Sjálfstæðisflokkurinn mælst með minna en 20 prósent fylgi samfleytt í meira en ár

Sjálfstæðisflokkurinn mælst með minna en 20 prósent fylgi samfleytt í meira en ár

Vinstri græn hafa aldrei mælst með minna fylgi í könn­un Maskínu og yrðu minnsti flokk­ur­inn á þingi ef kos­ið yrði í dag, ef þau kæm­ust yf­ir höf­uð inn. Sam­fylk­ing­in mæl­ist nú stærri en nokkru sinni áð­ur á kjör­tíma­bil­inu og Mið­flokk­ur­inn er stöð­ug­ur í kjör­fylgi sínu frá 2017.

Í fyrstu fylgiskönnun Maskínu síðan að forsætisráðherraskipti urðu, og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við, þá dalaði fylgi Sjálfstæðisflokks, flokks nýja forsætisráðherrans, og fylgi Vinstri grænna, flokks gamla forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur. Fylgi þriðja stjórnarflokksins, Framsóknarflokks, jókst llítillega á milli mánaða og hefur raunar ekki mælst hærra síðan í mars 2023.

Fylgi Vinstri grænna hefur hins vegar aldrei mælst lægra í könnunum Maskínu og Sjálfstæðisflokkurinn fær sína næst verstu mælingu frá upphafi. Samanlagt fygi stjórnarflokkanna þriggja er nú undir þriðjungi og lækkar milli mánaða.

Verst er staða Vinstri grænna, sem misstu formanninn sinn í forsetaframboð fyrr í mánuðinum. Nú segjast einungis fimm prósent svarenda ætla að kjósa þann flokk, og þarf afar lítið til svo að hann nái einfaldlega ekki inn á þing, og hann er nú sá flokkur af þeim átta sem eiga fulltrúa á þingi sem fæstir svarendur gætu hugsað sér að kjósa.

Frá síðustu kosningum hafa Vinstri græn tapað 7,6 prósentustigum af fylgi, meira en nokkur annar flokkur. Staðan er enn verri ef hún er borin saman við kosningarnar 2017, þegar flokkurinn ákvað að leiða ríkisstjórn þeirra flokka sem setið hafa alla tíð síðan. Þá fékk hann 16,9 prósent atkvæða, vel rúmlega þrefalt það sem Vinstri græn mælast nú með. 

Sjálfstæðisflokkurinn er líka í brekku þrátt fyrir að hafa loks tekið við forsætisráðuneytinu, en því hefur flokkurinn ekki haldið nema í nokkra mánuði á árinu 2017 frá því að Geir H. Haarde baðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt í lok árs 2009. Fylgi flokksins nú mælist 17,2 prósent. 

Eina skiptið sem það hefur mælst minna í könnunum Maskínu var í janúar þegar það fór niður í 16,6 prósent. Það sem meira er þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki mælst með yfir 20 prósent fylgi í könnunum fyrirtækisins síðan í mars 2023, eða í 13 mánuði samfleytt. Hann hefur aldrei fengið svo lítið fylgi í kosningum og fékk 24,4 prósent atkvæða haustið 2021, eða 7,2 prósentustigum meira en fylgið sem Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með.

Framsókn hressist, líkt og áður sagði, milli mánaða og mælist nú með 10,7 prósent fylgi. Það er þó 6,6 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Samandregið hafa stjórnarflokkarnir því allir tapað um og yfir sjö prósentustigum af fylgi hver það sem af er kjörtímabili, en kosið verður í síðasta lagi haustið 2025. Samanlagt fylgistap þeirra nemur nú 21,5 prósentustigi.

Samfylkingin aldrei mælst hærri

Það er ekki langt frá þeirri fylgisaukningu sem Samfylkingin hefur náð í á kjörtímabilinu. Flokkurinn mælist nú með einungis 5,6 prósentustigum minna fylgi en allir stjórnarflokkarnir til samans, eða 27,3 prósent. Það er 16,4 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum og mesta fylgi sem Samfylkingin hefur mælst með í könnunum Maskínu á kjörtímabilinu, en hún hefur stöðugt mælst stærsti flokkur landsins í öllum könnunum frá því í lok árs 2022. Sennilegast verður að telja að Samfylkingin sé að taka nýtt fylgi sitt í stórum dráttum frá Framsóknarflokki og Vinstri grænum.

Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur verið að festa sig í sessi sem þriðji stærsti flokkur landsins á undanförnum mánuðum og auðvelt að álykta að stór hluti þess fylgis sem horfið hefur frá Sjálfstæðisflokknum hafi færst yfir á hann. Flokkurinn mælist nú á svipuðum stað og þegar kosið var 2017, með 11,6 prósent fylgi, en hann fékk einungis 5,4 prósent atkvæða í kosningunum 2021. 

Þriðji flokkurinn sem mælist nú með meira fylgi en hann fékk í síðustu kosningum er Viðreisn með 10,2 prósent. Sú fylgisaukning er þó hóflegri en hjá bæði Samfylkingu og Miðflokki. Píratar eru að mælast nánast í kjörfylgi með 8,5 prósent en eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem hefur tapað fylgi á kjörtímabilinu sem einhverju nemur er Flokkur fólksins, sem mælist nú með 5,3 prósent fylgi.

Sósíalistaflokkurinn er skammt undan Vinstri grænum og Flokki fólksins með 4,1 prósent fylgi en hann náði ekki inn á þing í síðustu kosningum. 

Könnunin fór fram dagana 5. til 16. apríl 2024 og voru 1.746 svarendur sem tóku afstöðu til flokks.

Þrír af hverjum fjórum vantreysta forsætisráðherra

Katrín Jakobsdóttir, sem alla tíð hefur verið vinsælasti liðsmaður ríkisstjórnarinnar samkvæmt mælingum, tilkynnti föstudaginn 5. apríl að hún ætlaði að hætta sem forsætisráðherra og fara í forsetaframboð. Katrín hafði þá leitt ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá því síðla árs 2017. Eftir nokkurra daga stjórnarmyndarviðræður var ákveðið að halda samstarfinu áfram eftir brotthvarf Katrínar og að Bjarni myndi taka við sem leiðtogi ríkisstjórnarinnar. 

Það var rökstutt með því að hann væri formaður þess flokks sem er stærstur í samstarfinu og fékk flest atkvæði í kosningunum 2021.

Gagnrýnendur hafa hins vegar bent á að Bjarni sé, samkvæmt mælingum Maskínu, langóvinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar. Í könnun fyrirtækisins sem Heimildin greindi frá i desember í fyrra kom fram að 75 prósent landsmanna vantreystu honum. 

Sú staða hefur lítið breyst eftir að hann varð forsætisráðherra. Í könnunum sem Maskína lét gera fyrir Heimildina eftir breytingarnar á ríkisstjórninni kom fram að 73 prósent vantreysta Bjarna sem forsætisráðherra og að sjö af hverjum tíu sögðust neikvæðir gagnvart breytingunum sem gerðar voru á stjórninni. Einungis níu prósent sögðust treysta ríkisstjórninni betur eftir að Bjarni Benediktsson settist í stól forsætisráðherra og 84 prósent töldu að hún myndi gera minna gagn en sú sem sat áður eða engu breyta.

Kjósa
25
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • LEK
    Logi Elfar Kristjánsson skrifaði
    Ég nota lykilorðið logi@ugla.is og kannast ekki "logi27"
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár