Fréttir

Auglýsa bjór í þjóðhátíðarmyndbandi

Í myndbandi við þjóðhátíðarlagið Þjóðhátíð bíður má margoft sjá Tuborg bregða fyrir. Auðunn Blöndal segir ekki ætlunina að auglýsa áfengi heldur sjáist bara ekki að um léttöl sé að ræða. Forstjóri Ölgerðarinnar þvertekur fyrir að um auglýsingu að ræða, en Auðunn staðfestir að þeir hafi fengið hjálp frá þeim við gerð myndbandsins, auk þess sem Tuborg fékk sérstakar þakkir við birtingu þess.

Með Tuborg Margoft má sjá myndir af Tuborg í nýju þjóðhátíðarlagi FM95Blö-teymisins og Sverris Bergmanns. Hvergi er tiltekið að um léttöl sé að ræða og má búast við því að málið verði tilkynnt yfirvöldum vegna brota á banni við áfengisauglýsingum. Mynd: Notandi
Tuborg fær sérstakar þakkirÍ texta sem fylgdi myndbandinu á Youtube var Tuborg sérstaklega þakkað fyrir sitt framlag.

FM95Blö-teymið, Auðunn Blöndal og Egill Einarsson ásamt Sverri Bergmann sendu frá sér þjóðhátíðarlagið Þjóðhátíð bíður á dögunum. Í myndbandi við lagið birtist margoft mynd af bjór af gerðinni Tuborg, sem Ölgerðin flytur inn og selur. Auðunn segir að ætlunin hafi ekki verið að auglýsa áfengi, það sjáist bara ekki að um léttöl sé að ræða. Hann staðfestir einnig að Tuborg hafi komið að gerð myndbandsins, en vörumerkið Tuborg fékk sérstakar þakkir við birtingu þess. Tuborg á Íslandi deildi myndbandinu einnig á Facebook-síðu sinni.

Í myndbandinu er ekki tiltekið að um léttöl sé að ræða, en samkvæmt lögum um áfengi eru áfengisauglýsingar bannaðar. Andri Þór Guðmundsson sagðist ekki kannast ekki við málið þegar Stundin leitaði svara hjá honum. „Auddi og þeir eru góðir vinir okkar og hafa örugglega ákveðið að hafa uppáhaldsbjórinn sinn þarna með,“ segir Andri. Það sé ekki óalgengt að áfengir drykkir sjáist í bíómyndum og myndböndum. Í þessu tilviki sé augljóst að ekki sé um auglýsingu að ræða heldur tónlistarmyndband að sögn Andra.

Auðunn Blöndal staðfestir hins vegar í samtali við Stundina að þeir hafi komið að gerð myndbandsins. „Það var alls ekki ætlunin að auglýsa áfengi, ég get lofað þér því. En ég viðurkenni að við fengum hjálp frá þeim við að gera myndbandið. Lagið er gert sem grínlag og pepp. Svo er það bara dautt eftir helgi,“ segir Auðunn.

Auðunn segir að það hafi einfaldlega ekki sést að þeir væru að drekka léttöl. Í myndbandinu eru skot af honum og Sverri Bergmann að drekka Tuborg úr 33 cl glerflöskum, en létta útgáfu af Tuborg er ekki að finna í vörulista Ölgerðarinnar í slíkum umbúðum. „Nú, við fengum þetta bara frá Ölgerðinni. Þetta átti bara að vera léttöl,“ segir Auðunn þegar honum var bent á það.

„Nú, við fengum þetta bara frá Ölgerðinni. Þetta átti bara að vera léttöl,“  

FM95Blö-teymið gaf einnig út þjóðhátíðarlag fyrir tveimur árum. Í því myndbandi spilar Tuborg-bjórinn einnig stóra rullu, og þar fer ekki á milli mála að það er ekki léttölið sem er í mynd.

Skjáskot úr myndbandi FM95BlöÍ myndbandi við lag FM95Blö sem birt var fyrir tveimur árum fer ekki á milli mála að áfengur Tuborg sé auglýstur. Neðst á dósinni sést að um 4,5 prósenta áfengan drykk er að ræða.

Málið verði tilkynnt til lögreglu

SkálaðHér má sjá Auðunn Blöndal og Sverri Bergmann skála í Tuborg í myndbandinu.

Myndbandið hefur notið mikilla vinsælda á meðal ungs fólks og sló strax í gegn á fyrsta sólarhringnum. Árni Guðmundsson, formaður foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, segir alvarlegt að brotið sé gegn rétti barna og ungmenna með áfengisauglýsingum. Hann segist ekki von á öðru en að félagið sendi tilkynningu um málið til yfirvalda. „Við fáum alltaf mikið af tilkynningum um áfengisauglýsingar í kringum verslunarmannahelgina. Yfirleitt sendum við saksóknara tilkynningu vegna þessara mála og ég á ekki von á öðru en það verði gert nú í ár.“ 

Hann segir ótrúlegt hvað áfengisframleiðendur hafi einbeittan brotavilja. „Það er dálítið erfitt þegar aðilar í samfélaginu komast upp með að brjóta markvisst gegn augljósum rétti barna og unmenna,“ segir Árni. Þá þykir honum lögreglan standa sig illa í þessum málaflokki því lítið sem ekkert sé aðhafst vegna ábendinga um brot gegn banni við auglýsingu áfengis.

Fjölmiðlar brjóta reglulega gegn banninu

Fjölmiðlanefnd hefur á undanförnum árum ákvarðað fjölmiðlum stjórnvaldssektum vegna brota gegn banninu. Fjölmiðlanefnd annast eftirlit með fjölmiðlum og tekur ákvarðanir í málum er varða þá.

Í lok maí úrskurðaði nefndin að 365 miðlum bæri að greiða eina milljón króna í sekt vegna áfengisauglýsinga í tímaritinu Glamour. Í mars var 365 miðlum gert að greiða 250 þúsund króna sekt vegna auglýsingar á Egils Gull bjór. Þá var RÚV fundið brotlegt gegn banni við áfengisauglýsingum í mars og sektin ákvörðuð 600 þúsund krónur. 

Auk 365 og RÚV hefur fjömiðlanefnd á síðustu árum komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn banni við áfengisauglýsingum í Morgunblaðinu, DV, Gestgjafanum og Garðapóstinum.

Vildu afnema bannið 

Í áfengissölufrumvarpi Teits Björns Einarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem lagt var fram fyrr á árinu en dagaði uppi í störfum þingsins, var lagt til að áfengisauglýsingar yrðu heimilaðar. „Áfengisauglýsingar eru í dag heimilar, ef svo má segja, það er raunveruleikinn. En mismununin er sú að innlendir aðilar geta ekki auglýst í innlendum fjölmiðlum. Og við erum að taka á því og viðurkenna þann raunveruleika að það er ekki lengur hægt að mismuna aðilum hér innanlands með þessum hætti,” sagði Teitur í samtali við Vísi um málið.

 Frumvarpið var að öðru leyti nánast samhljóða áfengissölufrumvarpi Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Vilhjálmur var á meðal þeirra sem mæltu fyrir frumvarpi Teits.

Þá hefur Félag atvinnurekenda einnig gagnrýnt bannið og bent sérstaklega á að þessi þáttur um afnám auglýsingabannsins hafi vantað í frumvarp Vilhjálms. „Við höfum bent á að frumvarpið þurfi að taka líka til auglýsinga og ef rétt reynist að auglýsingar verði leyfðar í nýju frumvarpi er það vissulega skref í rétta átt. það hefur verið okkar skoðun að sala á þessum vörum eigi að vera frjáls,“ sagði Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við Fréttablaðið.

Umdeilt frumvarp

Á undanförnum árum hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins nánast undantekningarlaust lagt fram áfengissölufrumvarp á þingi og í hvert sinn hefur það valdið miklum deilum þvert á flokka og samfélagshópa.

Í könnun sem MMR framkvæmdi í kjölfar þess að nýja frumvarpið var kynnt kemur fram að stór hluti Íslendinga er andvígur því að sala áfengis sé leyfð í matvöruverslunum á Íslandi. Um 74 prósent kváðust andvíg sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum á meðan um 57 prósent voru andvíg sölu á léttu áfengi og bjór. Þá bárust frumvarpinu 73 umsagnir og mæltu aðeins örfáar með samþykkt frumvarpsins. Aðstanendur bruggverksmiðjunnar Kaldi voru á meðal þeirra sem tjáðu sig um frumvarpið en þeir lýstu sig alfarið gegn því.

Myndbandið við lag FM95Blö má sjá hér:

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Hagnaður ISS dróst saman en hluthafar fengu 760 milljóna arð

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Fréttir

Launþegahreyfingin ekki með fulltrúa í nefndum um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfis

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Blogg

Víkingarnir

Blogg

Píp Trumps um viðskipahalla og fleira

Mest lesið í vikunni

Pistill

Hjúkrunarfræðingur: „Landspítalinn er í frjálsu falli“

Fréttir

Arður greiddur úr einkareknu meðferðarheimili barna sem vinnur fyrir sveitarfélögin

Fréttir

Sparkað úr hestamannahópi vegna gagnrýni á félagsleg undirboð

Fréttir

Umboðsmaður spyr hvort ráðuneytið ætli að „grípa til einhverra viðbragða gagnvart sýslumanni“

Fréttir

Bankastjóri Landsbankans þiggur boðsferð á heimsmeistaramótið í Rússlandi

Pistill

Krakkafréttir - hin raunverulega ógn mannkyns?