Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en ári.

„Margfalt meiri kraftur“ í nýja eldgosinu sem teygir sig norðar

Nýja eld­gos­ið í Mera­döl­um er allt að tíu sinn­um öfl­ugra en eld­gos­ið í Geld­inga­döl­um. Sprung­an er um sex kíló­metr­um suð­vest­an við Keili og teyg­ir sig norð­ar.

„Margfalt meiri kraftur“ í nýja eldgosinu sem teygir sig norðar

Nýtt eldgos í Meradölum er bæði norðar, nær Keili og mun kraftmeira en síðasta eldgos. Um 300 metra sprunga með mest 30 metra strókahæð og um 50 rúmmetra flæði á sekúndu, er um 10 kílómetra frá næstu byggð og veldur ekki ógn enn um sinn. Það sem Víðir Reynisson hjá Almannavörnum ríkislögreglustjóra óttast mest er ekki hraunið sjálft heldur aðfarir fólks að því.

Eldgosið vaknaði að ári

320 dögum eftir að hraun sást síðast renna í Geldingadölum spýtist hraun aftur upp úr sprungu sem klýfur nýtt hraunið nyrst í Meradölum. Hraunrennslið virðist við fyrsta mat vera um 50 rúmmetrar á sekúndu, á meðan eldgosið í fyrra var yfirleitt um 8-13 rúmmetrar á sekúndu. Helsti munurinn liggur í því að gosið nú er sprungugos. „Þó þetta sé ekki stórt gos þá er þetta miklu öflugra en gosið sem var í Geldingadölum í fyrra,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur í samtali við RÚV skömmu fyrir klukkan 17 í dag.

Fólk er beðið að varast svæðið. Landsbjörg metur hvort þurfi að rýma eða afmarka svæðið og fólk er sérstaklega varað við gasmengun í lægðum og dældum í landslaginu, helst sunnan við gosið. Ekki hefur verið kynnt hraunfræðilíkan fyrir nýja eldgosið, en svo virðist sem hraun muni á endanum renna til norðurs og að sprungan sé að teygja sig í þá átt. Fyrst þyrfti þó töluvert mikið magn af hrauni að fylla upp í Meradali. Eldgosið er um 10 kílómetrum frá næstu byggð í Vogum á Vatnsleysuströnd til norðausturs og í Grindavík til suðvesturs. Frá sprungunni eru um 20 kílómetrar í byggð í Vallarhverfinu í Hafnarfirði. Ekki er búist við að hraun renni yfir vegi á næstunni. Gasmengun af gosinu mun fyrst um sinn fara til suðurs vegna norðanáttar og því ekki yfir byggð.

Eldgos hafið að nýjuÁ vefmyndavél MBL.is sést hraunið vella upp úr sprungu í gegnum nýrunnið hraun.

Við norðurjaðar hraunsins í fyrra

Hraunið vellur upp úr sprungu sem liggur í Merardölum neðan við og austan gosrása síðasta eldgoss. Sprungan er um tveimur kílómetrum norðaustar en upphaflega í mars í fyrra og hefur verið að opnast til norðurs. Um er að ræða hraungos og staðsetning þess heppileg að því leyti að ekki gýs nærri sjó eða í vatni og þar af leiðandi ekki teljanleg gjóska, sem hefði geta hindrað flugumferð og valdið fleiri röskunum. Eldgosið er því „á góðum stað, eins góðum og það getur verið,“ sagði Jón Svanberg Hjartarson, hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, í samtali við RÚV.

„Við fyrstu sýn er ekki hætta á ferð en mikilvægt er að fylgjast vel með upplýsingagjöf og fyrirmælum Almannavarna,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í færslu á Facebook.

„Þetta er enn annað meinlaust gos“
Páll Einarsson
jarðeðlisfræðingur

„Þetta er enn annað meinlaust gos,“ sagði Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is skömmu eftir upphaf þess. Hann sagði þó gosið vera „allt öðruvísi“ en í fyrra, þar sem um sé að ræða sprungugos en ekki afmarkaðir gígar.

Hins vegar er ekki útséð um áhrifin og þá ekki síst áhrif hraunrennslis ef gosið varir lengi og/eða af krafti. Gosið virðist hafa færst vel í aukana strax fyrsta klukkutímann.

Nýja eldgosiðSprungan teygir sig til norðurs.

Margfalt meiri kraftur

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, sagði í samtali við RÚV að gosið væri lítið. „Flæðið virðist upp á nokkra rúmmetra á sekúndu, slík framleiðni býr aldrei til neitt nema máttlítil gos.“ Þá sagðist hann efast um að mikil hætta stafi af gosinu. „Ef eykur í uppflæði gossins getur allt gerst,“ tók hann þó fram. 

Mat á hraunflæðinu átti eftir að magnast. Tveimur klukkustundum síðar var gert ráð fyrir að flæðið væri 50 rúmmetrar á sekúndu.

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands vakti athygli á því eftir rúmlega klukkustundar gos að það hefði þá þegar vaxið.

„Nú er um klukkustund liðin síðan eldgossins við Fagradalsfjall varð fyrst vart. Ljóst er að krafturinn í gosinu er margfalt meiri í upphafi þessa goss heldur en þegar gosið hófst í Geldingadölum,“ segir í færslu hópsins á Facebook.

„Ljóst er að krafturinn í gosinu er margfalt meiri í upphafi þessa goss heldur en þegar gosið hófst í Geldingadölum“
úr færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands

„Hraunbreiðan hefur vaxið hratt í dalverpi nyrst í Meladölum og liggur gossprungan upp í hlíðar Meradalahnjúks. Lengdist sprungan verulega fyrsta hálftímann eftir að gossins varð vart og má lauslega áætla að hún sé amk 300-500 metra löng,“ segir í færslu hópsins. Síðar mátu almannavarnir sprungulengdina sem 300 metra.

Samanburður við gamla gíginnHér sést gossprungan norður af gamla gígnum. Fjallið Keilir sést efst lengst til vinstri á myndinni.
Með höfuðborgarsvæðið í baksýnSprungan liggur til norðausturs í beinni línu í átt að höfuðborgarsvæðinu, rétt vestan Keilis sem sést fjærst lengst til hægri á myndinni.

Það sem Víðir hræðist

Almannavarnir biðja fólk að forðast gossvæðið. „Fólk er beðið um að fara með gát og forðast að vera á þessu svæði,“ segir í yfirlýsingunni. Svæðinu hefur þó ekki verið formlega lokað.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum ríkislögreglustjóra, sagðist í samtali við fréttastofu RÚV hræðast reynslu frá fyrra gosi þar sem skipti tugum eða hundruðum fólk sem slasaðist á leiðinni að gosinu. 

„Þetta er lengri ganga að þessu gosi heldur en var að hinu og erfitt að fara þarna um í sjálfu sér. Við sjáum það að hraunið frá fyrra gosinu hefur opnast talsvert og það er svolítið mikill hiti í því. Það er mjög varasamt að reyna að stytta sér leið yfir gamla hraunið.“

„Það er mjög varasamt að reyna að stytta sér leið yfir gamla hraunið.“
Víðir Reynisson
yfirlögregluþjónn almannavarnarsviðs hjá ríkislögreglustjóra

Í fyrra hófst gosið með svipuðum hætti, vestar, í Geldingadölum, og áttu nýjar gosrásir eftir að opnast norðaustar. Nú hefur það teygt sig enn norðar, í áttina að Keili. „Gossprungan er þegar byrjuð að teygja sig út fyrir hraunbreiðuna í átt til norðurs,“ segir í lýsingu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands. 

Bein útsending RÚV af gossvæðinu.

Gosið nærri spástað

Gert hafði verið ráð fyrir því fyrirfram að gosið myndi koma upp milli Geldingadala og Keilis, töluvert norðar. En því hafði einnig verið spáð fyrir síðasta gos.

Í eldgosinu sem stóð yfir í fyrra hafði hraun runnið niður í Merardölum úr gosrásum sem opnast höfðu ofar, í Geldingadölum. Ekki hafði sprunga áður opnast í Merardölum.

Eldgos hófst í Merardölum 19. mars í fyrra en hraun hætti að renna 18. september. Í desember var því formlega lýst loknu.

Veðurstofan hefur gert hraunflæðilíkan sem byggir á fyrri spálíkani. Miðað við spána rennur hraun til suðurs frekar en norðurs og ógnar engum innviðum. „Það skal tekið skýrt fram að óvíst er hvort að styrkur gossins og staðsetning haldist óbreytt allan þennan tíma. Út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir í dag sýnir líkanið engu að síður að ekki er talið líklegt að þetta gos ógni mikilvægum innviðum,“ segir í yfirlýsingu Veðurstofunnar.

Víðir Reynisson hjá almannavörnum er þó ánægður með staðsetninguna. „Út frá því sem ég hef haft áhyggjur af undanfarið leit þetta bara vel út,“ segir Víðir í samtali við RÚV. „Þarna getur gosið mjög lengi án þess að það valdi okkur vandræðum í byggð eða á samgöngumannvirkjum.“

Hraunflæðispá VeðurstofunnarMiðað við fyrstu spá um hraunrennsli yrði þetta dreifingin við 200 daga eldgos.
Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Eldgos við Fagradalsfjall

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár