Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ég kalla á lífgun Laugavegar

Ég kalla á lífgun Laugavegar

Með hækkandi sól eykst fjöldi þeirra sem sækja Laugaveginn. Gaman getur verið á góðviðrisdögum að ganga niður aðalverslunargötu Reykvíkinga, njóta mannlífsins og þeirrar stemningar sem þar getur myndast. En eins og við flest vitum er mikið um framkvæmdir á þessu svæði um þessar mundir sem setur ákveðið strik í reikninginn.

Eins og staðan er núna er aðgengi fyrir gangandi vegfarendur á Laugaveginum verulega slæmt á löngum köflum. Þú þarft ekki að ganga langt til þess að lenda á hindrun þar sem þú þarft að troða þér á milli afgirts vinnusvæðis og bíls á ferð. Þess á milli eru gangstéttir fullar stóran hluta dags. Skert aðgengi getur komið sérstaklega illa niður á þeim sem notast við hjólastól og fólki með barnavagna. Á heildina litið kemur þetta niður á umferðaröryggi almennt.

Ég skora því á borgaryfirvöld að flýta opnun sumargötu á Laugavegi.

Ég dreg það í efa að verslun á Laugavegi standi og falli með þeim örfáu bílastæðum sem á honum eru. Lifandi gata er líklegri til þess að gefa meira af sér en gluggaverslun (e. window shopping). Fjölmargar kannanir hafa verið gerðar um ánægju/óánægju vegna sumargatna. Útkoman er alltaf sú sama, um 75% borgarbúa og 60% rekstraraðila við Laugaveg eru ánægðir.


Einnig má benda á að lengi vel stóð talsvert mikið af verslunarhúsnæði  tómt við Laugaveg. Þær aðstæður voru fyrir tíma sumargatna vel að merkja en þá var ökumönnum frjálst að aka hvenær sem er niður Laugaveg og Bankastræti. Ef verslunarfólk telur að dræm verslun sé vegna lokunar gatna þá er það sennilega að leita eftir skýringum á röngum stöðum. Sem betur fer er líflaus og tómlegur Laugavegur liðin tíð og meirihluti rekstraraðila hefur verið hlynntur þessari breytingu.

Göngugötur þekkjum við í flestum borgum. Þetta er spurning um breytta tíma og að hagræða í átt að mannvistlegri og vistvænni háttum. Staðreyndin er sú að Laugavegur hefur aldrei verið eins fjölfarinn og nú. Ég hef fulla trú á að rekstraraðilar, sem margir hverjir hafa séð tímana tvenna, eigi eftir að aðlagast þessum breytingum sem eru að eiga sér stað og muni jafnvel kunna að meta þær. Þá verður ánægjulegra fyrir okkur öll að njóta þeirrar menningar og mannlífs sem Laugavegurinn hefur upp á að bjóða. 


Stefán Pálsson tók myndina

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu