Fréttir

Þorgerður gagnrýndi Katrínu fyrir framkvæmdir sem hún studdi sjálf

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, greiddi sjálf atkvæði með stóriðju á Bakka árið 2013 en skammar Katrínu Jakobsdóttur fyrir að vinstristjórnin hafi ekki frekar sett meiri fjármuni í menntakerfið.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gagnrýndi Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, harðlega fyrir að hafa setið í ríkisstjórn þegar ráðist var í framkvæmdir vegna kísilvers á Bakka og Vaðlaheiðarganga á opnum fundi um menntamál í síðustu viku.

„Ef ég væri í rík­is­stjórn sem stæði frammi fyr­ir, á erfiðum tím­um, að verja mennta­kerfið eða fara í fram­kvæmd­ir á Bakka eða fara í fram­kvæmd­ir á Vaðlaheiðargöng­um þá er ekki spurn­ing í mín­um huga hvað ég myndi velja, ekki spurn­ing,“ sagði Þorgerður á fundinum sem haldinn var á vegum Kennarasambands Íslands í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Voru þetta viðbrögð Þorgerðar við gagnrýni Katrínar á aðhaldið í menntamálum sem birtist í fjárlagafrumvarpi ársins 2018 og í fjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar.

Gagnrýni Þorgerðar á kísilver á Bakka er athyglisverð í ljósi þess að Þorgerður og Katrín greiddu báðar atkvæði með frumvarpi Steingríms J. Sigfússonar um heimild til samninga um kísilver á Bakka þann 28. mars 2013.

Í lögunum fólst meðal annars að veittir voru skattaafslættir og ríkisstyrkir sem talið var að næmi allt að 5 milljörðum íslenskra króna. Nær allir þingmenn Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sameinuðust um aðgerðirnar, meðal annars Katrín Jakobsdóttir og Þorgerður Katrín. 

Þegar heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði var samþykkt á Alþingi tæpu ári áður, þann 14. júní 2012, var Þorgerður Katrín fjarverandi, en Katrín greiddi atkvæði með.

Þorgerður gerði athugasemdir við útfærslu, ferli og aðferðafræði Vaðlaheiðarmálsins en vísaði því þó alfarið á bug að hún væri á móti Vaðlaheiðargöngum. „Við erum sammála um að Vaðlaheiðargöng eru mikilvæg samgöngubót og góð framkvæmd til að efla samgöngur á norðanverðu landinu,“ sagði hún í svari við ræðu Jóns Bjarnasonar á Alþingi þann 12. júní 2012. Hún vísaði til álits Ríkisábyrgðasjóðs um málið og talaði fyrir því að farið væri varlega og framkvæmdin yrði ekki tekin fram yfir aðrar framkvæmdir á samgönguáætlun. Um leið sagði hún: „Ég hef verið þeirrar skoðunar að við megum ekki tala verkefnið niður, við verðum líka að vara okkur á því. Ég undirstrika að mér finnst þetta mikilvægt verkefni en við verðum líka að þora að tala um það í samhengi við aðrar framkvæmdir.“ 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Viðtal

„Neita að eyða allri ævinni í að vinna fyrir einhvern steinkassa“

Fréttir

Slys hjá Arnarlaxi: Eldiskví með um 500 tonnum af laxi sökk í Tálknafirði

Viðtal

Keypti brúðarkjól og bað Guð um mann

Listi

Fimm réttir úr fortíð og nútíð

Fréttir

Helga Vala skoraði á Alþingi að aflétta leyndinni tafarlaust – Jón: „Dæmigerð popúlistauppákoma“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Vilhjálmur fékk 3,4 milljónir endurgreiddar – Þingmenn hæðast að umræðunni

Fréttir

Stjórnun kynferðisbrotadeildar ábótavant – Sigríður skipti yfirmanni út fyrir stjórnanda með minni reynslu af rannsókn kynferðisbrota

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Pistill

Karlar að spara okkur pening

Fréttir

Ferðaþjónustubændur í máli við Íshesta

Fréttir

Borgarstjórinn vísaði Eyþóri Arnalds af fundi í Höfða