„Samherji gegndi lykilhlutverki í þessu hneyksli“ - Opið bréf til forsætisráðherra frá Namibíu
Skorar á Katrínu Fregnir þess efnis að Samherji hafi hlotið 100 milljóna króna styrk úr opinberum Orkusjóði á Íslandi, á dögunum, hafa vakið hörð viðbrögð í Namibíu. Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa íslensk stjórnvöld vegna þessa er leiðtogi namibísku stjórnarandstöðunnar, sem skorar á Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands, að beita sér fyrir því að Samherji verði dreginn til ábyrgðar vegna þátttöku sinnar í mútuhneykslinu í Namibíu.
Þessi grein birtist fyrir rúmlega 5 mánuðum.

„Samherji gegndi lykilhlutverki í þessu hneyksli“ - Opið bréf til forsætisráðherra frá Namibíu

Slétt­um fjór­um ár­um eft­ir að ljóstr­að var upp um fram­ferði Sam­herja í Namib­íu kall­ar leið­togi namib­ísku stjórn­ar­and­stöð­unn­ar eft­ir því að ís­lensk stjórn­völd taki ábyrgð, í opnu bréfi til for­sæt­is­ráð­herra Ís­lands. Hundrað millj­óna rík­is­styrk­ur til Sam­herja vek­ur reiði í Namib­íu.

„Bón mín er tækifæri til að sýna fordæmi og taka afstöðu gegn spillingu og arðráni. Gerðu það, ekki veita slíku skjól með beinni aðstoð þinni,“ segir í opnu bréfi leiðtoga namibísku stjórnarandstöðunnar til forsætisráðherra Íslands, sem sent var föstudaginn 10. nóvember. Þar er skorað á Katrínu Jakobsdóttur að beita sér fyrir því að Samherji hf og stjórnendur þess, verði látnir taka ábyrgð á verkum sínum í Namibíu. 

McHenry Venaani, formaður stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins, PDM, segir í bréfi sínu að Samherji hafi gengt mikilvægu hlutverki í stærsta spillingarmáli í sögu namibísku þjóðarinnar, sem hafi hagt ómældan skaða í för með sér. Fyrirtækið eigi að bæta það tjón sem það hafi valdið auk þess að gera upp við sjómenn sem dæmdar hafa verið bætur eftir vinnu á skipi Samherja í Namibíu.

Í bréfinu segir Venaani að honum og fleirum blöskri það að heyra fréttir af því að íslensk stjórnvöld séu að styrkja Samherja um 100 milljónir króna, í gegnum framlög Orkusjóðs, á sama tíma og fyrirtækið og fjöldi stjórnenda og starfsmanna þess sé til rannsóknar vegna alvarlegra spillingarásakana í Namibíu og víðar. Hann skorar því jafnframt á Katrínu að draga styrk ríkisins til Samherja til baka.

Bréfið var sent síðastliðinn föstudag. Ekki hafa fengist upplýsingar um það frá forsætisráðherra hvort og þá hvernig brugðist verður við því, en þar óskar Venaani einnig eftir samtali og samstarfi um málið, sem hann hefur gagnrýnt að hafi skort af hálfu íslenskra stjórnvalda, frá því málið kom upp.

Fjögurra ára „afmæli“ Namibíumáls

Fyrr í þessum mánuði voru liðin fjögur ár síðan Kveikur og forveri Heimildarinnar, Stundin, greindu frá umfangsmikilli rannsókn sinni í samstarfi við Wikileaks, Samherjaskjölin svokölluðu, eða Fishrot á ensku. Þar steig fram Jóhannes Stefánsson, fyrrum lykilstarfsmaður Samherja í Namibíu og greindi frá hátt í eins og hálfs milljarðs króna greiðslum Samherja til stjórnmála- og áhrifamanna í Namibíu, á árunum 2012-2019, sem vitnisburður Jóhannes og fleiri gögn bentu til að væru mútur. 

Tæplega helmingur þessara greiðslna fór fram eftir að Jóhannes lét af störfum hjá Samherja árið 2016. Rannsókn yfirvalda í Namibíu og á Íslandi hefur síðan leitt í ljós að ætlaðar ólöglegar greiðslur Samherja til hóps ráðherra, venslafólks þeirra og forsvarsmanna ríkisfyrirtækisins Fishcor í Namibíu, hafi numið allt að tveimur milljörðum króna á þessum sjö árum.

Í kjölfar uppljóstrunar málsins hófu yfirvöld hér á landi að rannsaka málið. Sú rannsókn stendur enn og hafa níu fyrrverandi og núverandi starfsmenn og stjórnendur Samherja stöðu sakbornings í þeirri rannsókn. Meðal annars Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og aðaleigandi Samherja, Jóhannes Stefánsson, Arna McClure, lögfræðingur Samherja og Aðalsteinn Helgason fyrrum stjórnarmaður í Samherja og framkvæmdastjóri afríkuútgerðar Samherja.

Í Namibíu hafði rannsók hafist ári fyrr, árið 2018, en hún varð til þess að þegar málið komst í hámæli voru alls tíu Namibíumenn handteknir og hafa síðan setið í varðhaldi og beðið þess að fara fyrir dóm, ákærðir fyrir fjölmörg brot, múturþægni, spillingu, fjársvik, skattsvik og brot í opinberu starfi. Í þeim hópi eru tveir fyrrum ráðherrar í ríkisstjórn Namibíu, forstjóri ríkisútgerðarinnar Fishcor og stjórnarformaður sömu útgerðar.

Réttarhöld yfir þeim eiga að hefjast í byrjun næsta árs, en samkvæmt nýlegum yfirlýsingum ríkissaksóknara í Namibíu, heldur hún enn í vonina um að henni takist að bæta þremur Íslendingum við á sakamannabekk fyrir þann tíma. Þrjá fyrrum stjórnendur Samherja í Namibíu, sem hún vill saksækja fyrir lögbrot í Namibíu. Forsenda þess er hins vegar sú að mennirnir þrír annað hvort komi sjálfviljugir fyrir dóm eða verði framseldir suðureftir.

Nokkuð sem telst harla ólíklegt. Formleg framsalskrafa hefur ekki verið lögð fram, að sögn vegna þess að enn hefur ekki verið að fullu lokið endanlega við rannsókn á mögulegum brotum Samherja og þætti stjórnenda félagsins í þeim, til að mynda vegna meintra skattalaga- og gjaldeyrisbrota í Namibíu.

Venaani McHenry Venaani er leiðtogi mið hægri flokksins PDM sem er næst stærstur á namibíska þinginu. Flokkurinn bætti verulega við sig fylgi í síðustu kosningum, fáeinum vikum eftir uppljóstrun Namibíuskandalsins. Flokkurinn á nú 16 af 104 fulltrúum á þinginu í Windhoek.

Bréf namibíska stjórnarandstöðuleiðtogans til forsætisráðherra Íslands, sem barst næstum upp á dag, fjórum árum eftir að þessi mál komust í hámæli, er birt hér í heild sinni.

Opið bréf Venaani til Katrínar JakobsdótturBréfið má sjá hér í heild sinni.

„Ég vona að þetta bréf hitti þig vel fyrir. Ég skrifa þér, í krafti stöðu minnar sem leiðtogi stjórnarandstöðunnar á namibíska þjóðþinginu. Ég biðla til samvisku þinnar og með mikilli virðingu fyrir þínu virðulega embætti, þegar ég hvet þig til að endurskoða áður tilkynnt áform ríkisstjórnar þinnar um að veita útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækinu Samherja 100 milljóna króna styrk til nýtingar á endurnýjanlegri orku. 

Ég hef þungar áhyggjur af þætti Samherja í fjölmörgum spillingarmálum í Namibíu og hef því samband við þig. Fyrirtækið sætir ásökunum um að hafa greitt umtalsverðar upphæðir í mútur allt frá árinu 2012 til að tryggja sér óeðlilegt forskot í namibískum sjávarútvegi. Sú háttsemi fyrirtækisins hefur verið skilgreind sem mikilvægur þáttur í máli því sem nú er þekkt sem „Fishrot Saga“ á alþjóðavísu. Fórnarkostnaður þeirrar sögu er hár og sárin sem hún skóp eru enn opin í hjörtum ótal saklausra Namibíumanna. Vegna óheftrar græðgi og lögbrota Samherja hafa þúsundir sjómanna tapað atvinnu sinni og ramba á barmi örbirgðar. Áhrif þessa hafa aukist enn frekar af vegna núverandi heimsfaraldurs og eru fjölskyldur og heilu samfélögin skilin eftir í gríðarlega erfiðri stöðu. 

Bón mín er tækifæri til að sýna fordæmi og taka afstöðu gegn spillingu og arðráni. Gerðu það, ekki veita slíku skjól með beinni aðstoð þinni. Þess í stað hvet ég þig til að krefjast þess að Samherji greiði þeim óteljandi namibísku sjómönnum sem misstu lífsviðurværi sitt vegna siðlausra aðgerða fyrirtækisins viðeigandi bætur. Fishrot-málið hefur haft mikil áhrif á ótal Namibíumenn. Sjómenn hafa misst vinnuna, samfélög hafa verið lögð í rúst og orðstír landsins skaðast. Umfang spillingarinnar er hreinlega yfirþyrmandi og ljóst að Samherji gegndi lykilhlutverki í þessu hneyksli.

Frú forsætisráðherra, ég hvet þig til að sýna siðferðilega forystu og krefjast þess að Samherji greiði bætur til þúsunda namibískra sjómanna sem misstu vinnuna vegna græðgi og lögbrota útgerðarinnar. Ég hvet þig  líka til að gera allt sem í þínu valdi stendur til að tryggja að Samherji verði dreginn til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar.

Namibíska þjóðin á skilið réttlæti. Hún á það skilið að fá það á hreint að íslensk stjórnvöld muni ekki þola spillingu. Ég hvet þig til að gera það sem er rétt og krefjast þess sem er sanngjarnt og réttlátt fyrir namibísku þjóðina. Við vonum að ríkisstjórn þín – sem er þekkt fyrir að standa að málum með ábyrgum hætti og samkvæmt góðum venjum, endurskoði ákvörðun sína – beiti sér fyrir því sem er sanngjarnt og réttlátt, og leiti bóta til handa namibísku þjóðinni sem hefur þurft að þjást vegna vítaverðrar framkomu Samherja.

Forsætisráðherra, ég leyfi mér að ítreka að ég met þig mikils og bíð eftir jákvæðum viðbrögðum þínum í þessum efnum.“

Kjósa
89
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (5)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Elísabet Ólafsdóttir skrifaði
    Þjóðin sem gerir endalaust grín að namibísku netsvindlurum gefur svo óafvitandi skattpeningana sína í styrk Samherja. Enginn ákærður. Enginn handtekinn. Engin rannsóknarvinna til að tala um. En styrkinn skulu þeir fá.
    Ísland, best í heimi í spillingu.
    3
    • SÍF
      Sveinn í Felli skrifaði
      Held það sé eitthvað að slá saman hjá þér; vinalegu prinsarnir sem vilja endilega geyma alla peningana sína inni á bankabókinni minni eru yfirleitt frá Nígeríu ;-)
      0
  • Helga Óskarsdóttir skrifaði
    Katrín er handgengin xD mafíunni og mun hunsa þetta eins og annað..
    8
  • Edda Ögmundsdóttir skrifaði
    Það má enginn snerta " Samherja "
    8
    • Kalla Karlsdóttir skrifaði
      Er það ekki þetta glæpafyrirtæki sem stjórnar þessu skeri.....
      1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Samherjaskjölin

Lögmaður namibískra sjómanna við Samherja: „Borgið það sem þið skuldið þeim“
RannsóknirSamherjaskjölin

Lög­mað­ur namib­ískra sjó­manna við Sam­herja: „Borg­ið það sem þið skuld­ið þeim“

Lög­mað­ur skip­verj­anna tutt­ugu og þriggja sem dæmd­ar voru bæt­ur vegna ólög­legr­ar upp­sagn­ar Sam­herja­fé­lags í Namib­íu, kall­ar eft­ir því að Ís­lend­ing­ar axli ábyrgð á fram­komu sinni í Namib­íu. Það stand­ist enga skoð­un að Sam­herji hafi ekki vit­að af mál­inu. For­stjóri Sam­herja lof­aði því að fyr­ir­tæk­ið myndi sjá til þess að stað­ið yrði við all­ar skuld­bind­ing­ar og sér­stak­lega hug­að að sjó­mönn­um sem starf­að hefðu fyr­ir fé­lag­ið.
Namibískir sjómenn stefna Samherjamanni eftir tveggja ára bið eftir bótum
FréttirSamherjaskjölin

Namib­ísk­ir sjó­menn stefna Sam­herja­manni eft­ir tveggja ára bið eft­ir bót­um

Á þriðja tug namib­ískra sjó­manna sem voru dæmd­ar bæt­ur vegna ólög­mætr­ar upp­sagn­ar Sam­herja­fé­lags í Namib­íu, hafa enn ekki feng­ið þær greidd­ar. Lög­mað­ur þeirra gagn­rýn­ir for­svars­menn Sam­herja fyr­ir að gang­ast ekki við ábyrgð sinni og hef­ur nú stefnt ein­um stjórn­anda Sam­herja og dótt­ur­fé­lagi þess, fyr­ir dóm í Namib­íu.
Inga þakkar Samherja fyrir en telur að kvótakerfið hafi lagt landið í auðn
FréttirSamherjaskjölin

Inga þakk­ar Sam­herja fyr­ir en tel­ur að kvóta­kerf­ið hafi lagt land­ið í auðn

Inga Sæ­land, formað­ur Flokks fólks­ins, seg­ist hafa slíðr­að sitt póli­tíska sverð þeg­ar hún söng á Fiski­deg­in­um mikla á Dal­vík um helg­ina. Hún skrif­ar þakk­ar­grein í Mogg­ann í dag og þakk­ar Sam­herja fyr­ir Fiski­dag­inn. Sam­kvæmt Ingu kom hún ekki fram á Fiski­deg­in­um sem stjórn­mála­mað­ur held­ur sem mann­eskja í sum­ar­fríi.
Samherji vildi bjóða „Stóra manninum“ frá Namibíu á Fiskidaginn
FréttirSamherjaskjölin

Sam­herji vildi bjóða „Stóra mann­in­um“ frá Namib­íu á Fiski­dag­inn

Fiski­dag­ur­inn mikli á Dal­vík verð­ur hald­inn aft­ur í fyrsta skipti í ár frá því 2019 og styrk­ir Sam­herji há­tíð­ina. Út­gerð­ar­fé­lag­ið Sam­herji hef­ur ver­ið helsti styrktarað­ili Fiski­dags­ins í gegn­um tíð­ina. Ár­ið 2012 ræddu starfs­menn Sam­herja um mögu­leik­ann á því að bjóða sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra Namib­íu, Bern­h­ard Es­au, á Fiski­dag­inn og var það sögð vera sér­stök ósk Þor­steins Más Bald­vins­son­ar að hann væri á Ís­landi í kring­um þenn­an dag.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár