Á Hringbrautinni kepptist þessi hjólreiðakappi listilega á móti norðangarranum með forláta hillu. Samkvæmt nýrri reglugerð umhverfis- og samgönguráðherra mega vera allt að fimm manns á einu hjóli, með tengivagni. Ekki má flytja hluti á reiðhjólum sem geta valdið vegfarendum óþægindum. Samkvæmt reglugerðinni skulu reiðhjól vera búin bjöllu, en mega ekki hafa annan búnað sem gefur frá sér hljóð.
Mynd dagsins
396
Gísli, Eiríkur og Helgi
Á bæ þeim sem á Bakka heitir í Svarfaðardal, bjuggu þrír bræður sem voru orðlagðir fyrir heimsku og heimskupör. Þeir Bakkabræður hétu Gísli, Eiríkur og Helgi. Fyrir átta árum fengu þeir bræður kaffihús, safn og bar í hjarta Dalvíkur. Það verður nóg að gera hjá þeim bræðrum að moka frá innganginum, áður en opnar í hádeginu á föstudag. Kaffihús Bakkabræðra er bara opið um helgar nú í svartasta skammdeginu.
Mynd dagsins
1169
Ekki græna glóru hvað báturinn heitir
Þetta tæplega hundrað ára gamla hús á Hofsósi vekur alltaf hjá manni margar spurningar. Eru eigendurnir ekki sammála um eitt eða neitt, eða eru þeir samstíga að svona eigi þessi bygging að líta út, falleg og umfram allt öðruvísi, eins og veðrið í Skagafirði í dag? Í Fljótunum var öskrandi bylur, á Hofsósi smá snjókoma, meðan Glóðafeykir var baðaður í stillu og sól í 14 stiga frosti. Í Vatnsskarðinu var norðan garri.
Mynd dagsins
20
Hundrað fimmtíu og átta ára
Það var norðanbál við Úlfljótsvatn í morgun, en við þetta 4 km langa vatn stendur kirkja sem kennd er við vatnið. Kirkjan sjálf var byggð úr timbri árið 1863 og síðan var turninum bætt við 98 árum seinna. Hún er ein af rúmlega 360 kirkjum í lýðveldinu - það er semsagt eitt guðshús fyrir hverja þúsund íbúa þessa lands. Vatnið er kennt við Úlfljót, fyrsta lögsögumann Íslendinga, en eftir honum voru einnig fyrstu almennu lög landsins nefnd, Úlfljótslög.
Mynd dagsins
4
Tvö þúsund tonn af vatni
Það streymdu inn 500 lítrar á sekúndu af köldu vatni inn í byggingar Háskóla Íslands snemma í morgun, eftir að rof varð á aðalkaldavatnsæð Veitna við Suðurgötu í nótt. Langmesta tjónið varð á Háskólatorgi og Gimli, þar sem rafmagn fór af öllu húsinu eftir að vatn flæddi upp í rafmagnstöflu hússins. Handritin á Árnastofnun eru óskemmd. Háskóli Íslands er ekki tryggður fyrir þessu mikla tjóni.
Mynd dagsins
468
Bóndi fyrir Bóndadaginn
Á fjár- og kúabúinu Butru búa bændurnir Ágúst Jensson og Oddný Steina Valsdóttir (mynd). „Það sem er brýnast nú fyrir bændur er að hér sé hægt að stunda landbúnað og hafa einhverjar tekjur af. Rauntekjur sauðfjárbænda hafa rýrnað um tugi prósenta á undanförnum árum. Það er líka mikilvægt að gera okkar góðu afurðir betur rekjanlegar,“ segir Oddný Steina, sem situr í stjórn Bændasamtakanna. Nú á föstudaginn er Bóndadagurinn. Til hamingju allir bændur, líka allir þeir sem eru á mölinni.
Mynd dagsins
478
Tveir plús tveir eru fimm
Í svona árferði leggjast auðvitað nokkrar Lundabúðir á Laugaveginum á hliðina, en það kemur líka auðvitað eitthvað annað í staðinn - eins á og Laugavegi 48. Á föstudaginn opnaði þar nýtt gallerí, MUTT Gallery, með stórgóðri sýningu Úlfs Karlssonar (mynd) sem ber heitið: 2+2 = 5. Miðbærinn okkar er alltaf að breytast, er bestur þegar þar verður til áhugaverð blanda af menningu, veitingastöðum og fjölbreyttum verslunum sem gerir miðbæinn bæði lifandi og áhugaverðan fyrir gesti og gangandi.
Mynd dagsins
3
Fuglar, jólatré, gamalt skrifborð, plast og síðan olía
Á Álfsnesi voru urðuð hvorki meira né minna en 103 þúsund tonn af sorpi á síðasta ári, að sögn Arnórs Gunnarssonar hjá Sorpu. Innan um stórvirkar vinnuvélar voru hundruð fugla að finna sér æti í morgun, áður en mokað var yfir úrganginn. Næsta stóra verkefni Sorpu er að hefja þróunarstarf með PVD ehf. og í sameiningu ætla fyrirtækin að vinna olíu úr öllu því plasti sem berst í flokkunarstöð fyrirtækisins í Gufunesi. „Það að nýta plast í olíuframleiðslu gerir Sorpu kleift að endurnýta allt það plast sem áður hefur farið í brennslu erlendis."
Mynd dagsins
115
Tíræður Blíðfari
„Hann var á grásleppu í fyrravor, en þá fór skrúfan af, orðin gegnryðguð. Enda er hann Blíðfari kominn á tíræðisaldur,“ sagði Hlöðver Kristinsson þar sem hann var að huga að bátnum niður við höfnina á Vogum á Vatnsleysuströnd fyrr í dag. Nái frumvarp Sjávarútvegsráðherra fram, sem var lagt fram á Alþingi nú um daginn, verður mikil breyting á veiðunum. Í stað veiðidaga, eins og verið hefur mörg undanfarin ár, verður útgefinn kvóti á grundvelli veiða undanfarinna ára. Grásleppuvertíðin hefst venjulega upp úr miðjum mars.
Mynd dagsins
369
Sigtryggur gíraffi
Það er einn gíraffi í Hlíðunum, hann heitir Sigtryggur og er úr járni. Í Afríku eru um 70.000 villtir gíraffar og hefur þeim fækkað um 40% á síðustu árum. Þetta eru stórar skepnur, fullorðnir vega þeir tonn og karldýrin verða um 5,5 metra há, kvendýrin eru 40 cm lægri. Gíraffar eru hæstu skepnur jarðar og verða að meðaltali 35 ára gamlir. IUCN samtökin hafa nýverið sett gíraffa á lista yfir þau dýr sem eru í alvarlegri hættu, næsta stig er rautt: útrýmingarhætta.
Mynd dagsins
13
Brunarústir á Bræðraborgarstíg
Það eru að nálgast sjö mánuðir síðan kveikt var í húsinu á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs, þar sem þrjú ungmenni létust. Óskiljanlegt er að húsið standi enn, eins og minnisvarði um þennan hörmulega atburð. Í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem birt var í lok síðasta árs, kemur fram að húsið var „óbyggilegt frá brunatæknilegu sjónarhorni“. Þegar bruninn varð þann 25. júní voru 73 einstaklingar með lögheimili í húsinu.
Mynd dagsins
23
Verði ljós
Norðurljósin voru óvenju sterk yfir höfuðborginni snemma í gærkveldi. Þessi undurfallegu ljós sem dansa í um 100 km hæð, verða til þegar hraðfleygar rafhlaðnar agnir frá sólinni rekast í atóm og sameindir í lofthjúpi jarðar. Á myndinni má líka sjá ljósið frá Friðarsúlu Yoko Ono, sem er til minningar um eiginmann hennar, John Lennon. Venjan er að slökkt sé á Friðarsúlunni á dánardegi Lennon, þann 8. desember, en í ljósi aðstæðna í heiminum fær hún að lýsa áfram, fram að jafndægri að vori.
Mynd dagsins
235
Gullfallegur foss
Á árinu 2019 komu hátt í tvær milljónir ferðamanna til að bera Gullfoss augum. Í morgun var ekki sála sjáanleg, við eða kringum þennan gullfallega foss, sem er samtals 32 metra hár. Fossinn og gljúfrið, er nú í eigu okkar allra, en svæðið var friðlýst árið 1979. Árinu áður var reistur minnisvarði af Sigríði Tómasdóttur frá Brattholti við fossinn. En hún var í flokki forvígismanna náttúrverndar á Íslandi og barðist með oddi og egg gegn því að Gullfoss yrði virkjaður á fyrri hluta síðustu aldar. Hitastigið í morgun, mínus 12.
Mynd dagsins
16175
Alþjóðlegt fyrir alþýðuna
Pálína Jónsdóttir (mynd) leikstjóri og skáldið Ewa Marcinek, stofnuðu saman Alþjóðlega leikfélagið Reykjavík Ensemble, árið 2019. Á síðasta leikári sýndi leikfélagið þrjú verk sem um 60 listamenn komu að. Tveir þriðju þeirra voru af erlendum uppruna - sannarlega alþjóðlegt leikhús. Pálína segir að það velti allt á því hvenær okkur takist að koma böndum á Covid, hverning eða hvort þetta leikár komist á eitthvert flug. Leikfélagið var valið Listhópur Reykjavíkur 2020.
Mynd dagsins
626
Sendiráðið í morgunsárið
Það var þyngra en tárum taki að horfa á skríl, hvöttum áfram af Trump, hertaka þinghús Bandaríkjanna í gærkveldi og nótt. Hinsvegar gladdi það í morgunsárið að sjá að Biden og Harris voru staðfest af þinginu, sem réttkjörinn forseti og varaforseti þjóðarinnar. Enda var flaggað fyrir utan nýtt sendiráð Bandaríkjanna við Engjateiginn nú í morgun. Nú eru aðeins 13 dagar þangað til Trump lætur af embætti, guði sé lof.
Mynd dagsins
12
„Menn geta dottið án þess að þekkja þyngdarlögmálið“
Það stökk á mig bros þegar ég gekk framhjá Tómasi Guðmundssyni, þar sem hann sat grímuklæddur á bekk við Tjörnina í morgun. En auðvitað hefur skáldið orðið sér úti um grímu, enda erfitt að halda 2ja metra fjarlægð ef maður tyllir sér niður á bekkinn við hlið hans. Samkvæmt Landlækni er grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja 2ja metra nálægðartakmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Verkið af Tómasi er eftir Höllu Gunnarsdóttur myndhöggvara og var sett upp árið 2010. *Fyrirsögnin er spakmæli eftir Tómas.
Almenningur hefur viðhaldið Stundinni með áskriftum og styrkjum frá febrúar 2015. Með því að kaupa áskrift styrkir þú sjálfstæða rannsóknarblaðamennsku.