fylgjast með þeim. Í Austur-Tyrklandi hafa borist fréttir af óeirðum á kjörstað í borginni Erzurum. Fjórir eru sagðir hafi dáið, þar á meðal yfirmaður eins flokksins þar í bæ. Jafnvel á kjörstaðnum sem ég hafði ætlað að vera á brutust út slagsmál þegar átti að handtaka mann sem vildi fá að kjósa án skilríkja.

Kosningarnar í dag eru þær fyrstu undir nýrri stjórnarskrá sem gefur forseta Tyrklands víðtæk völd. Margir frjálslyndir Tyrkir hafa þó líka á tilfinningunni að þetta séu, í einhverjum skilningi, síðustu kosningarnar. Á undanförnum árum hefur Recep Tayip Erdogan, leiðtogi landsins frá 2003, brotið niður frjálsa fjölmiðlun, látið handtaka stjórnarandstöðuþingmenn og lagt á neyðarlög sem ekki sér fyrir endann á. Flestir stjórnarandstöðuflokkar hafa tekið höndum saman í kosningabandalag til að brjóta á bak aftur þessa þróun áður en það er um seinan.

 

Vinkona mín sinnir kosningaeftirliti í umboði eina flokksins sem ekki er með í þessu bandalagi -- flokki Kúrda, HDP. Hún vonar að flokkurinn komist inn á þing, en til þess þarf hann 10% atkvæða. Nái hann því, þá missir Erdogan meirihluta sinn á þingi. Fyrr í mánuðinum hélt Erdogan ræðu yfir flokksleiðtogum sínum sem lak á netið, þar sem hann sagði að “ef HDP fer undir lágmarksþröskuldinn, þá væri það mikið betra fyrir okkur.” Flokksleiðtogarnir yrðu að vinna “sérstaka vinnu” í hverfinu sínu, og þeir ættu hreinlega ekki að vera hverfisleiðtogar ef þeir vissu ekki “hver er hver” í hverfinu þeirra. “Ég get ekki sagt þessa hluti opinberlega,” útskýrði Erdogan. “Ég verð að segja þá við ykkur hér.”

 

Persónulegt eftirlit er ein leið til að hafa áhrif á kosningar og kosningaþátttöku. Fækkun og tilfærsla kjörstaða “af öryggisástæðum” í kúrdískum héruðum er önnur. Einfeldingslegri aðferðir hafa líka verið látnar duga. Á Twitter voru í dag birtar myndir af atkvæðaseðlum þar sem stimplað hafði verið við HDP. Þeir fundust samankrumpaðir í ruslatunnu. (Til að vega á móti þessu hefur heyrst af fjöldamörgum stuðningsmönnum annarra stjórnarandstöðuflokka sem hafa kosið HDP, gagngert til að koma þeim yfir 10% þröskuldinn.)

 

Einn eftirlitsmaður í kúrdíska héraðinu Urfa, Aykut Kuguoglu, birti mynd af sér og félögum sínum skælbrosandi snemma í morgun á leiðinni á kjörstað. Á næstu mynd, nokkrum tímum seinna, hafði hann verið barinn til blóðs og rekinn af kjörstaðnum.

 

Þrátt fyrir þessi atvik og fjöldamörg önnur er kosningaþátttaka með eindæmum mikil hér, yfir 87%. Fjöldi mynda hefur streymt frá kjörstöðum þar sem hreyfihamlað fólk kemur í hjólastólum, eða borið á baki ættingja, eða gangandi tugkílómetra leið. Kosningarnar eru fólki greinilega dýrmætar, sem vekur upp þá spurningu hvernig stuðningsfólk stjórnarandstöðunnar bregst við ef Erdogan heldur völdum með svindli. Enginn virðist viss. Kannski verða mótmæli, kannski óeirðir, kannski uppgjöf. Erdogan hefur varann á; þegar fyrstu tölur voru tilkynntar sást til vörubíla, fylltum sandi, sem hafði verið lagt fyrir innkeyrsluna að forsetahöllinni í Ankara.

 

Ég lét mér duga að kíkja í stutta heimsókn á kjörstaðinn, skóla í fátækum hluta Kadiköy-hverfisins, stuttu áður en kjörkössum var lokað. Það var einhver hiti í fólki, en í einu horni garðsins framanvið skólann borðuðu nokkrir glaðlegir Kúrdar tyrkneska pítsu og drukku kók. Einn þeirra, skipuleggjandi kosningaeftirlits HDP í skólanum, rétti mér mat og drykk og bauð mig velkominn. Fólk streymdi inn til að kjósa. Hverfið styður að mestu flokk Erdogans, AKP, og stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, CHP.

 

Allt útlit er fyrir að frambjóðandi CHP, Muharram Ince, mæti Erdogan í annarri umferð forsetakosninganna. Hann, líkt og hinir stjórnarandstöðuflokkarnir, lofar að draga til baka neyðarlögin, efla fjölmiðlafrelsi og spóla stjórnsýslu Tyrklands aftur í það horf sem hún bjó við áður en Erdogan tók að draga hana í harðræðisátt.

 

Fyrstu tölur voru kynntar af fréttaveitunni Anadolu fyrir stuttu og gáfu til kynna að Erdogan hefði gersamlega rústað kosningunum. Þetta er aðferð sem fréttaveitan hefur notað áður, sem byggir á að birta fyrst niðurstöður úr smæstu hverfunum, þar sem Erdogan nýtur mikils stuðnings. Þær gefa kolranga mynd af niðurstöðunum og ofmeta fylgi hans, og AKP, um 10-20%. Öllu veigameiri eru ábendingar frá talningareftirliti stjórnarandstöðunnar, sem segir að þau séu að sjá allt aðrar tölur en er verið að birta opinberlega. En ekkert er víst um úrslit enn, þrátt fyrir þá miklu vinnu sem Erdogan hefur lagt í að tryggja þau sér í hag. Síðustu kosningarnar eru ekki búnar enn.

 

Viðbót: HDP mælist nú með yfir 11% atkvæða, jafnvel hjá Anadolu fréttaveitunni. Bandalagsflokkur AKP og Erdogan, hinn ofur-þjóðernissinnaði MHP, hefur hins vegar aukið við fylgi sitt með ótrúlegum hætti. Flokkurinn háði nær enga kosningabaráttu og mældist með helmingi lægra fylgi í skoðanakönnunum. Auk þess á hann að hafa bætt við sig fylgi í Kúrdahéruðum, merkilegur árangur fyrir flokk sem vill láta sleppa lausum leigumorðingjum sem drápu Kúrda.

Kjörstjórn Tyrklands, sem er undir hæl Erdogan, hefur þagað þunnu hljóði í allt kvöld, þótt Erdogan hafi nú lýst yfir sigri í forsetakosningunum en stjórnarandstaðan hafi lýst því yfir að hann hafi ekki sigrað. (Kl. 00:50 að staðartíma í Tyrklandi.)

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni