Leiðari

Er þetta góður leiðtogi fyrir Ísland?

Er gott að maður sem talar um „geðveiki“ gagnrýnenda, er umvafinn hagsmunaárekstrum og krefur aðra um aðhald á meðan hann styður óhóf í eigin þágu, verði forsætisráðherra Íslands?

Verðandi leiðtogi þjóðarinnar Guðni Th. Jóhannesson og Sigurður Ingi Jóhannsson skera sig úr forverum sínum þegar kemur að viðhorfi til gagnrýni, en verðandi forsætisráðherra talar um „geðveiki“ þeirra sem sjá ekki að Ísland sé „frábært land“ og gagnrýna eign hans á aflandsfélagi. Mynd: Stöð 2

Eitt versta einkennið á leiðtoga í lýðræðisríki er vangetan til að þola og svara fyrir gagnrýni. Annað slæmt og samtengt einkenni er tregðan til að setja sig í fótspor annarra og viðurkenna sjónarhól þeirra.

Síðustu þrjú árin, með Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem forsætisráðherra, og Ólaf Ragnar Grímsson sem forseta, streymdu stöðugt að ofan þau skilaboð að gagnrýni væri löstur og að Íslendingar, sem ekki væru sammála, væru niðurrifs- og sundurlyndisöfl sem sköðuðu hagsmuni Íslands. Við höfum því þurft að nota orku okkar í að verjast sjálfmiðuðum tilraunum valdamanna til að lama gagnrýna umræðu í samfélaginu og jaðarsetja bæði þá sem vilja bæta samfélagið og þá sem telja sig beitta misrétti eða skildir útundan.

Á árinu 2016 breyttist þetta. Viðhorf til gagnrýninnar umræðu í áramótaávörpum nýs forseta og forsætisráðherra Íslands voru þveröfug á við boðskap forvera þeirra.

Nýtt viðhorf með nýju fólki

Um síðustu áramót á undan sagði Sigmundur Davíð að Íslendingar hefðu fengið þá ímynd að vera þekktir fyrir „dugnað, þrautseigju og þolgæði“ og taldir „úrræðagóðir á raunastund“, en setti samhengi á milli gagnrýni á störf ríkisstjórnar hans og aumingjaskapar: „En eigum við skilið að halda þessari ímynd ef við ekki aðeins börmum okkur meira yfir áskorunum en áður heldur börmum okkur líka þegar vel gengur?“ 

Á árinu 2015 hafði meðal annars verið gagnrýnt að breytingar ríkisstjórnar hans á skattkerfinu hefðu verið hagfelldastar fyrir þá ríkustu í samfélaginu, meðal annars hann sjálfan.

Áður hafði hann ítrekað varað við gagnrýnendum, „þeim sem ala á sundrung“, og sagt: „látum ekki sundrung og niðurrifsöfl draga úr okkur þrótt.“

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra fór þvert gegn þessu viðhorfi í áramótaávarpi sínu á gamlárskvöld. Hann sagði að við ættum að hafa í huga „að lýðræðinu er ekki best þjónað með samheldni og samstöðu um alla skapaða hluti. Og í reynd alls ekki. Skoðanaskipti og mismunandi áherslur eru nauðsyn hverju samfélagi til að ná fram bestri niðurstöðu.“ 

Ólíkt viðhorfi forvera síns, sem sagði þjóðina veruleikafirrta vegna þess að hún studdi ríkisstjórn hans lítið, viðurkenndi Sigurður Ingi rétt fólks til eigin upplifunar, sýnar og mats á stöðunni. „En það eru að sjálfsögðu fleiri mælikvarðar sem segja til um hvort fólk hafi það raunverulega gott frá einum tíma til annars. Og það þýðir lítið fyrir okkur stjórnmálamenn að hamra á því að allir hafi það gott, ef upplifun margra er sú að svo sé ekki.“

Nýr forseti – ný sýn

Ólafur Ragnar Grímsson forseti kvartaði reglulega undan skorti á samstöðu meðal þjóðarinnar, beindi því til fólks í boðhætti að hætta að „tala niður íslenskt atvinnulíf“, hafði ruglað saman reytum við menn eins og Vladimir Pútín og kitlað hégóma hernaðarsinnaðra Rússa með því að kalla Pétursborg höfuðborg Norðurslóða.

Guðni Th. hefur tekið afstöðu með heilbrigðum gildum, komið fram á hátíð samkynhneigðra og tók meira að segja afstöðu í heillaóskum sínum til Donalds Trump Bandaríkjaforseta, með því að minna hann á jafnrétti kynjanna og „jafnan rétt allra þegna óháð litarhafti eða trú“.

Á meðan Ólafur Ragnar Grímsson kvartaði undan því í nýársávarpi að þjóðin væri komin á „hættulegar villigötur“ vegna gagnrýninnar umræðu – „gleymir sér í hringiðu gagnrýni og ágreinings“ og „glatar sínu sögulega minni um mátt samstöðunnar“ – vék Guðni Th. Jóhannesson að því í sínu fyrsta nýársávarpi að „sundurlyndi“ væri eitt af „þjóðareinkennum sem hafa hjálpað okkur að komast af á hinu harðbýla landi okkar“. Guðni hefur undið ofan af goðsögnum og mælt fyrir raunsæi, á meðan einn helsti aðall forvera hans var að skapa goðsagnir og reyna að koma á „varanlegri samheldni og samstöðu“ með því að minnka gagnrýna umræðu og koma á hóphugsun líka þeirri sem hann kynti undir í bankabólunni og útrásinni. 

Á meðan Sigmundur Davíð Gunnlaugsson notaði síðustu tvö áramótaávörp sín til að undirstrika að árangur Íslendinga í íþróttum væri til marks um farsæld og jafnvel ákveðna yfirburði þjóðarinnar tók Guðni Th. sérstaklega fram að aðrir mælikvarðar væru á farsæld samfélags. „Það er nefnilega þannig að styrkur ríkis og þjóðfélags er ekki metinn eftir hagvexti eða þjóðarframleiðslu, vígbúnaði eða mannfjölda. Og þótt við fögnum afrekum samlanda okkar á sviði menningar, vísinda eða íþrótta eru þau ekki endilega til vitnis um kosti samfélagsins. Raunverulegur styrkur þess felst í því hversu vel er hlúð að sjúkum og öðrum sem þurfa á aðstoð að halda, fólki sem býr við fötlun eða þroskaskerðingu. Styrk samfélags má líka meta eftir því hvernig börnum er sinnt, hvernig búið er að öldruðum á ævikvöldi. Þetta eru allt saman mælikvarðar á lífsgæði, markmið sem skipta mestu í bráð og lengd.“

„Geðveikin“ okkar

Á nýju ári eru Íslendingar að taka annað skref. Stefnt er að því að Bjarni Benediktsson verði kynntur sem nýr forsætisráðherra á næstu dögum. Með nýjum forsætisráðherra breytist aftur boðskapurinn að ofan.

Verðandi forsætisráðherra nýtti tækifæri sitt til að koma sýn sinni á framfæri um áramótin í þættinum Kryddsíld á Stöð 2 til þess að álykta að þau hlytu að vera geðveik, sem gagnrýndu spillingu á Íslandi, í andsvari sínu við gagnrýni á tengsl sín og fjölskyldu sinnar við aflandsfélög.

Skilaboðin að ofan eru því þau að það sé aumkunarvert og til marks um vitfirringu að vera ósáttur í landi Bjarna, eða ósáttur við Bjarna. „Það þarf náttúrlega einhverja geðveiki til þess að sjá ekki hvað þetta er frábært land sem við búum á,“ sagði hann. Hann svaraði gagnrýni pistlahöfundar Stöðvar 2 með því að hann „vorkenndi fólki sem líður svona“.

Þeir valdamestu og verst settu

Bjarni, sem hlaut hálfrar milljón króna launahækkun á einu bretti á kjördag, án vitundar kjósenda, óttast kröfur fólks um kjarabætur og segir hættu á að Íslendingar „kunni sér ekki hóf þegar vel árar“. Hann vill ekki afturkalla launahækkanirnar, þrátt fyrir áskorun forsetans um það, og segir nóg vera gert: „Það er við þær aðstæður sem fólk segir: Nei, það þarf að gera svo miklu miklu meira. Þessu er ég bara ósammála. Ég held að það sé varasamt að gera það. Ég held að við gætum með því verið að feta okkur inn á braut sem við höfum áður þrætt, sem er að kunna okkur ekki hóf þegar vel árar.“

Alþingismenn hafa fengið 75 prósent launahækkun frá árinu 2013. Öryrkjar hafa fengið 1 prósent kaupmáttaraukningu frá árinu 2009. Verðandi forsætisráðherra  hefur sagt að hann sé „ekki spenntur“ fyrir því að gripið verði inn í launahækkunina hans, sem fulltrúar hans og annarra þingmanna í kjararáði ákvörðuðu fyrir þá.

Handan hagsmunaárekstra

Andstæðan á milli forsetans og væntanlegs verðandi forsætisráðherra kristallast í því að forsetinn gefur launahækkun sína til góðgerðarmála og biður Alþingi um að „vinda ofan af“ verulegri launahækkun þingmanna, ráðherra og forseta, en Bjarni stendur gegn því og vill halda hækkuninni, jafnvel þótt hann krefji aðra landsmenn um að „kunna sér hóf“.

Látum vera alla tortryggnina sem hlýtur að vakna við óhagstæða sölu á ríkiseignum til ættmenna Bjarna, til þeirrar staðreyndar að faðir hans forðaði 500 milljónum króna úr Glitni þremur dögum fyrir þjóðnýtingu og sendi peningana til Flórída, á sama tíma og Bjarni var innsti koppur í búri og sótti næturfund hjá aðstandendum Glitnis vegna nátengdra mála. Eða að Bjarni, með annan fótinn í viðskiptum og hinn í stjórnmálum á sama tíma, hafi selt hlutabréf sín í Glitni, ásamt föður sínum, á sama tíma og kom til tals í innsta hring flokks hans að bankarnir væru í bráðri hættu mánuðina fyrir bankahrunið. Látum líka vera tregðu hans til að heimila kaup á gögnum um Íslendinga í skattaskjóli. Látum vera hagsmunaárekstra hans og horfum bara á boðskap hans sem leiðtoga.

Góðir og slæmir leiðtogar

Góður leiðtogi, sem er laus við hagsmunaárekstra og styður við heilbrigt gildismat, skapar gott fordæmi. Þannig getum við nú horft til Guðna forseta og spurt: Hvað myndi Guðni gera? Myndi Guðni segja að þeir sem gagnrýna hann og tiltekið ástand á landinu væru haldnir geðveiki og að hann vorkenndi þeim? Myndi hann þiggja verulega launahækkun umfram almenning?

Nú þegar við höfum góðan leiðtoga eigum við betra með að gera kröfur. Við sjáum hverjir eru ekki æskilegir leiðtogar, hvernig verk þeirra virka fyrir mælikvarðann um farsæld samfélagsins og að við þurfum ekki að sætta okkur við hvað sem er.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

VG ekki á móti því að tilteknir Sjálfstæðismenn gegni ráðherraembætti

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Mest lesið í vikunni

Pistill

Enn meiri spilling af völdum Sjálfstæðisflokksins

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Víðir bóndi í stríði gegn laxeldinu: „Hrafninn eyðilagði hér 80 rúllur“

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“