Stríð án enda

Afganar hafa upplifað 40 ára styrjöld. En er loksins að rofa til?

ritstjorn@stundin.is

Þann 30. apríl bárust þær fréttir að 36 hefðu látist í sjálfsmorðsprengjuárásum í Kabúl. Vikuna áður sprakk sprengja við kosningaskráningarstöð í Kabúl og drap 69 manns. Er þetta stærsta árás þar í landi síðan í janúar þegar sjúkrabíll var fylltur af sprengiefni og drap 103 við Chicken Street, sömu götu og ráðist var á íslensku teppakaupmennina haustið 2004, en að meðaltali 66 óbreyttir borgarar eru drepnir í hverri viku í Afganistan. Allar fréttir frá landinu virðast slæmar. En hvernig hófst þetta allt saman? 

Eins og flestir af minni kynslóð varð ég fyrst meðvitaður um tilvist Afganistan í kringum innrás Sovétríkjanna á 9. áratugnum. James Bond fór þangað í Living Daylights og Rambó í Rambo III, báðir til að styðja hugdjarfa skæruliða gegn heimsveldinu illa. En kalda stríðinu lauk og Afganistan hvarf sjónum, þar til það birtist aftur með eftirminnilegum hætti í kjölfar árásanna 11. september. Hetjur fóru aftur að ríða um héruð í bíó, en í þetta sinn var heimsveldið annað og skæruliðarnir orðnir vondu kallarnir. 

Sherlock Holmes og hipparnir

Segja má að Vesturlandabúar hafi fyrst uppgötvað Afganistan í gegnum nýlendubrölt Breta á 19. öld. Í bókmenntum tímabilsins var það nokkurs konar Langtíburtustan, hættulegt og fjarlægt land í sögum Rudyard Kipling eða Conan Doyle, og Dr. Watso, líflæknir Sherlock Holmes, hafði verið særður þar. En í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar höfðu Bretar sig endanlega á brott, og þar að auki var nóg af stríðssögum frá nálægari slóðum. 

Landið birtist fyrst aftur í dægurmenningunni á 7. áratugnum og nú á nokkuð öðrum forsendum. Í þá daga var hægt að ferðast á rúgbrauði frá Kaupmannahöfn og í gegnum Íran og Írak, Afganistan og Pakistan, Jammú og Kasmír, til að fara að hugleiða á Indlandi eða í Tíbet. Ýmislegt tóku hipparnir með sér heim aftur, klæddust kaftönum og hver kannast ekki við svartan Afgan? 

Í bókum eins og Flugdrekahlauparanum og Bóksalanum í Kabúl er tímanum fyrir innrás Sovétríkjanna lýst sem nokkurs konar horfinni paradís. Og vissulega er nokkuð til í því. Þrátt fyrir að vera eitt fátækasta land í heimi ríkti þó friður. Sami konungur réði ríkjum í 40 ár, og jafnvel þegar frændi hans Daud setti hann af árið 1973, lýsti yfir stofnun lýðveldis og gerði sjálfan sig að forseta kom það ekki að sök. Fimm árum síðar var hins vegar gerð kommúnistabylting og nú átti að nútímavæða landið á einni nóttu. Niðurstaðan af þessu varð 40 ára stríð sem enn sér ekki fyrir endann á, með yfir milljón látinna.

Kabúl40 ára stríð er enn yfirstandandi.

Sturlungaöld

Við fyrstu sýn virðast Ísland og Afganistan vera eins ólík lönd og hugsast getur. Ísland er friðsöm eyja í Norður-Atlantshafi, Afganistan er stríðshrjáð land í Mið-Asíu með engan aðgang að sjó. En þegar nánar er að gáð eru nokkur landfræðileg líkindi. Land þetta er alsett fjöllum og með miklar veðurfarsbreytingar frá einum stað til annars en suðurlandsundirlendið er frjósamast, hér eru engar lestir en hringvegurinn tengir helstu byggðir saman. Og jafnvel má finna nokkur pólitísk líkindi líka. 

Sagt er að Afganistan hafi aldrei verið sigrað af erlendum herjum, en þetta er ekki alls kostar rétt. Ríkið hefur og verið hluti af öðrum heimsveldum og jafnvel stofnað nokkur sjálft. En þeir sem hafa ráðið landinu hafa aðeins haft yfirráð yfir helstu borgum og bæjum, ræktunarsvæðum og áveitum. Flestir hafa komist að því að ættbálkana upp til fjalla er best að láta í friði, heimsveldi allt frá Alexander til Bretaveldis hafa farið flatt á því að komast upp á kant við þá. 

Ættbálkar þessir, sem margir eru af Ghilzai kvísl Pastúna, hafa verið og eru enn sárafátækir. Þar sem lítið er um auðsöfnun verður sjaldnast til miðstýrt yfirvald. Höfðingjar eru því neyddir til þess að tala um fyrir stuðningsmönnum sínum frekar en að skipa þeim fyrir, og eru settir af þyki þeir ekki standa sig. Minnir þetta nokkuð á íslenska ættbálkasamfélagið, sem var að mörgu leyti lýðræðislegt en svo fátækt að jafnvel höfðingjar lentu í erjum út af ostbita. 

Járn-Emírinn og hauskúputurnarnir

Sá fyrsti sem reyndi að koma valdi sínu yfir landið allt með beinum hætti var Járn-Emírinn svokallaði, Abdur Khan, sem ríkti frá 1880 til 1901. Kom hann sér upp öflugum her og leyniþjónustu og seldi fólk í þrældóm eða lét byggja turna úr hauskúpum þeirra ef þeir höguðu sér ekki. Sérstaklega urðu Hasarar, sem játa sjíatrú, illa úti, en um 70 prósent þeirra voru drepnir eða hraktir í burtu. Járn-Emírinn lét loka landinu að mestu og forðaðist samskipti við umheiminn, en gerði engar tilraunir til að breyta lífsháttum fólks. 

Synir Khans drógu mjög úr ógnarstjórninni og reyndu að koma á alls konar umbótum, en misræmið á milli hinna menntuðu Kabúlbúa og ættbálkanna til sveita jókst stöðugt. Sonarsonurinn, Amanullah Khan, rak Breta endanlega á brott en varð jafnframt fyrsti konungur Afgana til að heimsækja Evrópu. Hann vildi meðal annars koma á viðskiptum við umheiminn og kvenréttindum í landinu, en þetta var of mikið fyrir heimamenn og var hann settur af árið 1929. Við tók Musahiban-grein ættarinnar sem réði ríkjum allt til 1978. 

Afganistan býr yfir talsverðum náttúrulegum auðlindum, svo sem kopar og eðalsteinum, en þær hafa aldrei verið nýttar og auður í Afganistan því alltaf komið utan frá. Verkefni valdamanna í landinu hefur því verið tvíþætt. Annars vegar þurfa þeir að virðast verndarar sjálfstæðisins í augum landa sinna til að öðlast lögmæti, hins vegar þurfa þeir að hafa aðgang að fjármagni utan frá til að deila á milli fylgismanna sinna og kaupa sér þannig stuðning. Og höfðingjarnir í Kabúl náðu miklum tökum á þessari list. 

MiðausturlöndAfganistan liggur landlukt í fjalllendinu ofan Indus-dalsins mitt milli Austurlanda nær og fjær.

Kalda stríðið til bjargar

Frá því silkileiðin gamla lokaðist með hruni Persaveldis snemma á 18. öld höfðu Afganar helst tekjur af því að herja á svæði þar sem nú eru Pakistan og Indland. En um miðja 19. öld fór lega landsins aftur að skipta máli, Rússar sóttust til áhrifa í Mið-Asíu úr norðri og Bretar frá Indlandi að sunnan. Hinir síðarnefndu hernámu landið tvisvar en voru hraktir í burtu og komust að því að auðveldara var að múta Afgönum en að stjórna þeim beint. Leiðtogar skæruliða urðu frelsishetjur í augum landa sinna fyrir að berjast gegn Bretum en hlutu svo miklar greiðslur frá þeim eftir á, og var Járn-Emírinn einn af þessum mönnum. Bretar fengu það sem þeir vildu fyrir peninginn, Afganar skuldbundu sig til að halda Rússum úti og ráðast ekki á Indland sjálfir.

Afganar kjósa helst að starfa með veldum sem eru sem lengst í burtu og var Þjóðverjum lofaður stuðningur ef þeir sendu her á vettvang í báðum heimsstyrjöldum, en til þess kom ekki og haldið var í hlutleysið. Eftir lok þeirrar síðari voru góð ráð dýr, Bretar yfirgáfu Indland og ekki var meiri fjármuna að vænta þaðan. En kalda stríðið kom til bjargar og Afganar sömdu við báða aðila, fengu meiri stuðning miðað við höfðatölu frá Rússum en nokkrir aðrir og jafnframt fé frá Bandaríkjunum til innviðauppbyggingar. Landið var reyndar vita gagnslaust frá hernaðarlegu sjónarmiði og herstöðvar ekki í boði fyrir utanaðkomandi, en lógík kalda stríðsins var jú sú að hinn aðilinn mátti ekki komast til áhrifa og því varð að keppa um hverja spildu. Gagnaðist þetta Afgönum ágætlega, allt þar til þau reginmistök voru gerð að ganga í lið með Sovétríkjunum beint. 

Hæðirnar ofan Kabul

Kommúnismi og Íslamismi

Menntun var almennt ekki mikil, en þó hafði háskóli verið stofnaður í Kabúl árið 1931. Fyrstu áratugina komust flestir menntamenn í örugg störf hjá ríkinu, en upp úr 1970 hafði þeim fjölgað svo mjög að þetta var ekki lengur gerlegt. Nýjar hugmyndir bárust að utan og tvær náðu að skjóta rótum, kommúnismi og íslamismi. Aftur gerði aðgreiningin á milli sveita og borgar vart við sig, þar sem fyrri hópurinn átti ættir að rekja til borgarelítunnar en sá seinni kom af fjöllum. Vissulega voru íbúarnir almennt íslam, en þetta var talið sjálfgefið og því ekki efni í sérstaka pólitíska hreyfingu. 

Þegar Daud rændi völdum árið 1973 hafði hann notið stuðnings kommúnista, en síðan ýtt þeim til hliðar. Í apríl 1978 töldu kommúnistar hins vegar að röðin væri komin að sér og Daud var myrtur ásamt fjölskyldu sinni. Byltingarstjórn var komin til valda og nú skyldi öllu breytt. Valdhafar í Kabúl höfðu hingað til látið ættbálkana að mestu afskiptalausa, en kommúnistar töldu að með nýjum hertólum frá Sovétríkjunum væri hægt að koma vilja sínum fram. Þeir skiptu jörðunum upp á nýtt, reyndu að brjóta upp hefðbundin valdakerfi í héruðunum og höfnuðu trúarbrögðum. Á sama tíma voru miklar hreinsanir gerðar innan flokksins og um helmingur flokksmanna var drepinn eða rekinn í útlegð. Efnahagsumbæturnar gáfust illa og allt logaði í uppreisnum. Meira að segja sovéskum ráðgjöfum fannst heldur rösklega til verks gengið og ríkisstjórnin riðaði til falls. 

Rússar höfðu í raun lítilla hagsmuna að gæta í Afganistan, en það var lógík kalda stríðsins að ríkisstjórn bræðraþjóðar mætti ekki falla. Ákveðið var að senda her á vettvang undir árslok 1979. Speznatssveitir brutust inn í höllina og tóku leiðtoga kommúnista, Amin, af lífi en komu sínum eigin manni, Karmal, að sem átti að snúa við hinum miklu breytingum fyrirrennara síns. En allt gekk á afturfótunum, hin erlenda innrás guðlausra kommúnista sameinaði ættbálkana í uppreisnum sínum og nú fóru önnur erlend ríki að veita gangi mála athygli. 

Skæruliðatískan og Star Wars

Bandaríkjamenn voru enn í sárum eftir Víetnam og vildu ólmir veita Rússum sömu niðurlægingu. Þeir töldu sig hafa lært að betra væri að treysta á aðstoð þeirra sem þekktu til aðstæðna. Því var ákveðið að leyniþjónusta Pakistan, ISI, myndi sjá um að útdeila vopnunum sem þeir sendu til Afgana. Pakistanar tóku vel í þetta og völdu þá úr sem þeim líkaði best, gjarnan íslamista, og Sádi-Arabar vildu líka styðja við bakið á trúbræðrum sínum. Þannig voru að minnsta kosti tvö stríð í gangi í einu, kalda stríðið gegn kommúnismanum og stríð íslamista við guðleysingja. 

TalibaniMeðlimur trúarlögreglu talibana lemur hér konu vegna þess að hún afklæddist búrku sinni opinberlega.

Allt fór í gegnum bæinn Peshawar í Pakistan, en blaðamenn sem þangað komu báru ástandið saman við Mos Eisley í Star Wars, þarna voru njósnarar, skæruliðar og vopnasalar á hverju strái, litríkir persónuleikar eins og hin svonefnda „Gucci Muj“, sem höfðu meiri áhuga á skæruliðatískunni heldur en bardögum, eða Abdul Haq, sem hafði misst fótinn sökum jarðsprengju en klifraði einfættur um fjöll og firnindi til að stofna nýjar sveitir þegar hinar gömlu voru lagðar að velli. Niðurstaðan varð sú að yfir milljón manns misstu lífið og fjórar milljónir gerðust landflótta. Stríð voru ekkert nýtt í Afganistan, en þetta var í fyrsta sinn sem átökin náðu um land allt. 

Undir lok áratugarins hófu Sovétríkin að liðast í sundur og íslamistar litu svo á að það væri þeim að þakka. Bandaríkjamenn hættu hins vegar öllum afskiptum af landinu. Eftir stóð Pakistan sem kaus að styðja talíbana þótt fjárráðin væru nú minni. Borgarastríð braust út og náði í fyrsta sinn til Kabúl sem var lögð í rúst. Talíbönum tókst að lokum að leggja undir sig stærstan hluta landsins, en þeir áttu við svipaðan vanda að etja og kommúnistar áður. Fólk leit á þá sem handbendi útlendinga, Pakistana og Araba og tók illa í að þeir reyndu að gerbreyta samfélaginu með sharíalögum. Talíbönum tókst einnig að fá allt alþjóðasamfélagið upp á móti sér og þegar þeir veittu Osama bin Laden hæli reitti það bæði Bandaríkjamenn og Sádi-Araba til reiði. 

KabulBandarískir hermenn ganga fram hjá afgönskum börnum.

Stjórnarskrárdeilan

Flestir vita hver niðurstaðan af þeirri vináttu var. Bandaríkin studdu Norðurbandalagið með vopnum og loftárásum og stjórn talíbana féll furðu skjótt. Flestir Afganar létu sér vel líka, fáir erlendir hermenn voru í landinu og Bandaríkin þar að auki í hæfilegri fjarlægð. Svo vel tókst að gera það á nokkrum mánuðum sem Sovétríkjunum hafði ekki tekist á 10 árum að óhætt þótti að beina athyglinni annað. Írakar hlytu að taka þeim jafn vel og Afganar höfðu gert. En annað kom á daginn, og á meðan athygli Bandaríkjanna var á óöldinni sem þeir höfðu skapað í Írak misstu þeir tökin á Afganistan líka. 

FriðurFyrrverandi hermenn úr röðum talibana skila vopnum sínum í Ghör, Afganistan, árið 2012, og skuldbinda sig til að vinna í þágu friðar og uppbyggingu í Íslamska lýðveldinu Afganistan.

Vandinn lá að einhverju leyti í hinni nýju stjórnarskrá landsins. Eftir fall talíbana var Hamid Karzai, af góðum ættum og vel mæltur á hin ýmsu tungumál, valinn bráðabirgðaforseti á fundi skæruliðaforingja í Bonn. Brátt risu þó deilur um hvort ætti að verða forsetaræði eða þingræði í hinu nýja Afganistan, en þingræðið hefði ef til vill hentað betur. Hin ótal héruð höfðu látið til sín taka í hinni löngu baráttu gegn Sovétríkjunum og talíbönunum og myndi ekki vera jafn auðveldlega stjórnað frá Kabúl framar. En Karzai dustaði rykið af gömlu konungstjórnarskránni frá 1964 og var orðinu konungur skipt út fyrir orðið forseti. Var þetta gert með svo miklu hraði að í upprunalegu útgáfunni á farsí var konungstitillinn stundum enn inni. Tillögur stjórnarskrárnefndar voru og að hluta til hunsaðar, þar sem lokaútgáfunni var mikið breytt eftir að hún hafði lokið störfum. Þá bannaði Karzai að menn byðu sig fram undir merkjum stjórnmálaflokka, hér skyldi kjósa fólk og ekki flokka. Niðurstaðan var óheyrilegur fjöldi frambjóðenda þar sem fjármunir eða frægð skiptu mestu, og víða þurfti ekki nema 5-10 prósent atkvæða til að ná meirihluta. 

Hamid KarzaiHunsaði tillögur stjórnarskrárnefndar og bannaði stjórnmálaflokka.

Karzai var svo kosinn til forseta 2004 í tiltölulega frjálsum kosningum. Verr tókst til eftir að hann hafði tryggt sér völdin. Menn litu á hann sem handbendi Bandaríkjanna, sem í sjálfu sér þurfti ekki að vera svo slæmt, nema hvað að hann fékk litla peninga frá þeim til að útdeila til fylgismanna sinna. Erlendar hjálparstofnanir og fyrirtæki kusu frekar að starfa án hlutdeildar ríkisins, sem hraðaði uppbyggingu en gerði það að verkum að heimamenn fengu sjaldnast vinnu við störfin, og á vinnu var þörf þar sem flóttamenn hófu að snúa heim af miklum móð. 

Von?

Árið 2006 braust svo aftur út uppreisn talíbana í suður- og austurhéruðum landsins. Fólk var vissulega orðið langþreytt á stríðum og dugandi forseti hefði líklega með stuðningi alþjóðasamfélagsins getað stuðlað að friði. En hvorugt var í boði, og fjármunum í staðinn eytt í innrás í Írak. Þegar Obama varð forseti Bandaríkjanna var áherslan aftur lögð á Afganistan um stund, en nú var það orðið of seint. 100.000 hermenn voru sendir á vettvang, en þeir höfðu aðeins verið um 5.000 í upphafi árs 2002. Og þó tókst ekki að vinna bug á talíbönum, sem nú ráða um helmingi héraða og er tala bandarískra hermanna kominn niður í 10.000. Því er harla ólíklegt að sigur vinnist á þeim í bráð. 

Karzai varð aftur kosinn forseti árið 2009 en nú voru vinsældir hans horfnar og stórfelldu kosningasvindli beitt. Árið 2014 lýsti Bandaríkjastjórn því yfir að verkefni þeirra væri lokið og Ashraf Ghani, fyrrverandi fjármálaráðherra og rektor Kabúl-háskóla, varð forseti eftir umdeildar kosningar. Hefur honum orðið eitthvað ágengt að efla viðskiptatengsl við nágrannaríkin, en á í köldu stríði við Pakistan sem hann ásakar um að styðja við bakið á hryðjuverkamönnum. Fyrstu járnbrautirnar til útlanda hafa verið lagðar, Kínverjar hafa aðstoðað við að opna járnbræðslu, verið er að leggja jarðgaslínu frá Turkmenistan til Indlands og nýjar hafnir í Íran hafa opnast. Afganistan er því land sem ef til vill á framtíðina fyrir sér. Ghani hefur boðið talíbönum opinbera viðurkenningu sem stjórnmálaflokkur ef þeir samþykkja að taka þátt í friðarviðræðum, en ljóst er að engar viðræður geta borið ávöxt án þeirrar þátttöku. Talíbanar hafa hafnað þessu, en vonir standa til að þeir skipti um skoðun. Þangað til halda sjálfsmorðsárásir þeirra sem kenna sig við íslamska ríkið áfram. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Misheppnuð samfélagsgreining og bangsalegar löggur

Ásgeir H. Ingólfsson

Misheppnuð samfélagsgreining og bangsalegar löggur

·
Katrín varar við tortryggni gagnvart evrópsku samstarfi og aðild Íslands að MDE

Katrín varar við tortryggni gagnvart evrópsku samstarfi og aðild Íslands að MDE

·
Innflytjandi kemur hælisleitendum til varnar: „Hræðsla og ótti var mitt daglegt brauð í fjögur ár“

Innflytjandi kemur hælisleitendum til varnar: „Hræðsla og ótti var mitt daglegt brauð í fjögur ár“

·
Forseti Landsréttar greiddi atkvæði gegn bókun dómstólasýslunnar

Forseti Landsréttar greiddi atkvæði gegn bókun dómstólasýslunnar

·
Engeyingarnir setja meira fé í hvalveiðifélag

Engeyingarnir setja meira fé í hvalveiðifélag

·
Dánu börnin í Jemen og Sýrlandi

Lífsgildin

Dánu börnin í Jemen og Sýrlandi

·
Þegar stórfyrirtæki draga ríki fyrir dóm

Þegar stórfyrirtæki draga ríki fyrir dóm

·
Frá Alexander mikla til Diddu drottningar

Illugi Jökulsson

Frá Alexander mikla til Diddu drottningar

·
Hvernig lifa má í heimi þar sem allt er að deyja

Sverrir Norland

Hvernig lifa má í heimi þar sem allt er að deyja

·
Ekkert skelfilegt að verða fertug

Ekkert skelfilegt að verða fertug

·
Vinátta, gleði og samstaða

Vinátta, gleði og samstaða

·
Ég er ekki með sjúkdóm

Ég er ekki með sjúkdóm

·