Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Sorgmæddur 17. júní?

Sorgmæddur 17. júní?

Þjóðhátíðardagur Noregs var í gær og að honum loknum byrja ég alltaf að telja niður. Sá norski var haldinn hátíðlegur þegar ég var lítil af því að amma var norsk. Sá íslenski, mánuði síðar, var haldinn enn hátíðlegri. Á milli þeirra var talið niður.

Í fyrra sendi ég forsætisráðherra þetta bréf um þjóðhátíðardaginn:

„Sæll Sigmundur,

ég er dagfarsprúð manneskja en mér blöskraði svo þann 17. júní sl. að það er ekki fyrr en nú sem ég treysti mér til að ræða málið á yfirvegaðan hátt. Ég fer sjaldan strax að morgni í bæinn á þessum degi og nú höfðu liðið nokkur ár frá því ég gerði það síðast. Okkur mæðgum mættu stálgirðingar og menn gráir fyrir járnum. Það var ekki nokkur leið að komast að ykkur á Austurvelli og sjá hvað fram fór, hlustun var eina leiðin til þátttöku. Fólk stóð í röð á ská út völlinn og teygði fram álkuna eins og kindur á garða.

Við erum örlítil þjóð. Herlaus. Við þurfum ekki viðbúnað á borð við þann sem við sjáum í sjónvarpinu þegar einræðisherrar fara um, eða Bandaríkjaforseti.

Þess utan býr þetta til nýtt norm og um leið og okkur finnst alvanalegt að ekki sé þverfótað fyrir grindum, svartþjónum og öðrum valdstjórnartækjum fer okkur líka að þykja venjulegt að berjast gegn því. Þetta bítur í halann á sér. Það er hræðilegt að geta ekki notið þjóðhátíðardagsins en rekast þess í stað á stálgrindur og víkingasveit. Burt með þetta strax, takk. Aldrei framar.

Virðingarfyllst,

Kristín Elfa Guðnadóttir.

Es. Vinsamlegast staðfestu móttöku bréfsins.“

Svar hefur ekki borist en ég var – og er – vongóð um að þetta endurtaki sig ekki.

Reyndar veit ég ekki hvort ég skrifaði réttum aðila. Átti ég kannski að skrifa Þjóðhátíðarnefnd? Lögreglunni?

Ég spurði víkingasveitarmann á staðnum. Hann sagðist halda að ég ætti að tala við ríkisstjórnina, þetta hefði byrjað fljótlega eftir hrun.

Mér finnst þetta grafalvarlegt mál. Smám saman venst lögregla á að það sé sjálfsagt að verja fyrir almenningi þá útvöldu, sem er gert að sitja upphækkaðir og afgirtir á palli, á þessari sameiginlegu hátíð okkar allra - sjálfum þjóðhátíðardeginum.

Á 17. júní. Hverslags rugl er það?

Fyrir mig var þetta sérstakt áfall þar sem dagurinn var óvenjulega hátíðlegur í fjölskyldunni þetta árið. Systir mín var nefnilega fjallkonan. Hún flutti ávarpið sitt óaðfinnanlega. Ég heyrði hljómfögru röddina hennar vel og greinilega. Hún var örugglega líka tignarleg og falleg í skautbúningnum ... en ég sá hana bara ekki.*

Ég sá löggur og girðingar og fjölda fólks sem reyndi að passa inn í grindverkin og löggurammann.

Þjóðhátíðardagurinn okkar nálgast óðfluga. Ef lögregla og girðingar verða aftur það sem blasir við fólki í stað fjallkonu og brosandi andlita, ef þetta verður með sama sniði í ár eins og í fyrra, þá verður sannarlega svartur 17. júní. Ég verð með sorgargrímuna reiðubúna.

Hvort verður 17. júní harmleikur eða gleðileikur?

 

*Ég veit hins vegar að hún tók sig vel út í skautbúningnum af því að ég hitti hana eftir á, og sá svo frétt um kvöldið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni