Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Spurning um að þora

Spurning um að þora

Það er ágæt hugmynd að börn læri að kóða. Lína Langsokkur hefði brillerað í því. Ég er kannski ekki jafnæst í  kóðunarnám og helstu talsmenn þess en það hefur sína kosti og ekki bara í atvinnuleit síðar á ævinni. Þjálfun í kóðun getur til dæmis eflt færni í lausn vandamála. Grunnfærni í lausnaleit og kóðun eru hluti þeirra námsleiða sem auðvelda fólki að skilja samfélagið sitt, hafa áhrif á það og fleyta því fram á veginn.

Það kemur kannski á óvart eftir þessi orð um kóðun að ég skuli vilja draga allverulega úr skjáhorfi. En þannig er það nú. Skjáir, jafnt litlir sem stórir, ættu að fá mun minna af tíma okkar en nú er. Ég er þeirrar skoðunar að með því að fljóta afstöðulaust áfram séum við að gera bernskuna leiðinlegri, snauðari og rýrari af þroskatækifærum.

► Tíminn við skjáinn tekur tíma frá öðrum athöfnum

Internetið er frelsiseflandi með öllum þeim aðgangi að upplýsingum sem það gefur. Ég vil alls ekki missa það og fara til baka. En allt er best í hófi, líka klukkustundirnar sem við verjum í ylríkum faðmi netsins og annars skjáhorfs. Mér finnst sárt að horfa upp á tóma leikvelli og sakna hávaðans í börnum. Sumt er ágætt, slagsmálum í frímínútum hefur fækkað nú þegar hver og einn er upptekinn í ástarsambandinu við eigin skjá.

En skjárinn rænir okkur því að vera í fjölbreyttu, fýsísku samneyti við kjötheiminn. Við umhverfið utan tölvunnar. Upplifun okkar af heiminum verður einsleitari, fátæklegri. Tengsl okkar við náttúruna rofna. Og tengsl okkar hvert við annað verða stopulli.

Skjásaga: Framhaldsskólakennari sagði mér að við hefðum rústað framhaldsskólanum fyrir krökkum með styttingunni í þrjú ár, vinatengslin sem oft myndast á þessum árum gætu verið í húfi og mikilvægi þessa skólastigs í lífi fólks og minningum rýrnaði - tímabilið of stutt og of mikið að gera. Ekki bætti úr að krakkarnir sætu við símann öllum stundum og gerðu minna saman, við værum líka að bregðast þeim þarna. Þótt sumir skólar gerðu unglingum kleift að vera lengur en þrjú ár veldu fæst þeirra það, því félagarnir væru farnir og svolítill kauðastimpill að sitja eftir. 

Hvar er síminn minn? Ef hann er ekki innan handar rýkur púlsinn upp hjá ansi mörgum.

► Skjáhorf tikkar í öll boxin um þróun fíknar

Instant heiminn er miklu auðveldara að nálgast og innbyrða en þennan leiðindaheim þarna úti sem er flókinn og oft óþægilegur í samanburði. Það er meira að segja óþægilegt að ræða þetta því við, hin fullorðnu, erum jafnmiklir eða meiri skjáfíklar en börnin. Hvar er síminn minn? Ef hann er ekki innan handar rýkur púlsinn upp hjá ansi mörgum.

Þegar fíkninni er ekki fullnægt með tíðum neysluskömmtum kemur kvíðinn. Hreyfingarleysið sem mikið skjáhorf hefur í för með sér er sömuleiðis ávísun á kvíða. Grunnskólakennarar segja mér að unglingar sýni líkamleg einkenni veikinda ef síminn gleymist heima eða finnst ekki um leið, það slær út á þeim svita, hendurnar fara að skjálfa.

► Heilsunni hrakar

Að sitja á rassinum allan daginn gerir fólk að sjúklingum fyrir aldur fram.

Í B.Ed. ritgerð sinni við kennaradeild Háskólans á Akureyri (2013) segir Jóhannes G. Bjarnason meðal annars frá rannsóknum Erlings Jóhannssonar á lífsstíl barna, svo sem því að 23 ára hreyfa sig álíka mikið og 80 ára, að kyrrseta barna og unglinga hefur tvöfaldast á áratug (upplýsingar frá 2013), að líkamsástand barna versnar stöðugt og þyngd þeirra eykst. Jóhannes hefur eftir Erling að skjáhorf af margvíslegum toga virðist hafa yfirtekið frístundir barna og unglinga í stað leikja sem kröfðust líkamlegrar áreynslu.

Þetta, gott fólk, var 2013.

Og hvað svo?

Setjum svo að við viljum breyta þessu. Hvernig gerum við það?  Með samtali og samvinnu, það segir sig sjálft, með lýðheilsuátaki, með stuðningi við foreldra, með fjölbreyttari ókeypis skemmtilegheitum fyrir börn og unglinga, með því að brjóta meira upp skólatímana með hreyfingu, með svo mörgu. Og ekki síst með leyniefni sem ég upplýsi um í lok greinarinnar. 

Ef við viljum hugmyndir er til fullt til af þeim - á netinu (meira skjáhorf!) Margt af því sem birtist á skjánum við að gúgla reducing screen time er svolítið gamaldags en auðvelt er að skipta út sjónvarpinu fyrir síma í hugmyndalistunum. Við sjáum líka að skrifin eru barn síns tíma á því að talað er um hámark tvo tíma á dag í skjáhorf. Þarna er aftur miðað við sjónvarpið. En þótt okkur kunni að þykja þetta hálfkjánalegt, jafnvel fáránlegt, þá er full ástæða til að spyrja: Af hverju finnst okkur það? Hafa börn breyst svo mikið undanfarin fimm ár að þau hafi allt í einu gott af miklu lengri skjátíma en áður var talið? Eða eru það bara viðmiðin sem hafa breyst? Ef svo, á hverju byggjum við þessi nýju viðmið?

Skjásaga: Nokkrir krakkar gátu ekki hugsað sér að fara í skólabúðir af því að gerð var krafa um að skilja símana eftir heima. Þau fóru samt á endanum. Eftir ferðina voru þau uppnumin, öll sem eitt glöð og ánægð og hefðu ekki fyrir nokkurn mun viljað missa af ferðinni. Börnin þjáðust af tilhugsuninni um aðskilnað við símann, svo þjáðust þau í stutta stund eftir aðskilnaðinn og síðan ekki söguna meir. Minnir á fíkn, ekki satt? Jú, smá. En ekki alvarlega.

Leyniefnið

Ég lofaði lausnaleyniefni í lokin. Hér kemur það: Margir foreldrar eru hræddir við viðbrögð barna sinna ef þau takmarka skjáhorfið. Einhverjir foreldrar skammast út í skólana fyrir að takmarka skjáhorf. Margir foreldrar horfa meira eða álíka mikið á skjái og börnin. Er hægt að draga úr þessu? Hvað þarf til? Svar: Kjark. Leyniefnið er HUGREKKI.

Við foreldrar getum sýnt kjark og ákveðið að sleppa símunum við hinar og þessar aðstæður. Með símann í fjölskylduafmælið? Nei, ekki í boði. Með símann í sund? Í skólann? Inn í svefnherbergi á kvöldin? Í leikhús? Út í búð?

Gefum krökkunum okkar færi á bernsku þar sem megninu af vökutíma er ekki varið fyrir framan skjá. Verum gagnrýnin. Það erum við foreldrar sem höfum töglin og hagldirnar.

 

 

Höfundur er skjálfandi skjáfíkill að manna sig upp í aðgerðir.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu