Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Svona var ástandið við eldgosið

Fólk streymdi upp stik­aða stíg­inn að eld­gos­inu í gær eins og kvika upp gos­rás. Ástand­ið minnti meira á úti­há­tíð en nátt­úru­ham­far­ir.

„Er hún mökkuð?“ spyr maður félaga sinn þar sem þeir mæta ungri konu gangandi með sólstól og spilandi popptónlist með gosmökkinn frá gígnum í Geldingadölum í bakgrunni. Hún var ein þúsunda sem þrömmuðu frá Suðurstrandarvegi að eldgosinu í gær. Þetta var dagurinn þar sem áhyggjur almannavarna vegna gossins snerust frá gasmengun, skyndibráðnun og ofkólnun yfir í covid-smit tengd gosförum.

Ástandið við gosstöðvarnar minnir á þjóðhátíð. Hér eru allir mættir og hundarnir þeirra. Þrátt fyrir að umdeilt sé í hundasamfélaginu að koma með hunda á gosstöðvanar, þar sem þeir liggja lágt og eru ekki allir annálaðir fyrir skynsemi og varfærni, láta margir það ekki stoppa sig. Hundarnir sköpuðu mörg samskipti á svæðinu.

„Eigum við að snúa við núna?“ spyr kona á besta aldri smáhundinn sinn sem gengur á undan henni í löngum, strengdum taumi. Hann heldur áfram orðlaust og hún með. „Ekki fara of langt niður hlíðina. Það er gasmengun þarna við hraunið,“ aðvarar hún hundinn.

Allt í einu heyrist kallað. Laus hundur stefnir í áttina að mér niður hlíðina. Ég gríp hann og held honum þar til eigandinn kemur. „Takk fyrir! Það er tík á lóðaríi þarna niðri,“ segir eigandinn. „Það er líka logandi hraun,“ segi ég en sjóðheitt grínið storknar strax þegar það kemst í snertingu við stjórnsemi. Mér tókst ekki að vara við því að hann lenti á „glóðaríi“. 

Hér virðist endurborið gamla ferðamanna-Ísland. Minnst þriðji hver var útlendingur og tungumálin voru allt frá frönsku, dönsku og spönsku til rússnesku og pólsku.

„Allir hérna ættu að stofna til keppni: Að hlaupa yfir hraunið og sá sem er fljótastur fær verðlaun,“ segir sniðugur Bandaríkjamaður. „Ég hefði aldrei trúað því að ég myndi sjá eldgos,“ segir lítill tólf ára samlandi hans við pabba sinn, sem kom til Íslands fyrir sex vikna vinnutörn.

Hrauntunga flæðir lymskulega aftan að sjálfutakendum og brýtur ofan af sér storknaða bergskurn. Björgunarsveitarmaður með gasgrímu gengur hjá. Hann segir ekki „gas, gas, gas“, en gasmælirinn hans pípir látlaust. Kona kallar til barnsins síns á íslensku með hreim. „Bjallan er að hringja. Við verðum að færa okkur ofar. Komdu strax.“ Einn maður stekkur fram fyrir hraunið og krýpur til myndatöku. Alger gosi, eldgosi, sem óttast ekki neitt og á mynd til að sanna það. Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands átti þó eftir að vara við því um kvöldið að gasið væri sérstaklega hættulegt. „Nú er orðið ljóst að gasútstreymi frá eldstöðvunum er ekkert í líkingu við það sem við höfum séð áður. Þar er einstaklega hættuleg og sterk blanda CO2 og CO, sem eru lífshættuleg gös,“ segir í yfirlýsingu frá hópnum. Þar er tekið fram að ekki sé hægt að hjálpa þeim sem falla í ómegin. „Ef við förum til hjálpar, án súrefnis, förum við sömu leið.“ Það er þó ekki tilfinningin í mannmergðinni við gosstöðvarnar að nokkur yrði skilinn eftir. Hér takast á við tvenns konar samhengi, að þetta sé samfélag og að þarna sé óviðráðanleg, ótamin og öflug náttúra. Sem í þessu tilfelli er farin að þjóna tilgangi ofvaxinnar, tímavilltrar áramótabrennu.

Gasmengun flúinFólk flýtti sér á brott frá hraunjaðrinum þegar gasmælir sýndi hættulega mengun.
HrauntungaÞar sem fólk hafði staðið í sjálfsmyndatökum kom hraunið hægt flæðandi ásamt gasmengun.
Hrauntungan sleikir grasiðEldur kviknar þegar hraunflæðið nær á ónumið land.
Daginn áðurFærri voru í brekkunni á þriðjudag, þegar þessi mynd var tekin úr flugvél.

„Það er svo heitt. Það er of heitt. Það er bara allt of heitt hérna,“ segir lítill íslenskur strákur.  Kona situr fyrir í hraunjaðrinum, þar sem gaslyktin er sterkust. Önnur stillir sér upp á fjólubláum brjóstahaldaranum og sveiflar slæðu í kringum sig í von um góða mynd. 

Einhver grýtir hraunið. Ungur maður kveikir í sígarettu á því. Annar maður grillar pylsur á hrauninu fyrir hundinn sinn sem liggur hreyfingarlaus líkt og gaseitraður þar til pylsan endurlífgar hann eins og töfrasproti. Enn annar grillar á pönnu með löngu skafti fyrir fjölskylduna. Þetta gæti verið fjölskylduhátíðin Ein með öllu. Eða árshátíð hundaræktarfélagsins. Eða bara opna í Hvar er Valli?

Í það minnsta hefur félagsleg vídd opnast við þennan jarðsögulega atburð. Ferðafólkið streymir eftir stikuðum stígnum, með óróagalsa þegar það stoppar, eins og hraunið eftir gosrásinni. Hátíðarblær er yfir hópnum. Gleðin skín úr andlitum samhliða sólinni. Eldgosið er orðið okkar nýja sameiningartákn. Hér er allt frá þeim alræmdu gallabuxnaklæddu til sérútbúinna fjallahlaupara sem skjótast fram úr slakri röðinni eins og leigubílar á forgangsakrein.

Enginn virðist hafa áhyggjur af logandi hrauni, eldspúandi gígum og eiturgasmengun. Sjálft sumarið er skyndilega komið þegar sólin brýst út og skín á fólkið sem hraunbakast í hlíðinni. Þetta er líklega stærsta útihátíðin á Íslandi frá því að heimsfaraldur kórónaveiru hófst fyrir meira en ári. Þannig átti eftir að fara síðar um kvöldið að hópur fólks tók sig saman og söng „Lífið er yndislegt“ í brekkunni við logandi hraunið og gengið var með hátalara spilandi lagið á leiðinni frá gosstöðvunum.

Grill og hundarFólk naut þess að grilla á hrauninu þar sem það var storknað að mestu.

Seinast þegar Ísland lenti í kreppu kom eldgos til bjargar. Líkt og leðurblakan í Kína stoppaði Eyjafjallajökull flugumferð. Í síðustu kreppu höfðum við étið leðurblökuna með því að sameinast um sérstaka viðskiptasnilld þjóðarinar. Núna er mátturinn og dýrðin landsins og náttúrunnar, sem ætti að geta fyllt okkur auðmýkt ef við stöndumst freistinguna að upphefja okkur aftur með því að stíga strax ofan á það ókulnað til að uppskera athygli.

Mitt í covid-kreppunni fær Reykjanesið, með sitt fjórðungs atvinnuleysi, fullkomið túristagos. Íslenskur leiðsögumaður varð fyrir svo mikilli geðshræringu við túristagosið á dögunum að hann fletti sig klæðum við logandi hraunið. Í ljós kom að hann hafði ætlað að auglýsa sólgleraugu, en í kommentakerfunum vakti annað á myndunum meiri athygli en varningurinn sem var til sölu.

Áætlað var að 300 manns væru enn við eldfjallið fyrir miðnætti. Þá gengu í gildi hertar sóttvarnaraðgerðir sem banna fjölmenn mannamót. Í dag er norðanátt og varað við gasmengun sem leggur yfir stikuðu gönguleiðina. Um leið er komin upp umræða um hvort takmarka þurfi aðgengi að eldgosinu af sóttvarnaástæðum. Ný bylgja er að koma. 

Þennan dag varð skýrara en nokkurn annan að við stöndum á flekaskilum öryggis og frelsis. Ábyrgðar og kæruleysis. Kvíða og lífsgleði. Allt eftir því hver eru spurð og hvorum megin þau standa. Skjálfta- og gosvirkni verður ekki umflúin þegar flekarnir skiljast að, það nötrar af sniðgengisskjálftum og eldheitur ágreiningur gýs upp. En fólkið sem breytti eldgosinu í sameiningartákn í gær var greinilega lífsgleðinnar megin.

„Þetta var glatað. Engan veginn þess virði. Ég myndi bara snúa við,“ svarar stígfarandi spurður hvernig gosið hefði verið. „Nei djók þetta var flott,“ bætir hann við.

„Þetta var algjörlega stórtkostlegt. Maður finnur fyrir smæð sinni þegar maður stendur frammi fyrir svona náttúruöflum,“ segir meðalstór karlmaður á miðjum aldri sem seinast sá Heklugos en komst hvergi nærri. Þetta gos er milt og fornt, kemur djúpt að neðan, og gæti verið með okkur í mörg ár.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Eldgos við Fagradalsfjall

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu