Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Dagur byltingar er runninn upp. Komdu.

Við erum mörg í samfélaginu sem förum í gegnum daginn, árið, lífið með því að hugsa í sífellu: Nú set ég annan fótinn fram fyrir hinn.

En loksins er dagur vonar runninn upp. Bylting.

Við búum í samfélagi þar sem hið innantóma ræður ríkjum. Þar sem ekkert skiptir máli sem skiptir máli. Við erum innantómt samfélag. Það vantar í okkur kjarnann. Til þess að finna inntak og hlúa hvert að öðru þurfum við byltingu. Í dag er dagurinn.

Mig langar að grátbiðja fólk um að mæta, og hvetja aðra til að mæta. Leggjast við fætur hvers og eins og segja: Gerðu það. Við getum ekki látið þetta viðgangast lengur. Við verðum að fara betur með lyklavöldin að landinu okkar. Eina leiðin til þess er að taka sjálf völdin og vinna saman.

Bylting.

Menningin okkar er menning innilokunar. Hér er hver læstur inni í sínu virki. Þeir sem líða skort eða þjást á annan hátt fá litla eða enga hjálp. Hér eru sannarlega engar fréttir góðar fréttir. Hér má ekki tala um það sem slæmt er því þá verða hinir leiðir.

Við verðum að gera byltingu. Það er engin önnur leið. Samfélagið okkar er rotið innan frá og út. Þetta fallega land með öllum sínum gnægtum - og við erum enn föst í meðvirkni þess sem hafði ekkert til að orna sér við á dimmum kvöldum annað en pelann, saltarann og lappirnar á henni Gunnu litlu.

Við þurfum ekki lengur að haga okkur eins og kuldinn smjúgi inn að beini. Gerum byltingu. Upprætum spillingu. Sleikjum sárin og förum að dansa og skipta auðævum okkar á mannúðlegri hátt.

Byltingin er í dag.

Í dag er dagurinn. Við getum búið til gott samfélag, við erum gott fólk inni við kalda beinið. Okkar er mátturinn. Á Alþingi situr fólk sem talar eins og það ráði. „Því hugnast“ eða „því hugnast ekki“, þannig er orðræðan. En það er blekking að þau ráði. Það erum við sem ráðum.

Í dag er dagurinn. Við getum búið til gott samfélag, við erum gott fólk inni við kalda beinið. Okkar er mátturinn.

Gerum látlausa en öfluga byltingu. Hættum ekki fyrr en við höfum komið ríkisstjórninni frá, sett inn stjórnarskrána sem við kusum um og breytt stjórnarháttum.

Í dag er dagurinn.

Við getum þetta. Við erum gott fólk með drauma um gott samfélag sem við höfum alla burði til að láta rætast. Spilling og misskipting auðs í einu ríkasta landi heims er ekki í lagi. Lýðræðissvipting ráðamanna "bara af því bara" er óásættanleg. Fólk sem hagar sér með þessum hætti á heima í fangelsi, ekki á Alþingi.

Dagur vonar runninn upp. Bylting.

Mætum - og byltum. Með umsátri um Alþingi. Við getum skipt með okkur vöktum þar til byltingin er í höfn.

Dagur byltingar er runninn upp. Komdu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu