Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ungfrú Svínka fer í sveitina

Ungfrú Svínka fer í sveitina

 

Ég hlustaði aldrei á neinn sem sagði mér að hætta að reykja. Þeir sem ekki reyktu voru hvort eð er leiðinlegir, ég tala nú ekki um ef þeir skildu eftir bækling frá krabbó á skrifborðinu mínu. Það var ekki fyrr en yngsta barnið fór að grenja í mér sem ég lagði (hægt og seint) við hlustir. Eftir þrjú ár í sambúð með sífelldum áhyggjum ungans hætti ég loksins.

Það var erfitt og ég mæli ekki með því.

Djók.

Það var óendanlega mikið þess virði.

En það er þetta með svínin í fréttunum og kjötátið. Ég kannast líka svolítið við afskipti af því hvað ég ét. Ég er með þrjátíu ára sögu af grasbröndurum á bakinu.

„Æi greyið, færð þú ekkert að borða nema gras? Hahaha.“

Og skilningsleysi: „En þetta eru tómatar“ (á veitingastaðnum þar sem ég fékk grænmetisréttinn fyllta tómata og í þeim var skinka).

Og af því að ég var svo góðlátleg, þarna fyrstu áratugina þegar við grasæturnar vorum færri en framsóknarmenn verða eftir næstu kosningar, þá hló ég bara góðlátlega með.

Nú er ég orðin miðaldra, hætt á túr og hætt að vera góðlátleg. Ég þarf ekki lengur að halda friðinn því börnin mín geta varið sig sjálf án minnar friðelskandi nærveru. En fjarri mér samt að segja ykkur að hætta að éta kjöt. Mig langar bara, frekar vongóð, að stinga upp á einu við þau ykkar sem eruð að spá í dýravelferð: Skoðið nokkur góð myndbönd.

Það þarf ekkert að hætta að éta kjöt einn tveir og þrír. Það er hægt að kynna sér málin í rólegheitum, taka kannski pínulítinn þátt í að mótmæla illri meðferð á dýrum á verksmiðjubúum, skrifa undir eina petition, ræða við vini sína, hætta að kaupa svín eða kjúkling, eitthvað svona. Margar leiðir eru færar. Allir ættu að geta fundið sér leið við sitt hæfi.

Á netinu er talsvert af vönduðum myndböndum (rétt eins og óvönduðum) þar sem fjallað er skynsamlega um áhrif verksmiðjubúskapar.

Þar eru líka myndbönd um leiðir til að draga hægt og rólega úr búfjárrækt. Það skilar okkur dýravelferð, dregur úr óhagkvæmri landnotkun, minnkar losun gróðurhúsalofttegunda og styrkir okkur í siðlegri ákvarðanatöku, hugsun og hegðun.

„Ef veggirnir á sláturhúsunum væru úr gleri, myndum við öll vera grænmetisætur“, sagði Paul McCartney einu sinni. Það má alveg yfirfæra þetta á verksmiðjubú og fleiri staði. Vel flestar ákvarðanir okkar hafa áhrif á aðra, bæði fólk og önnur dýr. Það er hins vegar réttur okkar að taka þessar ákvarðanir. En reynist þær slæmar þurfa því miður oft aðrir að taka afleiðingunum. Lausnin við þessu er ekki að taka sjálfsákvörðunarréttinn af fólki. Aðrar leiðir eru færar. Uppeldi, samræða og sífelld endurskoðun á gildum okkar, hefðum og siðferði.

Það er farið hræðilega illa með dýr á Íslandi. Ekki bara í útlöndum.

Gagnsæi, eins og glerið hans Pauls, auðveldar okkur að sjá, vita og skilja. Sem eru mikilvægar forsendur þess að gera.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni