Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Fyrsta eldgos á Reykjanesskaga í tæp 800 ár

Lít­ið flæði­gos er yf­ir­stand­andi í Geld­inga­dal í Fagra­dals­fjalli á Reykja­nesi. „Þetta er kannski ekki ógn­vekj­andi, en þetta er óþægi­lega ná­lægt,“ seg­ir íbúi í Grinda­vík.

Fyrsta eldgos á Reykjanesskaga í tæp 800 ár
Mynd af gosinu Mynd Hilmars Braga, ljósmyndara Víkurfrétta, sýnir gosbjarmann. Mynd: Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Eldgos er hafið í Geldingadal við Fagradalsfjall á Reykjanesi. Gosið er enn sem komið er lítið hraungos með hraunrennsli til suðurs. Hraun rennur um 2,6 kílómetra frá Suðurstrandarvegi og eru fyrstu spár almannavarna á þá leið að gosið nái ekki til sjávar.

Íbúar í Þorlákshöfn eru beðnir um að halda sig innan dyra, loka gluggum og hækka hitann, vegna gasmengunar sem getur borist í einhverju magni vestur með vindátt.

Um er að ræða sögulegan viðburð. Ekki hefur gosið á Reykjanesi í 780 ár.

Sólný Pálsdóttir, sem býr við jaðar byggðarinnar í Grindavík, segist hafa verið að horfa á sjónvarpið þegar bjarmi kom upp á himninum.

„Við erum alveg róleg. Ekkert drama. En ég er samt að bíða eftir að heyra fréttirnar. Það er útsýnispallur af svölunum hjá mér þar sem ég get séð þetta vel. Þetta er í bakgarðinum mínum, nánast.“

Sólný segir síðustu vikur hafa verið erfiðar. Hún upplifir óþægindi en ekki ógn. „Ég treysti því sem fræðimenn segja að þetta eigi ekki að ógna byggð. Þetta virðist ekki ætla að ógna byggðinni. Ég held að ég þurfi ekki að pakka, eða allavega vona ekki. Vonandi er þetta bara smásprenging og allir öruggir. Það er náttúrulega málið. Miðað við þessa skjálfta hefur maður verið að bíða eftir þessu. Fyrir þá sem upplifa þessa skjálfta er þetta svo mikið álag á taugakerfið. Þetta er kannski ekki ógnvekjandi, en þetta er óþægilega nálægt. Ég er ekki hrædd. Maður er kannski meira í smá ójafnvægi.“

Umferðaröngþveiti er á Reykjanesbrautinni, samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins, og er talið að þar sé á ferðinni fólk sem reynir að sjá bjarmann.

Myndband af eldgosinuMeðfylgjandi símamyndband barst Stundinni rétt í þessu.Aðsent
Ljósmynd af gosinuÖnnur aðsend mynd af eldgosinu.
Sviðsmynd fyrir hraunrennsliMeðfylgjandi sviðsmynd sýnir eldri spá fyrir hraunrennsli. Athugið að raunverulegur gosstaður er ekki sýndur hér og hraunrennsli breytist í takt við það.
Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Eldgos við Fagradalsfjall

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár