Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Flækjusagan

Galileo og tunglin: Merkilegur afmælisdagur í dag

Illugi Jökulsson fjallar um gildi 7. janúar í veraldarsögunni.

Galieo, Júpíter og tunglin fjögur - Tunglin frá vinstri eru Io, Ganymede, Europa og Callisto í horninu hægra megin. Þau eru engan veginn í hlutfallslegri réttri stærð og heldur ekki miðað við Júpíter sem lúrir í bakgrunninum.

Það gera sér kannski ekki allir grein fyrir því en 7. janúar er einn merkasti dagurinn í vísindasögu mannkynsins og raunar í sögu mannsins yfirleitt.

Því það var 7. janúar árið 1610 eða fyrir réttum 407 árum í dag sem Ítalinn Galileo Galilei beindi sjónauka sínum út í geim og kom auga á þrjú tungl við reikistjörnuna Júpíter.

Það var í fyrsta sinn sem menn komu auga á tungl við annan himinhnött.

Fyrir utan að þetta var í sjálfu sér athyglisvert, þá skipti uppgötvun Galileos miklu máli fyrir vaxandi deilur kirkjunnar annars vegar og vísindamanna hins vegar um það hvort Jörðin væri miðpunktur alheimsins eða hvort hún snerist eins og hver önnur reikistjarna um sólina.

Samkvæmt Jarðarmiðjukenningu kirkjunnar - sem raunar var upphaflega runnin frá Aristótelesi - snerust allir himinhnettir um Jörðina, en þarna voru sem sagt komin í ljós tungl sem gerðu það alls ekki - heldur snerust um sína eigin reikistjörnu.

Galileo átti einmitt eftir að verða miðpunktur þessara deilna nokkru síðar.

Hann fæddist í Písa árið 1564 og varð fljótlega fjölhæfur og mikilhæfur vísindamaður. Þá eimdi enn eftir af Endurreisninni á Ítalíu og eins og sannur Endurreisnarmaður lét Galileo sér fátt óviðkomandi vera en áhugi hans á stjörnufræði varð sífellt meiri.

Hann hóf að smíða sjónauka 1608 og tveim árum seinna var hann kominn með græju sem stækkaði 20-falt. Og þá var það sem hann beindi sjónaukanum í átt að Júpíter. Hann hafði þá aðsetur í Padúa.

Og að kvöldi þessa dags árið 1610 kom Galieo sem sagt auga á „þrjár fastastjörnur, allar ósýnilegar [vegna smæðar]“ með berum augunum. Þær voru allar mjög skammt frá Júpíter og í beinni línu. Næstu nætur fylgdist Galileo stöðugt með þessum litlu stjörnum og áttaði sig brátt á því að alls ekki gat verið um fastastjörnur að ræða. 

Og heldur ekki örlitlar reikistjörnur sem snerust um Jörðina, eins og hin opinbera kenning í þá daga gerði ráð fyrir.

Heldur virtust þetta vera tungl sem snerust um Júpíter.

Mjög sterka vísbendingu þess sá Galileo þann 10. janúar þegar ein af litlu stjörnunum þremur hvarf bak við Júpíter.

Og hin endanlega sönnun skilaði sér í hús 13. janúar þegar fjórða smástjarnan dúkkaði upp og hafði bersýnilega verið bak við Júpíter.

Þarna voru sem sé komin fjögur tungl, ekki stjörnur.

Þau fjögur af 67 tunglum Júpíters (sem við þekkjum nú) sem langstærst eru.

Svo fór að fram kom keppinautur sem hélt því fram að hann hefði séð tunglin fjögur á undan Galileo. Það var þýski stjörnufræðingurinn Simon Marius.

Eftir miklar rannsóknir á því hver gerði hvað hvenær, þá er þó niðurstaða flestra vísindasagnfræðinga sú að Marius hafði verið einum degi á eftir Galileo að koma auga á tunglin.

Ekki munaði þar miklu, en þegar við bætist að Galileo var líka sannanlega á undan að birta niðurstöður sínar, þá hefur hann fengið óskiptan þann heiður að hafa fyrstur fundið tunglin.

En Simon Marius fékk svolitla uppreisn æru með því að hans tillaga að nöfnum á tunglin fjögur varð ofan á - en tillögu Galileos var hafnað. Hann hafði viljað nefna tunglin eftir verndara sínum, Cosimo II hertoga af Medici-ættinni og bræðrum hans þremur: Francesco, Carlo og Lorenzo.

Marius stakk hins vegar upp á nöfnunum Io, Europa, Callisto og Ganymede - en þetta eru allt nöfn á „ástkonum“ og „ástmönnum“ Júpíters/Seifs. Reyndar urðu þau nöfn víst ekki útbreidd fyrr en í byrjun 20. aldar.

Þess má að lokum geta að í stjörnuskrá kínverska stjarnfræðingsins Gan De frá 362 f.Kr. er nefnd „lítil brúnleit stjarna“ nálægt Júpíter sem gæti hafa verið tunglið Ganymede. En Gan De virðist hvorki hafa séð hin tunglin þrjú né áttað sig á hvað þessi stjarna var í raun og veru.

Og allra síðast verð ég svo að nefna að gæsalappir setti ég utan um „ástkonur“ og „ástmenn“ Júpíters hér að ofan, vegna þess að um „ást“ var ekki að ræða af þeirra hálfu.

Öllum var rænt og þeim nauðgað af Júpíter eða Seifi.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Listi

Frásagnir 137 íslenskra stjórnmálakvenna af misrétti, ofbeldi og kynferðislegri áreitni

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Geir tapar fyrir Mannréttindadómstólnum: Engin mannréttindi brotin í Landsdómsmálinu

Fréttir

Niðurstaða Mannréttindadómstólsins stangast á við þungar ásakanir Geirs og ummæli hans um „smáatriði“

Leiðari

Hér kemur sáttin

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Listi

Frásagnir 137 íslenskra stjórnmálakvenna af misrétti, ofbeldi og kynferðislegri áreitni