Flækjusagan

Hinn dularfulli Amerike og Íslendingur hans

Illugi Jökulsson hefur löngum verið heillaður af sögunni um hver gaf Ameríku nafn sitt. Var það Amerigo Vespucci eða kannski Richard Amerike?

Árið 1503 lá rúmlega sextugur kaupmaður banaleguna í Bristol, hafnarborg við samnefndan fjörð, sem skerst langt inn í vesturströnd Bretlands og skilur milli Wales og Englands. Þessi kaupmaður var raunar velskur að uppruna en virðist snemma hafa sest að í Bristol og komst þar til heilmikilla metorða. Þegar hans verður fyrst vart í skjölum er hann að sýsla með fisk frá Írlandi og síðar verður þess vart að hann fer söluferðir til Frakklands, Spánar og Portúgals. En hann hefur sambönd víðar og í starfsliði hans er að minnsta kosti einn Íslendingur. Það þarf ekki að koma ýkja mikið á óvart. Fjórtánda öldin er kölluð enska öldin í sögu Íslands því þá voru enskir kaupmenn ráðandi í utanríkisverslun Íslendinga og höfðu hér mikil áhrif. Margir Íslendingar fóru til Bretlands til lengri eða skemmri dvalar.

Þegar velski kaupmaðurinn var kominn undir fimmtugt var ljóst að hann var kominn í hóp mektarmanna í Bristol. Hann var þá orðinn borgari, sem kallað var, enda auðugur landeigandi þegar hér var komið auk þess að stunda enn kaupmennsku víða um lönd. Honum voru líka falin embætti á vegum krúnunnar, fyrst í tollgæslunni en svo var hann orðinn fógeti.  

Leitin að dularfullri Brasilíu

Og með hverju árinu jukust umsvif hans. Árið 1497 var mjög sennilegt (en vissulega ekki alveg öruggt) að kaupmaðurinn okkar hafi verið meðal þeirra sem kostuðu leiðangur ítalsks landkönnuðar, Giovanni Coboto, sem hafði fengið leyfi Hinriks VII Englandskóngs til að leita dularfullrar eyjar sem átti að heita Brasilía og var talin langt í vestri og átti að búa yfir miklum auðæfum, líklega partur af Asíu. Sögur um eyjar eða lönd langt í vestri voru engin tíðindi fyrir kaupmenn og fiskimenn í Bristol, kannski höfðu þeir þegar siglt þangað til fiskveiða og kannski hafði Íslendingurinn í starfsliði kaupmannsins líka sagt honum frá gömlum bókum sem til voru í heimalandi hans og greindu frá landafundum víkinga í vestri fyrir tæpum 500 árum. En Caboto vildi nú gera gangskör að landafundum. Aðeins fáeinum árum fyrr hafði annar Ítali fundið siglingaleiðina til Indlands, að því er talið var, með því að sigla í vestur frá Spáni, þetta var Genúamaðurinn Cristoforo Colombo, og nú vildi Caboto ekki vera minni maður. Með stuðningi Bristol-kaupmanna, þar á meðal og sennilega ekki síst okkar manns, þá náði hann að finna þokuslungna eyju langt úti í hafi. Hvorki lágu þar gullmolar né demantar á jörðu en þetta ný fundna land er síðan kallað Nýfundnaland. Coboto sæfari, sem enskir kalla John Cabot, gufaði síðan upp úr sögunni og er nú öngan veginn sama númerið og Colombo, eða Kólumbus.

En kaupmaðurinn okkar gat litið sáttur yfir farinn veg þar sem hann lá banaleguna nokkrum árum síðar. Hann hafði orðið ríkur, komist til margvíslegra veraldlegra metorða og fékk meira að segja sitt eigið skjaldarmerki eins og fínt fólk í þá daga. Kannski var skjaldarmerkið upp á vegg í herberginu þar sem hann tók síðustu andvörpin; kannski var þetta skjaldarmerki það síðasta sem hann sá, rendur þess og stjörnur; hann gat verið ánægður með þetta skjaldarmerki, rendur og stjörnur, já, en þó gat hann varla vitað eða gert sér vonir um að löngu seinna yrði þetta skjaldarmerki hans fyrirmyndin að fána sem nýtt ríki þar í löndunum í vestri valdi sér, mesta stórveldi heimsins skarti röndum hans og stjörnum, og öll hin ný fundnu lönd í vestri  yrðu raunar nefnd eftir honum, tvær heilar heimsálfur myndu bera nafn hans, það var ekki slakur árangur í lífinu fyrir velskan fiskikaupmann, Richard Amerike. 

Var hann til í alvörunni?

En bíðum nú við. Richard Amerike? Var hann til í alvörunni? Og eru Ameríkurnar tvær nefndar eftir honum? Og er skjaldarmerki þessa fiskikaupmanns og tollstjóra virkilega fyrirmynd að bandaríska fánanum?

Nú er það viðtekinn vísdómur að Ameríkur séu nefndar eftir Amerigo Vespucci sem var enn einn ítalski landkönnuðurinn sem var á ferðinni um aldamótin 1500. Auðvitað hefði verið eðlilegast að Evrópumenn nefndu þær eftir Kristófer Kólumbusi því það voru landafundir hans við Karíbahaf árið 1492 sem urðu svo afdrifaríkir, og það hefur allt þótt nokkur leyndardómur hví nöfnin Norður- og Suður-Ameríka urðu ofan á en ekki Norður- og Suður-Kólumbía.

Amerigo Vespucci
Amerigo Vespucci Hann gerði aldrei kröfu til að lönd yrðu nefnd eftir sér og minntist aldrei á neitt þvíumlíkt. Var það af einskærri hógværð eða af því hann vissi að heitið „America“ var alls ekki dregið af nafni hans?

Hin opinbera útgáfa á því af hverju nafnið Ameríka varð ofan á er þessi:

Flórensbúinn Amerigo Vespucci fór svo leiðangra vestur yfir Atlantshaf á árunum 1499–1502. Í þeim síðari sigldi hann að ströndum Suður-Ameríku (sem síðar hét svo) og mun hafa náð suður að ósum Amazon-fljótsins. Landið þar um slóðir fékk svo um síðir nafnið Brasilía, sem eyjan sem Caboto var að leita að langt í norðri um sama leyti átti að heita.

Hvað sem því líður, skrif Vespuccis um ferðir sínar áttu á endanum mikinn þátt í að menn áttuðu sig loks á því að eylöndin sem Kólumbus og fleiri höfðu fundið voru ekki út af austurströndum Kína eða Indlands, heldur voru þau hluti af alveg óþekktri heimsálfu eða heimsálfum.

Kólumbus sjálfur dó 1506 án þess að hafa áttað sig á þessu.

Vitað er að Vespucci teiknaði kort af landsvæði því sem hann rannsakaði en það kort glataðist og er því ekki vitað hvaða heiti hann sjálfur gaf landinu. 

Waldseemüller teiknar kort

Árið 1507 gaf þýskur prentari að nafni Thomas Waldseemüller út bók um ferðir Vespuccis. Í bókinni var meðal annars kort yfir ferðirnar sem Waldseemüller byggði á því korti Vespuccis sem nú er týnt. Og á korti Waldseemüllers er orðið „America“ notað í fyrsta sinn, en að því er virðist aðeins yfir hluta suðurálfunnar (Suður-Ameríku sem nú heitir). Ekki er vitað hvort Waldseemüller tók nafnið af korti Vespuccis en hann virðist altént ekki hafa fundið það upp sjálfur, því í formála segist hann gera ráð fyrir að nafnið „America“ sé dregið af fornafni Amerigo Vespuccis.

Kort Waldseemullers
Kort Waldseemullers

Aðdáendur Kólumbusar kvörtuðu við Waldseemüller og vildu nefna hin nýju lönd eftir sínum manni, svo í næstu útgáfu bókar hans var búið að taka út nafnið „America“. Rétt er að geta þess að Vespucci sjálfur hreykti sér aldrei af því að löndin í vestri væru nefnd eftir honum og nefndi það aldrei, svo vitað sé. Það var rétt eins og hann kannaðist ekki við það. Svo dó Vespucci 1512. Um þær mundir var komið á daginn að fyrsta útgáfa Waldseemüllers á ferðasögu hans hafði farið svo víða að nafnið Ameríka var orðið fast í sessi. Í þriðju útgáfu Waldseemüllers, sem kom út 1517, birtist heitið Ameríka því aftur yfir hin nýju lönd og eftir þetta var ekki hróflað við því.

Ameríka skyldu hin nýju lönd heita.

(Þess má reyndar geta að þegar Bandaríkin voru stofnuð 1776 var uppi ákveðin hreyfing meðal landsfeðra hins nýja ríkis að nota ekki heitið Ameríku enda ætti það við um mikla stærra svæði en það sem heyrði undir þá. Nær væri að heiðra Kólumbus, og um tíma leit út fyrir að ríkið fengi nafnið United States of Colombia. En íhaldssamir menn urðu ofan á og því fæddist USA.)

Af hverju heitir Ameríka ekki Vespuccia?

En þrátt fyrir að nafnið Ameríka festist í sessi voru ýmsir aldrei alveg sáttir við það og vissulega var nafngiftin furðuleg. Ef Ameríka var í raun nefnd eftir Amerigo Vespucci – af hverju var þá ekki notað nafnið Vespuccia? Þeir sem vildu kenna löndin við Kólumbus létu sér aldrei til hugar koma að tala um Kristóferíu. Af hverju var fornafnið notað í tilfelli Amerigo Vespuccis?

Gæti einhver önnur skýring verið á því af hverju Waldseemüller hafi notað heitið „America“ heldur en sú að hann hafi séð það á korti Vespuccis?

Jú, þá skýringu taldi enskur fræðimaður og grúskari í Bristol sig hafa fundið árið 1908 þegar hann fór að skoða ævi Richards Amerikes og tengsl hans við leiðangur Cabotos til Nýfundnalands árið 1497. Ef raunin væri sú að Amerike hefði kostað og jafnvel að einhverju leyti skipulagt leiðangur Cabotos, gat þá ekki vel átt sér stað að í bréfum Cabotos um landafundi sína – bréf sem nú eru glötuð – hafi hann viljað þakka velgjörðarmanni sínum svo rækilega að hann hafi beinlínis kennt ný fundna landið við Amerike? Og það nafn um hin nýju lönd í vestri hafi svo gegnum einhverja nú óþekkta millilliði borist til Waldseemüllers sem hafi síðan notað það á kort sitt?

Waldseemüller hafi ekki vitað hvaðan nafnið var komið en giskað á að það væri dregið af fornafni Vespuccis, eins og hann nefnir í formála sínum. Um leið hafi hann fært „leiðrétt“ heimildir sínar og fært heitið „America“ frá ný fundnum löndum í norðri til strandlengjunnar í suðri, af því þar vissi hann að Vespucci hafði verið á ferð en þekkti minna eða ekkert til ferða Cabotos í norðri, hvað þá að hann hafi vitað af aðild Amerikes. 

Sannleikur og skjaldarmerki

Fræðimaðurinn enski vissi að líkindum ekki að Amerike hafði verið með að minnsta kosti einn Íslending í sinni þjónustu. Þótt auðvitað verði ekkert um það sagt, þá dregur það að minnsta kosti ekki úr líkum á að Amerike hafi haft mikil afskipti af leiðangri Cabotos. Hafi Amerike verið fróður um Vínlandssiglingar víkinga tæpum fimm öldum áður, gegnum sinn íslenska starfsmann, þá gæti það vel hafa orðið til þess að hann varð viljugri en ella til að styrkja leiðangur Cabotos og jafnvel leggja honum að einhverju leyti línur.

Ameríka
Ameríka Hér má sjá hvar Ameríka er fyrst skráð á korti Waldseemullers.

Það þarf raunar ekki sérstakan sögufróðan Íslending til. Fiskimenn frá Bristol veiddu tíðum þorsk við Íslandsstrendur og kaupmenn þaðan héldu uppi verslun við landsmenn svo sæfarar Bristol höfðu næg tækifæri til að hlýða á gamlar siglingasögur Íslendinga til Grænlands og Vínlands. Og það er reyndar ekki útilokað að breskir fiskimenn hafi verið byrjaðir veiðar við Nýfundnaland jafnvel áratugum áður en Caboto fór í sína ferð, en þeir hafi engum sagt frá því þeir hafi viljað sitja einir af gjöfulum fiskimiðunum þar um slóðir.

Kenning þessa enska fræðimanns, sem Hudd hét, vakti nokkra athygli í byrjun 20. aldar en þar eð engar beinar skjalfestar vísbendingar hafa fundist sem styðja hana, þá verður hún ugglaust aldrei sönnuð. Rannsóknir á skjölum í Bristol og víðar undanfarin 100 ár hafa þó, ef eitthvað, styrkt kenninguna frekar en slegið hana af, nú þegar komið er fram á 21. öld. Og ýmsum fannst það prýðileg vísbending um að hún væri sönn þegar uppgötvaðist hvernig skjaldarmerki Amerikes hefði litið út – með strípum sínum og stjörnum. Gat ekki verið að „sannleikurinn“ um að Ameríka drægi nafn sitt frá velska kaupmanninum Amerike hafi einhvers staðar varðveist undir yfirborðinu í hinum nýja heimi, og þegar fyrsta sjálfstæða ríkið á landsvæði Evrópumanna varð til, þá hafi menn gripið til skjaldarmerkis kaupmannsins og nafngjafans. 

Tómt bull!

Þetta um skjaldarmerkið verður reyndar að flokkast sem tómt bull, ég viðurkenni það fúslega. Það er með öllu óhugsandi að heimildir um skjaldarmerki Amerikes hafi geymst einhvers staðar vestanhafs í næstum 280 ár og síðan verið dregnar fram þegar Bandaríkjamenn lýstu yfir sjálfstæði og vantaði fána. Það er bara of langsótt jafnvel fyrir þá sem hafa gaman af afkimum og hliðargreinum sögunnar. Enda þurfti ekki að leita lengra en til George Washington, yfirhershöfðingja hinna nýfrjálsu Bandaríkja, til að finna röndótt skjaldarmerki með stjörnum ef fánahönnuði Bandaríkjanna vantaði fyrirmynd! En raunar mun skjaldarmerki Washingtons heldur ekki hafa verið notað sem fyrirmynd fánans, þótt svona hittist á.

En að Richard Amerike hafi verið rótin að nafni heimsálfanna en ekki Amerigo Vespucci, það er kannski ekki verulega líklegt en getur þó hæglega fallið í flokkinn „alls ekki óhugsandi“.

Tala nú ekki um ef óþekktur Íslendingur er einhvers staðar á sveimi í bakgrunni atburða. Um leið verður kenningin miklu trúverðugri! 

Tögg

Ameríka Saga

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Dæmdur fyrir hrottalega nauðgun gegn þroskahamlaðri konu – fékk uppreist æru í fyrra

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Pistill

Karlmaður í kventíma

Fréttir

Sveinn segir söguna alla: „Okkur fannst þessi tengsl mjög skrítin“

Fréttir

Brynjar kemur fyrir í gögnunum sem áttu að fara leynt

Fréttir

Brynjar settur af sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Hjalti fundaði með Bjarna og Brynjari eftir að hann var kærður

Fréttir

Dæmdur fyrir hrottalega nauðgun gegn þroskahamlaðri konu – fékk uppreist æru í fyrra

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Pistill

Þessi ótrúlegi óheiðarleiki

Pistill

Karlmaður í kventíma

Fréttir

Faðir forsætisráðherra var meðmælandi Hjalta – ráðuneytið hélt því leyndu