Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Asnalegt

Asnalegt

Á meðan mamma stynur og skoðar rifið blað ferðu að hugsa um hvað þig langar í í afmælisgjöf. Mamma hefur ekkert spurt ennþá. Í nótt dreymdi þig ljón.

Þið fóruð í strætó upp í hjálparstarf. Það er í kjallaranum á kirkjunni. Þið þurfið að bíða. Mamma fer aftur að stynja, er henni illt? Hún er alltaf að þessu núna. Frekar asnalegt. Nýtt orð sem þú heyrðir í gær. Hún segir nei, nei, það er ekkert að. Þér er smá illt í maganum.

Þú ert á elstu deildinni og stór. Þú sérð alls konar, nýjar spiderman derhúfur og tattú og svona. Mamma segir seinna. Hin á deildinni fara með afanum og ömmunni í Kringluna og í leikhús. Með pabbanum í bíó og sund. Mamman fer til útlanda og kaupir dót og föt handa þeim. Vinur þinn fór til Orlando. Þú ætlar til Kenýa sem var í þætti.

Amma dó, það er asnalegt. Hún var glöð og svo bara púff. Bróðir mömmu gaf þér sjóræningjalegó. Amma var mjög köld. Þú kýldir rúmið. Þú fórst í húsdýragarðinn og fékkst pulsu sem var því miður með tómatsósu en þú gast þurrkað hana af með erminni. Stóra svínið var þreytt og svaf í drullu. Asnalegt. Á leiðinni heim fannstu spýtu sem er eins og gíraffi.

Mamma er enn að lesa blaðið. Hún flettir fram og aftur. Hundrað sinnum. Þúsund. Þér leiðist. Þú kíkir á símann hjá manninum við hliðina á þér og sérð mynd af flugvél. 

Hurðin opnast og mamma rís á fætur. Hún réttir þér höndina og þú hvíslar að henni: Mamma, plís. Ekki gráta.

Það er asnalegt. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni