Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

„Mamma, geturðu auglýst á Bland eftir afa og ömmu?“

„Mamma, geturðu auglýst á Bland eftir afa og ömmu?“

Sem samfélag erum við vita vonlaus í mörgum veigamiklum málum. Til dæmis í að hjálpa vansælum börnum og unglingum.

Vansæld sjáum við oft hjá börnum sem lenda utangarðs í félagahópnum. Líka hjá fátækum börnum og þeim sem fá lítinn stuðning heiman frá af þessum orsökum og öðrum, svo sem vegna þreytu foreldra og vanmáttar á þungu heimili.

Margt fleira getur komið til, svo sem andlát fjölskyldumeðlims eða mikil veikindi heima fyrir, þung umönnun annarra fjölskyldumeðlima – þetta og ýmislegt annað í ytri aðstæðum getur valdið barni vansæld. Óhamingja á heimili er erfið fyrir börn.

Foreldrarnir eru oft og iðulega yndislegar manneskjur sem skortir bara stuðninginn, tækin og tólin til að lyfta vansældarþokunni af heimilinu. Þau hafa kannski misst fótanna um hríð og þurfa bros og velvild.

Stundum hvílir umönnun barnins bara á herðum einnar manneskju og barnið á hvorki afa né ömmur. Eins og sex ára barnið sem bað mömmu sína um að auglýsa á Bland eftir ömmu og afa.

Samfélagið okkar er þannig að ekki er gert ráð fyrir að við upplifum neinar skyldur svo heitið geti gagnvart öðrum börnum en þeim sem eru blóðskyld okkur í fyrsta eða annan lið. Nema starf okkar krefjist þess. Mörg börn eiga bara einn málsvara. Og sum engan.

Kerfislægar lausnir eru sjaldan vel til þess fallnar að láta birta til í lífi fólks og sveifla óhamingjuhulunni frá, þótt þær geti rutt leiðina þegar vel er að verki staðið.

Samfélagslausnir okkar eru máttlausar, rígbundnar á klafa tilbúins ramma sem samhljómar lítt við veruleikann, og þær eru kerfislægar. Kerfislægar lausnir eru sjaldan vel til þess fallnar að láta birta til í lífi fólks og sveifla óhamingjuhulunni frá, þótt þær geti rutt leiðina þegar vel er að verki staðið.

Kerfi, eitt og sér, gerir barn ekki hamingjusamt.

Þar þarf hjálp góðs og umhyggjusams fólks sem gengur í að laga hlutina sem valda óhamingjunni. Eða, ef það er ekki hægt, finnur aðrar lausnir sem leiða til þess að vansældin minnkar og hamingjan verður fyrirferðarmeiri í lífi barnsins eða unglingsins.

Stundum eru einu hjálparhellurnar kennarar viðkomandi barna og margir þeirra sjá berlega skortinn á hjálparhönd í samfélaginu. Sum börn eignast hauk í horni í tómstundaleiðbeinanda, nágranna eða félagsráðgjafa. Gott fólk getur gert mjög mikið til að létta vansælu barni lífið. En þau gætu gert miklu meira ef þau stæðu ekki ein, heldur hefðu víðtækan stuðning samfélagsins.

Það sem vansæl börn þurfa er:

● Samfélag sem er næmt fyrir og þolir ekki að barni líði illa. Sem bregst við þessu óþoli með því að þjappa sér saman um barnið.

● Samfélag þar sem það er sjálfsagt að granninn banki upp á og bjóði í mat. Að foreldrar bekkjarfélaga bjóði barninu með í einhverja skemmtilega upplifun. Að eldri borgari verði klappstýra barnsins og segi því og sýni daglega hvað það er frábært.

● Samfélag þar sem hvert barn nýtur virkrar hlustunar þeirra fullorðnu. Þar sem skólasamfélagið allt, líka foreldrar og nemendur, ann sér ekki hvíldar fyrr en það hefur stutt vansælan nemanda í skólanum til meiri lífsgleði.

● Samfélag þar sem þeir efnameiri gefa þeim efnaminni eitthvað skemmtilegt, svo sem fjölskylduferð í Disneyland, og hafa þægilegan og samfélagslega kynntan vettvang og skilning til þess.

● Samfélag með lýðræðislegri samfélagsmiðstöð í hverju smásamfélagi (þorpi, hverfishluta) þar sem íbúar koma saman að ýmsum verkefnum og hafa aðstöðu til að skipuleggja viðburði, námskeið, fyrirlestra, daggæslu, fjölskylduböll, ráðgjöf, samvinnu við skólana o.s.frv.

● Samfélag þar sem við fyllumst óþreyju ef við fréttum af vansælu barni eða ungmenni, og linnum ekki látum fyrr en við höfum tryggt því vináttu annarra og langvarandi stuðning.

Samfélag þar sem við látum hvort annað vita af vansælu barni. Ekki til að hneykslast. Heldur til að hjálpa.

Í svona samfélagi verður kerfið raunverulegur bandamaður. Það hjálpar okkur hinum að gera það sem þarf að gera fyrir barnið.

Börn sem eru vansæl og sjálfsmynd þeirra brotin - þannig fara þau út í lífið. Með alvöru stuðningi getum við breytt þessu.

Til þess þurfum við að virkja fleiri í samfélaginu, og með aðkomu atvinnulífs, löggjafa og verlferðar- og menntakerfis. Stytta vinnuviku barna og fullorðinna, búa til frjósaman svörð fyrir sjálfboðastarf, fjölga möguleikum til ókeypis og ódýrra tómstunda, en fyrst og fremst breyta viðhorfinu um hvað það er sem skiptir máli.

Það er ekkert sem skiptir meira máli en að rétta barni vinarhönd. Hlusta á það, láta það finna að maður nýtur þess að vera með því. Gefa því sömu tækifæri og aðrir lánsamari fá í lífinu.

Ekkert er mikilvægara.


 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni