Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Fordómareglan

Fordómareglan

Í vikunni var birt hér á þessum miðli siðfræðilega þrekvirkið Gestgjafareglan. Þar býr Kristján Hreinsson Skerjafjarðarskáld til þumalputtareglu fyrir mannkynið vegna þeirra fólksflutninga sem nú eiga sér stað um heiminn. Einsog hann bendir á hafa umræður um málefnið "meira og minna snúist um rökvillur og hártoganir" þar sem "klisjur, plebbamennska og lýðskrum" hafa sett tóninn. Sem betur fer hefur hann einfalda leið til að útlista þá "óendanlega flóru grárra tóna" sem sannleikurinn er smíðaður úr.

Aðferðafræði hans er barnslega einföld, enda uppfundin "til að skýra fyrir börnum nokkur hugtök sem hafa með mannleg samskipti að gera." Til að gefa okkur hugmynd um gráa tóna skiptir Kristján fólki í Evrópu fyrst í tvo hópa, okkur og hina, heimamenn og innflytjendur, gestgjafa og gesti. Hann útskýrir hjálplega hver munurinn milli okkar er: evrópskum konum "er síst umhugað um fjölgun" meðan kvenkyns innflytjendur "hafa það markmið að eignast eins mörg börn og frekast er unnt". Hann vitnar í vin sinn frá Egyptalandi sem sagði honum að "stefna flestra múslímskra ungmenna" sem koma hingað sé fyrst og fremst "að eyða vestrænni menningu".

Með þessa "óendanlegu flóru grárra tóna" í huga býr skáldið svo til "einfalda reglu" sem "sækir mátt sinn í ... gagnrýna hugsun". Reglan er svona: Boð og bönn gestgjafans ber að virða í einu og öllu.

Þetta er allt gott og blessað, og hamingjunni sé lof fyrir gráu tónana, en hverjir eru gestgjafarnir? Eru þeir hvítir? Kristnir? Varla eru það múslimar, því Kristján vill að "menn láti sér nægja að iðka trú í einrúmi", og varla vill hann banna "Guð blessi Ísland" og krossinn oná ferðamannastaðnum Hallgrímskirkju. Auk þess bendir hann með velþóknun á hvernig vafasömum moskum var lokað í Austurríki. Einsog hann bendir á, til að útlista hvernig þau eru ólík okkur, þá voru moskurnar í Austurríki notaðar til að "ota óæskilegum áróðri að fólki í nafni trúar".

Kristján fer ekki í saumana á því hvað ætti að gera við kaþólsk trúarhús, þar sem prestar hafa líka "otað" hlutum í aldanna rás. Skýringin virðist vera að moskur "falli einfaldlega ekki að okkar menningu". Okkar menningu, sjáið til, sama þótt til séu tugmilljónir íslamskra Evrópubúa -- og þónokkrir á Íslandi líka. Kannski væri það fullgrár tónn útí "gagnrýnu hugsunina", en væntanlega er kristni einfaldlega undanskilin, á þeirri gullnu siðspekilegu reglu að við hreinræktuðu Evrópubúarnir ráðum.

Ég ætla ekki að gerast svo djarfur að vitna í þá tugi "gesta" sem ég hef átt samneyti við undanfarin ár, því ef ég hef skilið þá rétt vildi enginn þeirra "eyða vestrænni menningu", sem hlýtur að þýða að mig hefur skort þá "aðlögunarhæfni, gagnrýni og ígrundun" sem liggja gestgjafareglunni til grundvallar. Kristján hlýtur einfaldlega að hafa nýtt djúpa heimspekilega íhugun, og samtal við einn Egypta, til að finna og skilja þann "vanda sem er til kominn vegna árekstra ólíkra menningarheima." Við, Evrópubúarnir, sem skiljum frelsi og kvenréttindi, eigum ekki að þurfa að þola að gestirnir "troða gestgjafanum um tær" með þvílíkum óskunda einsog ef nýbúaútlendingur "gerir kröfu um að fá að klæðast með tilteknum hætti". Þvílík og önnur eins bíræfni á ekki heima í heimsálfu mannréttinda og frelsis og grárra tóna og gagnrýnnar hugsunar.

Grein Kristjáns er siðferðilegt tour de force af þvílíkum ofsa að smámunir verða eftir í vegkantinum. Hann tilkynnir okkur mörgum sinnum í greininni að við höfum "réttindi og skyldur", en útskýrir svo bara okkar réttindi og þeirra skyldur. Mér leikur hugur að vita hver þeirra ábyrgð er á öðrum múslimum sem drepa gestgjafa sína, eða okkar ábyrgð á evrópskum prestum sem nauðga börnum. Eða, svo ég gerist djarfari, þeirra ábyrgð á einræðisherrunum sínum og gjörðum þeirra, og okkar ábyrgð á lýðkjörnum yfirvöldum. Hver er til dæmis þeirra ábyrgð á stríðinu í Írak, sem okkar yfirvöld lögðu nafn Íslands við? Hver er ábyrgð Afgana á stríðinu sem eyðilagði heimkynnin þeirra, stríðinu sem gerði þeim ómögulegt að setja sig nokkru sinni framar í hlutverk gestgjafa? Hver er ábyrgð okkar, ríkustu heimsálfu veraldar, sem hefur stundað stríð oft í báðum þessum löndum af okkar eigin ástæðum, gagnvart heimilislausu fólki með rústuð líf?

Kannski er okkar ábyrgð mannúð, þolinmæði, skilningur og hjartahlýja. En kannski ekki. Kannski er hún tortryggni, hroki og aðskilnaður, og uppskipting veraldarinnar í þá sem verðskulda frelsi, frið og réttindi, og þá sem fá skyldur, stríð og vosbúð -- nema þau hlýði okkur og virði "í einu og öllu".

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu