Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Ísland kom við sögu í einni stærstu og flóknustu fíkniefnarannsókn FBI fyrr og síðar

Eitt stærsta mark­aðs­svæði í heimi með ólög­leg fíkni­efni var hýst í ís­lensku gagna­veri. Menn frá banda­rísku al­rík­is­lög­regl­unni flugu til Ís­lands í júní ár­ið 2013 og fengu að­stoð ís­lenskra lög­reglu­yf­ir­valda við að afla gagna í hinu svo­kall­aða Silk Road-máli. Að­gerð al­rík­is­lög­regl­unn­ar var og er enn í dag gríð­ar­lega um­deild en lög­reglu­yf­ir­völd hér á landi neita að tjá sig um mál­ið.

Í júní árið 2013 kom hingað til lands rannsóknarlögreglumaður frá bandarísku alríkislögreglunni, FBI, ásamt tveimur lögfræðingum sem voru á vegum bandarískra yfirvalda. Ferð þeirra var liður í rannsókn á einu stærsta og flóknasta fíkniefnamáli sem alríkislögreglan hefur tekið að sér á síðari árum.

Bandaríska alríkislögreglan
Bandaríska alríkislögreglan Menn á vegum FBI komu hingað til lands í að minnsta kosti tvígang í tengslum við rannsóknina á Silk Road.

Rannsókn málsins tók þrjú ár og snérist um markaðssvæðið Silk Road sem var að finna á hinu svokallaða myrkraneti eða „Dark Web“. Aðeins var hægt að komast inn á síðuna með sérstökum vafra sem heitir Tor en með honum var hægt að sjá þær síður sem vistaðar voru á földu undirneti - neti sem ekki sást með hefðbundnum leiðum.

„Á Silk Road var hægt að panta nánast allar tegundir af fíkniefnum, algjörlega nafnlaust og fengu viðskiptavinir vöru sína senda heim að dyrum.“

Vafrinn eða Tor-netið var þróað af bandaríska sjóhernum fyrir áratug og var ætlað að fela hin ýmsu leyndarmál og samskipti hersins á veraldarvefnum. Nær ómögulegt er að rekja slóð þeirra sem nota Tor-netið og því hefur þetta undirnet eða „Deep Web“ orðið hálfgert skjól þeirra sem stunda hvers kyns ólögleg viðskipti á veraldarvefnum.

Órekjanleg fíkniefnaviðskipti milli landa

Enginn vissi nákvæmlega hver stjórnaði markaðssvæðinu en talið var að eigandi þess væri notandi sem gengi undir gælunafninu Dread Pirate Roberts. Rannsókn alríkislögreglunnar beindist því fljótt að þessum óþekkta einstaklingi sem virtist ráða lögum og lofum á einu stærsta markaðssvæði ólöglegra fíkniefna í heiminum.

Á Silk Road var hægt að panta nánast allar tegundir af fíkniefnum, algjörlega nafnlaust og fengu viðskiptavinir vöru sína senda heim að dyrum. Slóð þeirra sem seldu og keyptu fíkniefni var ekki bara falin með Tor-netinu því öll viðskiptin fóru fram með rafræna gjaldeyrinum Bitcoin sem, eins og Tor-netið, er órekjanlegur.

Stundin ræddi við tvo einstaklinga sem ekki vildu koma fram undir nafni en eiga það sameiginlegt að hafa nýtt sér markaðssvæði Silk Road.

Íslendingar nýttu Silk Road, einn keypti stera en annar koffín


„Ég var eitthvað búinn að lesa um þetta á netinu og var spenntur fyrir því að skoða hvað væri í gangi þarna. Miðað við umræðuna þá átti að vera hægt að fá nánast hvað sem er á Silk Road. Allt frá stinningarlyfjum yfir í heróín. Ég trúði því ekki að þessi síða myndi virka; að þú gætir pantað þér hvaða fíkniefni sem er og fengið þau send með pósti til Íslands,“ segir einn viðmælenda Stundarinnar sem freistaðist til þess að panta af síðunni.

Svona leit vefsíðan út
Svona leit vefsíðan út Eins og sést á þessari skjámynd af Silk Road var hægt að fá allt frá geðlyfjum yfir í metamfetamín og MDMA-töflur.

„Ég fór nú ekkert í neitt rosalega ólöglegt. Vildi ekki vera að taka neinar óþarfa áhættu, ég vildi bara vita hvort þetta virkilega virkaði eða ekki. Ég held að ég hafi fundið svona það minnst ólöglega en það var hreint koffínduft sem kom í töflum. Ég keypti mér Bitcoin og greiddi síðan með honum fyrir koffínið og beið síðan eftir því að þetta myndi skila sér í gegnum lúguna,“ segir viðmælandinn sem ekki þurfti að bíða lengi.

„Nei, ég fékk þetta með flugi og var kominn með koffínduftið á eldhúsborðið heima tæpum tveimur vikum eftir að ég hafði pantað það á myrkranetinu.“

Hinn viðmælandi Stundarinnar tók aðeins meiri áhættu en sá sem keypti sér koffínduft: „Já, ég prófaði að kaupa steratöflur. Þetta var ekkert rosalega dýrt. Ég fékk 100 töflur fyrir fimm þúsund krónur sem er nú töluvert ódýrara en gengur og gerist á þessum markaði.“

En varstu ekkert smeykur um að vera tekinn?

„Nei, ég lét merkja pakkann öðrum og beið síðan bara rólegur. Hann var kominn til mín eftir 18 daga. Ég ætlaði að prufa þetta aftur og kaupa eitthvað annað en þá hafði síðunni verið lokað.

Óútskýrð slóð leiddi FBI til Íslands

Þar sem markaðssvæðið sem viðmælendur Stundarinnar versluðu í gegnum var hýst á myrkranetinu og studdist við órekjanlegan gjaldeyri var ekki auðvelt að komast að því hverjir stæðu að baki síðunni. Eina leiðin var að komast að því hvar í heiminum Silk Road væri hýst - þannig gætu bandarísk yfirvöld komist yfir nánast öll gögn sem tengjast síðunni og fundið út hver stæði á bakvið hana. Þetta átti hins vegar að vera ómögulegt.

Thor Data Center
Thor Data Center Gagnaver í eigu Advania og er staðsett í Hafnarfirði.

Þrátt fyrir það komst bandaríska alríkislögreglan að því hvar Silk Road væri hýst. Hún var hýst í Thor Data Center í Hafnarfirði. Tiltölulega nýtt gagnaver sem rekið er af Advania. Þessi uppgötvun alríkislögreglunnar er gríðarlega umdeild eða öllu heldur atburðarrásin sem leiddi þá til Íslands.

Alríkislögreglan gaf til að byrja með engar upplýsingar um það hvernig þeir fundu út IP-tölu Silk Road á myrkranetinu. Samfélagið sem þarna óx á undirnetinu var slegið. Þetta átti að vera órekjanlegt og nafnlaust. Þetta átti ekki að geta gerst. Málið var gríðarlega mikið rætt vestanhafs og stigu fjölmargir sérfræðingar í netöryggi fram og töldu að brögð væru í tafli; að alríkislögreglan hafi hugsanlega brotið lög til þess að finna út staðsetningu Silk Road.

„Íslenskur saksóknari sló FBI-fulltrúann út af laginu með aðlaðandi útliti en hún var klædd í pils, með ritaragleraugu og hárið í snúð.“


Þessa útskýringu á uppgötvun alríkislögreglunnar er meðal annars að finna í heimildarmyndinni „Deep Web“ sem kom út í fyrra og fjallar um upphaf Silk Road og endalok þess. Þar er því meðal annars haldið fram að alríkislögreglan hafi brotið sér leið inn í íslenska gagnaverið til þess að stela upplýsingum um Silk Road og stjórnendur hennar. Ferð rannsóknarlögreglumannsins og tveggja lögfræðinga hingað til lands hafi því aðeins verið til þess að fá afhendar upplýsingar löglega sem þeir höfðu þegar tryggt sér ólöglega.

Íslensk lögregluyfirvöld samstarfsfús frá fyrsta fundi


Rannsóknarlögreglumaðurinn sem fór fyrir rannsókninni vestanhafs heitir Chris Tarbell en hann lýsir því meðal annars í viðtali við Wired-tímaritið þegar hann kemur hingað til lands til fundar við íslensk lögregluyfirvöld vegna Silk Road. Tarbell lýsir fundi sínum með fulltrúum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þannig að hann hafi verið annars hugar til að byrja með vegna þess hve glæsilegur íslenskur saksóknari var viðstaddur fundinn.

„Tarbell var örlítið annars hugar vegna þess hve aðlaðandi saksóknarinn var í pilsi með gleraugu eins og aðstoðarkona og hárið í snúð,“ segir meðal annars í ítarlegri umfjöllun Wired um málið. Þá segir einnig að íslensk lögregluyfirvöld hafi verið mjög samvinnufús og að fundurinn hafi ekki tekið nema klukkutíma. Ekki löngu seinna höfðu íslenskir rannsóknarlögreglumenn fundið netþjóninn sem hýsti Silk Road, tekið afrit af öllum gögnum og afhent Tarbell frá alríkislögreglunni.

„Rannsókn FBI hafði leitt í ljós að þessi Ross Ulbricht væri sá sem gengi undir nafninu Dread Pirate Roberts og væri stofnandi og eigandi Silk Road.“

Áfram hélt samstarf alríkislögreglunnar og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem lauk með stórri alþjóðlegri aðgerð sem teygði sig til þriggja landa. Það var þann 1. október 2013 sem sérsveit ásamt fulltrúum frá bandarísku alríkislögreglunni handtóku hinn 29 ára gamla Ross Ulbricht á bókasafni í San Francisco.

Ross Ulbricht
Ross Ulbricht Situr í alríkisfangelsi í Bandaríkjunum en hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn fyrir aðild sína að Silk Road en Ulbricht var talinn forsprakki markaðarins.

Alríkislögreglan var á Íslandi þegar Silk Road var lokað í október

Rannsókn FBI hafði leitt í ljós að þessi Ross Ulbricht væri sá sem gengi undir nafninu Dread Pirate Roberts og væri stofnandi og eigandi Silk Road. Á sama tíma og Ulbricht var handtekinn vestanhafs voru teymi á vegum bandarísku alríkislögreglunnar að störfum í Frakklandi og á Íslandi. Í Frakklandi lokuðu fulltrúar FBI tölvum sem hýstu afrit af Silk Road en á Íslandi voru örlög þessa stærsta markaðssvæðis með ólögleg fíkniefni í heiminum innsigluð. Slökkt var á síðunni og hald lagt á rúmlega þrjú hundruð og sextíu milljónir króna í formi rafræna gjaldeyrisins Bitcoin.

Í dómsskjölum kemur fram að Tarbell hafi áætlað að Ulbricht hafi greitt sjálfum sér tæpa níu milljarða í sölulaun og að Silk Road hafi velt eitthvað í kringum tvö hundruð og þrjátíu milljörðum á meðan hún var í gangi. Dómsmálið sjálft vakti gríðarlega athygli en bandarísk yfirvöld voru harðákveðin í því að setja fordæmi með því að reyna að fá sem þyngstan dóm yfir Ulbricht. Lögfræðingar hans reyndu hvað þeir gátu að komast yfir skjöl sem sýndu hvernig bandaríska alríkislögreglan hefði komist að staðsetningu síðunnar. Ef þeir myndu ná að sanna að alríkislögreglan hefði brotið lög við rannsóknina þá væru góðar líkur á því að Ulbricht myndi sleppa með skammir.

Loðin rannsókn og þungur dómur

Bandaríska alríkislögreglan ákvað þá loksins að rjúfa þögnina um þennan þátt málsins. Sagði Tarbell meðal annars í yfirlýsingu til fjölmiðla að fulltrúar FBI hefðu komist að IP-tölu Silk Road vegna galla í innskráningarkerfi síðunnar. Þetta þótti mönnum hæpið líkt og greint er frá hér að ofan en þrátt fyrir það var engan bilbug að finna á Tarbell sem harðneitaði því að embættið hefði farið ólöglegar leiðir í þessu máli. Lögfræðingar Ulbricht voru strand og virtust lenda á vegg í hvert skipti sem leitað var frekari upplýsinga um þennan þátt málsins.

Silk Road-málinu lauk með gríðarlega þungum fangelsisdómi yfir hinum 31 árs Ross Ulbricht í febrúar í fyrra. Ulbricht var fundinn sekur um peningaþvott, tölvuglæpi  og samsæri um að smygla fíkniefnum. Dómarinn sýndi Ulbricht enga miskunn nokkrum mánuðum seinna og dæmdi hann í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn þann 29. maí í fyrra. Síðan þá hafa lögfræðingar hans reynt að áfrýja máli hans og lögðu fram slíka beiðni um miðjan janúar á þessu ári. Þeir vilja ómerkja dóminn og ný réttarhöld en þeir segja að sönnunargögn sem tengjast tveimur spilltum lögreglufulltrúum sem komu að rannsókn málsins hafi verið haldið frá lögfræðingum Ulbricht.

Stálu rafrænum gjaldeyri á meðan þeir rannsökuðu málið

En hvaða spilltu lögreglufulltrúar voru það og hvernig tengdust þeir málinu? Leyniþjónustufulltrúinn Shaun Bridges og fíkniefnafulltrúinn Carl Force frá DEA komu báðir að rannsókn Silk Road og eins og áður segir þá tók rannsóknin þrjú ár. Bridges og Force nýttu sér aðstöðu sína í rannsókn málsins og stálu mörg hundruð þúsund dollurum í rafræna gjaldmiðlinum Bitcoin, bæði frá Silk Road-síðunni sjálfri og bandarískum yfirvöldum.

Þarna var Silk Road hýst
Þarna var Silk Road hýst Ljósmyndin er tekin innan í Thor Data Center og sýnir hátæknigáma sem hafa að geyma hundruði nafnaþjóna en einn þeirra hýsti Silk Road.

Þeir játuðu báðir sekt sína í júní á síðasta ári. Þær játningar vilja lögfræðingar Ulbricht meina að sýni fram á að brögð hafi verið í tafli við rannsókn málsins og því hafi skjólstæðingur þeirra ekki fengið sanngjörn réttarhöld. Þegar þetta er skrifað er Ross Ulbricht enn að bíða eftir fréttum af áfrýjuninni.

Erlendir fjölmiðlar leituðu til íslenskra yfirvalda en fengu engin svör

Samkvæmt heimildum Stundarinnar hafa erlendir fjölmiðlar reynt að fá upplýsingar um aðkomu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að rannsókn málsins og aðdraganda hennar hér á landi en án árangurs. Hafa þeir meðal annars sent kæru til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytisins en ekki haft erindi sem erfiði.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gaf það strax út, á sama tíma og þeir gerðu grein fyrir samstarfinu við alríkislögregluna, að þeir myndu ekki veita frekari upplýsingar um málið. Lögregluembættið hefur staðið við það og því situr eftir sú spurning hvort bandaríska alríkislögreglan hafi brotist inn í íslenskt gagnaver til þess að komast til botns í einu flóknasta og umsvifamesta fíkniefnamáli síðari ára.

Stikla úr heimildarmyndinni Deep Web

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár