Birgitta Jónsdóttir

Uppgjör við allskonar lýðræðispönk

Birgitta Jónsdóttir gerir upp stjórnmálaferil sinn. Hún ræðir valdabaráttu og veikleika innan flokksins sem hún stofnaði og sína eigin bresti.

Birgitta Jónsdóttir

Birgitta Jónsdóttir gerir upp stjórnmálaferil sinn. Hún ræðir valdabaráttu og veikleika innan flokksins sem hún stofnaði og sína eigin bresti.

Uppgjör við allskonar lýðræðispönk

Við vorum mörg sem fundum hvert annað og gríðarsterka von um breytingar eftir hrun. Við vorum mörg sem lögðum mikla vinnu í að finna leiðir til að koma á þeim breytingum sem eftir var kallað úti um land allt.

Allt þetta fólk sem ég hef kynnst á lífsleiðinni og hefur helgað líf sitt samfélagi sínu fann hvað annað og við vorum fyllt eldmóð. Hið meinta góðæri var ærandi tómlæti gagnvart þeim sem ekkert áttu og mátu ekki endilega lífsgildi sín út frá veraldlegum eigum.

Við fundum hvert annað og bylgja breytinga var yfirvofandi. Ég tók þátt í ótal fundum með allskonar grasrótarhópum og hugþeytingsmótum um hvað við sem samfélag þyrftum að gera til að rétt yrði gefið og hrunið mætti nýta til að breyta til framtíðar þeim kúltúr frændhygli og spillingar, sem hér hefur viðgengist frá stofnun þeirra afla sem oft eru kennd við fjórflokkinn.

Lögð var áhersla á þrískiptingu valds, sjálfstæði dómstóla, valdeflingu almennings, gagnsæi og upprætingu spillingar.

Farvegur hugmynda

Margir sem hafa verið í eilífðar eyðimerkurgöngu sem hrópandinn í eyðimörkinni fundu farveg fyrir hugmyndir sínar í þessa veru og það var ótrúlega mergjað að vera þátttakandi í þessari gerjun og krafti sem óf sig um allt samfélagið.

Í þessari orku og krafti gerði ég fyrstu mistökin. Ég tók þátt í að búa til stjórnmálaflokk vegna þess að það var álit nærri allra grasrótarfélaganna sem spruttu upp úr hruninu að breytingum yrði helst komið á í gegnum Alþingi.

Það verður að viðurkennast að mjög margt af því sem var sagt og gert á þessum tíma spratt af mikilli vanþekkingu á því hvernig kerfið virkar og það er kannski ekkert skringilegt vegna þeirrar leyndarhyggju sem hefur tíðkast hér í kringum störf þingsins og stjórnsýslunnar.

Við í Borgarahreyfingunni lofuðum að opna glugga Alþingis upp á gátt svo að hinir félagar okkar sem voru fyrir utan gætu áttað sig á því hvernig þetta gengur fyrir sig.

Við stóðum með sanni við loforðin og það hafa komið ótal mörg göt í kolsvarta huluna. En það er ómögulegt að lýsa því hve erfitt það var að fá nokkurn skapaðan hlut gerðan í þessa veru á Alþingi.

Hefðir og hindranir

Endalaust var vísað í hefðir og hefðahelganir og ég mun á einhverjum tímapunkti deila þeirri reynslu og vitneskju sem ég komst að með því að vera á þingi í átta ár með almenningi. Því það er með sanni eitthvað sem almenningur á rétt á að vita um.

En semsagt, ég, litli ljóti andarunginn sem hef aldrei borið virðingu fyrir valdi eða valdafólki, var skyndilega án mikils aðdraganda komin inn í þennan furðuheim valdafíkla og fyrirmenna á tímum sem voru miklir örlagatímar fyrir landsmenn.

Mér varð það fljótt ljóst að það var við ofurefli að stríða vegna þess að hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins er algerlega gróin við allt kerfið og stærsti flokkur landsins sem aldrei er kjörinn er yfirfullur af viðhlæjendum þeirra. Flokkur sem stundum er kallaður hulduherinn og ég hef endurnefnt Hulduflokkinn en hann er í raun útfrymi Sjálfstæðisflokksins.

Hulduflokkurinn

Það má aldrei gagnrýna Hulduflokkinn og það má aldrei segja nöfnin þeirra upphátt í samhengi við ábyrgðarlausar gjörðir þeirra í ráðuneytum og undirstofnunum ráðuneyta sem eiga að gæta hagsmuna almennings. Það er búið að haga hnútum þannig að það er nánast ómögulegt að reka þetta fólk og það stjórnar á nákvæmlega sama hátt og rekið er í grínþáttunum Já, ráðherra.

(Auðvitað eru inni á milli vænsta fólk sem á ekki skilið að vera sett í þetta samhengi en rétt eins og þingmenn eru allir settir í sama mengi þá verður svo að vera í þessari greiningu.)

Það er nauðsynlegt að setja þetta allt saman í samhengi til að útskýra af hverju mér fannst mikilvægt að stofna Pírata og berjast fyrir tilveru þeirra á Alþingi þrátt fyrir að hafa litla trú á vægi stofnunarinnar í raunverulegum ákvarðanatökum er varða hagsmuni almennings.

Þegar ákveðið var að leggja Hreyfinguna niður eins og kvað á í samþykktum flokksins þá var ljóst að það voru engir flokkar með neina áherslu á mannréttindi í hinum stafrænu heimum, né samfélagsumbætur í samhengi við þá öru þróun sem hefur átt sér stað með tilkomu internetsins og annarrar tækniþróunar. Þó svo að það mætti finna sameiginleg stef með mörgum flokkum þá voru engir sem voru með djúpstæða reynslu, þekkingu, né hugsjón í þessum málaflokkum.

Tilkoma Pírata

Ég hafði unnið töluvert með píratískum Evrópuþingmönnum sem og öðrum í græna hópnum á Evrópuþinginu á meðan ég var á þingi fyrir Hreyfinguna og þar fann ég skilning og farveg fyrir hugsjónamál er falla undir þá málaflokka sem hinir íslensku Píratar settu fyrst á oddinn. Það hafði skapast mikil stemning og þörf á slíkri þekkingu víða um heim og ákveðin bylting í þessum málum átti sér stað þegar WikiLeaks kom fram í sviðsljósið með stærsta gagnaleka heimssögunnar árið 2010. Ég var á þeim tíma að vinna með þessum samtökum við að finna leið til að gera Ísland að stafrænum griðastað fyrir upplýsingar sem valdafólk vildi helst ekki að kæmu fyrir almenningssjónir þrátt fyrir að þessar upplýsingar ættu heima í almenningsrýminu.

Ég lærði margt á þessum tíma um alvarlega stöðu fjölmiðla í heiminum og fannst nauðsynlegt að finna aðrar leiðir og aðra hugmyndafræði um lagasetningu í heimi án landamæra þegar kemur að gagnasöfnun og birtingu. Út frá þeirri þekkingu varð þingsályktun um að Ísland myndi taka sér afgerandi sérstöðu varðandi upplýsinga- og tjáningarfrelsi (og friðhelgi einkalífs) til. Þessi ályktun var alltaf kölluð IMMI og fékk strax mikinn meðbyr erlendis meðal blaðamanna og annarra er skilja mikilvægi þess að hafa almennilega stefnu og þekkingu á því hvernig taka á þessum breyttu tímum.

Róttækar umbætur í upplýsingagjöf

Mér tókst meira að segja að fá þessa viðamiklu ályktun samþykkta einróma á Alþingi á vorþingi 2010 og hún hefur lifað af og verið í vinnslu hjá öllum ríkisstjórnum sem hafa skipt á milli sín valdakeflinu síðan þá. Ályktunin inniber tíu lagabálka er fjalla um allt frá meiðyrðalöggjöf, upplýsingalöggjöf, vernd heimildarmanna, afnám gagnageymdar, lög um uppljóstrara og svo auðvitað fyrirbyggingu á lögbanni á fréttir.

Ég stofnaði Pírata fyrst og fremst til að tryggja að það væri einhver á þingi sem skildi og brynni fyrir þessum lögum sem og auðvitað nýju stjórnarskránni sem hafði verið snyrtilega komið ofan í skúffu valdsins og liggur þar enn.

Ég var líka heilluð af tilraunum Pírata í Þýskalandi  með valdeflingu félagsmanna sinna með fljótandi lýðræði (Liquid Democracy) og sá fram á að þetta gæti verið snilldarverkfæri fyrir okkur hér heima.

Betra Ísland

Þegar við Píratar buðum fram fyrst ákváðum við að taka Betra Ísland undir okkar væng, enda mörg okkar virkir þátttakendur á vefsvæðinu Betri Reykjavík. Við lofuðum að ef 2% landsmanna myndu styðja hugmynd á Betra Íslandi, þá myndum við taka þá hugmynd inn á þing og berjast fyrir því að henni yrði fundinn farvegur. Það sem var fallegt við þessa hugmynd var að það skipti engi máli hver það var sem legði fram þessa hugmynd, viðkomandi þurfti ekki einu sinni að vera í flokknum, aðalatriðið var að virða vilja almennings og var mjög í anda ákvæðis þar að lútandi í nýju stjórnarskránni.

Önnur aðalmistökin mín á meðan ég var á þingi var að berjast ekki meira og reyna ekki meira að hvetja félagsmenn og almenning til að nota þetta verkfæri. Ég verð að viðurkenna að ég fann mjög lítinn samhljóm eða áhuga innan flokksins gagnvart þessu átaki og það sama má segja um IMMI.

Þegar Píratar fóru síðan að mælast með mikið fylgi í skoðanakönnunum, byrjar það að gerast sem gerist hjá öllum, fólk fór að hafa miklar áhyggjur af því að hafa ekki skoðun á öllu og stefnu í öllu, meira að segja málefnum sem við vissum ekki neitt um og höfðum ekki þekkingu innan okkar raða til að geta lagt fram slíkt af einhverju viti.

Valdabarátta innan flokks

Síðan hófst endalaus sjálfsritskoðun og valdabarátta sem óf sig með ógnarhraða innan flokksins. Allur okkar innri strúktúr var mjög veikburða enda vorum við ný hreyfing með nákvæmlega enga burði til að ætla að gera allt, hvað þá að taka við allri þessari jákvæðu athygli. Í stað þess að þétta raðirnar og byggja traustan grunn um það sem við erum góð í, þá var vefurinn okkar nánast alltaf í steik, kosningakerfið var með viðmót sem bara nördar geta notað og í stað þess að leggja orku í að laga þessa hluti fór öll orkan í yfirborðið og endalaus ný félög, nýjar Facebook-grúppur og orðaskak um túlkun á reglum Pírata. Á meðan fólk fór hamförum í rifrildi um bólusetningar, femínisma, veganisma, isma isma isma á Pírataspjallinu, gekk ekki neitt að stofna sterk félög á landsbyggðinni og það eru ennþá heilu landshlutarnir sem hafa bara örfáa Pírata sem starfa þar og engin félög eru ennþá tilbúin til að boða til félagsfunda og valdeflingar, en samt skal anað út í illa undirbúna kosningabaráttu í sveitarfélögum þar sem nánast ekkert félagsstarf hefur átt sér stað.

Betra Ísland hefði getað leyst mikið af þessum vandamálum og markviss vinna við að fá sem flesta til að taka þátt í verkefninu. Það varð aldrei að veruleika.

Veikleikar Pírata

Helsti veikleiki Pírata er að flokkurinn hefur ekki lagt neina vinnu í að skapa alvöru tengsl við almenning og þekkingu á því hvernig stjórnkerfið virkar með því að vinna að markvissum tengslum þangað inn. Það verður að viðurkennast að það var mér nokkur léttir að flokkurinn varð ekki aðili að ríkisstjórn, enda ekkert að því að viðurkenna að við vorum hreinlega ekki tilbúin. Björt framtíð og Viðreisn ofmátu getu sína og þekkingu og það vita allir hvernig fór fyrir sjóferð þeirri.

„Við vorum hreinlega ekki tilbúin.“

Annar veikleiki Pírata er einangrunarhyggja og erfiðleikar við að átta sig á því að við vitum harla lítið og enginn veit allt. Þá virðist hinn flati strúktúr hafa orðið til þess að allir telja sig eiga heimtingu á að fara í hlutverk sem þeir valda ekki og enginn virðist hafa ábyrgð á neinu vegna þess að það er enginn verkstjóri.

Fjölmargir stofnfélagar Pírata hafa horfið á braut hægt og hljótt. Ég vona að það sé raunverulegt áhyggjuefni sem flokkurinn taki á og finni lausn á.

Styrkur Pírata

Það sem er án efa styrkleiki Pírata er að þar er vettvangur fyrir ungt fólk til að hafa áhrif og þar má finna rosalega mikið af áhugaverðu og skemmtilegu fólki sem hefur alla burði til þess að geta haft mikil og jákvæð áhrif á samfélag okkar. Ábendingar mínar um það sem betur má fara eru settar fram af velvild einni og ég vona svo sannarlega að þeir hnökrar sem ég hef talið upp séu eitthvað sem verður ráðist í að laga, enda öll þessi vandamál eitthvað sem lengi hefur verið vitað um og oft og tíðum verið rætt um í þaula vítt og breitt um æðakerfi flokksins.

„Ég sjálf hef með sanni oft og tíðum verið orsök og afleiðing ýmissa vandræða“

Að lokum vil ég halda því til haga að ég er meðvituð um að ég sjálf hef með sanni oft og tíðum verið  orsök og afleiðing ýmissa vandræða. Ég brenn fyrir kerfisbreytingum og vildi að við myndum vera mjög afgerandi í þá veru. Ég er hvatvís og þver oft og tíðum. Mig langar líka að halda því til haga að ég veit að ég hef ekki endilega rétt fyrir mér. Þetta er bara upplifun mín og aðrir án efa með aðra upplifun. Þess vegna er ég eftir fremsta megni að reyna að útskýra brotthvarf mitt úr íslenskum stjórnmálaflokkum út frá því sem gerist þegar nýjar kartöflur eru settar í gömul og rotin kerfi, frekar en að reyna að persónugera kerfislægan vanda.

Bíll með bilaða vél

Ef við breytum ekki kerfum og hefðum á mjög afgerandi máta, þá heldur þetta bara áfram og Píratar með sanni hvorki betri né verri en aðrir í þeim efnum. Þar innanborðs er meira og minna bara mjög yndislegt fólk, en þetta hefur í raun og sann ekki neitt með gott eða vont fólk að gera, heldur þá menningu sem verður til í flokkakerfinu sjálfu og þeirri endastöð sem lýðræðið virðist vera að stefna í ef við tökum okkur ekki á sem samfélag.

EN það skiptir engu máli ef það er alltaf vitlaust gefið. Ný stjórnarskrá hefði getað stokkað nægilega vel upp í þessu kerfi til að hægt hefði verið að koma hér á þeim breytingum sem kallað var eftir um stund.

Líkja má þessu kerfi okkar við bíl með ónýta vél, það er alveg sama hver sest við stýrið, barn eða formúlukappi, bíllinn fer ekkert áfram ef það er ekki tekið á rót vandans, sem er hin ónýta vél.

Að lokum vil ég þakka það traust sem mér hefur verið auðsýnt í gegnum þessi ár sem opinber persóna. Það var ekkert sem var mér eins mikilsvert. Þá vil ég þakka sérstaklega öllum þeim sem ég hef unnið með á þessari vegferð og hafa verið í samskiptum við mig á einn eða annan hátt og síðast en ekki síst vil ég þakka þeim sem ég lenti í allskonar útistöðum við, ég lærði mest af ykkur.

Ég er ekki hætt afskiptum af samfélaginu og ég vona með sanni að sem flestir finni köllun til að rækta samfélag og lýðræðið, það er enginn annar að fara að gera það fyrir okkur.

Lyfi byltingin í hjarta sérhvers manns.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Stöð 2 með drulluna upp á bak

Valkyrja

Stöð 2 með drulluna upp á bak

Kvótaerfingi sýnir skart, seðla og dýra bíla í nýju myndbandi

Kvótaerfingi sýnir skart, seðla og dýra bíla í nýju myndbandi

Höft, skömmtun, og spilling

Stefán Snævarr

Höft, skömmtun, og spilling

„And-Gréta“ komin fram í Þýskalandi og á leiðinni til Bandaríkjanna

„And-Gréta“ komin fram í Þýskalandi og á leiðinni til Bandaríkjanna

Sjávarútvegsráðherra hefur litlar skoðanir á máli sem er pólitískt stórmál í Noregi

Sjávarútvegsráðherra hefur litlar skoðanir á máli sem er pólitískt stórmál í Noregi

„Mitt er mitt, við semjum um hitt“

Þorvaldur Gylfason

„Mitt er mitt, við semjum um hitt“

Þýsk yfirvöld auka viðbúnað eftir hryðjuverkaárás hægri öfgamanns

Þýsk yfirvöld auka viðbúnað eftir hryðjuverkaárás hægri öfgamanns

Ráðherra hefur ekki heimild

Steindór Grétar Jónsson

Ráðherra hefur ekki heimild

Samskipti ráðuneytisins við borgarana „ekki góð“

Samskipti ráðuneytisins við borgarana „ekki góð“

Slæmar fréttir: Bernie á ekki breik

Slæmar fréttir: Bernie á ekki breik

Baltasar febrúar: Everest

Baltasar febrúar: Everest

Hundar eru æði

Hundar eru æði