Ég er á leiðinni í kristilegar sumarbúðir í júní árið 1980. Ég er guðhræddur krakki og starfsfólkið í búðunum þurfti ekki að segja mér tvisvar að við stelpurnar yrðum að vera duglegar að biðja bænirnar til að Guð myndi forða því að grjóthrun yrði í fjallinu fyrir ofan búðirnar. Þá gætum við allar dáið.
Ég var líka kvíðakrakki.
Orð fullorðna fólksins hittu því beint í mark. Ég lá á bæn, fór með bænir í hljóði meðan ég var að keppa í brennó og limbó. Meðan ég át perlugraut og á kvöldvökum. Á morgnana muldraði ég: Ó Jesú bróðir besti.
Hálfu ári eftir að þessi mynd var tekin dó John Lennon. Ég var 9 ára og elskaði Paul McCartney. Vinkona mín sem var með mér í kristilegu sumarbúðunum sagði mér fréttirnar. Svo fórum við í skólann. Og þar var allt eins og áður. …
Athugasemdir (1)