Í ársbyrjun tók Helga Rakel Rafnsdóttir við stöðu formanns WIFT á Íslandi, Samtaka kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum, sem hefur að aðalmarkmiði að stuðla að fjölbreytni í myndrænum miðlum með því að virkja konur, gera þær sýnilegri og styðja þátttöku þeirra í öllum hlutverkum í framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis. Hún hefur sjálf verið virk á þeim vettvangi frá stofnun hans árið 2006 en á þeim tíma var hún að finna sinn stað innan kvikmyndagerðarlistarinnar, heimildarmyndagerðina. „Ég mætti á stofnfund WIFT en þá var ég að vinna að Kjötborg og var nýbúin að uppgötva að heimildarmyndagerð væri minn staður.“
„Þetta er fag sem ég finn mig í, því ég hef alltaf upplifað mig dálítið utangátta“
Kjötborg gerði Helga Rakel ásamt vinkonu sinni, Huldu Rós Guðnadóttur. Myndin, sem vann meðal annars til Edduverðlauna og Menningarverðlauna DV, fjallar um daglegt líf bræðranna Gunnars og Kristjáns, eigenda kjörbúðarinnar Kjötborgar í Vesturbæ Reykjavíkur. „Ég hef sérstakan áhuga á fólki sem velur sér einhverja allt aðra leið í lífinu en þá sem er viðurkennd. Eins og á við um þá Kjötborgarbræður. Þeir ráku þarna einhvers konar samfélagsþjónustu og aðstoðuðu fólk sem félagsþjónustan var jafnvel ekki að sinna. Það var einhver manngæska þarna sem mig langaði að halda á lofti. Mig langar að segja sannleikann, eins og ég sé hann. Mig hafði alltaf langað til að segja sögur og þarna fann ég strax að ég brann fyrir þessu, að þetta væri eitthvað sem ég gat gert vel. Þetta er fag sem ég finn mig í, því ég hef alltaf upplifað mig dálítið utangátta. Félagslegur bakgrunnur minn gerir það líka að verkum að mig langar að segja ákveðna gerð af sögum. Ég er ekki mainstream sjálf og mér finnst ekki að maður þurfi að vera það. Ég veit að það er til fullt af fólki sem finnst gott að heyra sögur sem eru um eitthvað annað en það sem haldið er á lofti í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Sögur úr raunveruleikanum og úr lífinu, sem er hvorki svarthvítt né glansmynd.“
Vill gera hefðbundnu kvennastörfin sýnilegri
WIFT er af reynslu Helgu Rakelar að dæma mikilvægur vettvangur fyrir konur í kvikmyndagerð til að hittast, ræða saman og standa saman út á við. „Þetta eru lifandi samtök sem eru ennþá í mótun og það er auðvitað misjafnt hvað er brýnast hverju sinni. Dögg Mósesdóttir var formaður á undan mér og hún vann ótrúlega gott og óeigingjarnt starf. Undir hennar formennsku átti WIFT í samstarfi við Kvikmyndamiðstöð og menntamálaráðuneytið til að þrýsta á um breytingar, sem mætti talsverðri andstæðu meðal karlkyns kvikmyndagerðarmanna.“
„Það að tala gegn því að konum verði gefið smá búst og jafnvel forskot er að afneita sögunni.“
Ákveðinn sigur hafi verið unninn þegar menntamálaráðherra gaf út tilmæli um að jafna hlut kynjanna í úthlutun úr Kvikmyndasjóði. Það, hversu mikilli andstöðu það mætti, sýni hvað er mikilvægt að halda þeirri umræðu lifandi, fylgja ákvörðuninni eftir og vera vakandi fyrir bakslagi. „Það að tala gegn því að konum verði gefið smá búst og jafnvel forskot er að afneita sögunni. Það er afneitun á því að konur hafi lengi ekki fengið tækifærin hingað til,“ segir hún.
Hennar persónulegi metnaður liggur hins vegar helst í því að fá fleiri inn í WIFT, konur á öllum stigum sjónvarps- og kvikmyndagerðar, ekki bara leikstjóra, heldur líka þær sem eru í öðrum stöðum. Upphefja þurfi hefðbundnu kvennastörfin í kvikmyndagerð, störf á borð við búningahönnun, skriftustarfið og gervahönnun.
Hikandi við að helga sig kvennasamstöðunni
Það er tilfinning Helgu Rakelar að íslenskar konur séu margar hverjar dálítið hikandi við að helga sig kvennasamstöðunni, sem sé að mörgu leyti skiljanlegt í litlu samfélagi þar sem allir þekkjast sem starfa innan ákveðinna starfsstétta, svo sem eins og í kvikmyndagerð. „Ég er svo sem algjör karl sjálf. Ég er afdalabóndi í mér, á mikið af strákavinum og fúnkera vel með þeim. Mér finnst magnað að upplifa kvennasamstöðu og hún er óendanlega mikilvæg. En ég hef þörf fyrir samskipti við bæði kyn. Kvennasamstaða er frábært hugtak og nauðsynlegt en hún getur líka verið útilokandi. Þetta er flókið. Kvennasamstaða getur verið falleg, öflug og nærandi en hún má ekki snúast upp í að verða aggressíf. Þetta eru reyndar mjög áhugaverðir tímar, finnst mér, því konur hafa gengið í gegnum mikla endurskilgreiningu á öllu sem viðkemur því að vera kona. Ég veit náttúrlega ekki alveg hvað gerist inni í hausnum á karlmönnum en mér sýnist þeir margir vera í einhvers konar endurskoðun líka. Eða ég vona það.“
„Mér fannst ég þurfa að sanna og sýna að ég gæti unnið mikið, þótt ég væri mamman.“
Helga hefur sinnt ýmsum störfum innan kvikmyndagerðar. Hún segist finna það greinilega að ennþá sé málum þannig háttað að karlar eigi frekar heimangengt og geti frekar unnið langa daga en konur. „Það má segja að ég sé heppin, því ég er ekki einstæð móðir heldur á ég tvær dætur með tveimur mönnum. Ég á mjög gott samband við þá báða og þær eru jafnmikið hjá þeim og mér. Það gerir mér kleift að lifa sjómannslífi inn á milli. Ég vinn oft mjög mikið og er raunar nýbúin að taka þá ákvörðun að fara að vinna minna. Þetta varð ákveðin barátta hjá mér. Mér fannst ég þurfa að sanna og sýna að ég gæti unnið mikið, þótt ég væri mamman. Oft hef ég verið spurð á setti: „Hvernig geturðu verið að vinna svona lengi? Áttu ekki börn?“ Þá langar mig nú stundum að spyrja á móti: „Spyrðu af því konan þín er heima núna að passa börnin þín?“
Félagslegur bakgrunnur hafði mótandi áhrif
Það er án vafa félagslegur bakgrunnur Helgu Rakelar sem ýtti undir ástríðu hennar fyrir því að segja sögur úr hráum raunveruleikanum, án þess að reyna að sykurhúða eða fegra viðfangsefnið. Hún ólst upp að miklu leyti hjá einstæðri móður og þær mæðgur fluttu mikið í æsku hennar. Helga kynntist því mörgum og ólíkum samfélögum strax í barnæsku. „Við flökkuðum mikið og ég er alin upp á Flateyri, í Danmörku og Reykjavík. Ég var alltaf að aðlaga mig, alltaf með gestsaugað vakandi. Ég var öll sumur á Flateyri og við mamma bjuggum þar líka í tvö ár. Þar lærði ég að búa í samfélagi með alls konar fólki sem kýs alla flokka, vinnur öll störf. Í svoleiðis samfélagi standa allir saman, þeir verða að gera það til að geta fúnkerað saman. Svo var það Kaupmannahöfn. Sól, pissu- og bjórlykt á götunum og alls konar fólk er ein sterkasta minningin mín þaðan. Og strætóhljóðin fyrir utan gluggann á kommúnunni sem við bjuggum í á Vesterbrogade.“
„Sól, pissu- og bjórlykt á götunum og alls konar fólk er ein sterkasta minningin mín þaðan.”
Þriðja uppeldisstöðin var svo Reykjavík, þar sem Helga Rakel fann betur en annars staðar fyrir því að félagsleg staða hennar væri önnur en margra annarra. „Við fluttum í Vesturbæinn, þar sem bjó mikið af vel stæðu fólki og ef ekki vel stæðu þá alla vega vel menntuðu eða af einhverjum ákveðnum ættum. Ég var fjórtán að verða fimmtán og bjó með mömmu minni hjá Félagi einstæðra foreldra í Skerjafirði. Við bjuggum í tveggja herbergja íbúð með engum hurðum. Klósettið var frammi á gangi og það var tíkallasími á annarri hæð. Á þessum tíma eignaðist ég kærasta en vildi ekki vera með honum, því alltaf þegar hann hringdi í mig heyrðist píp í tíkallasímanum sem mér fannst svo vandræðalegt.“
Þær áttu lítið fé en Helga Rakel vildi vera flott í tauinu eins og hinir krakkarnir. Hún greip því til sinna ráða. „Það var rekinn flóamarkaður í kjallaranum, sem fjáröflun fyrir Félag einstæðra foreldra. Ég fór þangað og gróf upp Levi’s-gallabuxur og -peysu. Svo tók ég strætó í skólann með krökkunum sem bjuggu í einbýlishúsunum í Skerjafirði og enginn sá að ég væri neitt öðruvísi. Ég hef alltaf þurft að bjarga mér. Svona hlutir móta mann og ég er stolt af bakgrunni mínum og mömmu minni.“
Þarf aukna umræðu um hlutskipti aðstandenda
Helga Rakel var sautján ára þegar hún flutti að heiman og fór alfarið að sjá um sig sjálf. Pabbi hennar er tónlistarmaðurinn Rafn Jónsson, sem lék meðal annars með Grafík, Sálinni hans Jóns míns og Bítlavinafélaginu, auk þess gaf hann út nokkrar sólóplötur. Helga bjó alltaf inni á milli hjá pabba sínum og konunni hans. „Ég man að mér fannst mjög töff að pabbi átti bæði örbylgjuofn og hornsófa. Þau bjuggu í frekar hógværri íbúð á Rauðarárstíg en mér fannst geggjað að ég ætti líka heimili þar sem þessir hlutir voru til, því á ákveðnum aldri í barnæsku langar mann að vera eins og hinir. En ég fór samt alveg með vini mína heim. Ég skammaðist mín aldrei fyrir heimili okkar mömmu.”
„Ég skammaðist mín aldrei fyrir heimili okkar mömmu”
Þrátt fyrir að Helga byggi ekki alltaf hjá pabba sínum var hún náin honum og því varð það henni mikið áfall þegar hann lést árið 2004, eftir langa baráttu við MND-sjúkdóminn. Fleiri nánir ættingjar Helgu Rakelar hafa átt við heilsubrest að stríða, svo hún þekkir það vel á eigin skinni hvernig heilbrigðiskerfið reynist aðstandendum langveikra. „Þetta er eitt af því sem hefur mótað mig hvað mest, að vera aðstandandi langveikra. Það þekki ég á ólíkum sviðum, bæði andlega og líkamlega,“ segir hún og lýsir þeirri skoðun að þörf sé á meiri umræðu í samfélaginu um hlutskipti aðstandenda og þær afleiðingar sem það getur haft að veita þeim ekki þá aðstoð sem þeir þurfa. „Samúðin er skiljanlega hjá þeim sem eru veikir en það markerar alla að vera aðstandendur. Það getur reynst dýrkeypt og kostar fólk oft heilsuna. Það er svo sannarlega auðvelt að brenna út sem aðstandandi, því það er mikill línudans sem mikil orka fer í.“

Sjálf segist hún oft þurfa að berjast fyrir því að halda sér réttum megin við línuna, enda sé erfitt að eiga sér innihaldsríkt líf ef því er lifað fyrir einhvern annan. „Aðstandendur þurfa oft að setja sitt líf á „hold“ og oft gera þeir það viljugir, því þeim þykir auðvitað vænt um þann sem er veikur og vilja allt fyrir hann gera og eiga jafnvel erfitt með að horfast í augu við hvaða afleiðingar þetta hefur. Ég vildi bara óska að það væri meiri umræða um þetta, því tilveruréttur aðstandenda er oft einhvern veginn minni en þeirra sem eru veikir.“
Mömmur mega fara einar í frí
Eitt af því sem Helga Rakel gerir til að fylla á hamingjubirgðirnar í líkamanum er að sörfa. Hún er tiltölulega nýbúin að komast að því hvað sú íþrótt er skemmtileg, þótt það sé ekkert nýtt í hennar lífi að elska hafið. „Mér finnst ofsalega gott að vera úti á sjó. Ég vann á tímabili í fuglaskoðunarferðum og þegar ég var lítil fór ég oft með afa á trillunni. Ég verð áttavillt ef ég sé ekki sjóinn. En það var vinkona mín, Rut Sigurðardóttir, sem dró mig fyrst á bretti, eitt skiptið þegar hún kom vestur á Flateyri. Ég varð strax heilluð. Það jafnast ekkert á við að ná öldu og berjast við hana. Og þetta er algjör hugleiðsla og núvitund – það þýðir ekkert að vera á bretti úti í sjó ef þú ert ekki í núinu! Þegar hún kom þekktumst við lítið en í dag erum við sörf-ævintýravinkonur.“
„Ég verð áttavillt ef ég sé ekki sjóinn.“
Hún segist aldrei hafa fundið til hræðslu úti á sjó. „Nei, það er frekar að mér sé sagt að drulla mér í land, því mig langar alltaf lengra og lengra út.“
Hún segir sörfið hvorki meira né minna en eitt af því besta sem komið hafi fyrir hana á seinni árum, þó hún vilji taka fram að hún sé langt frá því að vera orðin góð í að sörfa. „Ég er svona rétt farin að geta staðið og „rædað“ aðeins, en ég er búin að kaupa mér blautbúning og nú er á stefnuskránni að kaupa bretti.“
Saman hafa þær Helga Rakel og Rut ferðast bæði til Marokkó og Portúgal, gagngert til að sörfa. Helga Rakel segir þetta annað sem Rut hafi kennt henni: Að mömmur megi fara einar í frí. „Þegar við fórum til Marokkó hafði ég ekki farið til útlanda árum saman og ég hafði aldrei áður farið í strandfrí. Ég var alltaf að geyma það því ég vildi fara með stelpurnar. En Rut benti mér á að það væri gott að gera hluti með börnunum sínum en maður mætti líka fara einn. Það er í lagi að fara einn í göngu á Hornstrandir, pabbarnir mega fara á fótboltaleiki – og mömmurnar mega líka fara í sörfferð. Það er bara allt í lagi. Vonandi kom ég bara betri manneskja til baka. En ég þurfti nú reyndar að semja við yngri dóttur mína þegar ég fór í seinni ferðina og lofaði því að næst fengju þær að koma með.“
Líður hvergi betur en vestur á Flateyri
Ástina á sjónum fékk Helga Rakel án vafa frá Flateyri, þar sem hún dvaldi langdvölum sem barn, eins og fyrr segir. Þar var hún öll sumur, jól og páska, og bjó þar allt árið þegar hún var 11 og 12 ára. Enn í dag tengir hún sterkt við Flateyri og reynir að vera þar eins mikið og hún getur. Heimili afa hennar og ömmu, Hvilft, er enn í fjölskyldunni og þau eru nokkur sem eiga húsið og halda því við. Síðustu ár hefur átt sér stað nokkuð mikil uppbygging á Flateyri, sem Helga Rakel lítur á sem jákvæða þróun. „Þetta er allt saman besta fólk, þau sem hafa keypt sér hús í bænum, listhneigt, skapandi og drífandi fólk sem þykir vænt um staðinn og vill gera eitthvað fyrir hann. Miðað við allt og allt, og hvernig fór fyrir þorpinu, þá er þetta mjög góð þróun. Ég skil þetta fólk líka mjög vel, þetta er fallegur staður og þar er gott að vera.“
Sjálf er hún alltaf með það á bakvið eyrað að flytja þangað alfarið. „Ég er algjör bóndi í mér og helst langar mig að búa á bóndabæ, eiga jeppa og traktor og vera með geitur og kindur. Ég ætla að gera það þegar stelpurnar mínar eru orðnar stórar. Í Reykjavík er ég oft einmana, sérstaklega eftir að hafa verið fyrir vestan. Þótt ég eigi fjölskyldu í Reykjavík og mjög marga góða vini líður mér allt öðruvísi fyrir vestan. Þar get ég verið ein í viku án þess að finna fyrir einsemd. Þá finn ég að ég er að verða dálítið skrýtin og dríf mig í að hitta einhvern í kaffi. Ég hreinlega elska að vera þarna.“
Mynd um Emilíönu Torrini á teikniborðinu
Spurð að því hvað framtíðin beri í skauti sér stendur ekki á svörum og það er greinilega margt fram undan á ólíkum sviðum. Það er kannski ekki skrýtið þegar viðmælandinn er kona sem hefur lært leiklist og leikhúsfræði í Kaupmannahöfn, lesið almenna bókmenntafræði og er með meistaragráðu í heimildamyndagerð. Hún hefur mörg áhugamál og stefnir í margar áttir í einu. Stundum langar hana að leggja alfarið fyrir sig skriftir eða þáttagerð fyrir útvarp, en hún var með pistla á RÚV síðastliðinn vetur um heimildarmyndir sem hún naut þess mjög að framleiða. Hún er þó ekki að yfirgefa heim kvikmyndanna á næstunni, ef marka má verkefnalistann. Hún er að leggja lokahönd á eina heimildarmynd, vinna í handriti að leikinni bíómynd í fullri lengd og að hefja vinnu að nýrri heimildarmynd. „Ég er að klára Góða hirðinn, sem er heimildarmynd um Þorbjörn Steingrímsson á Garðstöðum við Ísafjarðardjúp og bílakirkjugarðinn hans í Ögri. Myndinni má lýsa sem nokkurs konar póstkorti frá þessum bílakirkjugarði, sem sumir sjá sem ruslahaug meðan aðrir sjá hann sem ævintýri. Undirtextinn er kannski sú spurning af hverju rusl sé slæmt og hvort það sé í lagi að safna því, svo lengi sem við sjáum það ekki. Þetta hefur verið langt ferli en hún verður tilbúin fyrir áramót,“ segir Helga Rakel.
„Myndinni má lýsa sem nokkurs konar póstkorti frá þessum bílakirkjugarði, sem sumir sjá sem ruslahaug meðan aðrir sjá hann sem ævintýri“
Undirbúningur að næstu heimildarmynd hennar er líka hafinn en hún verður um tónlistarkonuna Emilíönu Torrini. „Emilíana er ein af okkar fremstu listamönnum, hún er stórkostlegur lagahöfundur og flytjandi og svo er hún svo skemmtileg! Myndin fjallar um sköpunarferlið og samvinnu hennar við belgísku hljómsveitina The Colorist Orchestra. Í forsprökkum þessarar hljómsveitar hefur Emilíana fundið samstarfsfélaga sem eru fullkomnir fyrir akkúrat þann stað sem hún er á núna, sem tónlistarmanneskja.“
Hún segir verkefnið enn á þróunarstigi og því ekki tímabært að uppljóstra of miklu strax. Hins vegar er hún viss um að margir eigi eftir að geta speglað sig í undirliggjandi þemum myndarinnar. „Eins og til dæmis hvað það getur stundum verið flókið að samhæfa það að vera skapandi einstaklingur og eiga fjölskyldu, að þurfa að skaffa og langa bæði til að skapa og sinna því sem er dýrmætast af öllu, börnunum. Þetta er mjög skemmtilegt ferli og ég er búin að kafa ofan í höfundarverk Emilíönu og kynnast henni og samstarfsmönnum hennar vel. Það er sannarlega mikilvægt að finna réttu aðilana til að skapa með, bæði í listinni og lífinu. Mig hefur lengi langað til að gera heimildarmynd um listakonur og nú er sá bolti farinn að rúlla!“
Athugasemdir