Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Hlutdeild Evrópu í eyðileggingu Afrin

Hlutdeild Evrópu í eyðileggingu Afrin

Í morgun tóku hersveitir og bandamenn Tyrklands yfir borgina Afrin. Það þurfti ekki mikið til -- bara innrás, fjöldamorð og að slökkva á vatnsrennsli til borgarinnar. Því til viðbótar voru hundrað blaða- og stjórnmálamenn í Tyrklandi teknir í varðhald fyrir að gagnrýna árásina, auk næstum þúsund almennra borgara sem dirfðust að rægja þetta gæluverkefni Erdogans á samfélagsmiðlum.

Tilgangur Erdogan með þessari innrás er að slátra einu vonarglætunni sem eftir lifir í Sýrlandi. Í kjölfar arabíska vorsins tóku Kúrdahéruð Sýrlands yfir stjórn á eigin landskika, hröktu burt ISIS og settu á fót kvenréttindamiðað og andfasískt samfélag í norðri landsins. Erdogan þótti það ekki gott. Burtséð frá því að hann er sjálfur karlremba og fasisti, þá er hann með stórt Kúrdahérað í eigin landi, og langar ekki að það fái stuðning hinumegin við landamærin. Hann virðist hafa á prjónunum að rústa byltingunni og fara svo heim aftur. Kannski hann styrki málaliða í Sýrlandi til að búa til einskismannsland milli sín og Assad. Í öllu falli vill hann pólitíska eyðimörk sunnanvið landið sitt, svo hann geti haft sína hentisemi í eigin landi.

Evrópa hefur verið furðu þögul yfir þessu máli. Aðstoðarutanríkisráðherra í Þýskalandi pípti eitthvað um hana og þýskur þingmaður af tyrkneskum ættum þurfti að láta yfir sig ganga að vera kallaður "terroristi" af sendinefnd tyrkneska ríkisins í febrúar. Meðal skriðdrekanna sem aka um í Sýrlandi þessa dagana eru þýskir Leopard-drekar.

Það er þó ekki bara vegna viðskipta- og hernaðartengsla sem Evrópa kyngir stoltinu. Heimsálfan reiðir sig á Tyrkland sem skrúftappa á sýrlensku flóttamannakrísuna. Veturinn 2015-16, þegar um milljón flóttamenn komu til Evrópu, voru reglulega haldnir fundir með Erdogan og þáverandi forsætisráðherra hans, Davatoglu. Í einum þeirra lýsti Erdogan fyrir Donald Tusk og Jean-Claude Juncker, tveimur ofurmennum Evrópusambandsins, hvernig hann gæti opnað og lokað fyrir flóttamannastraum til Evrópu einsog á krana. Í pappírum sem láku eftir fundinn má sjá hversu hrokafullan og niðrandi tón hann leyfði sér að nota.

Erdogan hafði drjúga ástæðu fyrir þessari fyrirlitningu. Í upphafi landsföðurferils síns reyndi hann að laga Tyrkland pólitískt og efnahagslega að Evrópu, til að geta verið með í Evrópusambandinu. Það gekk vel, hann rýmkaði réttindi Kúrda og efldi mannréttindi og þriðja geirann, þar til ESB skellti á hann dyrunum. Mörg mál áttu sök á því, og kannski var eitt þeirra að í Tyrklandi er brúnt fólk sem trúir á íslam. Og hvort sem það var ástæðan eða ekki, þá túlkaði Erdogan það einmitt svoleiðis.

Ef til vill hefði mátt spila betur úr samskiptum Tyrklands og Evrópu á sínum tíma, en haustið 2015 fann Erdogan blóðlykt. Sýrlenskir flóttamenn streymdu til Evrópu. Þeir vildu sleppa frá stríði heimafyrir og undan harðstjórn og fátækt í Tyrklandi. Evrópa var fyrirheitna landið, heimsálfa réttinda og réttlætis. Evrópa reyndi í örvæntingu að stoppa þá. Yfirvöld í norðri álfunnar, sum ríkustu lönd heims, keyptu auglýsingar í arabískum blöðum til að fæla fólk burt. Fundir voru haldnir trekk í trekk um krísuna. Á sama tíma vann Erdogan að því að herða tak sitt á tyrkneskri stjórnsýslu. Hann sá sér leik á borði.

Á meðan evrópskir stjórnmálamenn smjöðruðu fyrir honum drap hann einn fjölmiðil á fætur öðrum heimafyrir og spólaði tilbaka réttindi Kúrda og pólitískra andstæðinga sinna. Heimsálfa friðar, jafnréttis og mannréttinda horfði þögul á, með roða í kinnum. Í mars 2016 sendi Erdogan óeirðalögreglumenn inní stærsta dagblað Tyrklands og slökkti á því. Fréttamenn án landamæra sendu ákall til evrópskra leiðtoga um að standa í lappirnar gegn Erdogan, að leyfa honum ekki að kúga sig. Það var hunsað. Tveimur vikum seinna undirritaði Erdogan samkomulag við Evrópusambandið um að taka tilbaka alla flóttamenn sem slyppu úr Tyrklandi til Evrópu. Þetta samkomulag er enn í gildi.

Þögnin sem þetta hefur keypt Erdogan hefur ekki bara hjálpað honum í að drepa í pirrandi fjölmiðlum. Hún hefur líka dregið úr kjarki andspyrnunnar gegn honum. Og í dag keypti hún honum svigrúm til að berja á vonarglætunni í Rojava, í lýðræðisbyltingu Norður-Sýrlands.

Það er sárt og niðurlægjandi að búa í heimsálfu sem þegir yfir stríðsglæpum til þess eins að geta svipt flóttamenn réttindum sínum. Því miður er það einmitt heimsálfan sem við búum í. Evrópskir stjórnmálamenn hræðast popúlíska byltingu, og til þess að koma í veg fyrir hana gera þeir allt sem þeir segja að popúlistarnir myndu gera: loka úti þá sem biðja okkur um hjálp, styðja við einræði og harðræði, svíkja eigin lágstéttir og blammera fólk í Miðausturlöndum fyrir allt sem miður fer. Við eigum betra skilið -- og íbúar Afrin og sýrlenska Kúrdistan eiga skilið að við stöndum með þeim.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu