Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Þegar Trölli stal verðbólgunni

Þegar Trölli stal verðbólgunni

Í nóvember 2008, innanum hrun og bruna í bankakerfinu, var Barack Obama kosinn forseti í Bandaríkjunum. Hundruð þúsunda voru að missa vinnuna og fjöldinn allur var pískaður úr húsnæðinu sínu. Samt hafði ríkisstjórn Bush yngri bara dælt peningum í gjaldþrota bankana. Obama lofaði “breytingum sem við getum trúað á” og, á plakötum með mynd af honum horfandi uppí framtíðina: “von”.

Obama réð umsvifalaust “Mr. Bailout”, Timothy Geithner, sem fjármálaráðherra. Geithner átti að halda til streitu sínu mikilvæga starfi, að sulla eins miklum peningum uppí bankana einsog þeir gátu torgað, og helst aðeins meira. Obama gaf honum lausan tauminn. “Og láttu mig bara um pólitíkina,” sagði hann, sem þýddi: láttu mig um almannatengslin. (Tilvitnunin kemur úr endurminningum Geithner, Stress Test, sem kom út 2014.)

Þetta þótti ekki mörkuðunum ekki nóg. Til að róa þá (á meðan fólki var fleygt úr húsunum sínum dag eftir dag) voru peningar prentaðir um öll lönd og lánaðir vaxtalaust til stórfyrirtækja. Allir áttu að fá peninga, svo hagkerfið kæmist aftur í gang. Nema almenningur, auðvitað. Eins og Geithner orðaði það, “við vissum að við myndum ekki geta hindrað milljónir nauðungaruppboða.” Það væri of flókið og erfitt. Miklu einfaldara að láta bara bankana fá peninga.

Tvö hávær lið hagfræðinga byrjuðu að rífast yfir þessum aðgerðum. Eitt liðið, íhaldsmegin, sagði: ef við prentum svona mikið af peningum, þá verður til verðbólga, og þá skemmist allt. Hitt liðið, frjálslyndismegin, sagði: ef við prentum ekki svona mikið af peningum, þá frýs allt hagkerfið, enginn kaupir neitt og allt fer á hausinn. Frjálslynda liðið sagði að þannig hefði Keynes bjargað heiminum í síðustu kreppu. Þegar enginn banki þorði að lána peninga og fólk varð atvinnulaust, þá yrði að dæla út peningum svo fólk myndi kaupa dót og verksmiðjurnar færu aftur í gang.

Bæði liðin þögðu um eitt: Keynes vildi að almenningur, ekki fyrirtæki, fengju peningana frá ríkinu.

Áratug síðar bólar ekkert á verðbólgu. Seðlabankastjórar um allan heim hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að koma henni á skrið, en ekkert virkar. Þeir hella og hella peningum til fyrirtækja og banka, þeir gefa betri og betri vaxtakjör, en ekkert tekst. Verðbólgan á heimsvísu er næstum dauð.

Íhaldshagfræðingarnir hafa horfið í vandræðalega þögn, en þeir frjálslyndu leika við hvern sinn fingur. “Sko, hvað allar hagtölurnar eru grænar” segja þeir, skála fyrir Timothy Geithner og hlæja svo saman að íhaldinu.

En ekki er allt sem sýnist.

Ástæðan fyrir því að íhaldið spáði verðbólgu var nefnilega góð og gild. Þegar peningum er dælt inn á markað, þá hækka verð á þeim markaði nema vörum fjölgi í leiðinni. En inn á hvaða markað var peningum dælt? Til banka og stórfyrirtækja – á hlutabréfamarkaði. Þar hafa verð rokið upp. En það er ekki kallað verðbólga, heldur góðæri, því það er gott fyrir eigendur samfélagsins. Við hin, sem erum föst í skítadjobbum og hrynjandi velferðarkerfi, þurfum hvorki að hafa áhyggjur af verðbólgu né óvæntum peningagjöfum frá ríkinu. Við skiptum ekki máli. Við mætum afgangi.

Þegar seðlabankar hætta loksins að prenta peninga ofaní óseðjandi markaði, þá mun þetta svokallaða góðæri þurfa að standa á sínum eigin veiklulegu fótum. Eða deyja drottni sínum, og hrynja í næstu kreppu. Og gettu nú hver mun þurfa að taka á sig skellinn af því.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu