Þessi grein birtist fyrir rúmlega 9 mánuðum.

Grímuklædd og vopnuð lögregla handtók tvo menn í Mjódd

Hand­taka tveggja manna í Mjódd­inni síð­ast­lið­inn þriðju­dag olli óhug veg­far­enda en lög­reglu­menn sem að hand­tök­unni stóðu voru óein­kennisklædd­ir og grímu­bún­ir. Ell­efu ára stúlk­ur á leið á Barbie kvik­mynd­ina urðu mjög skelk­að­ar. Menn­irn­ir eru grun­að­ir um að hafa flutt til lands­ins um tvö kíló af kókaíni.

Grímuklædd og vopnuð lögregla handtók tvo menn í Mjódd
Óeinkennisklæddir, grímubúnir og vopnaðir Aðgerðin olli óhug vegfarenda en Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir hana þó hafa gengið vandræðalaust fyrir sig.

Tveir menn voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 25. júlí síðastliðinn í Mjódd. Óeinkennisklæddir og grímubúnir sérsveitarmenn, vopnum búnir, handtóku mennina og vakti aðgerðin nokkurn óhug meðal vegfarenda. Meðal annars urðu þrjár ellefu ára stúlkur á leið í bíó, til að sjá Barbie, vitni að handtökunni og urðu þær ansi skelkaðar.

Þeim sem vitni urðu að handtökunni var ekki ljóst hverjar ástæðurnar voru að baki henni en Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar deildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að mennirnir tveir hafi verið handteknir, grunaðir um að hafa flutt inn um það bil tvö kíló af kókaíni. Efnið var í sendingu sem mennirnir voru að sækja og voru þeir handteknir við þá iðju.

„Þetta er þeirra aðferðarfræði, að hylja andlit sín“
Grímur Grímsson
um sérsveitina

Spurður hvort að það sé vanalegt að lögreglumenn séu óeinkennisklæddir og með andlitsgrímur í aðgerðum sem þessum neitar Grímur því. „Nei, ég get ekki sagt að það sé almennt en hins vegar er það þannig við ákveðnar kringumstæður, og það er mat okkar í hvert sinn, þá óskum við eftir aðstoð frá sérsveit ríkislögreglustjóra. Í þessu tilviki nutum við aðstoðar sérsveitarinnar og þeir sem voru okkur til aðstoðar voru óeinkennisklæddir en hins vegar vopnaðir. Þetta er þeirra aðferðarfræði, að hylja andlit sín.“

Og það hefur að gera með þeir þekkist ekki, meðal annars til að koma í veg fyrir mögulegar hefndaraðgerðir?

„Já, til að það liggi ekki ljóst fyrir hverjir eru meðlimir sérsveitarinnar.“

Þetta hefur verið aðgerð sem innibar eftirlit og fyrirsát?

„Já, eins og gerist gjarnan með svona sendingar, þegar við fáum upplýsingar um þær þá skiptum við um efni og látum afhenda þær og fylgjumst með því og grípum síðan menn. Það var það sem var að gerast þarna.“

Þið sem sagt skiptuð um efnin og það er staðfest að þetta voru um tvö kíló af kókaíni?

„Já, akkúrat.“

„Þetta gekk bara mjög vel, engin mótspyrna eða neitt svoleiðis.“
Grímur Grímsson
um handtökuna

Fór handtakan vandræðalítið fram?

„Já, þetta gekk bara mjög vel, engin mótspyrna eða neitt svoleiðis.“

En eins og þú sagðir, þið fenguð með ykkur í lið vopnaða sérsveitarmenn. Bjuggust þið við því að það gætu orðið átök?

„Já, það er nú raunverulega þannig að ef við óskum eftir aðstoð sérsveitarinnar þá vopnast þeir. Það eru gerðar öryggiskröfur og mat lagt á áhættu í hvert skipti. Þegar hún nær ákveðnu stigi þá er þetta framkvæmdin.“

Eftirlit og fyrirsátMennirnir tveir voru handteknir þegar þeir sóttu pakka með hvítu dufti. Lögreglan hafði áður skipt kókaíni út fyrir annað efni.

Ekki taldir tengdir skipulagðri glæpastarfsemi

Aðspurður segir Grímur að lögreglan telji ekki að mennirnir tveir séu tengdir skipulagðri glæpastarfsemi. „Ekki sérstaklega, ekki þannig að við höldum að þeir séu hluti af einhverjum hópi eða gengi.“

Kókaínið kom hingað til lands með póstsendingu en Grímur segir að hann hafi ekki að svo stöddu upplýsingar um upprunaland sendingarinnar. Fleiri hafa verið handteknir vegna málsins að sögn Gríms. Þrír sitja í gæsluvarðhaldi, mennirnir tveir sem handteknir voru í aðgerðinni, og þriðji maður. Allar handtökurnar fóru fram hérlendis og ekki var um að ræða samstarf með erlendum lögregluyfirvöldum heldur samstarfsverkefni með íslensku tollgæslunni. Grímur segir að ekki sé búist við frekari handtökum né öðrum aðgerðum sem snúi að málinu. Fyrir liggi að klára rannsóknina og senda að því búnu málið til ákærusviðs til frekari vinnslu

Kókaín flæðir inn í landið

Heimildin greindi frá því í síðustu viku að á tveggja mánaða tímabili í vor hefðu átta manns verið stöðvuð og handtekin á Keflavíkurflugvelli, með fíkniefnasendingar hingað til lands. 

Í öllum tilvikum nema einu var fólkið að smygla kókaíni til landsins. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sagði í þeirri frétt að þau mál sem hefðu verið að koma upp að undanförnu hefðu að miklu leyti snúið að kókaíninnflutningi. Spurður hvort að kókaín flæði inn í landið svarar Grímur því játandi.

„Já, það er það sko. Þessi hvítu efni sem við erum að taka eru yfirleitt kókaín. Ég ímynda mér eða get jafnvel sagt að ég telji, að það séu töluverð merki þess að það amfetamín sem er í umferð sé annað hvort framleitt hér á landi eða í það minnsta að lokaferli framleiðslunnar fari fram hér á landi. Það á hins vegar ekki við um kókaínið, það er yfirleitt í duftformi þegar það kemur til landsins.“

Hafið þið af þessu áhyggjur?

„Það er alltaf svolítið erfitt að átta sig á hvernig eigi að túlka það sem manni finnast vera breytingar í þessum efnum. Við höfum talað um það að við tókum síðastliðið haust hundrað kíló af kókaíni og maður getur velt fyrir sér hvort það hafi einhver áhrif á innflutning í minni skömmtum. Síðan má velta fyrir sér hvort við séum að ná meiru af því sem flutt er inn heldur en áður, eða hvort það sé beinlínis aukning í innflutningi. Það er erfitt að átta sig á þessari statistík. Þetta er auðvitað eins og hverjar aðrar vangaveltur, en við höfum verið að velta þessu fyrir okkur.“

Olli hræðsluÞrjár litlar stúlkur á leið í bíó urðu vitni að handtökunni og urðu býsna skelkaðar.

Kjósa
38
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (5)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • VSE
    Virgil Scheving Einarsson skrifaði
    Þetta er það sem koma skal, Glæpamen vaða uppi i þessu landi og komast vel i Alnir vegna Dopsölu, margir fara i Brask og Leigubrasan, það a ekki að taka þessa Fira með silkihönskum
    Að sjalfsögðu þarf Löggam að nota Hettu með götum fyrir sjon, Island er litið land og Lögreglumenn og konur eiga mögulega Hefnd yfirvofandi þegar Þessir Vesalingar losna
    Her eru Glæpir að Harna og Dop flæðir inn i landið. Frett fra Tollinum i Flugstöðini i Keflavik nylega var rætt við konu sem er yfir hja Tollinum þar a RUV Lysingar hennar um leiðir þær
    voru i ymsum mindum Gamalmenni Hjolastolar og jafnvel börn Bera Dop inn i Landið ja þetta voru skuggalegar Lysingar. Eg hef seð i Glasgow að mikil hluti Lögreglu er Borgaralega klæddur
    a Bilum i Borgaralegum litum, lika er Löggan a meðal Borgarana i Manhafinu, Þar eru snögg viðbrgð og þa er Sokudolgum ekki Hlift. A Islandi skortir Fjarmagn til Rotækra Aðgerða
    og Forvarna. Nei Lögan I Reykjavik er helst til og Væg við Glæpamenn og Dapsala. Þetta er bara Forsmekkurin Eyturlyf munu Flaða her in i FJÖLMENINGAR SAMFELAGI.
    You ain't seen nothing yet.
    -1
    • Mary Luz Antonsdóttir skrifaði
      Þeir ættu að leita ráða hjá öðrum löndum sem hafa þurft að takast á við þessa tegund glæpa - halda þeim í varðhaldi án tryggingar og einnig halda þeim í fjarskiptasambandi - ég held að lögfræðingarnir sem hjálpa þessum glæpamönnum sætti sig við þetta og séu jafnvel sammála þessu, þetta land muni verða fyrir frekari skaða ! setja andlit glæpamannanna, það getur verið að aðrir viti fleiri hluti og ef þeir þekkja þá gætu þeir hjálpað með línu. Hringdu í einkaaðila til að fá hjálp. Ég veit ekki hvað á að gera en að hafa lögreglumennina með andlitið hulið er skelfilegt, en það er til öryggis þeirra og fjölskyldna þeirra :-)
      -1
  • ÞTÞ
    Þóroddur Tryggvi Þórhallsson skrifaði
    Mjög eðlileg ráðstöfun að lögregluþjónar hylji andlit sín við svona aðstæður. Í svo litlu samfélagi sem okkar á glæpalíður mjög auðvelt með að finna út hverjir eru á fréttamyndum og öðrum myndum ef andlytin eru sýnileg. Það verður að beita öllum ráðum til að halda niðri þessum glæpalíð sem er að brjótats inn og stela verðmærum, selja börnunum okkar dóp og svífst einskis. Teiserar og ýmis verkfæri úr þeirri átt eru bara af hinu góða.
    2
    • Hlynur Jörundsson skrifaði
      Ekki I lagi og glæpamenn fara létt með að nafnkenna sérsveitarmenn. Of mikið bioglap löggunnar.
      0
  • Anna Á. skrifaði
    Almenningur getur semsagt ekki lengur greint á milli vopnaðra glæpamanna sem hylja andlit sín og svo lögreglunnar. Blaðamanni virðist hafa gleymt að vekja athygli á að lögreglumenn sem hylja andlit sín, munu ekki fylgja ákvæðum reglugerðar nr 380/2019 um að lögreglumönnum beri skylda til að sýna sín lögregluskírteini sem sýna m.a. raðnúmer skilríkis og Fullt nafn handhafa skírteinis.
    https://island.is/reglugerdir/nr/0380-2019
    2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár