Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Sement á Íslandi

Á síðari hluta 19. aldar var innflutningur á sementi í kringum nokkur hundruð tunnur á ári, og um og eftir aldamótin 1900 varð mikil aukning á innflutningi. Ef við lítum snögglega á samanburð innflutnings á þessum árum að þá voru árið 1876 fluttar inn 54 tunnur af sementi, árið 1894 voru þær 384 og loks árið 1903 voru tunnurnar orðnar hvorki meira né minna en 5051 sem er um 1800 tonn. Sjá má hversu steypuþyrstur almenningur var á þessum tíma þar sem tunnurnar jukust um 4667 á aðeins 27 árum. Í kring um 1930 var þó sprenging í sementsinnflutningi því þá var innflutningur kominn upp í 20.000 tonn sem myndi jafngilda um það bil 56.120 tunnum og er það gríðarleg aukning á ekki lengri tíma enn þetta. Þar sem innflutningur hafði aukist gríðarlega mikið undanfarin ár og augljóst var að markaður fyrir sementi hér á landi var orðinn umtalsverður, var þá vert að fara að huga að möguleikanum á því að framleiða sement hér á Íslandi. Erfitt var að finna góð byggingarefni á landinu þar sem ekki var hægt að finna gott hráefni í múrsteina og skógar litlir sem engir á Ísland.

Það er í raun ekki vitað hvenær hugmyndin um sementsframleiðslu á Íslandi spratt upp. Skipulagsnefnd var skipuð árið 1934 af ríkistjórn og átti nefnd þessi að huga að framförum í atvinnumálum. Álit þessarar nefndar var gefið út tveimur árum síðar eða árið 1936 og kom þar fram meðal annars hugmynd um sementsgerð á Íslandi. Jarðfræðingurinn Jóhannes Áskelsson var fenginn til þess að rannsaka jarðefni sem væri mögulega hægt að nota við sementsgerð. Einnig var verkfræðingurinn N.C. Monberg fenginn til að gera kostnaðaráætlun fyrir bráðabirgðar sementsverksmiðu á Akranesi eða í Reykjavík. Lagt var til að kalksandurinn yrði fluttur frá Patreksfirði og fluttur í sementsverksmiðju á Akranesi eða í Reykjavík.

Nýja Dagblaðið birti grein í blaði sínu í ágúst 1935 sem hét „Sementsvinnsla á Íslandi úr íslenzkum skelja-kalksandi og leir“. Í grein þessari var viðtal tekið við Sigurð Jónasson sem hafði tekið þátt í rannsóknum þessum að einhverju leyti og lýsti hann því svo að þegar á Patreksfjörð væri komið væri sandurinn svo hvítur að þegar rigndi myndi líta út fyrir að vera sólskinsblettir þar sem sandurinn var hinu megin í firðinum. Trausti Ólafsson efnafræðingur hafði bent Sigurði á að þennan sand væri hægt að nota sem áburð (kalk-, saltpétur). Sigurður hafði frétt á Patreksfirði að Jóhannes Áskelsson jarðfræðingur hafi rannsakað sandinn þar sumarið 1932 og athugað hvort þar myndu finnast leirlög með því sjónarmiði að hægt væri að nota þetta efni til sementsframleiðslu. Jóhannes hafði þá tekið sýni af sandinum sem voru geymd í Reykjavík. Á þessum árum rannsakaði Jóhannes kalksand á alls 17 stöðum á vestfjörðum og var víðáttumestur þessara sandfláka Rauðisandur en á eftir honum voru það Sandoddi við Patreksfjörð og Holtasandur í Önundarfirði. Talið var þó að leirinn væri of sýrusnauður til þess að hægt væri að nota hann við sementsframleiðslu. Maður nokkur að nafni Haraldur Ásgeirsson lauk meistararitgerð sinni í efnaverkfræði frá Háskólanum í Illonis í Bandaríkjunum á hinu merkilega ári 1944. Benti Haraldur á að nota mætti rafmagn við sementsframleiðslu og var hann seinna fenginn til þess að meta bæði stofn- og rekstrarkostnað á sementsverksmiðju á Íslandi.

Það var árið 1947 sem Alþingi sendi loks frá sér frumvarp um byggingu á sementsverksmiðu. Eftir mikla íhugun var loks ákveðið að sementsverksmiðjan myndi verða reist á Akranesi og yrði notast við hráefni sem eru þar í grennd, líparít sem tekið yrði úr Hvalfirði og skeljasand úr Faxaflóa. Árið 1949 skipaði atvinnumálaráðherra verkfræðinefnd sem saman stóð af þremur mönnum sem áttu að undirbúa stofnun nýrrar sementsverksmiðju. Nefnd þessi kannaði stofn og rekstrarkostnað á þremur mögulegum sementsverksmiðjum, verksmiðju á Vestfjörðum (Patreksfirði, Önundarfirði), Akranesi eða Geldinganesi við Reykjavík. Komust þeir að því að sementsverksmiðja á Vestfjörðum væri lakasti kosturinn þar sem bæði stofn- og rekstrarkostnaður væri hærri í samanburði við hina valmöguleikana. Einnig komst nefnd þessi að því að besti mögulegi valkosturinn væri Akranes en lítill munur væri á framleiðslukostnaði á Geldinganesi og Akranesi en stofnkostnaður við það að reisa sementsverksmiðju á Akranesi væri heldur lægri en ef hún væri reist í Geldinganesi. Þá var það ákveðið. Eftir allar þessar hugleiðingar og bið var tíminn runninn upp, sementsverksmiðja yrði reist á Akranesi og myndi hún vera fyrst sinnar tegundar hér á Íslandi.

Þessi ákvörðun hefur verið stórt stökk fyrir íslenskan iðnað og var þetta stórt tækifæri fyrir Akranesbæ að fá slíka starfsemi í bæinn. Sementsverksmiðjan opnaði fyrir fjölda starfa fyrir bæði verkamenn og menntafólk. Fyrsta stjórn sementsverksmiðjunar var skipuð þremur mönnum, Dr. Jóni E. Vestdal, Helga Þorsteinssyni framkvæmdarstjóri og Sigurði Símonarsyni múrarameistari á Akranesi. Byggingartími sementsverksmiðjunar á Akranesi voru þrjú ár og tók hún til starfa í lok árs 1958. Það voru á bilinu 80-90 manns sem störfuðu við það að reisa sementsverksmiðjuna og var talið að hún myndi verða stærsta bygging á Íslandi á þessum tíma. Efnageymslan var um 100.000 fermetrar og áætluð framleiðsla sementsverksmiðjunar um 75.000 tonn ár hvert þó svo að raunin hafi verið um 100.000 tonn. Þá var sementsnotkun landsmanna um 60.000 tonn. Yfirverkstjóri með verkinu var Einar Helgason, yfirsmiður var Ólafur Vilhjálmsson og sprengjuverkstjóri var Bogi Björnsson og fyrrnefndur Dr. Jón Vestdal sá um alla verkfræðivinnu. Það voru nær eingöngu heimamenn sem sáu um verklega þætti við mannvirkjagerðina og hafði þetta eins og áður var sagt ótrúlega mikla þýðingu fyrir Akranesbæ hvað atvinnu og uppbyggingu varðar. Verksmiðja þessi fékk nafnið Sementsverksmiðja ríkisins. Sementsverksmiðja ríkisins var vígð þann 14. júní 1958 við hátíðlega athöfn og var það Ásgeir Ásgeirsson þáverandi forseti Íslands sem vígði verksmiðjuna með því að kveikja eld í ofni verksmiðjunnar en brennsluofninn var um 100 metra langur. Rétt eftir að sementsverksmiðjan á Akranesi hóf störf var bann sett á innflutning á sementi. Því banni var aftur á móti aflétt á árunum 1971 til 1975 í áföngum við inngöngu Íslands í EFTA.

Þau jarðefni sem venjulega eru notuð við brennslu á sementsgjalli finnast ekki hérlendis svo þurfti að nota önnur efni í stað þeirra. Eina kalkefnið sem kom til greina var skeljasandurinn. Á botni Faxaflóa fannst skeljasandur sem var mjög kalkríkur og hægt var að nota og líparítmylsna sem fengin var úr Hvalfirði var einnig notuð. Sandurinn var um 85-86% kalk og var honum dælt af 25-35 m dýpi. Líparítið var svo malað saman við sandinn í kúlukvörn með nægilega miklu magni af vatni til þess að efnin mynduðu fíngerða leðju sem voru með um 32% vatni. Leðjunni var svo dælt í svonefnda leðjugeyma og þaðan aftur í brennsluofn. Sementsofninn var fóðraður að innanverðu með eldföstum steini og var ofninn sívalingslaga og töluvert langur. Leðjan kom inn í efri enda ofns og var oliubrennari í neðri enda. Ofninn var hærri við inntaksop, þar sem ofninn hallaði um nokkrar gráður. Hann snérist einn hring á mínútu. Fyrst þornaði vatnið úr leðjunni þegar hún kom inn í ofninn og barst leðjan niður með ofninum á móti loganum og missti skeljasandurinn koltvísýringinn og myndaðist þá brennt kalk. Kalkið gekk í efnasamband við kísilsýru líparítsins við enn hærra hitastig og endaði brennslan við 1400-1450°C en þá var efnið orðið að hörðum, gráum kúlum og fínu sandlíku efni sem kallast sementsgjall. Gjallið var næst kælt niður í sérstökum kæli eftir að það kom út úr ofninum. Sementsgjallið var malað í sementskvörn og blandað var við það nokkur prósent af gipsi. Þá myndaðist fínmalað duft sem kallast sement. Sementsverksmiðja ríkisins framleiddi um 245-304 tonn af gjalli á dag.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni