Afkoma Icelandair langt undir væntingum og bréfin hríðféllu
Þessi grein birtist fyrir rúmlega 3 mánuðum.

Afkoma Icelandair langt undir væntingum og bréfin hríðféllu

Icelanda­ir Group skil­aði hagn­aði í fyrsta sinn í sex ár á síð­asta ári, en sá hagn­að­ur var tölu­vert und­ir því sem stefnt hafði ver­ið að. Fimm ár­in áð­ur hafði fé­lag­ið tap­að sam­tals 80 millj­örð­um króna, feng­ið meiri rík­is­styrki en nokk­uð ann­að fyr­ir­tæki á far­ald­urs­tím­um, far­ið í gegn­um tvær hluta­fjáraukn­ing­ar sem þynntu nið­ur fyrri hlut­hafa og stað­ið í ill­víg­um deil­um við starfs­fólk um að lækka laun þeirra og auka vinnu­álag.

Icelandair Group birti afkomuviðvörun þann 13. september í fyrra. Hún byggði á stjórnendauppgjöri á tveimur stærstu mánuðum ársins hjá félaginu, júlí og ágúst. Þrátt fyrir mikinn vöxt í farþegaflugi hafði eldsneytisverð hækkað um tæplega 30 prósent frá miðju ári 2023 og fraktstarfsemi Icelandair hafði reynst „mjög krefjandi“. Fyrir vikið myndi rekstrarhagnaður Icelandair verða minni en áætlað var, eða 50 til 65 milljónir Bandaríkjadalir, sem eru 6,9 til 8,9 milljarðar króna á gengi dagsins í dag. „Áfram er gert ráð fyrir hagnaði af rekstri félagsins eftir fjármagnsliði og skatta fyrir árið í heild,“ sagði í tilkynningunni. 

Síðan gerðist margt. Grindavík var rýmd vegna jarðhræringa á Reykjanesi, vinsælasta ferðamannastað Íslands Bláa lóninu var lokað vegna sömu aðstæðna og fréttir fóru um allan heim um það sem væri að gerast á Íslandi án þess að það væri sérstaklega tiltekið að um afmarkað svæði væri að ræða. Síðan komu tvö eldgos, annað í desember og það næsta í janúar. Búist er við þriðja gosinu á þessu svæði bráðlega. Þrjú eldgos á þremur mánuðum. Ofan í þetta fóru flugumferðarstjórar í verkfall. 

Á endanum náði Icelandair ekki einu sinni hinu niðurfærða markmiði um rekstrarhagnað. Hann reyndist á endanum langt undir upprunalegu markmiði vegna ársins 2023, sem gerðu ráð fyrir rekstrarhagnaði upp á 4 til 6 prósent af heildartekjum. Hann reyndist líka langt undir því markmiði sem kynnt var með afkomuviðvöruninni í september, sem gerði ráð fyrir að rekstrarhagnaður yrði 3,3 til 4,3 prósent af rekstrartekjum. Í enda dags reyndist rekstrarhagnaðurinn litlu meiri en árið 2022, og 1,4 prósent af rekstrartekjum. Rekstrarhagnaðurinn varð á endanum ekki nema 21 milljón Bandaríkjadalir, 2,9 milljarðar króna hjá samstæðu sem velti 1.524 milljónum Bandaríkjadala á árinu 2023, um 209 milljörðum króna.  

Viðbrögðin á hlutabréfamarkaði létu ekki á sér standa. Virði bréfa í Icelandair hríðféllu um níu prósent daginn eftir að ársuppgjörið var kynnt. Fjárfestar áttu von á meiru eftir næst besta ferðamannaár í Íslandssögunni.

Hagnaðurinn dropi í taphafið

Margt var sannarlega jákvætt. Fjöldi farþega á árinu 2023 var 4,3 milljónir, sem var aukning um 17 prósent milli ára. Þorri þeirra eru svokallaðir transit-farþegar, sem fljúga með Icelandair frá Norður-Ameríku til Evrópu, eða öfugt, með millilendingu á Keflavíkurflugvelli þar sem flestir fara ekki út af flugvellinum. Tekjur jukust mikið milli ára, alls um 20 prósent. Og Icelandair skilaði hagnaði eftir skatta og önnur gjöld í fyrsta sinn í sex ár. Sá hagnaður var alls 11,1 milljónir Bandaríkjadala, um 1,5 milljarðar króna. 

Þegar sá hagnaður er settur í samhengi við það tap sem verið hefur á rekstri Icelandair fimm árin á undan, sem var uppsafnað um 80 milljarðar króna, þá er sú upphæð þó ansi rýr. Þá ber að nefna að ekkert eitt fyrirtæki á Íslandi fékk meiri ríkisstuðning á meðan að á kórónuveirufaraldrinum stóð en Icelandair. Auk þess fór félagið í tvær hlutafjáraukningar eftir að sá faraldur skall á, sem þynnti út fyrri hluthafa, þeirra mest íslenska lífeyrissjóði. Icelandair safn­aði alls 23 millj­­örðum króna í útboði sem fór fram í sept­­em­ber 2020 og gerði svo bind­andi sam­komu­lag við banda­ríska fjár­­­fest­ing­­ar­­sjóð­inn Bain Capital um að hann keypti nýtt hlutafé í flug­­­fé­lag­inu sumarið 2021. Sam­­kvæmt sam­komu­lag­inu greiddi Bain Capital 8,1 millj­­arð króna og eign­að­ist fyrir vikið 16,6 pró­­sent hlut í Icelandair.

Auk þess átti Icelandair í fyr­ir­ferða­miklum vinnu­mark­aðserjum við lyk­il­stéttir til að lækka laun þeirra og auka vinnu­fram­lag.

Stundvís og stórt skattspor

Í tilkynningu vegna ársuppgjörsins er haft eftir Boga að það væri mikilvægur áfangi að skila hagnaði eftir skatta fyrir árið í heild. Þá hafi stundvísi yfir árið sú besta hjá félaginu í mörg ár. „Eftir einn besta þriðja ársfjórðung í sögu félagsins byrjaði fjórði ársfjórðungur vel. Hins vegar þegar jarðhræringarnar á Reykjanesi hófust á ný snemma í nóvember með tilheyrandi umfjöllun í erlendum fjölmiðlum, fór eftirspurn að veikjast og þar með tekjumyndun. Við þetta bættust áhrif verkfalla flugumferðarstjóra og svo eldgos í desember. Jafnframt hefur mikil framboðsaukning verið á lykilmörkuðum sem setur óhjákvæmilega pressu á einingatekjur. Afkoma fjórða ársfjórðungs var því undir væntingum og hafði áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins.“

Þrátt fyrir að afkoma Icelandair hefði verið langt undir væntingum sagði Bogi Níls að flug og ferðaþjónusta skipti miklu máli fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag. „Framlag Icelandair til þjóðarbúsins í formi skattspors félagsins var 55 milljarðar á árinu 2023 og ferðaþjónustan vegur þungt í útflutningstekjum þjóðarinnar. Það er því lykilatriði að tryggja samkeppnishæfni þessara greina til framtíðar. Mikilvægur hluti af því er að kjarasamningar verði farsællega leiddir til lykta og við náum í sameiningu tökum á verðbólgunni hér á landi.“

Kjósa
18
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Þorsteinn V. Sigurðsson skrifaði
    Eitthvað að þarna, kannski mætti skipta út stjórn og forstjóra?
    0
  • Dagur Jonsson skrifaði
    Nú koma aðilar með hit-pieces til að valda Icelandair eins miklu tjóni á hlutabréfamarkaði eins og mögulegt er. Reynt er að gera eins lítið úr þeim áhrifum sem jarðhræringar og erlend umfjöllun hafði á ferðaþjónustuna og þar sem rekstur Icelandair á 4 ársfjórðung. Ég er nokkuð viss um að öll ferðafyrirtæki voru í vondum málum eða með tapi í Nóvember og Desember líkt og Icelandair. Lítið er talað um að ef allt hafði verið eðlilegt þessa tvo seinustu mánuði ársins að þá hafði hagnaður Icelandair verið með ágætum. Icelandair er alls ekki fullkomið fyrirtæki en það er mikilvægt fyrirtæki fyrir okkur landsmenn og ferðaþjónustuna og því á það skilið sanngjarna umfjöllun þar sem bent er á að sumt geta menn ekki haft áhrif á , eitt er náttúran sem er óvægin þessa stundina.
    2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár