Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Rjúfum klíkuböndin í bankakerfinu

Það getur verið hjálplegt fyrir skilning okkar á sögunni og þróun hennar að skipta henni í tímabil. Þannig hefur stjórnmálasögu 20. aldar t.d. verið skipt í tímabil sjálfstæðisstjórnmála og stéttastjórnmála til að útskýra þróun flokkakerfisins og helstu átakamála. Eins auðveldar það okkur að skilja þróun atvinnulífs og neytendamála ef við skiptum öldinni upp í tímabil frjálsra viðskipti og hafta. Þó að stjórnmálaumræðan beri þess kannski ekki merki þá stöndum við núna á mikilvægum skilum tveggja tímabila í Íslandssögunni þar sem grundvöllur valda og áhrifa næstu ára eða áratuga verður lagður. Það er nefnilega fátt sem mótar samfélagið á djúpstæðari hátt en bankakerfið og nú bíður okkar að ákveða framtíðar rekstrarfyrirkomulag Landsbanka og Íslandsbanka, en saman mynda þeir um 70% verðmætis alls bankakerfisins.

Segja má að saga íslenska bankakerfisins skiptist í þrjú tímabil; Heimastjórnartímabilið (1886-1930), helmingaskiptatímabilið fyrra (1930-1990) og helmingaskiptatímabilið síðara (1990-2008). Heimastjórnartímabilið í bankakerfinu hófst með stofnun Landsbankans árið 1886 og Íslandsbanka 1904 og lauk með gjaldþroti þess síðarnefnda árið 1930. Á þessum tíma réð fámennur hópur völdum, að mestu tengdur Heimastjórnarflokknum, á mjög örlagaríku tímabili í hagsögu þjóðarinnar þar sem til varð fámenn auðstétt kaupmanna og útgerðarmanna og fyrstu íslensku stórfyrirtækin voru stofnuð. Framsóknarflokkurinn, með Jónas frá Hriflu í broddi fylkingar, náði síðan á undraskömmum tíma að komast til valda innan Landsbankans og með gjaldþroti Íslandsbanka 1930 og stofnun Útvegsbanka í kjölfarið má segja að fyrra helmingaskiptakerfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bankakerfinu hafi byrjað að mótast. Það var síðan meitlað í stein með sögulegum sættum Jónasar og Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, í stjórn Landsbankans þegar bjarga þurfti Kveldúlfi, útgerðarfélagi Ólafs og Sambandsfyrirtækjum Framsóknarflokksins frá gjaldþroti undir lok fjórða áratugarins. Kerfið þjónaði þessum flokkshagsmunum mjög vel þar til það varð í raun gjaldþrota, sligað af pólitísku útlánakerfi og lágum vöxtum sem stjórnmálamenn handstýrðu á tímum mikillar og viðvarandi verðbólgu. Kerfið stóð ekki undir sér og fyrra helmingaskiptakerfið fjaraði út á níunda áratugnum með gjaldþroti Útvegsbanka og alvarlegum rekstrarvanda Landsbankans í tengslum við gjaldþrot Sambands íslenskra samvinnufélaga. Tímabilinu lauk með því að vald til vaxtaákvarðana var fært til bankanna sjálfra og einkavæðing þeirra hófst. Þriðja tímabil bankasögunnar, helmingaskiptatímabilið síðara, hófst árið 1990 þegar fjórir litlir einkabankar voru sameinaðir nýlega einkavæddum fjárfestingasjóðum ríkisins undir nafni Íslandsbanka-FBA. Tímabilinu lauk síðan árið 2008 með hruni bankakerfisins í kjölfar misheppnaðrar einkavæðingar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á Landsbanka og Búnaðarbanka.

Tímabilin þrjú í sögu íslenska bankakerfisins einkenndust öll af miklu valdi fámennra hópa sem nýttu bankakerfið til að stórefnast og skjóta enn styrkari stoðum undir eigin völd í viðskiptalífi og stjórnmálum, oft á kostnað stöðugleika í hagkerfinu og afkomu almennings. Tólf árum eftir bankahrun er enn óljóst hvernig við ætlum að skipuleggja kerfið til frambúðar, hvernig fjórða tímabil bankasögunnar eigi að verða. Ríkisstjórnin hefur boðað einkavæðingu þess þó að skoðanakannanir sýni að einungis 12% kjósenda styðji þá vegferð. Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, hefur lagt til að almenningur fái sjálfur að ákveða framtíðarskipan bankakerfisins á lýðræðislegan hátt með slembivöldu borgaraþingi, skoðanakönnunum og þjóðaratkvæðagreiðslu. Í könnun sem MMR vann fyrir félagið segjast 65% vera fylgjandi slíku ferli. Þingkosningar fara fram á næsta ári og þá gefst stjórnmálaflokkunum tækifæri til að lýsa því fyrir kjósendum hvernig þeir vilji skipuleggja fjórða tímabil bankakerfisins og hvort almenningur eigi að fá að taka þátt í mótun þess. Vonandi nýtum við það tækifæri til að rjúfa þau klíkubönd sem hafa einkennt bankerfið okkar allt frá upphafi og skapa hér kerfi sem stuðlar að fjölbreyttu atvinnulífi, jafnræði og stöðugleika.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni