Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Meiri skattar, meiri skattar og enn meiri skattar

Nokkuð hefur borið á umræðu um skattamál í þessari kosningabaráttu, enda full þörf á. Ég held að margir geti tekið undir með ungu konunni sem sagði í viðtali við Fréttablaðið um síðustu helgi að það sé tekinn endalaus skattur af fólki og því sé erfitt að leggja fyrir. Hún sagði: „Unga fólkið er að reyna að komast áfram í lífinu og það er allt gert til að stoppa mann“.

Samfélagið sem „tekur endalausan skatt“ af unga fólkinu hefur verið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins síðasta aldarfjórðunginn, að fjórum árum undanskildum.  Það er því fróðlegt að skoða yfirlit yfir þróun ráðstöfunartekna frá árinu 1994 sem Landsbankinn birti nýverið. Þar kemur fram að hlutfall ráðstöfunartekna af tekjum hafi lækkað mikið á tímabilinu, verið 70% í upphafi tímabilsins en sé nú 62%, m.a. vegna þess að bæði skattar og iðgjöld til lífeyrissjóða hafi hækkað mun meira en tekjur. Svo segir í Hagsjá bankans: „Stóra myndin er því sú að sá hluti tekna sem heimilin ráðstafa sjálf hefur minnkað hlutfallslega á síðustu rúmum 20 árum.“

Þetta er í samræmi við niðurstöðu nýrrar skýrslu ASÍ um skattbyrði launafólks. Þar segir að byrðin hafi aukist í öllum tekjuhópum á tímabilinu 1998 til 2016, ekki síst vegna mikillar lækkunar barna- og vaxtabóta. Þessar „bætur“ virkuðu áður eins og tímabundinn skattaafsláttur fyrir ungt fólk sem barðist við að koma sér upp fjölskyldu og þaki yfir höfuðið. Þannig er kerfið á hinum Norðurlöndunum. En nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn, með aðstoða Framsóknarflokks og Viðreisnar, nær alfarið afnumið þennan skattaafslátt, eða með öðrum orðum aukið skattbyrði ungs fólks.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur líkað hækkað ýmsa skatta á neyslu, þ.e. á eyðslu þeirra peninga sem við fáum inn á launareikninginn um hver mánaðamót. Þannig hækkaði flokkurinn skatt á matvæli árið 2015 úr 7% í 11%. Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn hafa líka boðað skattahækkanir á bensín og olíu sem framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda kallar Íslandsmet í nýjum sköttum. Hann segir þær leiða til 30 til 60 þúsund króna aukinna útgjalda fyrir fjölskyldu með einn bíl. Þessar hækkanir munu gera það að verkum að hlutur ríkisins í bensínverði hefur aldrei verið meiri en nú, eða 58,22%. Þá hefur skattur á áfengi hækkað svo mikið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins að Félag atvinnurekenda segir skattlagninguna löngu komna „út úr öllu korti“, enda langt umfram hækkun á almennu verðlagi. Kostnaðarþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu hefur líka tvöfaldast á síðustu þremur áratugum og þá má líka telja til ýmis ný gjöld sem ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins hafa  haft hugmyndaflug til að leggja á almenning, t.d. útvarpsgjald og bílastæðagjöld í þjóðgörðum. Og nýjasta hugmynd ráðherra Sjálfstæðisflokksins um nýja skatta og auknar álögur eru sérstakir vegtollar.

Þannig að þrátt fyrir fagurgala Sjálfstæðisflokksins um skattalækkanir, nú skömmu fyrir kosningar, þá verður ekki hjá því komist að draga þá ályktun að flokkurinn beri mesta ábyrgð á þeirri stöðu sem stór hluti ungs fólks upplifir í dag, þar sem „er tekinn endalaus skattur af manni ... og það er allt gert til að stoppa mann.“ Þau urðu fleyg ummæli Tony Blair á sínum tíma þegar hann sagði að forgangsröðun stjórnvalda ætti að vera menntun, menntun og menntun. Forgangsröðun Sjálfstæðisflokksins er líka skýr þegar hann er við völd: Meiri skattar, meiri skattar og enn meiri skattar.

(Meðfylgjandi mynd: Halldór í Fréttablaðinu 30. ágúst 2017)

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu