Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Hugleiðingar um fuglalíf

Hugleiðingar um fuglalíf

Í náttúru Íslands er margt bæði áhugavert og fróðlegt að finna, jarðsaga landsins er merkileg í marga staði og flóran okkar er litrík og falleg. Upplýsingar um fjölda villtra dýrategunda hér á landi eru þó að skornum skammti.

Hér má finna hreindýr, refi, minka, skordýr og fiska af ýmsum ættum og flokkum, síðast en ekki síst er hér fjöldi fugla af ýmsum tegundum. Bæði á sjó og landi er auðvelt að sjá þá, hvort sem við erum á hálendi eða láglendi. Svo má  einfaldlega fylgjast með litlum garðfuglum í gegnum eldhúsgluggann hjá okkur, en margir þeirra byggja fæðuöflun sína á matargjöf frá okkur fólkinu í vetrarharðindum. Þeir eru partur af daglegu lífi okkar og þurfum við að læra að meta fegurð þeirra og frelsi. Góður vinur minn, Einar Ólafur Þorleifsson, sem starfað hefur með mér við fuglarannsóknir hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sagði við mig einn sólbjartan sumardag: „allir fuglar eru áhugaverðir“. Þetta fékk mig til þess að hugsa að það er að öllu leyti rétt hjá honum. Þar sem hver og ein tegund er einstök og hefur sínar leiðir til þess að komast í gegnum líf sitt til dæmis hvað varðar hreiðurgerð, fæðuöflun, fæðu, flugtækni, varp atferli eða hvort fuglinn er farfugl eða staðfugl.

Sumir fuglar para sig til lífstíðar og má þá nefna álftina (Cygnus cygnus) sem hefur lengi vel verið ástartákn og er alfriðuð. Þó svo að þessir tignarlegu fuglar séu ástartákn getur komið upp skilnaður milli einstaklinga og kemur fyrir að fuglar taki hliðarskref í ástarmálum, en skilnaðurinn orsakast þó fyrst og fremst af því að illa gengur í varpi. Pör sem ekki hafa passað saman reyna í um það bil tvö til þrjú skipti en ef varp gengur ekki upp eftir þann tíma skilja þau. Óðinshaninn (Phalaropus lobatus) fer hinsvegar aðrar leiðir en álftin því þar er það kvenfuglinn sem á frumkvæðið í tilhugalífinu og sér karlfuglinn um álegu og uppeldi unga. Kvenfuglinn lætur sig hverfa beint eftir varp og leitar á vit ævintýranna og getur oftar en ekki verið með fleiri en einum karlfugli og stundar hún því fjölveri. Á vorin er margt spennandi að gerast í tilhugalífi fugla og þegar það rennur í garð má heyra fuglasöng óma um mela og móa. Makaval fugla er einnig afar áhugavert en staðreyndin er sú að fuglar velja sér ekki alltaf fyrsta fuglinn sem er á boðstólum heldur er val á maka mun flóknara fyrirbæri. Margir þættir spila inn í þá ákvörðun rétt eins og hjá okkur mannfólkinu.

Fánu okkar er skipt þannig að reglulegir varpfuglar eru um 77 talsins og eru staðfuglar þar af 21, að nokkru farfuglar 9, að mestu farfuglar 24 og algerir staðfuglar 23.

Óreglulegir varpfuglar eru 30,
fargestir/umferðarfuglar 9,
vetrargestir 10,
sumargestir 2,
árvissir hrakningsfuglar 35
óreglulegir hrakningsfuglar 231

Alls eru íslenskir fuglar 394 tegundir.

 

Fána okkar er engu að síður á miklu iði og breytist hún frá áratug til áratugar. Geirfugli og keldusvíni hefur verið útrýmt og hefur haftyrðill verið hrakinn í burtu af óhagstæðum umhverfisskilyrðum. Árið 1844 var síðasti geirfuglinn drepinn í Eldey en eftir það vita menn ekki um að annar geirfugl hafi verið á lífi í heiminum. Heimkynni hans voru á Norður-Atlantshafsvæðinu. Á árum áður þegar fiskiskip Evrópuþjóða voru til veiða á Nýfundnalandsmiðum varð geirfuglinn fljótt meginfæða veiðimanna. Geirfuglinn var ófleygur og þunglamalegur svo auðvelt var að veiða hann. Þetta að leiddi til ofveiði og veiddu menn langt umfram það sem þeir gátu étið eða jafnvel borið. Stigið var á eggjum þeirra og ill meðferð var á fuglunum sem var afar slæmt, ekki síst vegna þess að geirfuglinn verpti aðeins einu eggi svo ekki var auðvelt að halda í við þessa útrýmingu. Af geirfuglum eru nú til um 80 uppstoppaðir hamir í söfnum.

Með þróun vísinda og tilkomu fuglamerkinga má þó fylgjast betur með stofnstærðum tegunda, þéttleika, ferðum og líftíma fugla. Til gamans má geta að lífslíkur fýlsins (Fulmarus glacialis) eru um 60 ár. Þessi fugl hefur verið titlaður máfur af almenningi þótt hann sé það ekki, fýllinn er pípunasi eða stormfugl (Procellarii-formes), skyldur albatrosum og er af fýlingaætt. Fuglamerkingar gefa okkur einnig færi á því að fylgjast með ferðum fuglanna. Merkingar fara þannig fram að á fætur fuglanna eru settir ál-, stál- eða plasthringir sem grafið er á númer og staður, sem senda skal á ef fuglinn finnst. Á stórum fuglum t.d. álftum, gæsum, spóa og jaðrakan eru sett litmerki annaðhvort á háls eða fótlegg. Merkið er stórt svo hægt sé að greina það sem stendur á því með kíki eða af ljósmynd. Með þessari aðferð er hægt að fylgjast með fuglum og ferðum þeirra á meðan þeir eru lifandi en erfitt getur verið að gera það á smáum fuglum þar sem letrið á merkinu er afar smátt.

 

Kríuna (Sterna paradisaea) þekkir hvert mannsbarn á Íslandi en hún er af þernuætt og er strandfugl. Krían er bæði ótrúlega fagur og fjörugur fugl. Varp pör eru á milli 250.000-500.000 og eru kríuvörp víðast hvar um landið en láglend strandsvæði og eyjar þeirra eru helsta kjörlendið. Hún lifir aðallega á sandsíli við sjávarsíðuna en hornsíli inn til landsins. Kríuvarp hefur gengið afar illa undanfarin ár og ungadauði verið mikill og má rekja það til baráttunnar um sandsílið, þar sem mörg dýr, bæði fuglar og fiskar sækja óspart í það en sandsílinu hefur fækkað vegna hlýnunar af völdum loftslagsbreytinga. Hvað merkingar varðar hefur það komið í ljós að krían á metið í lengsta farfluginu. Vetrarstöðvar hennar eru í Suður-Atlantshafi við Suður-Afríku og Suður-Íshafi við Suðurskautslandið og alla leið austur til Ástralíu. Varpheimkynni hennar eru þó allt í kringum Norðurheimskautið, í Evrópu og suður til Bretlands og Hollands. Lífslíkur hennar eru um 28 ár og er talið að á líftíma hennar jafngildi farflug hennar sömu lengd og til tunglsins  fram og til baka, tvisvar sinnum.


Það er alveg ótrúlega mikið til í heimi fuglanna sem er hreint ótrúlegt og er augljóst að á einni mannsævi væri ekki hægt að læra allt sem viðkemur þessum litríku og skemmtilegu dýrum. Eins og vísindamenn annarra greina sérhæfa dýravistfræðingar sig á ákveðnum sviðum sem gerir almenningi kleift að komast í gögn og fræðirit sem skrifuð hafa verið af fólki sem hefur gert það að ævistarfi að fræðast og rannsaka hvern einasta þátt sem viðkemur þessum efnum. Þetta þýðir ekki að til þess að hafa áhuga á fuglum þurfi hver og einn að hella sér í langan og strangan lestur fræðirita til þess að eiga sinn fuglaáhugatitil, þvert á móti. Aukinn áhugi á fuglaskoðun hefur verið mikill á síðustu árum og eru ferðaþjónustur á Íslandi að selja þar til gerðar fuglaskoðunarferðir þar sem áhugi á fuglum er að sjálfsögðu alþjóðlegt áhugamál. Sumir hafa áhuga á fuglafræðum, aðrir taka myndir af þeim og margir láta sér nægja að fylgjast með þeim út um gluggann heima hjá sér. Eins og áður kom fram er dýraríki á Íslandi ekki mikið í samanburði við aðrar þjóðir en fyrir þá sem hafa áhuga á dýrum á einn eða annan hátt mæli ég hiklaust með því fyrir ykkur að útvega kíki og taka rúnt eða göngutúr og athuga hvort þið finnið ekki eitthvað sniðugt. Útbúnað til fuglaskoðunar er auðvelt að verða sér út um og þarf hann ekki að vera dýr. Kíkir með sjö til tífaldri stækkun, góð greiningarbók (Íslenski fuglavísirinn eftir Jóhann Óla Hilmarsson er mjög góð
 og vasabók til þess að skrá niður það sem þið sjáið, hvar og hvenær).

 

Fólk á það til að leita oft langt yfir skammt þegar ákveða á hvert skuli fara. Óþarfi er fyrir byrjendur að fara leggja í einhverjar langferðir þar sem auðvelt er að finna  tegundir hér á höfuðborgarsvæðinu t.d. Bakkatjörn á Seltjarnarnesi, Hliðsnes á Álftanesi, Reykjavíkurtjörn, Vatnsmýri, Heiðmörk, Öskuhlíð og svo lengi mætti telja.


Hugsum um bláu kúluna og á sama tíma verum góð við hvort annað.

Gleðilegt sumar.

 

 

Alex Máni tók myndina.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni